Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

31.5.07

OssomTossom - vakir meðan aðrir sofa

Já. Þá er sumarvinnan komin í fullt swing. Næturvaktir, næturvaktir og næturvaktir, með smávegis kvöldvöktum inni á milli. Kannske einhverjar aukavaktir líka, svona uppá peninginn, sko. Ég tók mína fyrstu næturvakt á laugardaginn síðasta - já, eða aðfaranótt sunnudags, svona eftir því hvernig á það er litið. Fékk þar svona smjörþefinn af þessu öllu saman. Sniðugur strákurinn sem ég var að vinna með þá - hann tók bara fartölvuna sína með í vinnuna, og þegar lítið var að gera (samkvæmt plani) þá var hann bara að spila tölvuleiki eða að horfa á Oz. Það gæti jafnvel farið svo að ég geri eitthvað svipað - en a.m.k. framan af ætla ég nú frekar að lesa eitthvað þeirra mörgu góðu bóka sem þarna er að finna. Þarna á laugardaginn las ég til dæmis litla bók sem gerði grein fyrir hlutverki Íslendingasagna í hugmyndaheimi nasista. Ekkert galin bók. Svo á ég margar bækur, ýmist keyptar vegna skóla eða fundnar uppi á háalofti sem ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa (hvort sem er í fyrsta skipti eða aftur), og kjörið að grípa þetta tækifæri. Já, og ritgerðin maður ... varla vitlaust að velta fyrir sér enskuritgerðinni, svona í leiðinni.

Þessar næturvaktir lofa semsagt góðu. Best af öllu er þó fyrirkomulagið á þessu. Þetta virkar eiginlega þannig að maður vinnur u.þ.b. eina viku á næturvakt, og á svo jafnlangan tíma í frí - og síðan nokkrar kvöldvaktir inni á milli, eins og áður sagði. Við slíkt get ég varla verið ósáttur - jafnvel þótt ég trúi nú reyndar að ég muni halda mínum svefnvenjum (fara upp í rúm svona um tíuleytið og vakna svo um sautjánleytið) á þessum frívikum. Mér finnst engin ástæða til að vera að vesenast of mikið með svefnrútínuna mína. Nema auðvitað ef ég verð alveg gaga á því að sofa alltaf á daginn og vaka á nóttunni. Það kannske mun ekki gerast á meðan það er svona bjart úti á næturnar, en þegar komið er fram í ágúst eru næturnar aftur orðnar svartar og þá gæti þetta farið að verða til vandræða - að ég tali nú ekki um ef ég verð eitthvað að kíkja þarna inn í vetur.

Í skyldum fréttum má nefna að ég held að það sé alls ekkert vitlaust hjá mér að prófa að æfa hjá t.d. Mjölni eða einhverju álíka. Mjölnir er næst mér af þeim félögum sem bjóða upp á svona æfingar. Þótt ég hafi sjálfur ekki enn lent í því að þurfa að grípa æstan mann og halda honum (ég hef haldið fótum eftir að maðurinn var tekinn niður, en það er önnur saga og í rauninni hvorki skemmtileg né spennandi), þá er aldrei að vita nema maður þurfi að geta gripið til þess. Þetta örnámskeið sem ég var sendur á á þriðjudaginn - sem var svosem ágætisnámskeið - var alls ekki nóg. Þær litlu verklegu æfingar sem við fórum í byggðust allar á því að „sjúklingurinn“ veitti enga mótspyrnu.

Neinei, ég segi bara svona. Ég hafði raunar hugsað mér að fara að æfa með þeim strax síðasta haust, löngu áður en ég hafði ákveðið að fara að vinna þarna í sumar - nema hvað, stundaskráin mín, hvort sem er fyrir skóla eða vinnu, hún bara bauð ekki upp á það. Annað hvort sat ég í loflausri stofu eða var að selja kaffi og meððí þegar þeir tímar sem ég hafði áhuga á voru á æfingaplaninu. Nú er það allt saman breytt til hins betra og kjörið í grípa tækifærið á meðan það býðst. Danni segir a.m.k. alltaf þegar ég hitti hann að þetta sé alveg stórskemmtilegt og að ég bara verði að mæta og prófa a.m.k. einn tíma, og ekki ætla ég að fara að rífast við hann um það. Nú, of ef þetta er svo bara drepleiðinlegt og eintóm steratröll og dyraverðir á þessum æfingum, þá bara sleppi ég þessu.

Nú, yfir í aðra sálma. Fyrir kosningar tjáði ég þá ósk mína að Geir H. Haarde héti Hinrik að miðnafni ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mynduðu stjórn. Nú gerðist það, en Geir heitir því miður ekki Hein... Hinrik. Hann heitir hinsvegar Him .. Hilmir. Það er nú dulítið skemmtilegt að forsætisráðherra SS-stjórnarinnar skuli hafa miðnafn sem er alls ekkert ólíkt eftirnafni yfirmanns SS-sveitanna. Maður þarf varla nema víxla tveim samhljóðum innan nafnsins, og gera örlitlar breytingar á seinni sérhljóðanum. Eðall. Ég legg til að þessi stjórn verði aldrei kölluð annað en SS, alveg sama hve vel hún mun annars reynast. Einhvern tíma mætti síðan maður að nafni Joseph Steele verða forseti Bandaríkjanna. Yfirvaraskegg væri kostur en ekki skylda.

Já. Þetta er svona það sem hefur helst verið að gerast upp á síðkastið og það sem er líklegast að muni gerast í nálægri og fyrirsjáanlegri framtíð. Ótrúlegt að það sé ekki þegar búið að gera kvikmynd um mig.

22.5.07

Jæja þá, mættur aftur

Prófin eru búin og vinnan er hafin.

Á föstudaginn síðasta fékk ég mér nokkra bjóra, svona eins og gengur og gerist, og var bara fjarska kátur þegar ég fór í rúmið svona á milli fimm og sex á laugardagsmorgni. Það kom mér ferlega á óvart að vera vakinn klukkan tíu.

„Já, Þorstein?“

„Mlah ... já?“

„Hæ, þetta er hérna á 32C. Hérna, þú átt eiginlega að vera á vakt núna.“

„Ó. Ókei, ég er að koma.“

Ég mætti því skífuþunnur í vinnuna og barðist allan daginn við að halda augunum opnum. Sem betur fer á þetta sennilegast ekki eftir að koma fyrir aftur, því ég kíkti yfir vaktaplanið fyrir sumarið - bara kvöld- og næturvaktir handa þeim sem þetta ritar í sumar, takk fyrir. Þá ætti ekki að vera neitt svona vesen framar (ekki að þetta hefði verið eitthvað vesen ef ég hefði nú haft fyrir því að hringja og spyrja hvenær ég ætti að mæta). Jæja, ég vorkenni bara fólkinu sem þurfti að vinna með mér þennan laugardag.

Nú hef ég líka aðeins haft tækifæri til að kynnast fólkinu sem vinnur með mér, sem og sumum sjúklinganna. Það verður nú að segjast eins og er, að það má stundum vart á milli sjá, hvor er hvað ... ég hafði einmitt orð á þessu í gær, og gott ef flestir voru ekki bara nokkuð sammála mér. Starfsmennirnir, það er að segja. Ég er svo alveg viss um að sjúlingarnir hafa sínar eigin hugmyndir um hverjir skuli vera lokaðir inni dögum saman. Veit ekki hvort ég hafi minnst á það áður, en ég get nú alveg játað það, að ef ég hefði verið lokaður inni og ekki komist út í einu sinni tíu mínútur frá miðvikudegi til sunnudags, þá væri ég nú orðinn ansi þreyttur á þessu öllu saman.

Þarna í vinnunni er hins vegar afar (g)læsilegt safn Morgan Kane-bóka. Ég held svei mér þá að norskar bókmenntir hafi bara aldrei náð hærra. Hvílíkur hörkujaxl er þessi Kane, ha? Tælandi sjóðheitar ungfrúr og drepandi vonda kalla þegar pabbi James Bond var ennþá í bleyju. Meira að segja eru þarna vondir kallar sem ákveða að taka Kane af lífi á ofurhægan hátt, þegar allt viti borið fólk hefði einfaldlega skotið þennan durg beint í hausinn, aftur og aftur þangað til að það væri ekkert eftir af höfðinu.

Jæja, þetta var nú aldeilis gaman, ha?

8.5.07

Ossom vinnur skítverk Tossoms

Jájá og jæja, kosningar bara að skella á. Eins og venjulega er ég á litlum fleka í stórsjó og blindbyl, og veit ekki einu sinni hvort ég ætli að taka þátt, hvað þá hvað ég ætti að merkja við ef ég mætti nú á kjörstað (eða á utankjörfundarstað). Fyrri klemmuna hef ég ekki ennþá leyst - ég er viss um að í kringum borgarstjórnarkosningarnar síðustu (hvers vegna ætli sumir skrifi annars kostningar? Væri ekki nær að skrifa a.m.k. með dé-i, eða er þetta einhver tenging við kostur?) hafi ég útskýrt hvers vegna; nefnilega vegna þess að hvað sem maður svosem merkir við í kjörklefanum, þá hefur maður ekkert meira um málið að segja. Manni gæti t.d. verið meinilla við Sjálfstæðisflokkinn og þá kosið Samfylkinguna, en síðan gæti alveg eins farið svo að S-flokkarnir myndi ríkisstjórn. Þá hefðum við SS-stjórn, og yrðum því eiginlega að fá einhvern sem heitir Hinrik til að vera forsætisráðherra ... Geir H. Haarde -> Geir Hinrik Haarde? Hva, má mann dreyma.

Það væri auðvitað hægt að komast hjá þessu ef forsetinn byði fram með ráðherrum sínum, ef það væri alveg ljóst þegar forsetakosningar eru hvaða fólk yrði forsætis-, menntamála-, og svo framvegisráðherra. Ég hefði ekkert á móti slíku fyrirkomulagi, jafnvel þótt það sé aðeins bandarískara en það sem við höfum í dag.

En já, eins og ég sagði, þá hef ég ekki leyst úr þessu ennþá - og ég veit ekki einu sinni hvort þetta sé vandamál sem ég á að leysa. En þar sem ég er jafnvel glórulausari þegar það kemur að því hvað ég ætti að exa við á laugardaginn (eða á morgun), þá tók ég sniðugt lítið próf á netinu. Eitthvað sem einhverjir nemendur á Bifröst hafa búið til: XHvað?. Sniðugt próf, eins og ég sagði, og jafnvel svolítið nákvæmar niðurstöður. Ef ég svara alveg samkvæmt samviskunni, og svara því ansi oft „Engin skoðun“ (því ég get varla haft neina alvöru skoðun á málum sem ég hef ekkert velt fyrir mér af neinni alvöru), þá er þetta niðurstaðan:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 12.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 12.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 14%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 30%

Ég er semsagt enginn sérstakur stuðningsmaður nokkurs flokks, og er eiginlega frekar á móti þeim öllum, en þó minnst á móti Ómari og félögum. Verst þykir mér að Ómar er, skilst mér, í Reykjavík-suður, en ég kýs víst í Reykjavík-norður, og væri því að kjósa Margréti og Ólaf Hannibalsson. Margréti lýst mér ekkert á, og eini Hannibalssonurinn sem ég get hugsað mér að kjósa á þing heitir Arnór. Hvílíkar þrumuræður sem sá herramaður gæti haldið á þingi!

Síðan má svara þessu prófi öðruvísi, nefnilega að velta því ekkert fyrir sér um hað er verið að spyrja og bara shoot from the hip, svara því fyrsta sem kemur upp í hugann. Íslandhreyfingin er þó ennþá efst:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 31.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 24%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

... en hún nær samt ekki upp fyrir 50%, og því er mér óhætt að segja að ég sé frekar á móti þeim heldur en með þeim. Ætti ég því að fara eftir þessu netprófi eingöngu (sem byggir annars örugglega frekar á yfirlýstri stefnu flokkanna heldur en því sem þeir hafa gert og stutt á þingi) og að skila auðu væri ekki í boði, þá myndi ég því kjósa Íslandshreyfinguna.

En ég er svosem ekkert fyrir að taka meira en mátulegt mark á svona netprófum. Þau eru í besta falli ekkert nema skemmtileg dægrastytting - og það má stundum deila um hvort þau séu ekki frekar drepleiðinleg tímasóun. Svo er auðvitað líka hægt að túlka þessa könnun sem svo að ég ætti að skila auðu, svona fyrst ég get ekki stutt einn einasta flokk í meirihluta mála.

Jæja, hvernig sem það fer nú allt saman, þá verður kannske svolítið spennandi að fylgjast með þessum kosningum á laugardaginn. Kannske. Ég býst þó ekki við að skrifa neitt meira hér fyrr en að kosningum loknum, jafnvel ekki fyrr en eftir viku eða svo.