Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

21.3.07

OssomTossom, heilbrigðisstarfsmaður

Þá er fyrstu vaktinni lokið. Hún var róleg. Hún var meira að segja svo róleg, að ég var sendur heim áður en klukkan varð ellefu. Ég var aðallega í því að standa eða sitja eins og lygilega vel gerð stytta af grískum hálfguð. Og svo auðvitað aðeins að læra inn á kerfið, hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Ég get alls ekki sagt að mér lítist illa á þetta allt saman - jafnvel þótt ég viti vel að þetta er bara lognið á undan golunni. Starfsfólkið er alveg prýðilegt, aðallega konur um fimmtugt. Ég býst nú við að þarna séu einhverjir strákar líka - ég sá einum læknanema bregða fyrir, hann var svona á aldur við mig. Þeir, læknarnir sko, eru samt ekkert voðalega mikið inni á deildinni, skilst mér, a.m.k. ekki á kvöldin. Annars er maður víst aðallega í því að spjalla við sjúklingana, spila við þá eða jafnvel horfa á sjónvarpið með þeim.

Ég held líka að það verði alveg ágætt að prófa einhverja svona nýja vinnu, eitthvað aðeins öðruvísi heldur en það sem ég hef verið að fást við hingað til. Meira svona mannlegt, einhvern veginn. Samskipti manns við ekki-vinnufélaga snúast í það minnsta ekki um það eitt, að útskýra hvers vegna gatan sé lokuð eða búa til fyrir þá tvöfaldan latte. Þar sem stefnan er nú í átt að kennslu, þá held ég að þetta sé talsvert betri undirbúningur fyrir það heldur en það sem ég hef gert hingað til.

Síðan mæti ég næst eftir viku, og skilst að þá verði líklegast orðin talsverð breyting á sjúklingauppröðuninni. Þetta er víst almennt engin langtímalegudeild. Eða eins og ein konan, Steina (sú sem var einu sinni að vinna með pabba á 33c á meðan ég er á 32c), sagði þegar hún sá merkimiða á einni hurð - nafn náunga sem hafði útskrifast í gær eða fyrradag - „Það er svo fljótt að koma nýtt fólk inn að maður hefur varla tíma til að skipta um nöfn á hurðunum.“

Þetta lítur semsagt alltsaman ósköp vel út. Alveg eins og veðrið.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hei-hó, til hamingju með djobbið. Já þetta hljómar alls ekki illa og er örugglega fín tilbreyting frá GR-II, enda eru "the golden days" þar búnir. Ætli nokkur af okkur gömlu sumarplebbunum verði þarna í sumar??

-Frikki

10:33  

Skrifa ummæli

<< Home