Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

21.6.08

Hjá mér er allt ókeypis

Núnú. Hvern hefði grunað að ég ætti eftir að fara á landsleik í fótbolta? Það er nokkuð sem ég hef aldrei gert áður - nema minnið sé farið að gefa sig fyrr en ég bjóst við. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég hef farið á Laugardalsvöll síðan ég var krakki. Þá fór ég með Oddgeiri að horfa á Fram. Ég man ekki einu sinni hvernig sá leikur fór.

Ég stend þarna, aðeins fyrir utan röðina, á meðan pabbi stendur í sjálfri röðinni. Framhjá mér gengur maður. Hann missir miðann sinn, svo ég beygi mig niður og tek hann upp. Þegar ég rétti honum hins vegar miðann, hvað segir kallinn?

„Vantar þig miða? Þú mátt eiga þennan.“

Ég þakka auðvitað fyrir mig - ekki vildi hann fá neitt borgað - og læt pabba vita. Þetta er bara eins og ef einhver hefði misst þúsundkall, og svo sagt mér að ég mætti bara eiga hann. Þetta var afskaplega ánægjulegt, og ágæt byrjun á fínum leik. Ég skemmti mér í það minnsta konunglega. Bjóst nú við að fleiri myndu mæta - laugardagur, allir í fótboltastuði, og miðinn á ekki nema þúsundkall. Eða ókeypis.

20.6.08

Einhvern tíma skal ég setja tögg á alla póstana

Ekki í dag, samt. En sennilega áður en ég drepst. Nema auðvitað ég nenni því ekki.

Og hvers vegna ætti ég svosem að nenna því? Rúmenar dottnir út, Portúgal datt útí gær. Bæði liðin mín felld af germönskum villiþjóðum. Sem betur fer eru nokkrar siðaðar þjóðir - Króatar og Tyrkir, Spánverjar og Ítalir, og Rússar - ennþá í keppni.

Annars get ég bara næstum því hugsað mér að fara á völlinn á morgun. Ég býst ekki við að ég muni nenna því þegar upp er staðið, en það er hægt að gera margt vitlausara fyrir þúsundkall. Sérstaklega ef þessi þúsundkall hleypir mér á leik þar sem ég get séð lið sem ég held með vinna. Það væri skemmtileg tilbreyting.

Svo má líka nota þúsundkallinn til að fara og sjá Kaspían aftur. Ég fór á hana á miðvikudaginn - sjálfan frumsýningardaginn - og varð ekki fyrir neinum vonbrigðum. Auðvitað var senum breytt, og frásögninni endurraðað, en það gerist nú næstum alltaf. Og auðvitað er þetta ekkert nema kristinn áróður, en það verður bara að hafa það.

Það var bara tvennt sem flæktist fyrir mér. Í fyrsta lagi á Susan, næst-elsta stelpan, að vera svona þrettán-fjórtán ára. Fimmtán ára í mesta lagi. Leikkonan er hins vegar nærri tvítug, og lítur eiginlega ekkert út fyrir að vera fimmtán. Í öðru lagi - kannske aðeins of mikið ofbeldi? Ég man ekki til þess að Lewis hafi verið svona grafískur í sínum bardagalýsingum, og talsvert af átökunum fór fram utan sviðsins (í bókunum, það er að segja). En það er ekki eins spennandi sýningarefni.

Og nú er bara að bíða í tvö ár. Þá verður loksins uppáhalds bókin kvikmynduð - Sigling Dagfara. Óttalega þarf langt að líða á milli mynda.

17.6.08

It's all in the gripbitch

Ég kíkti í bíó í gær. Ekki á Kaspían konungsson því það er ekki farið að sýna hana ennþá, heldur á Indy. Ég get ekki annað en viðurkennt að ég hefði betur sparað þann þúsundkall. Ekki svo að skilja að hún hafi verið sérstaklega slæm, en hún var bara ekkert svo áhugaverð. Hún lendir því í sömu deild og Indy nr. 2, en nær hvorugri oddatölumyndinni.

Það var næstum því jafn gaman að hlusta á gömlu konurnar tvær í röðinni fyrir framan mig. Þær voru örugglega áttatíu ára gamlar, ef ekki eldri. Á meðan að auglýsingarnar rúlluðu - ég meina slideshow-auglýsingarnar, ekki hinar - mösuðu þær stanslaust. Aðallega útfrá auglýsingunum. Þarna kom auglýsing fyrir Hancock, og mynd af Will Smith fyllti skjáinn.

„Ekki er hann nú sérlega handsome, þessi,“ sagði önnur. Hin flissaði smá og samsinnti henni. Þegar auglýsingin frá Laugum kom, fóru þær að sjálfsögðu að ræða hana.

„Hefur þú farið í Laugar?“ spurði önnur.

„Nei, ég hef nú ekki nennt því,“ svaraði hin.

„Stelpurnar mínar gáfu mér kort þar í jólagjöf. Ég hef nú ekki ennþá nennt að fara.“

Það var, eins og ég sagði, alls ekkert að myndinni, svosem. En það hefði verið allt í lagi að bíða þangað til hún mætir í Krambúðina. Hins vegar kemur ekki til greina að bíða eftir næstu Narníu-mynd. Ég held að það sé næstum því gefið að ég muni sjá hana í vikunni.

Aðra mynd sá ég í gær. Á ensku heitir hún Pan's Labyrinth, en ég get ómögulega munað hvað hún heitir á spænsku. Þó minnir mig að þar hafi verið talað um fán, ekki Pan. Það er samt aukaatriði, því ég held ég geti alveg sagt að hún sé með betri myndum sem ég hef séð - a.m.k. af þeim myndum sem ég hef séð í fyrsta skipti á þessu ári. Í henni, ólíkt t.d. Indy, eru óvinir sem eru greinilega vondir. Cate Blanchett og hennar lið, þrátt fyrir að vera óvinir hetjunnar, voru bara ekkert sérstaklega vond. Ekkert sérstaklega, og aðalillsku þeirra var að mestu haldið utan myndar. Það er varla hægt að segja að þau fái makleg málagjöld.

Þessi Völundarhússmynd greip mig í það minnsta talsvert betur og fastar heldur en Indy. Mér var eiginlega alveg sama um allt fólkið í Indy, hvort það myndi lifa af eða ekki. Hins vegar vonaði ég, nær alveg frá byrjun, að hrottarnir í Völundarhúsinu yrðu drepnir, allir sem einn. Helst oftar en einu sinni. Og auðvitað líka að hetjurnar myndu lifa af.

9.6.08

Akureyri er ágætis bær

Við lögðum af stað svona uppúr fjögur á föstudaginn, ég og pabbi. Stoppuðum á Blönduósi og átum á Pottinum og pönnunni. Ég held að ég megi alveg mæla með því að fólk stoppi þar ef það á leið hjá. Í það minnsta var hamborgarinn sem ég fékk mér afskaplega ljúffengur - og stór. Stærð skiptir talsverðu máli þegar hamborgarar eru annars vegar.

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við að fara til Akureyrar er útsýnið. Hellingur af fjöllum og dölum og flatlendi til að horfa á og dást að. Ef ég verð heppinn, þá mun ég aldrei nokkru sinni þurfa að keyra þangað - verð alltaf bara farþegi. Miklu skemmtilegra. Að vísu þarf maður svosem að hafa auga með veginum og baksýnisspeglinum líka - alltaf að passa sig á sjálfala löggum og rollum utan girðinga.

Við komum svona um tíu, eða a.m.k. milli níu og tíu, til Þorsteins. Byrjuðum að sjálfsögðu á því að fá okkur bjór og blása upp vindsængur. Ég held að það sé alveg á hreinu að ef ég fer þangað aftur, þá tek ég með eitthvað annað en vindsæng til að sofa á. Til dæmis steingólf.

Ég gekk aðeins um bæinn á laugardaginn, bara til að skoða og sjá húsin og landið. Síðast sá ég þetta allt um vetur, en það er ekkert verra að skoða þetta á sumrin líka. Kannske ekki betra - það var fullheitt fyrir minn smekk - en ekkert verra.

Ég get alveg hugsað mér að setjast þarna að. Klára skólagöngu, fá vinnu þarna einhvers staðar, selja íbúðina hér og flytja. Í það minnsta, ég myndi ekki andmæla mjög kröftuglega, ætti ég kærustu sem vildi endilega búa þar. Það er ekkert svo dýrt að fljúga eða taka rútu, ef maður þarf nauðsynlega að komast á Grand Rokk.

5.6.08

Fréttir og ferðalög

Á morgun fer ég sennilega í lengsta ferðalag mitt þetta sumarið, alla leið norður til Akureyrar. Heimsækja hann Þorstein frænda. Ég býst ekki við að fara neitt lengra en þetta í sumar.

Undanfarið bárust mér ágætar fréttir. Annars vegar stendur til að bæði gefa út Harrý og Heimi á disk, og svo á líka að setja upp leikrit um þá kappa. Það gæti þá orðið eina leikhúsferðin mín í ár.

Hins vegar ætla Anathema að gefa út tvo diska í ár. Annar verður einhver svona semi-acoustic best-of diskur. Mér lýst vel á þá hugmynd, sérstaklega fyrst að Lee er orðin fullgildur meðlimur í sveitinni. Það gæti komið vel út að taka sum eldri lög og fá hana til að syngja þau. Að vísu kom listi frá þeim nýlega með þeim lögum sem verða á disknum. Mér finnst það nú hálfgerður óþarfi að hafa lög eins og A Natural Disaster þarna, þar sem þetta er nú svo fjarska rólegt lag til að byrja með. Frekar væri ég spenntur fyrir því að heyra lög eins og A Dying Wish - en eins og segir í tilkynningunni: "It may also include a reworking of one or two classic tracks from the very early days of anathema." Ef þeir gera það, þá vona ég að það verði þetta, eða kannske Sleepless. Nú, eða bæði.

Svo er nú ekki minni spenna vegna nýja disksins. Ef hann verður eitthvað í líkingu við nýju lögin þrjú sem er að finna á Myspace-síðunni þeirra, þá veit það bara á gott.

1.6.08

Túttur, ofbeldi og sæmilega skerí sjitt

Í það minnsta finnst mér allt í lagi að nefna það - og taka undir með flestum öðrum - að það sé skrýtið að neita að sýna einhvern hóp af allsberu fólki að leika sér, en sjá ekkert að því að leyfa myndbönd þar sem hljómsveitarmeðlimir berja hvern annan (eins og gerist í myndbandi sem ég hef einhverju sinni linkað á), nú eða svona sæmilega skerí myndbönd eins og nýjasta nýtt frá Meshuggah.

Auðvitað er allt í lagi að sýna þessi tvö síðastnefndu. Áhorfanleg myndbönd og áheyranleg lög. En þetta fyrstnefnda er ekkert síðra (þótt ég vilji annars ekki ganga svo langt að segja að það sé beinlínis skemmtilegra).