Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

25.12.07

Væri ég kristinn myndi ég hugsa minn gang ..

Eldingarblossi og þrumudrunur á aðfangadag ... eða aðfangadagskvöld, rétt eftir klukkan sex. Allt í lagi - jafnvel góðs viti - fyrir ásatrúarmenn, en kannske ekki eins heillandi fyrir þá sem kristnir eru. Þeir gætu haldið að þetta væri tákn.

Annars brá mér þegar ég gluggaði í eina jólabókina. Ég held barasta að ég verði að stofna flicker-síðu svo ég geti sýnt þetta svart á hvítu.

Nú eru jafnvel Lærdómsritin kostuð af Hlandsbankanum. Ég skal alveg játa að ég hef ekki fylgst með verðþróun Lærdómsrita; ætli þau séu eitthvað ódýrari eftir að þessi litla bankaauglýsing komst í bækurnar? Það virðist varla vera hægt að fara á klósettið lengur án þess að vera minntur á tilvist að minnsta kosti eins banka.

Gleðileg jól!

20.12.07

Ég held að Anthrax hafi orðað þetta best

I pick my nose but I'm not retarded.

Um þetta leyti á morgun verða prófin búin. Fyrsta prófið fór vel, ég held að annað hafi gengið álíka vel (en engar einkunnir eru komnar enn) - og ég held að Shakespeare eigi eftir að ganga þolanlega.

Sjáumst.

13.12.07

Síðasti titill – full sannspár fyrir minn smekk!

Það sem átti bara að vera svolítið fyndið og vísa til tveggja síðustu atriðanna – asískur samruni L og R annars vegar, og yfirvaraskeggsíðan ágæta hins vegar – reyndist svo bara vera nokkuð nákvæm spá! Skegginu mínu var nefnilega rænt.

Það var stressið sem stal því. Það er ekki nóg með að ég narti stundum í neglurnar á mér þegar mikið liggur við – eða mér leiðist – heldur á ég líka til að japla á skegginu við svipaðar aðstæður. Eitt og eitt hár – hvað gerir það til? Nú, vegna þess að ég hafði skipulagt mig sem svo, að ég myndi ekki byrja að lesa af neinni alvöru fyrir prófið sem ég var í í dag fyrr en á mánudaginn, og þar sem að ég varð svo pínku slappur (ekki nóg til að vera veikur, en samt nóg til að geta gert lítið meira en legið í rúminu, þambað engiferseyði og sofið), þá brást ég svo við að tína meira en venjulega úr skegginu þennan eina og hálfa dag sem ég gat eitthvað lesið – ennþá meira en venjulega þar sem ég er eiginlega hættur að naga neglurnar (í bili). Nú, þar sem ég var búinn að reyta svo mikið úr skegginu að ég leit í spegil og hélt að ég væri orðinn fimmtán ára aftur, þá sá ég ekkert annað í stöðunni en að raka það af. Það leysir vandann álíka vel og að mölva úr mér tennurnar þegar þær verða af kaffidrykkju orðnar dekkri en hrossaaugu. Þar sem ég get ekki verið með bara rétt rúmlega vikugamalt skegg á jólunum, þá stefnir allt í skegglaus jól og áramót á Íslandi hjá Þossa garminum.

Þetta er raunverulega skýringin. Opinbera skýringin er þó sú að ég er bara að prófa eitthvað „nýtt“ fyrir jólin – og þar sem ég hef svo lengi verið skeggjaður, þá varð ég bara að raka þetta af nokkru fyrr svo ég hefði tíma til að venjast þessu.

Annars held ég að prófið hafi bara gengið ágætlega. Kannske skeggátið hafi skilað einhverju?

8.12.07

Skeggrán

Frekar geng ég á rakvélarblöðum heldur en ófrosnu Atlantshafi - frekar verð ég sammála Jónasi heldur en Reyni.

Ef maður vill þykjast kristinn, þá er fyrsta boðorðið: „Ekki auglýsa það!“ Sjá Matteus 6.1: „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis ... “ Maður á alls ekki - samkvæmt því sem Jesús segir - að auglýsa hvað maður er nú góður. Bara láta verkin tala. Þegar einhver segist kristinn þá er það eitt og sér ástæða til að varast slíkan mann.
-*-*-
Hvers vegna hlæja Íslendingar að Asíumönnum sem gera ekki greinarmun á „l“ og „r“ þegar við getum ekki einu sinni gert greinarmun á „v“ og „w“, hvað þá rödduðu og órödduðu „s“? Höldum við kannske að við séum ekkert hlægileg í eyrum Englendinga þegar við segjum „willage“ eða „vant“ (og berum fram sem „vont“)? - Að maður tali nú ekki um þessa íslensku tilhneigingu til að troða „h“ inn í orð: „vaht“, „a loht of“ - og svo framvegis.
-*-*-
Hrein og tær fegurð.

7.12.07

Mogginn - toppblað!

Ég ætlaði nú að vera fyrir löngu búinn að setja þetta inn.
Þriðjungur aðspurðra sagðist trúa á fljúgandi furðuhluti, nornir og stjörnufræði.

Jahérna. Bara þriðjungur Bandaríkjamanna sem „trúir á“ stjörnufræði? Ætli Jarðmiðjukenningin sé ennþá svona vinsæl þarna úti? Ég hélt að hér um bil allir tryðu stjörnufræðingum.

Stjörnuspekingum, hins vegar ...

Líkklæði og marshmallows

Alltaf er nú gott að fá sér kaffibolla nývaknaður. Loksins er ég búinn að fatta hvað ég þarf að gera til að tölvan fari alltaf í standby þegar ég loka henni, svo nú er ég farinn að gera það þegar ég fer að sofa (vonandi fer það ekki illa með hana). Þá get ég, þegar ég vakna, staulast fram í eldhús og kveikt undir katlinum; þegar vatnið er farið að sjóða er ég venjulega búinn að lesa öll eða flest RSS-in mín og alla tölvupóstana. Þegar kaffið er tilbúið get ég svo sest niður og skrifað.

Ég las í einhverjum auglýsingapésanum um daginn - og ég man ekki hvort það var nú Mogginn eða Fréttablaðið eða 24 stundir, enda er þetta allt saman meira og minna eins; helsti munurinn er kannske sá að Calvin og Hobbes eru í Mogganum en Pondus er í Fréttablaðinu og hvað, ekkert fyndið í 24 stundum? - að það hafi verið um sjötta áratuginn sem sú hefð hófst að klæða nýfæddar stelpur í bleikt og nýfædda stráka í blátt - áður voru allir í hvítu, sem er frekar líkklæðalitur heldur en nýburalitur.

Gott að vita. En var þetta beinlínis spurning fyrir Alþingi? Nú hef ég svosem ekkert á móti því að eiginmaður eróbikkdrottningar snöflist í kringum fyrrverandi leikkonu - það er ekki eins og hann hafi neitt þarfara að gera (en verra er að hann hefur sennilegast ekki athugað málið sjálfur) - en hefði ekki alveg eins verið hægt að tilkynna á þingi að nú hafi spurning verið send til Árna Björnssonar og Vísindavefjarins, og að svarið verði tilkynnt á þingi um leið og það berst? Væri það eitthvað verra?

+*+*+

Anathema hefur gefið út nýtt lag, Angels Walk Among Us, og það fyrir nokkru síðan. Ég þarf greinilega að fylgjast betur með Mypace-síðunni þeirra. Eitthvað ætla þau að láta okkur bíða eftir heilum disk, þannig að þetta er þó eitthvað. Topplag, að sjálfsögðu, enda bjóst enginn við öðru frá þessu fjölskyldufyrirtæki.

Lagið má heyra á Myspace-síðunni; og það má t.d. ná í það í gegnum síðu þeirra, anathema.ws, undir News.

+*+*+

Og vegna þess að sumum þykir Lucky Charms svo afskaplega gott - Wondermark útskýrir hvernig bragðið verður til. Ef músarbendillinn er færður yfir myndina og látinn standa þar í smá stund - lítill lokatilkynning.

Góða helgi.

6.12.07

(Án titils)

Annars kíkti ég á Silfrið síðasta sunnudag, sérstaklega til að sjá Matthías Ásgeirsson spjalla við Egil um Þjóðkirkjuna. Ég vissi ekki að Jón hinn frjálslyndi myndi vera þar líka - því hefði ég vitað af því fyrirfram hefði ég sennilega aldrei litið á þetta. En fyrst ég var nú kominn þangað, þá gat ég alveg eins horft á þetta (annars er lélegt að þátturinn sé ekki kaflaskiptur þegar hann er settur á netið).

Auðvitað kom ekkert af viti fram þarna, a.m.k. ekki frá þeim Agli og Jóni. Matthías var fínn (þó held ég að það væri sterkari leikur hjá öllu hugsandi fólki að gera eins og femínistarnir og neita að mæta; ef þær geta neitað vegna þess hve fáar konur eru boðnar í þáttinn, þá hlýtur viti borið fólk að geta neitað að mæta vegna þess hve fáu viti bornu fólki er boðið. Síðast þegar ég horfði á heilan þátt - og ég skal alveg játa að langt er liðið síðan ég lagði slíkt á mig - þá virtist mér Hannes Hólmsteinn vera sá skarpasti í gervöllu stúdíóinu ... ).

Hvað um það. Þarna voru þeir tveir, Matthías og Frjálslyndi-Jón. Snemma í umræðunni slengir hinn frjálslyndi maður slátrinu á borðið fram svofelldri skilgreiningu á því hvað „kristið siðgæði“ er:

Kristið siðgæði er umburðarlyndi, kærleikur, virðing fyrir manninum og einstaklingnum.

Frábært. Nema þetta er ekkert sérkristið, heldur hafa hinir og þessir haldið slíkum hugmyndum fram, hvort sem er fyrir eða eftir Jesús var að predika. Ef það á með réttu að heita kristið, þá hlýtur að eitthvað sem greinir það frá öðru siðgæði. (Ef menn tala um „íslensk útlitseinkenni“, þá geta eiginleikar eins og tveir fætur eða eitt nef ekki talist þar með, því þetta er eiginleiki sem fleiri en Íslendingar hafa. Íslensk útlitseinkenni, ef einhver eru, hljóta að vera þau einkenni sem greina Íslendinga frá öðrum.) Og hvað er það sem greinir þá kristið siðferði frá öðrum siðferðiskerfum?

Ætli við vitum ekki öll hvert svarið er: Sárasótt.

Réttlætingin fyrir kristnu siðferði - það er það sem greinir kristilegt siðferði frá öðrum. Og hver er nú sú réttlæting? „Hæ krakkar, ég heiti Jesús, ég er kristur og sonur guðs. Guð talar við mig. Gerið eins og ég segi ... eða farið til andskotans.“ (Kannske má bæta við - „Gerið eins og ég segi - og komist til himna!“) Semsagt - fólk á að hegða sér almennilega vegna þess að guð, eða fulltrúi hans hér á jörð, segir þeim að gera það - og til að forðast refsingu og/eða fá verðlaun í næsta lífi.

Þetta „kristna siðgæði“ sem frelsis-Jón talar um er þá ekki neitt sérstaklega kristið nema það sé rökstutt með vísun til krists. Það, ekki umburðarlyndi eða virðing fyrir náunganum, er það sem gerir þetta kristið. Og er það eitthvað sem er vit í að kenna krökkum? Væri ekki nær að kenna þeim aðeins betri ástæður til að fylgja Gullnu reglunni, eins og til dæmis að samfélagið (eða í það minnsta umferðin) yrði talsvert betri ef allir færu eftir henni? Það er allt í lagi að kenna þeim að meta meira eitthvað annað en það sem eyðist eða þjófar kunna að stela - en hvernig safnar maður eiginlega fjársjóðum á himni? Það þarf ansi langa teygju (alla leið yfir í annað guðspjall, meira að segja) til að það sé hægt að fá nokkurt vit í þessa tillögu. En þá verður hún heldur ekkert svo vitlaus, þannig séð.

Og jafnvel þótt það sé gert, þá er vont ef eina ástæðan sem maður hefur til að hlýða sé „Jesús sagði að maður eigi að gera svona.“ Ég vil í það minnsta losna við allt kristilegt úr röksemdafærslunni; ég skal svosem fylgja reglunum eftir bestu getu, en ég vil betri ástæður - ef það þarf þá yfirleitt einhverjar ástæður til að haga sér almennilega. Fullorðið fólk þarf yfirleitt enga ástæðu til að gera ekki í brækurnar - það er bara eitthvað sem maður gerir ekki, og ef það gerist skammast maður sín ógurlega eftir á.

Jamm ... alltaf skal ég finna sér eitthvað til dundurs þegar brýndari verkefni hanga fyrir ofan mig eins og ótrygg grýlukerti. Ég held raunar að ég taki aldrei jafn vel til og þegar ég er í prófum.

---

Annars er ég bara afskaplega sáttur við þetta OpenOffice. Jafnvel ritvinnsluforritið þykir mér þægilegra ... af einhverjum ástæðum, því það er nær alveg eins og Word. Kannske er það bara vegna þess að [shift]+[2] gefur mér íslenskar gæsalappir - ég þarf ekki að fikta eins mikið til að fá það í gegn. Það eitt er nóg til að gleðja mig ... þarf ekki mikið til.

4.12.07

A sobject may also be the throwing of a sob (compare fitject).

Var ég búinn að segja frá því að um daginn lét ég ekki bjóða mér lengur að geta bara séð PowerPoint-glærur, en ekki til dæmis breytt þeim eða bætt eigin athugasemdum við þær? Jæja, þá er því hérmeð komið á framfæri að ég náði mér í OpenOffice, og get nú gamnað mér við glæruskoðun langt frameftir nóttu. Ég get núna líka kannske jafnvel tekið tölvuna með mér í skólann eftir áramót og glósað beint á glærurnar, þá sjaldan sem kennarar hafa fyrir því að setja þær á netið áður en tíminn hefst - án þess að þurfa að prenta þær út með tilheyrandi kostnaði (pappír er dýr, blek er dýrt - og pláss er sennilega dýrast). Jibbí.

Best af öllu var svo auðvitað að þetta gerði ég í vinnunni. Tók tölvuna með eina nóttina (aðfaranótt þriðjudags), því ég þurfti að fara yfir nokkrar glærur og annað efni frá kennara og sé, mér til ánægju, að ég get tengst netinu. Að vísu segir tölvan mér að ég sé ýmist með „no signal“ eða „low signal“ en það skiptir engu máli, ég get bæði skoðað síður eins og Wikipedia áfallalaust, og svo náð í þennan ríflega 100 Mb pakka án þess að hafa mikið fyrir því. Allt í boði HÍ.

---

Hvað er annars merkilegast við íslenskuna? Frá mínum bæjardyrum séð er það næstum því augljóst: Það er hægt að segjast eiga fólk án þess að nokkur kippi sér upp við það. „Ég á tvö börn,“ gæti maður sagt og engum þætti það eitthvað óeðlilegt (nema kannske ef maðurinn væri fimmtán ára), en ef þetta væri þýtt orð fyrir orð yfir á ensku („I own two children“) væru flestir vonandi fljótir að hringja í lögguna. Sömuleiðis með maka - „Áttu konu?“ er ósköp eðlileg spurning, og ekkert að því að svara henni játandi en „Do you own a woman?“ er undarleg spurning og erfitt að svara öðruvísi heldur en neitandi.

Það sem bjargar íslenskunni fyrir horn er hins vegar að þetta gengur í báðar áttir: Foreldrar eiga börnin, en börnin eiga líka foreldrana; karlinn á konuna en konan á líka karlinn. Það væri nú aldeilis skemmtilegt á Alþingi (eða hefði a.m.k. verið gaman þar fyrir nokkrum áratugum) ef það væri til dæmis bara hægt að segja „Ég á konu“ en ekki „Ég á karl“ (einungis „Ég hef karl“ gæti gengið, eða kannske frekar „Ég er karls“) eða bara „Ég á börn“ en ekki „Ég á foreldra“. Þetta er því ekki alveg afleit hefð - en ansi undarleg samt, svona ef maður ímyndar sér að maður sé útlendingur að kynnast íslensku með aðstoð lélegrar orðabókar.

Svo er líka alltaf gaman að svara spurningum eins og „Áttu kærustu?“ eins og spurt hafi verið „Áttu eld?“ - leita í öllum vösum áður en maður neitar ...