Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

30.4.07

100% aðspurðra vilja frekar eitt kíló af OssomTossom heldur en tvö kíló af súkkulaði. Sem betur fer eru til ríflega 70 kg af OT.

Þá er Rage Against The Machine bara komin saman aftur. Ha, ekki amalegt eða hvað?

Já, eða þannig sko. Audioslave er sem betur fer hætt, og nú hafa Zach og Morello og hinir tveir tekið sig saman í andlitinu og eru um þessar mundir að halda nokkra tónleika í Bandaríkjunum. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta viti á gott - ef ekki stúdíóplötu, þá vonandi að minnsta kosti tónleikadisk.

Sjá hér.

24.4.07

OssomTossom og klári kötturinn

Þá er villidýrið á heimilinu búið að læra hvernig hægt sé að svipta mig klósettnæðinu. Það vill nefnilega þannig til að klósetthurðin passar ekki alveg inn í dyrakarminn, svo ég get ekki lokað henni almennilega, hvað þá læst að mér. Hingað til hefur þetta svosem ekki verið neitt vandamál - í svona lítilli íbúð fer ekki framhjá neinum hvort einhver sé á klósettinu eða ekki - og ég hef yfirleitt getað hallað að mér á meðan ég er þarna inni svo kötturinn sé ekki að sniglast í kringum mig og fylla nærbrækurnar mínar af kattahárum.

Nema hvað, þessi hurð er aðeins of lítil, og það er svona fimm sentimetra bil frá þröskuldi og upp að hurð. Nú sat ég þarna inni um daginn og hvað sé ég annað en framloppu koma í gegnum bilið, grípa um hurðina (eins mikið og það er hægt með enga þumla) og svo bara draga. Hurðin sveiflast út og fyrr en varir starir ferfætlingur á mig eins og aðeins kettir geta starað. Ef hún gæti nú talað hefði hún efalaust sagt eitthvað við mig, t.d. „hvað ertu að gera?“ eða „hélstu virkilega að ég myndi ekki læra hvernig þetta apparat virkar?“

Þetta er enginn asni, sko, þrátt fyrir að hafa höfuð sem er ekki miklu stærri en hnefinn minn.

22.4.07

OssomTossom aten't dead

Mér finnst ekki nema sanngjarnt að láta fólk vita að ég sé enn á lífi og í heilu lagi. Ég veit vel að reglulegir lesendur hafa verið orðnir alláhyggjufullir (hah - ég vona það að minnsta kosti) og haldið að ég hafi verið fárveikur, jafnvel smitast í vinnunni og verið lagður inn, en svo er ekki. Ég held að svona sjúkdómar smitist ekki við innöndun, en til vonar og vara er ég alltaf með grímu þegar ég er að vinna. Það er aldrei of varlega farið, sjáiði til.

Ég fékk annars mínar fyrstu skammir í gær. Sjúklingarnir hafa einhvers konar reykingaprógramm - mega bara reykja einu sinni á klukkustund - og þetta er venjulega allt saman skráð á blað. Nema í gærmorgun, þá sá ég þennan pappír hvergi, og hleypti því einum ferlega eirðarlausum inn. Síðan kemur annar starfsmaður að þar sem ég er í þann mund að hleypa inn í reykherbergi, og bendir mér á að hann hafi reykt fyrir tuttugu mínútum eða svo, og heldur svo litla ræðu um hve mikilvægt það sé að fara eftir prógramminu. Það kom nefnilega á daginn að þetta prógramm (venjulegt A4 blað, hvítt) var á borðinu, innan um helling af öðrum hvítum A4-pappírum. Jæja, ég límdi það bara upp á dyrnar (þar sem það á að vera) og þá voru ekki fleiri vandamál þann daginn.

Ég hef annars varið frítíma mínum í að enduruppgötva gamla leikinn Baldur's Gate. Meira en fimm ára gamall, sú sería (sá eldri er frá '98 og sá nýrri frá '00) og hún stendur ennþá fyrir sínu. Mögulega með betri leikjum af þessari sort, jafnast næstum á við Ultima VI og VII-leikina (þeir leikir bera annars að minnsta kosti jafn mikla ábyrgð á enskukunnáttu minni og kennsla í grunnskóla, jafnvel í framhaldskóla líka). Eins og ég hef væntanlega sagt annars staðar - ef að spila Civilization-leikina er eins og að tefla talsvert flækta skák, þá eru leikir eins og Baldur's Gate og Ultima eins og að lesa skemmtilegar sögur. Þetta eru svosem engar heimsbókmenntir eða neitt slíkt, en þetta jafnast að minnsta kosti á við Morgan Kane-bækurnar.

Og þá er víst fátt eftir en að segja Gleðilegt sumar!

9.4.07

Páskaunginn OssomTossom

Ég styð hugmyndir doktors Reinharts heils hugar, en bara ef fæ að vera með í því að skipuleggja hina nýju Reykjavík. Eins og flestir vita er ég einmitt ósköp hrifinn af því að stór svæði í Reykjavík verði rifin og endurreist með meiri og betri heildarsvip í huga. Háskólasvæðið má til dæmis alveg gera betur. Eins myndi ég leggja til stóran og vænan garð hjá Bókhlöðunni með háum og vænum limgerðum til að skýla fólki frá rokinu - fátt er þægilegra en að fara í góðan göngutúr, hafi maður setið tímunum saman yfir bókum og pappírum með blekbletti á fingrumí þungu lofti.

Páskarnir voru góðir. Ég var að vinna á laugardagskvöldið og svo aftur á páskadagsmorgunn. Laugardagskvöldinu drakk ég of mikið kaffi, allt of mikið - en það gerist þegar kaffið er ókeypis - og svaf varla neitt áður en ég mætti í vinnuna aftur. Það var því ekki um annað að ræða en að drekka meira kaffi, bæði í vinnunni og að henni lokinni, því þá var páskamatarboð og það lítur svo fjári illa út ef maður sofnar í miðri máltíð. Mér leist ekkert á að missa andlitið ofan í sósuþakinn matardiskinn. Því drakk ég kaffi eins og mér væri borgað fyrir það (strangt til tekið var mér borgað fyrir það, því langflestir sjúklinganna voru farnir heim yfir páskana og því við lítið að vera, nema þá sjaldan sem maður sat yfir nýjustu innlögninni, sem var einstaklega rólegur gaur, og spjallaði við'ann).

Nú er annars bara eftir að Hildur fái vinnu á geðdeild, og svo Hákon þegar hann hefur aldur til. Þá hafa allir mínir allranánustu ættingjar (og ég) verið þar. Það væri dálítið sniðugt.

En nú er ég búinn að sofa úr mér allan ósóma og óþverra

3.4.07

OssomTossom og hin skelfilegu vandamál

Það hefur væntanlega ekkert verið að minninu í tölvunni, því hún er með sömu stæla og áður. Nú er ég farinn að halda að þetta hafi eitthvað með hitann að gera og hef því svaladyrnar vel opnar þegar ég legg undir mig heiminn. Ég vona að það geri gagn - jafnvel þótt það kosti mig íbúð fulla af geitungum (kannske ég fjárfesti í rotskordýraeitri í brúsa - nóg til að rota en ekki drepa - og haldi þeim úti). Ég skal siða þessa villimenn - Kelta, Germani, Púnverja - hvað sem það kostar.

Nú er önnin bara að verða að verða búin. Eins og er, þá hef ég skrifað tvær sögur (uppá tvöþúsund orð hvor), flutt framsögu um Litlu Hafmeyjuna, tekið eitt próf, skilað einu verkefni í hljóðfræði, þrem „ritgerðum“ (þær voru ekki nema 400 orð hver, vart hægt að kalla þetta ritgerð), og einu heimaverkefni í bókmenntafræði (sem af einhverjum ástæðum fjallaði um kenningu Freuds um undirmeðvitundina). Já, svo hef ég lesið hitt og þetta, og mætt á einn fyrirlestur utan námsefnisins (þegar Scott Soames og Stephen Neale mættu til að tala um merkingu og „implication“). Mér finnst þetta frekar lítið, sko - kannske er það bara ágætt að helsti tímaþjófurinn virki svona illa, því þá get ég kannske snúið mér að því sem skiptir máli. (Helsti tímaþjófurinn er annars auðvitað vinna, en það er lítið við því að gera.)

Á næstu önn fæ ég svo loks að sjá hvernig doktor Regal er sem kennari, en ég svekki mig hins vegar á því, að það námskeið sem mig langaði hvað mest í (á haustönn) er bara fyrir framhaldsnema: Gamanleikir, allt frá forn-Grikkjum og til Black Books. Kannske hefði ég getað talað við einhvern í skorinni, en ég býst ekki við að það séu neinar undantekningar í boði.