Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.3.07

Enginn OssomTossom, engin þjáning

Þessarar myndar er beðið með eftirvæntingu af mér. Bókin er æði, að minnsta kosti þessi venjulega (ég hef að vísu ekki lesið myndskreyttu útgáfuna en hún er varla síðri). Mikið óskaplega hlakka ég til. Það á eftir að fara sem svo, að ég fari oftar en þrisvar í bíó á þessu ári (sá nefnilega 300 aftur).

Moskulínan er hins vegar ekki æðisleg bók. Auðvitað er sagnfræðin áhugaverð og margt fróðlegt í henni, og auðvitað er gaman að lesa um íslenska wannabe Machiavellista - hlýtur að hafa verið erfitt að glíma við Rússa og Þjóðverja og aðra meginlandsbúa - en það var bara eitthvað við þessa bók sem kemur í veg fyrir að hún verði á topp-tíu listanum mínum. Kannske er það bara stíllinn, hvernig hún er skrifuð, sem truflar. Hún virkaði svolítið samhengislaus á stundum. Stokkið úr einu í annað, ætt fram og aftur í tíma og svo framvegis. Ég mæli með bókinni, en ekki vegna þess hve gaman er að lesa hana heldur vegna þess hve gaman það er að fræðast um umfjöllunarefnið.

Eitt hefur annars truflað mig svolítið í 300. Þar eru efórarnir (eða Ephors) sagðir vera þjónar „gömlu guðanna“. En hverjir eru þá nýju guðirnir sem hinir Spartverjarnir trúa á? Því meira sem ég hugsa um þessa mynd, því frekar hallast ég að því að Íranir hafi kannske dálítið til síns máls.

25.3.07

Betra er autt rúm en OssomTossom skipað

Er þetta ekki alveg týpískt? Ekki fyrr en í dag - síðasta daginn minn hérna hjá Bókhlöðunni - fatta ég að ég get tekið með geisladiska í vinnuna og hlustað á þá í lélega geislaspilaranum hérna. Betra er seint en aldrei, ha?

Ég kláraði fyrstu bókina í þessu lesfríi mínu í gær eftir að hafa lagt mig að loknum vinnudegi. Persian Fire eftir Tom Holland - all-dramatísk frásögn af uppgangi Persa, valdatöku Daríusar og svo framvegis. Skemmtileg og þægileg lesning. Næst á dagskrá: Moskvulínan eftir Arnór Hannibalsson. Ætti að verða ágæt tilbreyting að lesa eitthvað annað en þekkingarfræðibækur eftir Arnór gamla.

Jæja, best að fara að opna kaffiteríuna.

24.3.07

OssomTomphalos (var kannske búið að nota þetta áður?)

Hey - ekki aðeins er ár síðan ég byrjaði á þessu bloggi, heldur á hún Hildur afmæli í dag! Ég vona að pakkinn hafi komist í tæka tíð - annars fær hún bara óvæntan glaðning eftir helgi.

Þetta tölvuleysi er bæði og óþægilegt. Ég les auðvitað meira - gærdagurinn fór að miklu leyti í að klára bók sem ég keypti fyrir nokkru, byrjaði á en kláraði ekki. Það er ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar kom margoft fyrir að mig langaði til að fletta einhverju upp á Wikipedia - einhverju sem var bara rétt svo nefnt í bókinni en mig langaði til að lesa aðeins meira um. Já, eða bara eitt og eitt orð eða hugtak sem ég hefði viljað fá betri skýringar á. Svo er víst skráningartími fyrir næsta ár einmitt núna, og mikið hefði verið notalegt að geta farið yfir möguleg námskeið í ró og næði heima hjá mér frekar en hér.

En á móti kemur að eftir helgi verð ég mögulega búinn að lesa meira en ég hef lesið alla síðustu viku - og vonandi, eftir að ég fæ hana aftur í hendurnar, þá fæ ég ekki einhvern leiðinda NMI Parity check error þegar sigur yfir barbörunum er rétt svo innan seilingar og ég hef ekki vistað leikinn síðasta hálftímann eða svo.

23.3.07

OssomTossom vs. HAL

Fyrir svona mánuði síðan - þann fjórtánda febrúar - tók fartölvan mín gamla upp á því að fara í steik. Ég fór því með hana í viðgerð til Tölvulistans, eins og við er að búast, og er þar sagt að þetta komi til með að taka svona viku eða svo. Þeir fá hjá mér símanúmer og segjast munu hafa samband þá. Gott og vel, ég bjóst ekkert við því að fá hana samdægurs eða neitt slíkt, og þótti vika bara vera ágætis viðbragðstími. Ég fer þó þangað að viku liðinni, gott ef ég var ekki barasta á leið minni upp í Ormsson að kaupa nýja tölvu, og spyr í sakleysi mínu hvernig gangi. „Sko, móðurborðið er ónýtt, en við erum búnir að panta nýtt. Hún ætti að vera tilbúin eftir viku eða svo.“ Ókei ókei olræt, ekki liggur mér neitt á. Ekkert í tölvunni sem ég verð nauðsynlega að fá strax - bara nokkur bookmarks og svoleiðis.

Svo virðist hins vegar vera sem minnið í þessari nýju og annars ágætu tölvu er alls ekki upp á sitt besta. Að vísu átti ég bara í basli með það þegar ég var að leggja heiminn undir mig - til dæmis að kremja óþvegna Galla undir sandölum mínum - og því alls ekkert svo hræðilegt. Ég veit auðvitað ekki sjálfur hvort þetta sé minnið eða eitthvað annað, en kallinn í símanum sagði að það væri líklegasta orsökin. Til lengdar verður þetta þó þreytandi, svo að í dag fór ég með hana í viðgerð. Gott og vel, vonandi kemur hún aftur til mín fljótlega eftir helgi því ég þarf að skrifa dulítið fyrir mánaðarmótinn og er ekki nema mátulega hrifinn af því að skrifa svona innan um aðra. Nógu slæmt þykir mér nú að skrifa þetta, hérna útí Árnagarði - en þegar ég skrifa meira, þá vil ég fá að hafa mína tónlist á góðu blasti, kaffibolla eða bjórglas mér við hlið, og eitthvað að narta í innan seilingar.

Þess vegna, kominn heim úr göngutúrnum þegar ég fór með snótina mína í viðgerð, ákveð ég nú að hringja í Tölvulistann. Maðurinn sagði jú við mig nálægt tuttugasta og fyrsta febrúar að hún ætti að vera orðin tilbúin eftir tíu daga. Ég hringi því, og fæ loks samband eftir dúk og disk. „Jájá,“ segir strákurinn í símanum, „það er ekki búið að setja móðurborðið í ennþá, en við erum komnir með það. Hringdu aftur svona á miðvikudaginn eða svo.“

Hvurslags, ha? Helst langar mig til að skella skuldinni á Póstinn - en ég er alls ekki viss um að Tölvulistinn sé laus allrar ábyrgðar. Sérstaklega þykir mér leitt að þeir hafi aldrei haft fyrir því að hringja þegar kemur í ljós að biðtíminn muni verða nokkrum dögum og vikum lengri en þeir höfðu sagt. En þessa daganna er ég semsagt aftur tölvulaus, og því verður eitthvað minna um skrif hér. Vonandi þarf ég þó ekki að bíða í mánuð til viðbótar - það er bara svo og svo oft sem ég get fengið að láni hjá bankanum og bara svo og svo mikið sem ég kæri sig um að fá.

Góða helgi, bæði tvö.

22.3.07

Ossom uppi og Tossom niðri, en ekkert þar á milli

Hér er hægt að nálgast Gunnar Krossmann og Birgi Vantrúarmann spjalla saman á Bylgjunni. Þrátt fyrir að margt sem vellur uppúr Gunna er óttaleg þvæla (en hann er svosem ekki alvitlaus, frekar en að Birgir sé alvitur), en mikið er samt röddin hans þægileg. Það verður ekki af honum tekið, né hitt að hann sé ágætlega máli farinn. Kannske er það einmitt það versta við kallinn - væri nú ekki betra ef hann væri örlítið óskýrmæltari heldur en ég?

Og áfram halda tengingarnar. Hér er býsnastórt brandarasafn. Ég hef nú ekki komist í gegnum þetta allt saman, en margir eru góðir - jafnvel þótt sumir séu bara velþekktar útfærslur af Hafnfirðinga-, kaþólikka- eða ljóskubröndurum::

„Leah had been slipping in and out of a coma for several months.
Yet Tony, her husband, had stayed by her bedside every single day. One day, when Leah came to, she motioned for Tony to come nearer. As he sat by her, she whispered, eyes full of tears,
"You know what? You have been with me all through the bad times...
When I got fired from my secretary’s job, you were there to support me.
When my first hairdressing business failed, you were there.
When I got knocked down by a car, you were by my side.
When we lost our dear Jonathan, you stayed right here.
When my health started failing, you were still by my side...
You know what?"
"What dear?" Tony gently asked, smiling as his heart began to fill with warmth.
"I think you bring me bad luck."“

21.3.07

OssomTossom, heilbrigðisstarfsmaður

Þá er fyrstu vaktinni lokið. Hún var róleg. Hún var meira að segja svo róleg, að ég var sendur heim áður en klukkan varð ellefu. Ég var aðallega í því að standa eða sitja eins og lygilega vel gerð stytta af grískum hálfguð. Og svo auðvitað aðeins að læra inn á kerfið, hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Ég get alls ekki sagt að mér lítist illa á þetta allt saman - jafnvel þótt ég viti vel að þetta er bara lognið á undan golunni. Starfsfólkið er alveg prýðilegt, aðallega konur um fimmtugt. Ég býst nú við að þarna séu einhverjir strákar líka - ég sá einum læknanema bregða fyrir, hann var svona á aldur við mig. Þeir, læknarnir sko, eru samt ekkert voðalega mikið inni á deildinni, skilst mér, a.m.k. ekki á kvöldin. Annars er maður víst aðallega í því að spjalla við sjúklingana, spila við þá eða jafnvel horfa á sjónvarpið með þeim.

Ég held líka að það verði alveg ágætt að prófa einhverja svona nýja vinnu, eitthvað aðeins öðruvísi heldur en það sem ég hef verið að fást við hingað til. Meira svona mannlegt, einhvern veginn. Samskipti manns við ekki-vinnufélaga snúast í það minnsta ekki um það eitt, að útskýra hvers vegna gatan sé lokuð eða búa til fyrir þá tvöfaldan latte. Þar sem stefnan er nú í átt að kennslu, þá held ég að þetta sé talsvert betri undirbúningur fyrir það heldur en það sem ég hef gert hingað til.

Síðan mæti ég næst eftir viku, og skilst að þá verði líklegast orðin talsverð breyting á sjúklingauppröðuninni. Þetta er víst almennt engin langtímalegudeild. Eða eins og ein konan, Steina (sú sem var einu sinni að vinna með pabba á 33c á meðan ég er á 32c), sagði þegar hún sá merkimiða á einni hurð - nafn náunga sem hafði útskrifast í gær eða fyrradag - „Það er svo fljótt að koma nýtt fólk inn að maður hefur varla tíma til að skipta um nöfn á hurðunum.“

Þetta lítur semsagt alltsaman ósköp vel út. Alveg eins og veðrið.

20.3.07

OssomTossom kann að telja

Já, þá er ég loksins búinn með skattskýrsluna. Merkilegt hvað ég hneigist til að gera þetta á síðustu stundu - hef haft nokkrar vikur til þess, eða að minnsta kosti tvær - þegar þetta er jafn auðvelt og það er. Allt fært inn fyrir mig, nema bara hvar íbúðin er og hvenær ún var keypt (og hvers vegna getur það ekki líka verið hluti af því sem skráð er inn fyrir mann? Það er ekki eins og íbúðin hafi allt í einu verið flutt til Hornafjarðar eða að dagatalinu haf verið breytt - og ég þurfti að draga upp blað og blýant til að geta séð almennilega fyrir mér hvenær þetta gerðist). Svo ýtir maður bara á OK-hnappinn og Robbi er frændi þinn. Og þá er bara eftir að bíða fram í ágúst...

Fjórir dagar í heils árs afmæli. Jibbí. Ætli ég verði ekki að halda upp á það einhvern veginn?

Og á morgun fer ég í nýju vinnuna mína og það fer allt vonandi ósköp vel og fær mig til að langa til að mæta aftur. Ólíkt málningarvinnunni hérna um árið ('99), þegar mig langaði ósköp lítið til að mæta eftir fyrsta daginn og hætti á öðrum degi og fór að vinn hjá garðyrkjunni sem var miklu notalegra pleis hvar ég gat fengið útborgað fyrirfram síðustu útborgunina mína. Slíkt var mjög gott og hentugt. Það er síðan talsverður kostur við þessa nýju vinnu að ég get mjög auðveldlega gengið þangað - ég gæti næstum því kastað steini inn um gluggan þar ef ég kærði mig um og kynni að miða almennilega. Kaffið er ókeypis - ég held reyndar að ég hafi aldrei unnið á stað þar sem kaffið kostaði eitthvað. Mikið væri gott að geta haldið þeirri stefnu það sem ég á eftir óunnið.

En mikið er gott að vera búinn með skattframtalið.

19.3.07

OssomTossom lítur vikuna björtum augum.

Ég hef ekki séð svona mikinn snjó siðan fyrr í vetur. Þetta lofar bara góðu, og ég vona að slabbið og bleytan komi ekki alveg strax. Ég myndi frekar vilja hafa stöðugan snjó heldur en slabb og hálku, eða þá að snjórinn hyrfi í hvelli. Það mætti þess vegna koma smá blossi með.

Hvað eru aftur margar vikur eftir af skólanum? Fjórar eða fimm? Þetta eru óttalega stuttar annir hérna - en veturnir eru nú frekar stuttir líka, svo þetta jafnast allt saman út. Svo kemur örstutt sumar, og áður en maður veit af er annar stuttur vetur lagður af stað. Stutt stutt stutt. Stuttar árstíðir fyrir stuttan mann.

18.3.07

l'OssomTossom, onde de sang

Nú hef ég séð þessa ágætu mynd þar sem göfugir menn slátra villimannslegum Írönum (í nafni frelsisins, auðvitað). Fyrirtaksmynd og ekki óhugsandi að ég muni láta mig hafa það að borga mig aftur í bíó fyrir hana áður en ég tek til við að bíða eftir að hún verði fáanleg í viðhafnarDVDútgáfu með sinnepi, hráum lauk og aukasenum. Helst saknaði ég lokaorða Leonídasar til konu sinnar áður en hann fór. Að öðru leyti var þetta ósköp flott mynd, mikið um blóð og vandaðar bardagasenur. Þarna var líka skemmtilega lítið um stórar stjörnur - þeir einu sem ég gat borið kennsl á voru Faramír úr Hringadróttinssögu og Eudorus úr Troy. En kannske fylgdist ég bara ekki nógu vel með, kannske trufluðu allir þessir hálfnöktu vöðvastæltu vargar mig eitthvað lítillega.

Það er fjör í þessu smásagnanámskeiði. Ekki aðeins á maður sjálfur að skrifa sínar eigin sögur, heldur skal líka lesa sögur annarra og gefa sitt álit. Sumar sagnanna eru stórfurðulegar. Með aðeins betri útfærslu gætu nokkrar þeirra jafnvel fengið Stephen King til að gráta, á meðan við venjulegra fólkið köstum upp og verðum nærri því blind. Það er ekkert grín að lesa um kynlíf manns og apakattar - og Tarzan er hvergi nærri!

Ég heyrði nýlega ágæta ástæðu fyrir því að ríki og kirkja skyldu ekki skilja: Á meðan kirkjan er hluti af apparatinu og fær nógan pening, þá er hún líka löt, feit og svifasein með sljóar neglur. Ef hún hins vegar þyrfti að standa á eigin fótum, þá er býsna hætt við að hún yrði talsvert herskáari og í alla staði skelfilegri apparat.

13.3.07

Bráðum verður OssomTossom árs gamall

Fyrsti pósturinn hans er dagsettur 24. mars 2006.

Haha, hvern hefði grunað að ég myndi endast heilt ár í þessu? Ég hlýt að vera jafnvel enn sjálfhverfari en ég hélt - og með miklu meiri frítíma en mér er hollt. Þetta er 151. pósturinn, þannig að ef ég bæti engum fleiri póstum við þangað til 24., þá eru það hvað, tveir póstar á hverju fimm daga tímabili? Eitthvað svoleiðis, og ég þurfti að nota reiknivél tölvunnar til að hjálpa mér áleiðis.

Fuglarnir í Elend lofa nýjum disk bráðlega, þeim síðasta í þessum þríleik. Mikið hefði verið gott ef þeir hefðu aldrei farið að lofa að þetta yrði fimm diska sería, og alltaf staðið við að þetta ættu bara að vera þrír diskar. Ekki að það skipti kannske einhverju úrslitamáli, en frá með Sunwar The Dead, þegar þeir fóru að tala um fimm diska seríu (eða í það minnsta þegar ég frétti af þeirri hugmynd) þá var ég bara orðinn býsna spenntur fyrir þeirri hugmynd. Taka einhvern góðan sunnudag og hlusta á þá alla í röð, hvern á eftir öðrum. Sitja í hægindastól með góð heyrnartól, og ekki standa upp nema endrum og eins til að fara á klósettið eða fá mér vatnssopa.

Jæja, þrír diskar eru þó betri en tveir. Það er í það minnsta kominn útgáfudagur fyrir A World in Their Screams - að vísu eftir einn og hálfan mánuð. Það þýðir þó að all-löng bið er á enda, og ég hlakka til að heyra hvernig þeir klára þetta. Kæri mig ekki um að heyra eitthvað lággæða-preview á MySpace-síðunni þeirra - en þið getið svosem kíkt þangað ef þið hafið áhuga á að kynna ykkur þessa all-sérstæðu hljómsveit. Nú, eða bara fylgt tengingunni hér á vinstri vængnum.

12.3.07

Þeir fiska sem róa - og bátur OssomTossoms er hriplekur

Það virðist semsagt eiga að verða einhvers konar niðurskurður í vinnunni, og það besta sem mér býðst er að taka aðra hverja laugardagsvakt - kannske allar, ef lánið leikur við mig. Það er alveg á mörkunum að ég kæri mig um slíka meðferð. Þetta er svo lítið að það tekur því varla að mæta. Svona lítil vinna, svona lítill peningur - æ, ég veit ekki. Kannske ég ætti bara að athuga hvort ég geti tekið eina og eina vakt núna strax uppi á geðdeild - þótt ekki væri til annars en að hita upp fyrir sumarið.

Og á meðan þetta gengur yfir, þá hef ég alltaf Neurosis til að hjúfra mig upp að. Það er kannske ekki ólíkt því að kúra með broddgelti. Samt - skárra en ekkert. Ég var einmitt að fá disk frá þeim, The Eye of Every Storm. Ég væri alveg til í að eiga myndbönd héðan til að sýna ykkur, en ég fann engin af þessum disk, og það passar heldur ekkert að vera að sýna gömul myndbönd. Þau eru heldur ekkert merkileg, þykir mér - þótt tónlistin sé það vitaskuld.

Þetta er akkúrat tónlistin sem er kjörið að hlusta á ef maður er t.d. að skrifa eitthvað dálítið ofbeldisfyllt og bölsýnt. Það er einmitt það sem ég er að reyna núna - ekki á blogginu, auðvitað, sem er alltaf svo skínandi bjartsýnt að ég hef mestar áhyggjur af að bræða sjónhimnu ykkar lesenda - en ég er að reyna það í þessu smásögunámskeiði. Síðasta saga var svo óttalega happy-go-lucky, og mér finnst engin ástæða til að skrifa tvær svoleiðis. Ekki í svona stuttu námskeiði. Ef ég gæti myndi ég hengja söguna við hérna - og fólk gæti þá bara lesið hana ef það kærir sig um, án þess að ég hafi hugmynd um það.

Því miður get ég ekki gert neitt svoleiðis, eða ég kann það a.m.k. ekki, þannig að í staðinn verðið þið bara að biðja fallega ...

11.3.07

OssomThanatossom

Gamli Ford T komst 13 til 21 mílu á galloni (21-33 kílómetra á 3,7 lítra, u.þ.b.). Í ár drífa bílar aðeins lengur - Toyota Prius kemst 51-60 mílur á gallonið. Samkvæmt þeirri síðu sem ég var að vísa á, þá eru samt ófáir nútímabílar sem nýta eldsneytið ekkert betur.

Magnað, ha? Næstum því hundrað ár síðan T var búinn til, og sumir eiga ennþá erfitt með að láta eldsneytið duga jafn lengi. Jújú, krakkarnir komast svosem hraðar yfir heldur en gamli kallinn - en hvað liggur svosem á? Hversu oft þarf maður virkilega að fara hraðar en 60-70 kílómetra (hámarkshraði Mr. T) á klukkustund? Segi fyrir mig - helsti kosturinn við bíl er að maður kemst langar vegalengdir án þess að fá blöðrur á fæturna. Barnafólk græðir svo auðvitað á því að geta flutt meiri þyngd (ýmist börn eða mat) án þess að bösta í sér bakið.

Bú á bíla sem geta ekki nýtt eldsneyti betur en fyrir níutíuogníu árum síðan ...

10.3.07

OssomTossom vann ekkert á árshátíðinni í þetta sinn - ekki einu sinni trefil.

Hann svaf líka yfir sig og missti af svo mörgum fyrirlestrum að hann ákvað að sleppa því að mæta á þennan eina sem hann hefði getað náð - jafnvel þótt Ólafur Teitur hafi verið fyrirlesarinn.

Svona er þetta. Maður planar og heflar og pússar og skipuleggur, og fattar allt of seint að auðvitað átti maður að byrja á að skipuleggja, áður en maður gerir allt hitt. En það dugir varla að gráta þetta - kannske var þetta allt tekið upp og verður aðgengilegt síðar meir á netinu? Mér finnst næstum sem að það væri sjálfsagður hlutur (jafnvel þótt bara hljóðrásin yrði aðgengileg, þá yrði það samt óttalega stór skrá nema hún yrði klippt niður svo hver fyrirlestur, auk umræðna í kjölfar hans, yrði en skrá) þegar um svona opna fyrirlestra er að ræða, að þeir verði öllum aðgengilegir. Ekki bara mín vegna, sem komst ekki vegna svefns (og hefði ég vaknað á réttum tíma, þá hefði ég hvort eð er varla mætt sökum þynnku), heldur líka og jafnvel frekar vegna allra þeirra sem búa úti á landi eða utan lands og gæti því ómögulega mætt. Líka vegna þeirra foreldra sem gátu ekki mætt vegna barnanna. Please, think of the children.

Í versta falli - gæti ég óskað þess að lestrarnir komi allir út á bók í einu bindi? (Auðvitað gæti ég það, en yrði hlustað?)

Svo gekk mér bærilega í þessu prófi. Svosem ekkert til að hreykja sér ótæpilega af, en ekkert til að skammast sín fyrir heldur. Hún var skotfljót, konan, að fara yfir það - mun fljótari en að fara yfir heimaverkefnið sem hún fékk fyrir tveim vikum eða svo.

9.3.07

OssomTossom veit að vorið er komið. Hann sá nefnilega flugu flögra úti á svölum.

Próf í gær, ljómandi fjör. Þannig séð. Því miður var þetta í bókmenntafræði, sem ég held að verði að teljast það mest óspennandi fag sem ég hef tekið síðan ég byrjaði í ensku. Ég böðlast þó í gegnum þetta og reyni að gera vel - því annars verð ég að gera þetta allt aftur, og hvern langar til þess? Fjör að svara spurningum um kenningar Freuds um undirmeðvitundina, eða þurfa að útskýra eitthvað froðusnakk í Baudrillard. Mér þótti leitt að engin spurning var um um þá fullyrðingu að maðurinn væri mælikvarði alls - ég var nefnilega nýbúinn að renna yfir stutta umfjöllum um Prótagóras og þóttist því vel í stakk búinn að svara þeirri spurningu. Að vísu var túlkunin á þessari setningu hans aðeins öðruvísi í bókmenntafræði, virðist vera - þar var þetta túlkað sem svo, að „maður“ ætti aðeins við hvíta, kristna Evrópukarla, þannig að kannske hefði ég bara fengið bágt fyrir að svara með því að vísa á einhvern forn-Grískan kallfausk sem átti væntanlega við allt annað með „maður“ heldur en þessa túlkun sem boðið var uppá í powerpoint-showi kennarans. En svona gengur þetta nú fyrir sig. Tókst að vísu að troða Platóni inn í eitt eða tvö svör, aðallega vegna þess að ég hafði ósköp fátt um spurninguna að segja (spurningin var annars á þá leið að maður átti að útskýra kenningar áðurnefnds Baudrillard um fjögur stig táknsins ... ljómandi).

Svo er árshátíð í kvöld. Það verður vonandi fjör þar, glens og grín og góður matur. Svo bara snemma í háttinn svo ég geti vaknað nógu snemma á morgun til að ákveða hvort ég mæti á alla fyrirlestraröð Res Extensa á morgun, eða láti mér nægja að mæta eftir hádegi. Fúlt að vakna klukkan tólf og fatta fyrst þá að mig langaði að hlusta á Margréti Björk.

Jæja, ég held ég verði bara að fara í sturtu og svo framvegis áður en ég fer að borða. Góða helgi.

5.3.07

OssomTossom er létt

Í þættinum hans Jóns Ólafssonar á Rúv kom laugardaginn síðasta maður til hans með fiðlu. Hann spilaði ósköp fallega á hana, svosem, en öllu verra var þegar hann missti hana. Hún brotnaði í spón.

Það væri svosem ekkert svo merkilegt - maður missir stundum eitthvað brothætt, eða þá að maður missir eitthvað þungt á eitthvað brothætt - en þetta var kynnt sem sérlega merkileg fiðla. Stradivarius, hvorki meira né minna. Hvort að verðið hafi ekki verið gefið upp - eitthvað um 200 milljónir, ef ég man rétt. Manni brá því dálítið þegar hann missti hana í gólfið, og gat varla annað en glott þegar Jón spyr hvort það sé ekki bara hægt að líma hana saman aftur. Aðrir hefðu spurt „Hva, er ekki bara hægt að teip'etta?“ en Jón er greinilega jarðbundnari maður en svo, og hefur þá væntanlega haft í huga að grípa bara Uhu-límtúpuna og redda þessu í hvelli.

Svo kemur „Afsakið hlé“. Skiljanlega. Þátturinn heldur áfram og klárast - og maður fær engar frekari upplýsingar um hvað gerðist. Verra er að það voru engar fréttir um þetta annars staðar - maður hefði haldið að svonalagað kæmist nú í Moggann, a.m.k. netútgáfuna. En það var ekkert um þetta neins staðar.

Fyrst í dag frétti ég svo að þulan hafi sagt, að þætti loknum, að þetta væri bara grín, kallinn hafi ekkert verið með margmilljónkróna fiðlu í sjónvarpsþætti - merkilegt nokk. Ég tek fram að sjálfur sá ég þetta ekki gerat fyrr en í gær, á netinu, eftir að hafa heyrt að eitthvað stórmerkilegt hafi gerst í þættinum hans Jóns.

Ég játa að þetta var bara býsna gott grín hjá þeim félögum, og gott að þeir biðu ekki til fyrsta apríl - þá hefði verið allt of auðvelt að afskrifa þetta sem létt glens. Eins og þetta var þarna, þá var þetta alveg trúverðugt, svona ef maður gleypir (eins og ég gerði) að menn komi með dýrar fiðlur í ódýra sjónvarpsþætti.

OssomTossom hefur gaman af misheyrnum.

Einu sinni, þegar hann var að vinna í Noregi, sagði stelpa nokkur „Ég fór í fjallgöngu í dag“ - en honum heyrðist hún segja „Ég var karlmaður í dag“. Æ, hvað þá var hlegið dátt ...

Þetta myndband er á svipuðum slóðum.

3.3.07

Tónlistargelgjan OssomTossom

IF YOUR LIFE WAS A MOVIE, WHAT WOULD THE SOUNDTRACK BE?

So, here's how it works:
1. Open your library (iTunes, Winamp, Media Player, iPod, etc)
2. Put it on shuffle3. Press play4. For every question, type the song that's playing
5. When you go to a new question, press the next button
6. Don't lie and try to pretend you're cool...
(7. But what if I was cool? Director's Choice, not the manatee's)

Opening Credits: When The Walls Go Down (Evergrey; The Inner Circle). Upplífgandi byrjun frá Gautaborgabúunum. Karlmaður um fimmtugt flytur ekkafyllta reiðiræðu um trúarmissi.

Waking up: Floater (Bob Dylan; Love & Theft). Get svosem ekki sagt mikið um þetta, hef aldrei hlustað á það áður. Lagið er þó hressilegt, og í texta má finna setningar eins og „I'm in love with my second cousin“. Smá húmor og sniðuglegheit.

First Day At School: Nectar (Opeth; Morningrise). Tíu mínútna lag um ... ehe ... það er nú það. Texta má finna hér, ef einhver hefur áhuga.

Director's Cut: Jeeves and Wooster (Anne Dudley). Þemalag þáttanna þar sem Stephen Fry og Hugh Laurie fóru á kostum.

Falling In Love: The Shocking Truth (Evergrey; Solitude Dominance Tragedy). Byrjar á manni að segja okkur að til séu sönnunargögn um geimverur, og inn á milli eru frásagnir fólks af afskiptum geimvera af þeim. Textinn, sem er hér, gæti kannske skýrt málin aðeins betur.

Director's Cut: Voila l'été (Les Negresses Vertes; Mlah). Vegna þess að það passar svo ósköp vel.

Fight Song: Quest For Fire (Iron Maiden; Piece Of Mind). Ekki besta lagið þeirra, er ég hræddur um. Textinn segir allt sem segja þarf, þannig séð sko.

Director's Cut: Panasonic Youth (Dillinger Escape Plan; Miss Machine). Vegna þess að þetta er meira fight-lag heldur en hitt. Hérna er myndbandið.

Breaking Up: One Day (RJD2; Since We Last Spoke). Jaaá, ég fæ reyndar ekki betur heyrt en að þetta sé einmitt um sambandsslit.

Director's Cut: The Luciferian Revolution (Elend; Les Ténèbres du Dehors). Mér finnst þetta eiga betur við. Það er því miður ekki hægt að nálgast þetta á síðu Elend, né textann. Hann má þó finna annars staðar.

Prom: Underground (Tom Waits; Swordfishtrombones). Það er mikið í gangi í undirheiminum, og margt skuggalegt á seyði.

Director's Cut: Ratamahatta (Sepultura; Roots). Rosalegt danslag.

Life: Pain (Prince Paul; A Prince Among Thieves). „Live is pain, princess“ sagði Wesley í The Princess Bride.

Director's Cut: Big News (These Arms Are Snakes; Oxeneer or The Lion Sleeps When Its Antelope Go Home). Textinn segir sig eiginlega sjálfur

Mental Breakdown: Flowers (Antimatter; Saviour). Jebb, rólegt eins og andlegt niðurbrot. „And there you were, taking flowers from my grave“ er einmitt eitthvað sem niðurbrotinn maður myndi segja, ekki satt?

Driving: Back In The Saddle (U.B.Otch) (Stuck Mojo; Rising). Suðurríkst rappmetal, með ekta blökkmann við hljóðnemann og allt saman (a.m.k. á þessum tíma). Dálítil Pantera-stemning (af Far Beyond Driven í laginu. Textinn.

Flashback: Transfixion (Meshuggah; Destroy Erase Improve). Þetta er svo allt annar handleggur. Klassalag - ekkert Pantera-neitt - eins og við er að búast frá þessum Umeåungum.

Getting Back Together: Stones (Úr Ultima IX: Ascencion). Þetta er í mörgum útgáfum, í þessari er flauta í stað söngs. Einhver strengjahljóðfæri, bæði með boga og svo plokkuð (eða hvað sem það nú heitir).

Wedding: Goin' Out West (Tom Waits; Bone Machine). Reyndar ekki svo vitlaust brúðkaupslag, sko.

Director's Cut: Rock And Roll All Night (Kiss; You Wanted The Best, You Got The Best). Ef ég finn frambærilega konu sem myndi taka vel í þá hugmynd að þetta yrði sungið í hópsöng að athöfn lokinni (já eða í kirkjunni ef útí það er farið), þá kem ég sennilega aldrei til með að finna aðra slíka.

Birth Of Child: Flugufrelsarinn (Sigur Rós; Ágætis Byrjun). Jæja, það verður víst bara að hafa það. Svosem ekkert alvitlaus lag.

Director's Cut: The Newborn Sailor (Elend; Winds Devouring Men) er þó betra, þótt ekki sé vegna annars en titilsins. Lagið má nálgast á heimasíðu þeirra, í mismiklum gæðum (betri gæði = stærri skrá?).

Final Battle: Feel (Anathema; Alternative 4). Þrátt fyrir að vera býsna rólegt lag, þá er þetta samt býsna gott fyrir lokabardagann.

Death Scene: I Came To Leave (Cadaverous Condition; The Lesser Travelled Seas). Titillinn hæfir dauðastríðinu vel.

Funeral Song: Ambassador (Evergrey; The Inner Circle). Enn eitt Evergrey-lagið. Ekki beinlínis útfararlegt, en textinn hentar kannske ágætlega: „I am / Light to cast away shadows / The Spirit, Holy Ghost, and even Jesus / God walking earth / Ambassador“. Þannig vil ég a.m.k. láta minnast mín.

End Credits: Crusher Destroyer (Mastodon; Remission). Ágæt leið til að ljúka myndinni; aim gorge and win er fínt mottó.

Director's Cut: Workhorse (Mastodon; Remission). Ég held þó að þetta sé betra til að klára myndina.

2.3.07

Hinn tíðsótti OssomTossom

Lögfræðistofan Opus tók til starfa fyrsta desember síðastliðinn. Þar er boðið upp á margs konar þjónustu, bæði handa einstaklingum og fyrirtækjum - en þetta er allt betur skýrt á síðunni þeirra.

Sko? Þessi síða er ekki bara handa sjálfum mér, heldur líka og jafnvel fyrst og fremst handa lesendum mínum. Núna vitiði hvert þið getið snúið ykkur ef þið ætlið að giftast (já eða skilja), búa til erfðaskrá eða vantar lögmann til annarra starfa. Ekki spillir fyrir að allir starfsmenn stofunnar eru skuldbundnir til að vinna a.m.k. 50 stundir á ári pro bono - og veita þjónustu allan sólarhringinn.

Annars fék ég þúsundustu heimsóknina um daginn, eða fyrir viku síðan. Ég myndi veita verðlaun - en er ekki nóg að vera gestur númer þúsund? Er einhver þörf á frekari titlum?

1.3.07

Söngfuglinn OssomTossom

Hvenær sem ég vakna með lag á heilanum hef ég áhyggjur af einungis einu. Ekki af því að ég muni ekki losna við það eða raula það í allan dag, heldur af því að ég hafi sungið það í svefni. Ég hef litla trú á að grannar mínir yrðu kátir ef þeir hafa vaknað við svefn-mig syngja Take On Me. Í draumnum söng ég það undurvel, en miðað hvernig ég hljóma fyrstu hálftímana sem ég er vakandi, þá er óhugsandi að það hafi hljómað fallega í raunveruleikanum.

Annars fékk ég lítt skemmtilega heimsókn um daginn. Ókunnugur köttur kom upp á svalirnar til mín, og var mjög óhrifinn af því að vera fjarlægður. Þetta var ekki sami klifurkötturinn og hún Mjása mín og virtist ekki ráða við að klifra niður aftur. Ég varð því að taka hann upp og bera út um aðaldyrnar. Mikið var mjálmað og reynt að klóra, þrátt fyrir að ég hafi nú lagt mig í líma við að vera mjúkhentur og blíður. Ég get ekki annað en vonað að hann komi ekki aftur.