Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.3.06

Það er engin lygi: Á þessum þrem mánuðum sem liðnir eru af 2006, þá hef ég gert meira fyrir skólagöngu mína heldur en ég gerði allt síðasta ár, og í marsmánuði hef ég gert meira en í janúar og febrúar samanlögðum. Þar kemur ábyggilega tvennt til:

i) Ég er ekki að vinna hjá bænum lengur, heldur er sestur á skólabekk

og

ii) Ég hef fattað hve miklu betra það er að vinna útí hlöðu.

Þetta er kenning sem ég rakst á fyrir ekki svo löngu síðan: Það er ekki góð hugmynd að ætla sér að vinna á sama stað og maður notar til slökunar. "Staður til slökunar" merkir ekki aðeins rúmið og sófann, heldur allt svæðið, allt herbergið. Nú er íbúðin mín ekki neitt ofsalega stór (vonandi eruði ekki að vonast eftir nákvæmum fermetrafjölda!) og ég hef fyrir löngu vanist því að líta á stofuna sem slökunarsvæði. Kannske, ef ég hefði haft stofuna sem svefnherbergi, þá gæti svefnherbergið verið vinnustofa, en það er of seint (held ég) að ætla að breyta því. Eða - ég gæti breytt því en ég nenni því ekki. Að vísu, þá gæti svefnherbergið vel gengið sem vinnustofa. En stofan myndi, held ég, ekki nýtast sérlega vel sem svefnherbergi.

Nei, hlaðan er staðurinn. Þar er ekkert til að trufla mann. Hérna heima er alltaf eitthvað - taka til eða vaska upp eða þvo þvott. Sé ekkert slíkt til staðar, þá hefur maður tölvuna - og alla tímasóunina sem í henni felst. Útí hlöðu er ekkert slíkt - hún er tiltölulega hrein og snyrtileg, og óhreina tauið, uppvaskið og draslið á gólfinu er manni víðs fjarri. Maður hefur ekkert nema ipoddinn, bækurnar, pennana og pappírinn. Sé maður þurr í augnablikinu, þá þarf ekki að örvænta - það er til nóg af lesefni þar sem í það minnsta tengist verkefnum manns að einhverju leyti (jafnvel þótt ekki sé annað en það eitt, að það er á ensku, eða þá um efni sem tengist bla-ritgerðinni einhvers staðar á jöðrunum - einhvers staðar er minnst á Kripke, Quine eða Frege í einni neðanmálsgrein eða álíka ómerkilegt; stundum kemur þó fyrir að maður rekist á eitthvað sem annað hvort tengist efninu beint, eða þá öðrum áhugamálum - og einu sinni rakst ég á stutta grein sem ég gæti hugsað mér að nota þegar það kemur að BAritgerð í ensku - auðvitað er allt óákveðið með það ennþá, en ritgerðin var um notkun viðtengingarháttar og framsöguháttar í skilyrðissetningum um framtíðina (use of imperative and subjunctive in future conditionals); ég veit reyndar ekki hvort þetta komi til greina sem Ba í ensku, en kannske sem hluti af stærra málfræðitengdu efni?). Ég komst reyndar fyrst á bragðið í nóvember 2004 - þá skrifaði ég meira fyrir BA á einni viku, heldur en ég hafði gert allt árið fram að því, og meira en ég hafði gert allt árið 2003 - en síðan datt það af einhverjum orsökum (láttu ekki eins og þú vitir ekki hvað það var - leti, leti og ekkert nema leti) út aftur.

En núna hef ég semsagt gert það sem margir samnemendur mínir fyrr og síðar gerðu í menntaskóla - uppgötvað hve gott það er að vinna útí hlöðu. Ég held að á meðan ég bý í þessari litlu tveggja herbergja íbúð, þá verði hún vinnustaðurinn minn (fyrir utan aðra mögulega vinnustaði - þar sem ég verð í vinnu, hvar ég fæ strax borgað fyrir vinnuna en ekki eftir einhvern óþekktan árafjölda). Það hjálpar auðvitað að vera með ipod - geislaspilari gæti gert sama gagn, en hann er stærri og maður þarf líka að vera með ágætt magn geisladiska, en plássið í töskunni er takmarkað - og það er ennþá betra að hafa loks vanist því að vera með þessa eyrnatappa sem fylgja með honum (hér áður fyrr bara gat ég ekki notað þá - varð að vera með þessi stóru klunnalegu tæki - en eins og ég sagði, þá er takmarkað pláss í töskunni, og ég vil frekar vera með bækur í henni).

"Hvers vegna ferðu með bækur út á bókasafn, Þossi?"

Eiginlega er ég bara með, í mesta lagi, tvær til þrjár bækur - restin eru ljósrit af greinum héðan og þaðan. Þessar bækur sem ég er með, er ég með vegna þess ýmist (a) eru þær ekki til á safninu, (b) ég nenni ekki að gá hvort þær séu til né nenni ég að fara og finna þær, vonandi að enginn annar sé að nota þær, eða (c) að ég er búinn að krota í þær og strika undir það sem mér þykir skipta máli (allt með blýant, auðvitað! Ég gæti viljað losna við þetta þegar ritgerðinni lýkur og ég fer að vinna í þeirri næstu og þá er verra að allt sé útkrassað með *penna*. Ég sé suma samnemendur mína krota með skærgulum yfirstrikunarpenna í námsbækurnar, jafnvel í tímum (þá að strika yfir það sem kennarinn er að leggja áherslu á í það og það skiptið) og stundum langar mig til að öskra á þá (eða þær - mér sýnast flestir strákarnir í tímunum vera mun afslappaðri, þeir hafa varla fyrir því að glósa) og spyrja hvern fjandann þeir (þær) eru að gera.

En semsagt: Bókhlaðan rúlar, og ef ég myndi virkilega leggja alla áherslu á það, þá ætti ég léttilega að klára heimspeki BA-ritgerð á næsta mánuði eða svo. Ég á auðvitað ekki eftir að gera það - ég er líka að þýða fyrir Gunna, og svo eru prófin að koma. Ég hef þó á tilfinningunni að mikið eigi eftir að gerast næsta mánuðinn. Kannske hefði maður átt að byrja á þessu fyrr - en ætli maður í þessar pælingar, þá má líka segja:

"Maður hefði átt að klára heimspekina vor 2003"

og hver nennir svosem að standa í svoleiðis woulda-shoulda-coulda röfli. Geymum það þar til ég virkilega dett í það næst (sem ætti að vera á föstudaginn).

Hey - í dag er hálft ár í afmælið mitt! Fyrir nokkrum árum síðan - þrem árum, ef ég man ártölin rétt - þá var Mikjálsmessa, í tilefni af afmæli Mikes. Margir ágætir fyrirlestrar á þeirri heimspeki-orgíu.

28.3.06

Dálítið skrýtið hvernig fólk fer stundum á autopilot. Sýnist eins og þetta gerist sérstaklega oft þegar maður hittir einhvern sem maður hefur annars ekki séð árum saman, einhvers konar sjálfvirk kurteisi.

Tökum sem dæmi strák sem ég hitti um helgina. Við vorum víst í Hagaskóla á sama tíma - hátt í þrettán ár síðan ég byrjaði þar. Allt gott með það, Kári mundi hvað stráksi hét og svona, svo við gátum staðið þarna á Laugaveginum, gengt Kaffi Hljómalind og talað eitthvað. Nema drengur snýr sér að mér og spyr:

"Og hvað með þig, Steini? Hvað ertu að gera þessa dagana?"

Steini!? Það er aðeins ein manngerð sem kallar mig "Steina", og það er fólkið sem ég hef ekki hitt í ríflegan áratug - jafnvel nær einum og hálfum áratug. Fólk sem hefur þekkt mig í þann tíma og haldið semi-reglulegum kontakt, sem og fólkið sem ég hef kynnst síðan "Þossi" festist við mig (takk, Kári!), það kallar mig "Þossa". Ekki "Steina".

En hvað um það, ég svara honum sem satt er, segist vera í heimspeki og ensku. Segir hann þá:

"Heimspeki! Alveg passar það við þig!"

Ég held bara, að sama hvað ég hefði sagt, þá hefði þetta orðið svarið.

"Ég er venjulega í hjálparstarfi í Afríku, að dreifa mat og lyfjum, og kenna börnum að lesa."

"Hjálparstarf! Alveg passar það við þig!"

eða

"Ég er handrukkari."

"Handrukkari! Alveg passar það við þig!"

Ég held að sama hvað ég hefði sagt, þá hefði hann sagt þetta - vegna þess að hann var bara á autopilot. Maður sem þekkir mig svo lítið að hann kallar mig "Steina", hvernig á hann að hafa hugmynd um hvað passi mér? Sér í lagi þegar hann hefur þekkt mig þegar ég hef verið þetta 12-13 ára gamall - ég myndi halda að það væri í flestum tilfellum erfitt að segja til um það, hvernig myndi rætast úr mér þrettán árum síðar.

Hún er dálítið skrýtin, og jafnvel pínku óþægileg, öll þessi sjálfstýring. Þetta er í sama dúr og þegar maður mætir manni á Laugaveginum og hann segir

"Hæ hvernig gengur,"

og gengur svo áfram án þess að bíða svars - ekki að þetta hafi verið spurning því röddin breytist aldrei, engin lyfta í lokin til veita raddaða útgáfu af spurningarmerki. Bara að segja eitthvað notalegt fyrir kurteisis sakir.

Einu skiptin þar sem mér þykir þetta alveg sjálfsagt er þegar maður afsakar sig eftir að hafa rekist utan í einhvern eða stígið á tær annars. Annars þykir mér þetta bara óþarfi.

25.3.06

Virðist vera frábær dagur. Hef ekki farið út enn - er búinn að sofa og sofa go dreyma fönkí-ass drauma. Mér telst til að þetta sé tæplega tólf tíma svefn, og ég sem ætlaði að nota daginn í dag í að stimpla inn allt sem ég er búinn að handskrifa útí hlöðu í vikunni. Það er sennilega helsti gallinn við að vinna þar, frekar en heima; ég get ekki tekið tölvuna með mér, vegna þess að þá myndi ég gera nákvæmlega það sama og ég geri hvort eð er heima hjá mér (og svo nenni ég ekkert að ferðast með hana. Hvað ef það færi að rigna?). Jæja, ég geri það þá bara á morgun. Í dag er dagur til að fara í vænan göngutúr, taka sér sundsprett eða eitthvað notalegt og gott. Ekki að sitja hokinn fyrir framan tölvuskjá.

Stórgaman með Frikka og Kára í gær. Drukkum og átum og spiluðum, og fórum svo niðrí bæ og drukku meira og spjölluðum heillengi. Miklu lengur en við bjuggumst við - alveg örugglega lengur en þeir ætluðu sér :D

Farinn

24.3.06

Kominn aftur einu sinni enn, og núna kannske aðeins lengur en við síðustu endurkomu - núna hættur í vinnunni, kominn í skóla og allt á fljúgandi siglingu. Dyggum lesendum mínum lofa ég að vera ögn duglegri að skrifa e-ð, jafnvel skólatengt ef því er að skipta, og kannske eitthvað persónulegt og skemmtilegt þá sjaldan e-ð slíkt býðst til skrifta.

Jæja, tiltekt tiltekt tiltekt. Gengur ekki að bjóða gestum heim þegar bækur og pappírar ýmis konar þekja nær hvern fersentimetra - og þar sem ekki eru bækur, þar eru kattarhár ...

Og já - til hamingju með daginn, Hildur (ekki það að ég haldi að þú kíkir hingað en maður veit aldrei...).