Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

28.9.06

OssomTossom drekkir þér í ljósi

Erðetta ekki týpískt? Borgin fær loksins sæmilega skynsama stjórn, sem ákveður að slökkva á ljósastaurum svo fólk geti notið stjarnanna. Ég hugsa mér gott til glóðarinnar, kaupi mér vínflösku, dreg fram stól og set út á svalir ... og það er skýjað.

Aum og vesæl stjórn í þessari borg, að geta ekki valið sér betri dag til myrkvunar. Villi: Þetta er alfarið þér að kenna!

Svosem ekki. Þessir aumu og vesælu grannar eiga nú sinn skerf í skömminni. Þar sem ég sat í stólnum mínum þægilega og beið eftir stjörnusýningunni, þaðan gat ég talið í það minnsta sex ljóskastara sterka og stæðilega. Þeir sáu til þess að þessi litla flís af himninum sem var ekki skýjahulin (frá mínum svölum séð) var þó það vel upplýst að engar stjörnur þorðu að sýna sig. Ég heimta að næst þegar svona verður gert, þá verði það gert með stæl: Rafmagn einfaldlega tekið af borginni í hálftíma og ekkert væl. Verstir eru þó apakettirnir sem eru að skelfa köttinn með einhverjum bannsettum flugeldum.

Eins og það er nú gott veður ... nú væri ég til að mega keyra og eiga eitthvað til að keyra. Þá væri ég sko farinn upp í Heiðmörk. Ef það væri skýlaust þar, það er að segja. Ég tæki með mér teppi og kex og rjómaost, kannske góða skinku. Dökkt súkkulaði ... meiri rjómaost ... og þar frameftir götunum. Horfandi á stjörnur gæti maður auðveldlega bætt á sig kílói af sykurfóðraðri fitu.

Someone you knew is now OssomTossom

Síðan ég keypti mér auka harðan disk hef ég verið duglegur við að hlaða inn á hann tónlist. Nú er ég til dæmis kominn með um þrjá klukkutíma af Sinatra bláeygða, rúmlega tvo tíma af Hauk Morthens, og tæplega fjórar mínútur af Human League.

Í kvöld á að myrkva borgina, svona eins og við gerðum í stríðinu.

Því miður ekki, reyndar. Það á víst bara að slökkva á ljósastaurum og þess háttar, en fólk má samt alveg lofa ljósinu að streyma útum stofugluggana eins og þeim hentar. Ég vona bara að það verði sæmilega heiðskýrt, svo ég geti sest út á svalir með minn hálfpott af viskíi og gónað út í loftið eins og álfur, svona einu sinni.

Eða kannske ég taki bara smá forskot á sæluna, sýnist allt stefna í prýðisgott sólsetur. Skál!

26.9.06

When the going gets tough, the tough get OssomTossom

C: Nú voru unglingaslagsmál um daginn, einhverjar hetjur að slást og þetta var skemmtiatriði hjá krökkunum, filmað og sett á netið.

A: Þetta er eitthvað sem þekkist hjá öllum dýrategundum. Sjáðu veturgamla hrúta stangast, sjáðu hvolpa bítast. Þetta er það sama. Hormónar og valdabarátta sem er ekki annað en metingur. Ef annar þessara stráka lenti í bílslysi og hinn kæmi aðvífandi myndu þeir hjálpast að.


Æ, Siggi, ég er ekki viss. Þekki svosem ekkert til málsins, og kannske voru þetta bara guttar í einhvers konar keppni. Nú, kannske ekki. Fólk er hins vegar mis-duglegt við að hjálpast að og koma öðrum til hjálpar. Það þarf ekki einu sinni að vera bílslys og meiðsli - það var nú bara síðast í sumar, þegar við vorum að keyra í vinnunni (semsagt ég, Kári, Steini og Sindri ... voru einhverjir fleiri?) að einhver bíll bilar niðri í bæ, á gatnamótum Suðurgötu og Vonarstrætis. Fáránleg röð og örtröð sem myndaðist, gott ef einhverjir voru ekki duglegir að flauta, strætó komst ekkert og svo framvegis og framvegis. Ekkert - nema flaut og pirringur - gerðist fyrr en Steini lagði bílnum og við ýttum hinum bilaða frá. Nú, ef menn eru almennt ekki til í að hjálpa öðrum við svona smáræði (að maður tali nú ekki um stórræði - sem þó eru vonandi sjaldgæf), hvers vegna skyldu tveir stráksar sem eru alveg til í að berja hvern annan til í að hjálpa hvor öðrum útúr bílslysi? Gerist þess hátta einhvers staðar nema í bíó? Já, og svo eitthvað svipað í einni heimsstyrjöld...

(Og líkurnar á því að Siggi muni lesa þetta?)

i'm not much of a reader...

well, i'm not much of a dinner buyer!

sagði Henry Rollins.

22.9.06

OssomTossom á hvert heimili

Ahahaha ... var að lesa gamla þræði á hugsjón.com (vegna þess að ég sá að einhver kom hingað þaðan ... gefðu þig fram) og rakst á tengil á þessa líka fínu frétt frá Mogganum:

Stúlka handtekin á landamærum Sviss og Hollands. Kommon - hvar liggur Holland að Sviss? Einhver? Þótt hún hafi verið í hraðlest frá Hollandi til Sviss - og þær eru vafalaust til - þá er varla þar með sagt að þessi ágætu ríki eigi sameiginleg landamæri. Eða hvað? Er lest kannske hluti þess ríkis sem hún fer frá ef hún stoppar hvergi á leiðinni, nema á áfangastað?

bvo stendur þarna líka Tollverðir, sem fóru um borð í hraðlest á leið frá Hollandi og Sviss í lok apríl, fannst leikfangabangsinn, sem stúlkan var með, nokkuð grunsamlegur. Þessa setningu má líka orða svona: Tollverðir fannst leikfangabangsinn, sem stúlkan var með, nokkuð grunsamlegur.

Það sem er þó verst er, að þessi frétt er síðan í maí, og enginn hefur gert neitt til að leiðrétta þetta.

21.9.06

OssomTossom - humanity's scourge

Mig langar til að búa til nýtt íslenskt stafróf. Óskylt rúnaletrinu og óskylt latneska stafrófinu. Þetta draumastafróf mitt byggir á atkvæðum: Atkvæði fyrir ak væri eitt tákn, en fyrir ka væri annað tákn. Þorsteinn yrði þannig táknað með tveim táknum: Eitt fyrir Þor og annað fyrir steinn. Þessi tákn myndu síðan bjóða upp á gríðarlega möguleika til skreytinga og skrautskriftar, ekki ósvipað því sem má finna í t.d. japönsku. Auðvitað eru gallar sem þyrfti að leysa úr (annars væri þetta ekkert skemmtilegt): Hvernig ætti til dæmis að sýna muninn á lág og lágt? Hafa tvö tákn, eitt fyrir hvort orð, eða hafa eitthvað merki (til dæmis ' til að sýna að sérhljóðann í seinna tákninu ætti ekki að bera fram? Þannig væri hægt að skrifa lág + te en með tákni sem sýndi að e-ið skyldi ekki heyrast.

Eins og ég sagði, þá ætti þetta helst alls ekki að byggja á rúnunum. Þar eru línurnar allt of beinar - ég vil bogalínur. Ég kýs ávallt ávalt.

Og svo, eftir tólftíu áratugi, þá yrði þetta nýja skrifmál jafnhátt þessu sem við höfum núna og jafnvel tekið fram yfir það, sérstaklega þegar veita skal viðurkenningar eða skrifa afmælis- og póstkort. Einnig yrði það gífurlega vinsælt á tattústofum í Kína og Japan.

„Nei í alvöru - táknin hálf vi ti þýða djarfur stríðsmaður á íslensku!“ gæti einhver húðlistamaðurinn sagt við kúnnann sinn fáfróða, sem yrði síðan hlegið dátt að þegar hann kæmi til Íslands - ekki ósvipað örlögum margra Vesturlandabúa sem fá sér einhver asísk tákn og fara svo til Asíu ...

17.9.06

OssomTossom - reglulega öðru hvoru

Ég hef veitt því athygli að ég og Þavíð Dór Jónsson notum sama Template. Ég er líka hræddur um að hann hafi verið farinn að nota þetta mynstur langt á undan mér. Ég mun þó áfram halda mínu striki og ekki breyta neinu hér.

Anathema hafa sett nýtt lag á síðuna sína, sjá hér. Alveg ljómandi gott lag, ég er afar hrifinn af þeirri stefnu sem þessi hljómsveit hefur tekið. Kannske er þetta ekki nýstárlegt á þann hátt að engin hljómsveit eða tónlistarmaður í heimi hafi gert þetta áður - en þetta er nýtt hjá þeim. Nýtt innan þeirra ramma. Það er fyrir mestu - ekki endilega að gera eitthvað sem enginn annar hefur gert, en gera eitthvað sem maður sjálfur hefur ekki gert.

Loks óska ég Frikka og Evu hjartanlega til hamingju með væntanlegan son.

11.9.06

OssomTossom - þú átt það alltaf skilið!

Mér er sama hvað hver segir - það er alltaf ágætt að vera búinn að taka til. Jafnvel þótt tiltektin hafi ekki verið neitt svakaleg, bara smá uppröðun bóka og svona, þá er það samt notalegt. Keypti mér nefnilega nýjan skáp í dag, eða þannig.

Gluggakistan hérna í stofunni er nefnilega svolítið stór - næstum brúkleg sem skrifborð, kannske - og fullt af plássi undir henni sem gerði ekkert af viti nema safna ryki. Ég fór því útí Ikea í dag og keypti: Eitt náttborð og tvo kassa. Hér heima átti ég svo fyrir eina spónaplötu.

Kassarnir liggja á hlið, opið snýr fram. Spónaplatan liggur á milli þeirra, og þarna ofan á stendur svo náttborðið. Ef ég nennti myndi ég opna reikning á svona myndageymslusíðu, taka mynd af þessu og sýna, en ég nenni ekki. Svona er samt nýja hillan mín.

4.9.06

OssomTossom - heima er best

Hvílík heimkoma.

Kötturinn virðist hafa lent í slag og var alls ekki ánægð þegar ég reyndi að taka hana upp. Ég er allur útbitinn á höndunum. Á endanum tókst mér þó að koma henni í búr og til dýralæknis. Þar fékk hún fúkkalyfjasprautu - og ég fæ að troða fleiri fúkkalyfjapillum í hana út vikuna. Fleiri bitför eftir það ævintýri ... hún var sko alls ekki sátt við að vera haldið niðri á meðan nál var stungið í hnakkadrambið á henni.

Nú, svo virðist ég hafa gleymt veskinu mínu í leigubílnum á leiðinni heim. Gaman að því - gaman að hringja í banka og loka kortum ...

Nú, netið virkaði ekki þegar ég kom heim - en að vísu var nóg að kveikja og slökkva á módeminu.

Ég er bara mjög feginn að eiga smá viskílögg til að róa taugarnar ... nema af einhverri undarlegri ástæðu er skráð útlandanotkun mín 1 megabæt. Eitthvað er mjög rotið í þessum heimi ... það á að vera notalegt að koma heim til sín, ekki allt löðrandi í alls konar stressi og veseni. Hins vegar byrjar skólinn á morgun, sem er nú bara gott mál.

Já, og ég er kominn með nýja granna. Maður bregður sér út í tvær stuttar vikur (örstuttar og norskar vikur í þokkabót, sem eru sennilega styttri heldur íslenskar vikur) og þessi ágæti maður sem bjó hér við hliðina á mér, þessi ágæti maður með góða tónlistarsmekkinn, hann er farinn og í staðinn er komið fólk sem hlustar á EffEmm 957! Væri gaman að vita hvernig þau muni bregðast við þegar ég fer næst að blasta Meshuggah eða Burzum ...

Og til að toppa allt: Steve Irwin er látinn.

Allt í allt - það er ekkert gaman að vera kominn heim.

1.9.06

OssomTossom - í fríi

Já, ég er ennþá í fríi hérna í Noregi - en til að sýna það og sanna að ég sé hvorki dauður né hættur, og vegna þess hve gríðarlega fyndin þessar myndir eru, þá gat ég ekki á mér setið ... gjössovel:

George W. Bush

James Bond

Luke og Leia 1

Cthulu

Cthulu 2

Njótið vel.