Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

30.4.06

One down, three to go ... just another bullet in the chamber

Jæja - þá er ég búinn með próf i sögu Bandaríkjanna (og Kanada fékk að vera með). Finnst vont að hafa ekki getað svarað öllum spurningunum, en ég bara gat ekki munað í hvaða skýrslu frá ca. 1837 væri hvatt til þess að Kanada fengi eigið þing. O jæja - ritgerðirnar voru þó léttari: Ein um indíána í Bandaríkjunum og hvort ég væri sammála þeirri fullyrðingu að þeir hafi þurft að þola ill örlög; ein um orsakir Borgarastríðsins (en eins og allir vita þá var orsök þessa stríðs sú, að Norðurríkin vildu ekki samþykkja þennan aðskilnað Suðurríkjanna); og svo utanríkisstefna BNA frá 1914.

Þá er bara að massa málfræðina, bókmenntirnar og svo málsöguna. Piece of piss, mate ...

En það er þessi "Diskur vikunnar". Ég skulda einn svoleiðis - en ætla að geyma mér að skrifa hann þangað til á morgun. Ég get þó sagt frá því hér og nú, að þessi diskur er Masterpiece of Bitterness með Sólstöfum. Ansi sérstakur diskur, en meira um það síðar.

Ég ætla núna, hins vegar, að játa upp á mig þá dauðasynd að hafa séð nýjustu Star Wars - og hafði bara dálítið gaman af. Ekki svo að skilja að ég hafi í hyggju að sjá hana nokkru sinni aftur, því hún var voða lítið spennandi og alls ekki grípandi. Ein einasta sena situr eftir: Það er senan þar sem Darth Vader verður til. Darth Vader er svo æðislegur karakter - eins og sagt var frá í Chasing Amy, þá er hann dæmigerður svertingi ... svartur að utan en hvítur að innan...

Talandi um svertingja, þá sá ég áhugaverða heimildamynd breska á NRK (1 eða 2, ég man ekki hvort) um nýnasistaklíkur, sérstaklega í Bretlandi, Þýskalandi og BNA. Það sem ég sá fjallaði aðallega um tónlistina þeirra - kannske var allur þátturinn um það, en þar sem ég kom inn í hann ca. miðjan, þá veit ég ekki alveg hvernig hann var áður en ég kom að. Og það sló bæði mig og pabba, sem ég sá þáttinn með, að þessi tónlist þeirra er basically svertingjatónlist. Væri tónlistin manneskja, þá væru a.m.k. báðir afar hennar svartir, og ef grunur minn um að margir upptökustjóra og forstjóra útgáfufyrirtækjanna, sem gáfu út fyrsta rokkið, hafi verið gyðingar, þá er önnur amman (í það minnsta) gyðingur. Og þar sem pönkið varð vinsælt eftir að ákveðnir tískumógúlar ákváðu að búa til Sex Pistols (æ, ég vona að ég sé ekki að fara of rangt með mál hér!) - þá er hin amman tískuheimurinn.

Semsagt, þessi tónlist sem þessi skinheadfrík hlusta á - það er tónlist þeirra hópa sem þeir segjast hata hvað mest. Ef einhver hefur einhvern tímann efast um að meðal-skinheadnýnasistinn sé fífl, þá ætti tónlistarsmekkur þeirra að taka af allan vafa. Að því ógleymdu að þetta virtist ekki vera rjómi jarðarinnar, þessir menn - bjórvömb og léleg fangelsishúðflúr og allt það; og einn Þjóðverjinn (sem annars talaði sem ekta þýskari úr WW2-mynd ... "ja" var oft troðið inn í þær setningar sem hann ældi annars útúr sér á ensku) gæti verið tvíburabróðir Gareth úr The Office. Jafn veiklu-, veimiltítu- og aumingjalegur.

Ætli Hitler dauðskammist sín ekki fyrir þessa nútíma-fylgismenn sína?

28.4.06

Próflestursflótti

Fyndið hvað sumt fólk hefur lítið þol gagnvart jafnvel smávægilegustu „breytingum á lífsstíl“. OK, ef ég myndi taka upp á því að gerast mormóni, flytja til Utah og giftast þrem fjórtán ára stelpum - þá væri skiljanlegt að sumir af manns nánustu myndu hafa eitthvað við það að athuga (og ég vona að ef ég tæki upp á þessu, þá myndi einhver reyna að telja mig ofan af því eða hringja á Klepp).

En sumir virðast ekki þola eina einustu minniháttar breytingu. Sumum þótti það t.d. alveg ótrúlegt, og raunar bara fáránlegt, þegar ég tók upp á því sumar 2003 að flytja að heiman. „Ætlarðu að fara að leigja? Til hvers í ósköpunum?“ - eins og þessi ákvörðun væri einhver ógn við þeirra búsetufyrirkomulag.

Hvað ef maður skyldi nú gerast grænmetisæta? Sumum gæti auðvitað þótt það óþægilegt - sérstaklega fólki eins og pabba og ömmu, semsagt fólkið sem er hvað duglegast að bjóða manni í mat til sín. Það gæti reynst þeim snúið að bregðast við þessari „sérvizku“ og einhverjar sneiðar frá þeim væri hægt að umbera. En síðan er allt hitt fólkið sem myndi taka upp á að segja eitthvað - einhver aulaleg komment eins og „hvernig ætlarðu að lifa á þessu kanínufæði?“ Eins og þeirra kjötáti myndi stafa einhver ógn af mínu mataræði?

Gæti hugsast að sú vörn sem sumir hrökkva alltaf í þegar minnst er á grænmetisát stafi af því að þeim sjálfum þykir eitthvað bogið við kjötátið?

Hvarflaði að mér, á meðan ég var að fikta í símasnúrum, að þetta er kannske eins og með hóp alkohólista sem búa saman. Einhver í alkahópnum ákveður að hætta þessu bara og snerta ekki áfengið framar. Auðvitað á það eftir að koma við hina alkana. Þeir fara í vörn þegar þeir eru allir í stofu að djúsa - allir nema þessi eini sem drekkur bara vatn. Það er ekki bara ríkt í mönnum að vilja falla í hópinn (eins og rannsóknir hafa bent til að þeir hafi tilhneigingu til að vilja) - mig grunar að við gerum líka þá kröfu til annarra að þeir falli í hópinn.

En að öðru:

Fjórtan atriði

25.4.06

Jííí-ha!

Loksins - eftir að hafa reynt með hléum í ríflega áratug - hef ég klárað Ultima VII. Fyrsta hluta af tveim, reyndar - en þá getur ekki verið mikið eftir af seinni hlutanum. Auðvitað gerist þetta þegar maður á í raun að vera að læra undir próf ... bleh. Hey - ef einhver minna fjölmörgu dyggu lesenda skyldi vita af Ultima Underworld-leikjunum á geisladisk (eða a.m.k. þann fyrri, sá síðari getur beðið þangað til ég klára nr. 1) - endilega látið vita.

Systir mín var að kaupa íbúð - allir að óska henni til hamingju! Einn, tveir og ...

Merkilega lítill prófkvíði hjá manni þessa dagana. Ég ætti auðvitað að vera að kynna mér sögu Bandaríkjanna (og Kanada) - en ég nenni því ekki. Fyrst ég nenni því ekki, þá ætti ég kannske að athuga enska málfræði, eða málsögu - eða jafnvel bókmenntirnar. Ég nenni því ekki heldur. Ég nenni bara að fara í göngutúra, hlusta á tónlist, lesa eitthvað sem kemur náminu alls ekkert við - og spila leiki. Að lesa þegar maður hefur engan áhuga - það hefur aldrei virkað hjá mér, þá sekkur ekkert inn.

Hef verið að lesa bækur sem ég hefði, svona eftir á að hyggja, átt að lesa fyrir fjöldamörgum árum. Hvers vegna átti maður ekki frænda af þeirri sort, sem hefði gefið manni t.d. þessa bók í fermingargjöf? Bók frá '87 (semsagt - frá því áður en ég fermdist), og einmitt bókin sem ég hefði haft gott og gaman af að lesa þá - ég held að ég hefði lesið hana upp til agna þá. Í dag er þetta hins vegar ágæt bók til að hafa á klósettinu eða náttborðinu: Eitthvað til að lesa meðan maður athafnar sig, eða áður en maður fer að sofa. Jæja, kannske maður geti gefið einhverjum litlum frænda eða frænku eintak í fermingargjöf þegar að því kemur - hvenær sem það verður nú svosem.

23.4.06

Gott veður eða slæmt ...

... bara spurning um viðhorf.

Einhvern tímann sagðist ég ætla að segja frá The Great Cold Distance, nýjasta disk Katatonia. Nú er ég búinn að fá hann, og er meira að segja að hlusta á hann meðan ég skrifa, en það verður þó að bíða örlítið lengur. Ég er eiginlega ekki búinn að melta hann alveg nógu vel - veit ekki hvað skuli segja um hann. Svo ég ætla að endurtaka það sem ég hef áður skrifað annars staðar um ...

Draconian Times frá Paradise Lost sem kom út svona í kringum 1994. Man eftir umfjöllun um diskinn í breska Metal Hammer-blaðinu (semsagt, ekki því þýska), þar sem hann fékk furðu góða einkunn miðað við að bæði blaðið og hljómsveitin voru bresk (í þessu blaði tíðkaðist almennt ekki að tala vel um breskar hljómsveitir - Bush fékk til dæmis reglulega ömurlega umfjöllun, ef ég man rétt - ekki að þeir Nirvana-wannabes hafi ekki verðskuldað allt illt umtal). Lokaorðin voru t.d. "These are indeed Draconian Times".

Ég keypti diskinn þó ekki fyrr en nokkrum árum síðar, eða í kringum '98 (kannske '97 eða '99 - tæplega '99, samt, því þá kom Judgement með Anathema inn í líf mitt og breytti mörgu hvað viðkom þeirri tónlist sem ég hlustaði á, og gott ef Host með Paradise Lost og 34,788% ... Complete með My Dying Bride hafi ekki komið sama ár - þrír fyrirtaks diskar á einu ári er alls ekki slæmt!) og þótti alls ekki slæmur.

Þetta er meira rokk heldur en það sem þeir höfðu gert áður og áttu eftir að gera síðar. Eldra efni með þeim var meira doom/death-metal - hæg lög, og lítið um "hreinan" söng; nýrra efni er talsvert meira popp (þannig séð) - og einn diskur (One Second) er sérstaklega mikill Depeche Mode-diskur, sem er auðvitað alls ekki slæmt mál! Í dag flokkast þeir víst sem "goth metal", en ég hef eiginlega ekki hlustað svo mikið á síðustu diskana þeirra. Symbol of Life er svosem góður diskur, og bæklingurinn sem fylgir með er sennilega einn best unni bæklingur sem ég hef séð (fyrir utan Filosofem með Burzum), en hann er með einhverri vörn, svo ég get ekki kóperað hann á tölvuna mína og því ekki sett hann í ipoddinn minn - sem er slæmt.

En já, Draconian Times er sennilega mesti rokkdiskur frá þessum ókátu Yorkshire-gaurum (Halifax, nánar tiltekið). Mig grunar að þetta átti að vera diskurinn sem átti að gera þá heimsfræga. Það gekk að vísu ekki eftir, kannske sem betur fer. Hins vegar hlýtur það að skrifast á markaðssetningu, frekar en nokkuð annað, því þetta er með betri diskum í mínu sífellt stækkandi safni, stútfullur af grípandi laglínum og riffum, prýðisgóðum textum og svo framvegis. Auðvitað er ég hlutdrægur - þetta er einn af þessum diskum sem ótalmargar minningar eru tengdar við.

Já, og gleðilegt sumar.

20.4.06

Trúarpróf

Jæja, ég tók þetta trúarpróf ... sumar spurningarnar eru frekar óheppilegar.

Tökum t.d. spurningu nr. 14 (á bls. 1): "Religion is naive and misinformed." Er verið að tala um skipulögð trúarbrögð, eða það eitt að trúa á "eitthvað yfirnáttúrulegt"? Sömuleiðis með spurningu 9: "The world would be so much better if there were no religion." Ef það er verið að tala um skipulögð trúarbrögð, stofnanatrú, þá er ég sammála - en ef það er verið að tala um trú einstaklings á hvað-sem-er, þá er ég ósammála.

Jæja, ég gekk útfrá því að með "religion" væri átt við skipulögð trúarbrögð, og valdi "frekar sammála".

Spurning 37 er svo furðuleg að ég klóraði mér í kollinum í dágóða stund áður en ég gat svarað henni: "Sex is the woman's right, not the man's."

Ég meina ... HA? Auðvitað eiga karlar líka að fá að ráða einhverju um það, hvenær þeir stunda sitt kynlíf og með hverjum (já, eða hverri, ef þeir hneigjast í þá áttina). Það er jafn mikið þeirra réttur eins og það er réttur konunnar. En einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að þetta sé ekki það sem spurningahöfundur var að fiska eftir - að hann sé að reyna að komast að því hvort maður sé sammála því að karlar hafi alltaf heimtingu á kynlífi, hvað svosem konan segir.

38. "I should be able to do whatever I enjoy, with few, if any, limitations."

Ef ég á bara að svara fyrir mig, þá held ég að ég verði að svara "fullkomlega sammála". Ég hef ekki áhuga á að gera neinum neitt rangt - ég vil helst bara fá að vera í friði og ég skal alveg láta aðra í friði á móti - svo hvers vegna skyldi ég ekki svara þessu játandi?

49. "I am certain that no being higher than humans exists."

Ég sé heiminn ekki í svona þrepaskiptingu, þar sem amömbur eru á botninum og menn eru á toppnum. Menn eru hvorki æðri né óæðri öðrum verum. Ég finn til meiri samúðar með mönnum heldur en t.d. sauðfé, en það þýðir ekki að menn séu æðri eða "higher" heldur en sauðféð.

Allavega ...

You scored as Islam. Your beliefs are most similar to those of Islam. Do more research on Islam and possibly consider taking the shahadah and officially becoming a Muslim, if you aren't already.

Despite the actions of some - who go against the teachings of Islam - Islam is a religion of peace; the word "islam" means "peace through submission to God." "Muslim" means "one who submits to God." Islam is the third of the three Abrahamic faiths, and it shares much with Judaism in Christianity; its differences are the acceptance of Muhammad as the last and final prophet, and the oneness of God - in other words, that Jesus, though he was a revered prophet, was not in fact God, and only one God exists. Apparently the Taliban could not read (though their name means "students"), because the Qur'an states that men and women are equal as believers, and that all believers should be educated and seek knowledge. Modesty in dress and behavior is required in Islam for both men and women to preserve the values of society and move the emphasis from superificial appearance to intelligence, knowledge, and God.

Islam

79%

agnosticism

75%

atheism

63%

Judaism

54%

Buddhism

46%

Paganism

46%

Satanism

38%

Christianity

38%

Hinduism

33%

Which religion is the right one for you? (new version)
created with QuizFarm.com


Ég ætti að vera múslimi! Kemur ekki það mikið á óvart, svosem - en ég bjóst við því að gyðingdómurinn myndi skora hærra en hann gerði.

19.4.06

Tvífarar?

Er ég að steypa, eða er söngvarinn í Katatonia, Jonas Renske, furðulega líkur Grími Gálmóðssyni (úr Lotr-myndunum)? Sjáið sjálf og dæmið:

Myndband fyrir My Twin (í sjálfu sér ekki merkilegt myndband, en lagið er traust eins og annað frá þessum Stokkhólmurum)

og

Grímur.

OK, kannske er það ekkert nema bara að þeir eru báðir fölir og svarthærðir, augabrúnalitlir og ekkert glaðværir á svip.

18.4.06

Dagurinn í dag

Alveg fyrirtaks dagur.

1. Anathema gáfu út nýtt lag - það má nálgast á vefsíðunni þeirra. Þeir sem vilja geta gefið þeim pening (via PayPal) í staðinn.

2. Pósturinn kom með pakka frá Amazon. Katatonia-diskurinn nýji, auk nokkurra bóka (tvær eftir Colin McGinn, ein frá Thomas Nagel, og eitt Davidson ritgerðarsafn).

3. Ég sá fyrstu hungangsfluguna áðan, á meðan ég sat úti á svölum og ... horfði á sólsetrið.

Skjannaskýr dagur.

14.4.06

Diskur vikunnar

Pósturinn brást mér - eins og svo oft áður. Enginn Katatonia-diskur barst mér í þessari viku, og ég býst ekki við að hann muni gera það úr þessu.

Það þýðir þó ekki að það sé enginn „diskur vikunnar“ í dag.

Miss Machine með Dillinger Escape Plan kom út ... fyrir nokkrum árum. Tveim-þrem árum, eitthvað svoleiðis. Þetta eru ungir strákar, ég held að þeir séu allir yngri en ég, fæddir áttatíuogeitthvað snemma. Þýðir það kannske að maður ætti að gefa rokkstjörnudraumana upp á bátinn, er maður ekki orðinn of gamall fyrir þetta?

Kannske. Þetta er hins vegar diskur sem vex og vex. Þegar ég keypti hann (í fyrrahaust) var ég ekkert svo spenntur; söngvarinn fór einfaldlega óskaplega í taugarnar á mér. Ég hef ekkert á móti öskrum, en þá þótti mér hann of „high-pitched“ fyrir minn smekk, og það tók smá stund að fatta hve vel öskrin í honum passa við tónlistina. Besta orðið til að lýsa tónlistinni (og þá öskrunum) er „frantic“. Keyrslan er svakaleg. Kannske ekki reiðir ungir menn - en þeir eru örugglega æstir.

Og þeir kunna sko á hljóðfærin sín. Taktskiptingar hægri-vinstri, alls konar grip spiluð hratt og oft á óvenjulegum hraða (dadadada .. dada .. dadada ... da ... dadadadadada). Litlum tíma sóað í gítarsóló - ég held að það sé rétt munað hjá mér að ekkert lag er lengra en fjórar mínútur. Stutt og beint í mark (annað en rausið í mér).

Það er lítið um grípandi melódíur (og jafnvel frekar lítið um melódíur almennt) - það sem grípur mann er krafturinn og ákafinn í þessum lögum.

Á myspace eru þeir auðvitað með síðu - og þar má finna heil fjögur lög til að hlusta á, þar af þrjú af Miss Machine.

Vísdómsorð vikunnar

Nýr liður: Vísdómsorð vikunnar.

Þessa viku (og já, þessi póstur er tæknilega séð fimmtudagspóstur, því ég er ekki enn farinn að sofa) koma VV frá Jack-teiknimyndaseríunni.

Verðandi faðir spyr nýbakaðan kollega sinn:

„Hvernig geturðu komið með nýtt líf inn í heim sem er jafn ömurlegur og þessi er?“

Vafalaust spurning sem margir hafa velt fyrir sér, sennilega oftar en einu sinni. Að því gefnu að það er fjölmargt bogið við heiminn í dag, hvernig getur maður fengið það af sér, að leggja það á annars saklausa veru að þurfa að lifa í þessum heimi?

Þetta er algeng spurning, og því ekkert sérstaklega áhugaverð. Það er svarið hins vegar:

„Þú getur ekki ætlast til að heimurinn verði betri ef þú hleypir engu góðu fólki inn.“

12.4.06

Æ já

Þá er fyrsta morgunhlaupi ársins lokið - og vonandi verður þetta ekki líka síðasta morgunhlaup ársins. Er bara nokkuð ánægður með mig, náði að halda sæmilegu tempói mestalla leiðina út. Á bakaleiðini fattaði ég reyndar hvers vegna ég náði svona sæmilegum takti - þetta var allt niðrávið á leiðinni út og uppávið að leiðinni heim. Jæja - svo bara þegar maður nær að hlaupa alla þessa leið án þess að stoppa öðru hvoru og ganga smávegis, þá lengir maður bara leiðina...

Annars er það helst að frétta að ég hef loksins náð mér í sæmilega nothæfan item editor fyrir Baldur's Gate, þannig að ég get farið að búa til ný drápstæki handa drápsvélunum mínum.

Merkilegt með BG (II) annars: Það eru þó nokkur ár liðin síðan hann kom út, og það er samt hægt að spila hann ennþá. Hann er ekki ömurlega ljótur og lélegur og leiðinlegur þegar búið er að klára hann einu sinni, heldur er hann þvert á móti jafn skemmtilegur í dag og þá.

Jæja, kannske ekki alveg jafn skemmtilegur, en býsna nálægt því. Þegar maður er að spila hann í hundraðasta skipti, þá er það ekkert ólíkt því að lesa bók í hundraðasta skipti. Skemmtilega og spennandi bók - en kannske ekki jafn spennandi og þegar maður las hana í fyrsta skiptið.

Annars er BG nú ekki langlífasti leikurinn sem ég hef spilað. Ég er nefnilega ennþá að spila Ultima VI og VII. OK, ekki akkúrat núna, kannske - en það er alls ekki langt síðan ég tók í U6 síðast, og ég hef verið að hugsa um að finna og ná í Exult svo ég geti spilað U7 aftur. Þetta eru sko gamlir leikir - held að u7 sé síðan '92 eða '93, og U6 síðan '90. Eða þar um bil. Og hvað mig varðar, þá eru þetta bestu CRPG sem ég hef nokkru sinni spilað. Merkilega "djúpir" leikir (sérstaklega merkilegt miðað við hvað þetta er nú gamalt): Sub-plot á sub-plot ofan, sidequests galore, vandaðar NPC, og skemmtilegar sögur. Og frelsið sem maður hafði ... í U7, ef mann vantaði pening, þá var t.d. hægt að fá vinnu sem bakaradrengur. Nú, eða maður gat farið úr Britain (bær A) til Paws (bær B), keypt kjöt í bæ B og farið með aftur til bæjar A, hvar maður seldi kjötið og græddi hvað, 2-3 gullpeninga pr. kjötstykki.

Frábærir leikir. Alveg hreint frábærir.

11.4.06

OK, við hvern geri ég samkomulag?

Af einni eða annarri ástæðu, þá villtist ég inn á heimasíðu Þorsteins Gylfasonar. Hann lést í fyrra, og það kemur vel fram á síðunni: "Þorsteinn Gylfason (1942-2005)" stendur þar efst.

En nokkru neðar er dálítið furðuleg lína. "Viðtalstímar:" stendur þar. Og hvenær skyldi hann hafa viðtalstíma? "Eftir samkomulagi."

Eftir samkomulagi? Við hvern geri ég eiginlega samkomulag? Og hvernig? Kannske ég ætti bara að fara og tala við einhvern miðil. Þekkið þið einhvern færan?

9.4.06

JESS! Ég náði, haha!

You Passed 8th Grade Science

Congratulations, you got 8/8 correct!

8.4.06

Góð mynd

Dúkkuhaus í steypu; ef mér skjátlast ekki, þá gæti þetta flokkast sem listaverk eftir Sindra Má. Þetta má finna á Njálsgötu, ekki langt frá Heimabíó-sjoppunni.

Jæja, þetta gekk ekki alveg. Jæjajæja.

Trú?

"Requiem aeternam dona eis, Domine, et lux perpetuam luceat eis"

og

"Everything I have I will give you, and everything I own I owe to you"

OK. Þýðir það eitt, að þessar setningar hafa orðið mér stöðugt hugleiknari uppá síðkastið, þýðir það að ég sé alltíeinu orðinn trúmaður?

7.4.06

Diskur vikunnar

Fyrsti "diskur vikunnar" er Chaosphere með Meshuggah.

Ég er að vísu ekki alveg með nafngiftirnar á hreinu, en þetta er metal. Engin spurning um það. Tækni-metal, kannske? Einhvers staðar held ég að ég hafi heyrt "math-metal" notað um þessa tónlist. Það skiptir svosem ekki öllu máli, auðvitað - og raunar væri gott ef þessar skilgreiningar væru felldar niður. Á þessum ömurlegu tímum verður fólk, sem kann að meta þyngri gerðir tónlistar, að standa saman gegn endalausu sorpflóði - og þá má það ekki við því, að skipta sér svona í fylkingar.

Þetta er frábær diskur, hins vegar. Þegar ég heyri sum lögin (til dæmis "New Millenium Cyanide Christ"), þá langar mig helst til að læra að gera tónlistarmyndbönd svo vel sé. Eða mig langaði til þess, allt þar til ég sá myndbandið sem þeir gerðu við lagið:

Þeir sitja heima í stofu (eða kannske er þetta rúta?). Gítarleikararnir spila luftgítar, bassaleikarinn spilar á luftbassa, og trommarinn sýnist mér nota matprjóna í stað trommukjuða á meðan hann lufttrommar. Söngvarinn mæmar svo, og notar blýant eða penna fyrir hljóðnema. Frábært myndband, sko. Lagið líka. En hey, ekki lesa um það - horfið á það. Í boði Kára.

Ég á reyndar bágt með að segja "um hvað diskurinn fjallar". Það hefur hingað til ekki verið mín sterkasta hlið, að greina smásögur, skáldsögur og ljóð - og raunar finnst mér það bara frekar leiðinlegt. Gaman að lesa slíkar greiningar, en ég nenni ekki að standa í þeim sjálfur. Að því leytinu eru þær eins og eðlisfræði. Það er gaman að lesa bækur eins og Saga tímans, en sjálfur myndi ég aldrei nenna að stunda slíkar rannsóknir sjálfur.

En textarnir þykja mér flestir vera vel saman settir, vandaðir og fínir. Flutningur er líka góður - það er eins og Jens Kidman hafi bara tvær raddir, tvo tóna til að garga í. Það bætir auðvitað bara enn frekar á þá tilfinningu að þetta séu vélar sem eru að flytja tónlistina. Hljóðfæraleikurinn er nefnilega líka býsna vélrænn, hvort sem er hjá strengjahljóðfæraleikurunum eða trommaranum.

Semsagt - enn ein fyrstaflokks sveitin frá Svíþjóð. Umeå er greinilega bær sem maður þarf að heimsækja ef maður fer til Svíaríkis.

Næsta föstudag býst ég við að halda mig í Svíþjóð - amazon voru svo væn að senda nýja Katatonia-diskinn í dag, og ég geri ráð fyrir að hann verði diskur vikunnar.

5.4.06

Íþróttir

Það stóð til að fara út að hlaupa í morgun - sumarið að koma og með því er engin ástæða að burðast með vetrareinangrunina. Eitthvað fór það nú úrskeiðis hjá mér; ömurlegt veður og ég gat varla fengið mig á fætur í tæka tíð til að komast í skólann. Þá bara á morgun...

Á morgun er einmitt síðasti dagur skólans. Lokatíminn í málfræði og ég er viss um að ótal (jafnvel tótal) samnemendur mínir muni fagna því stíft að vera ekki lengur í málfræði. Ekki ég, hins vegar - þetta þykir mér lang-áhugaverðasta fagið. Noun Phrases og hvernig má þekkja þá; Verb Phrases og hvernig megi þekkja þá ... sannanir fyrir því að tíðir eru einhvern veginn utan sagnanna ... og svo framvegis og framvegis. Ég er næstum því ákveðinn í að hafa mitt BA í ensku á málfræðisviðinu, ef hægt er. Eða málvísindi, ég á eftir að fara í það.

Raunar ætti ég barasta að drífa mig í að finna mér efni strax, svona miðað við hve langan tíma hitt hefur tekið...

4.4.06

Heimavinnan

Hananú. Ég virðist hafa endanlega bitið í mig þá hugmynd, að ekki sé hægt að vinna heima. Ég á meira að segja bágt með að einbeita mér að því að slá inn í tölvuna það sem ég var búinn að handskrifa útí hlöðu. Kemur svosem ekki að sök, þannig - það eru tölvur þar líka og ég get þá barasta tekið blöðin með þangað og slegið þetta inn þar. Og á meðan ég get ennþá sest í stólinn eða lagst í sófann og lesið hvaðeina sem ég kæri mig um að lesa (engu lofað með skilninginn, þið skiljið), þá kem ég nú til með að lifa aðeins lengur.

Loksins skýring á nafninu ... OssomTossom, þ.e.a.s.: Þetta þýðir eitthvað í ætt við "hókus pókus". Í myndinni Nukitsamees lenda mennsk börn í klónum á skógartröllum, rammgöldróttum auðvitað, og "ossomtossom" var galdraformúlan þeirra (tröllanna, þ.e.a.s.).

Annars staðar komst ég að því, að ég og Dustin Hoffmann erum nafnar. Ekki svo að skilja, að ég eigi ekki þegar marga ágæta nafna, en það má alltaf bæta í safnið.

2.4.06

Fór í 10-11 við Austurstræti áðan, kíkti aðeins á nammibarinn. Ég er almennt ekkert yfir mig hrifinn af 10-11, en nammibarinn þar er sérstakur að einu leyti: Þar fær maður hvítt núggat (held ég að það heiti) með möndlum, og það er alveg einstaklega gott sjitt. Eitt uppáhaldsnammið mitt, raunar.

Mér til mikillar raunar, eins og kom á daginn. Ég keypti svona nammi fyrir ca. 2-300 kall, fór heim og tók að troða þessu í ginið á mér eins og heimurinn væri að farast eftir tvær mínútur. Eða þannig - ætli ég gæti ekki fundið mér eitthvað aðeins ánægjulegra að gera ef heimsendir væri eftir tvær mínútur. Jæja.

Ég japla á þessu, og ein mandlan hlýtur að hafa verið óvenju hörð, því ég brýt úr aftasta jaxlinum hægra megin í neðri góm. Það er reyndar skítónýtur jaxl - rótarfylltur, og þegar endajaxlinn kom upp fyrir aftan hann, þá braut hann líka vænt stykki úr þessum. Þannig að ég hef svosem engar áhyggjur af honum, né af því að fá verk í hann - hann er rótarfylltur svo hann er tilfinningalaus líka, ekki satt?

Því miður er ofvaxin tungan ekki tilfinningalaus, og nú er hún stöðugt að nuddast utan í brotið. Og þar sem maður er eins og maður er, þá get ég ómögulega látið vera að athuga brotið, láta tungubroddinn gæla við það, fara í opið sem myndaðist og svo framvegis.

Verst er svo að ég hef eiginlega engan tíma fyrir tannlækni núna fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudaginn, ef þá. Á þriðjudaginn er skiladagur í málsögu - hvorki erfitt né leiðinlegt verkefni, vissulega: Ég á einfaldlega að fá mér enska skáldsögu frá 19. öld, taka lítinn stúf úr henni (hundrað orð mínus nöfn) og segja hvaðan þau koma; eru þau ensk, frönsk, latnesk, norræn eða "annað", og skrá svo hlutfall hvers hóps fyrir sig (hundrað orð svo prósentureikningurinn ætti ekki að vefjast fyrir mér!). Á morgun er tvöfaldur tími í amerískum bókmenntum, þar sem kennarinn forfallaðist um daginn.

Nú, svo er það bara talsvert fyrirtæki að fara til tannsa - hann er suður í Garðabæ og ég bý í Reykjavík. Þetta er a.m.k. 15-20 mínútna strætóferð, og álíka löng ganga frá stoppustöðinni til tannsans. Svo er það biðin á stofunni ... alltíallt býst ég við að það fari svona 90 mínútur í þetta, samtals - og svo peningurinn sem ég vonaðist til að geta eytt í bækur, tónlist og kvikmyndir. Sem betur fer er próflestrarmánuður framundan - þá kem ég til með að fjárfesta minna en venjulega í bjór og áfengi, býst ég við.