Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

24.1.07

Það hlaut að koma að því ... OssomTossom svaf yfir sig.

Svosem engin furða, miðað við hve lítið hann hefur sofið undanfarið. Þó hefði verið ágætt ef hann hefði getað vaknað tímanlega bara einn dag enn ... þá hefði hann ekki misst af efalaust fróðlegum tíma í morgun.

Terry Pratchett er með ágæta kenningu um innblástur. Hann hefur vafalaust tekið eftir því að orðið „inspiration“ endar eins og t.d. „neutron“ (nifteind), „proton“ (róteind) og jafnvel „ion“ (jón) - og leggur því til að inspiration sé e.k. „subatomic particle“ sem flýtur um heiminn. Væntanlega geta hlutir sent slíkar eindir frá sér - samanber hringstigann sem kveikti hugmyndina um lögun DNA. Samkvæmt kenningunni hans, þá gerist það þó oftar að innblástureindir lendi á kolröngum stað - innblástur að glæsilegu tónlistarverki lenti t.d. í froski, og svör við spurningu sem heimspekingur nokkur hafði velt fyrir sér talsvert lengi lenti óvart í höfði smáfugls - hann reyndi auðvitað að koma því til skila, en það tókst ekki alveg (ekki frekar en t.d. tilraunir höfrunganna til að vara mannkyn við eyðingu jarðarinnar í Hitchhiker's Guide to the Galaxy).

Þessi orðaleikur er bara eitt dæmi um það, hvers vegna það er ekki hlaupið að því að þýða karlinn. Gallinn er auðvitað sá, að það er svo ótalmargt annað í bókunum hans sem er á svipuðum nótum. Dauðinn (sem er auðvitað „lifandi“ persóna) segir t.d. „On nights like this I could just murder a curry“ - eða hvað? Er einhver venja að tala um að myrða mat á íslensku? Nú, eða kála eða slátra eða eitthvað þess háttar?

23.1.07

Fyrir tæplega fjórum árum síðan (fjögur og hálft er kannske nær lagi) fékk OssomTossom kött.

Um tíma var sá möguleiki í stöðunni að kalla köttinn Mýslu, en það var gefið upp á bátinn, og í staðinn fékk hún að heita Mjása. Á fimmtudaginn komst ég hins vegar að því að tannlæknirinn minn á kött - sem heitir Mýsla.

Mikið er ég nú feginn að þessari framsögu sé lokið. Það var auðvitað fróðlegt að greina söguna og allt það - en ég er mishrifinn af hópvinnu. Ég var að vísu í traustum hóp, afar þægilegum. Það mætti jafnvel segja að hann hafi verið kósý. Framsagan gekk líka ágætlega, held ég - engar alvarlegar villur í framsetningunni eða neitt slíkt (fyrir utan ábendingu frá einum samnemanda, sem benti á að það sem við höfðum miðað við í greiningunni - listi Propps væri ekki endilega besti listinn til að nota, en við fengum ábendingu frá kennara um að nota einmitt þennan lista, þannig að það skipti ekki svo miklu máli). Þá er bara að hespa hitt dæmið af (þetta sem átti að vera búið uppúr síðustu helgi) og ég er fær í flestan sjó.

17.1.07

OssomTossom tekur ætíð vel í óskir um nýjar greinar.

Eða svona oftast nær. Stundum er hann bara of önnum kafinn. Og stundum kemur fyrir að hann nennir eiginlega ekkert að skrifa, ekki nema eina eða tvær setningar - og það þykir honum ekki ómaksins virði.

Nóg að gera á fyrstu skólavikunni. Eftir viku fæ ég að taka þátt í hópframsöguverkefni - Litla hafmeyjan (Andersen-útgáfan, ekki Disney-framleiðslan) túlkuð samkvæmt strúktúralisma. Kannske er ekki úr vegi að fara að kynna sér hvað í ósköpunum það er. Ég ætti að ráða við það á morgun, ef ég fer snemma á fætur - þarf sko ekki að mæta í skólann fyrr en þrjú. Haha. Svo þarf ég víst líka að fara að berja saman stutt verkefni (400 orð geta, við nánari athugun, illa kallast ritgerð), hvert á eftir öðru með kannske tveggja vikna millibili (eða þar um bil). Svo eru það smásögurnar og persónulýsingarnar fyrir þetta Creative Writing-húllumhæ. Og já, gleymum ekki þýðingunni fyrir Gunna (áhugasamir geta lesið örlítið stytta útgáfu hér) - ef allt fer eins og fara skal, þá gæti ég jafnvel komið henni frá mér skömmu eftir helgi (einhvern veginn finnst mér ég hafa sagt einmitt þessi orð, eða þá setningu nauðalíkri þessari, einhvern tímann áður ... úlfur úlfur?) og þá er það er frá, þá er nú ekki seinna vænna en að taka aftur til við að vinna í piparsveinskunni og ljúka henni af. Fór einmitt á bókasafn í dag, áður en ég fór að vinna, og greip þar tvær bækur sem gætu - aldrei að vita! - komið sér vel á vesturvígstöðvunum. Svona áður en ég byrja á hinni, sko.

Annars luma ég á svolítið skemmtilegri sögu af (kannske - maður veit aldrei!) næsta forseta Bandaríkjanna. Fyrst hér, svo hér. Athugið að síðari tengingin vísar á mp3-skrá. Mér finnst þetta bara nokkuð sniðugt hjá honum, sko. Greinilega er hann með afar sterkt lið í kringum sig sem fylgist náið með öllum fréttum af honum. Ódýrt fyrir hann - og gefur væntanlega aðallega góða mynd af honum (nema í huga þeirra sem líta á þetta sem ódýrt trikk - hann gæti lækkað í áliti hjá þeim).

Þessi maður sagði þegar einhver iglan spurði hann hvort hann hefði einhvern tíma reykt gras: „Yes, and I inhaled. That was the point“.

Nóg komið af bandarískum stjórnmálum í bili. Ég efast raunar um að það sé mér hollt að fjalla of mikið um stjórnmál, íslensk sem erlend. Betra að láta atvinnumönnunum það eftir.

10.1.07

Þegar OssomTossom kom til Bergen seint aðfaranótt Þorláksmessu var hann ekki alveg viss hvernig hann ætti að komast í bæinn.

Leigubíll virtist eini kosturinn, en það hefði hins vegar reynst honum býsna dýrt. Í leigubílaröðinni voru hins vegar ágæt eldri hjón sem spurðu hann í hvaða átt hann væri að fara. Hann sagði þeim það, og þá kváðust þau vera að fara í sömu átt. Hann fékk því að deila leigubíl með þeim, og borgaði ekki meira en um eitt hundrað krónur norskar í leigubílagjald.

Einhver netári virðist hafa gleypt færsluna er ég skráði á mánudaginn, þegar ég sagði frá ránsferð minni um háaloft föður míns. Ég nenni nú ekki að endurtaka þetta allt saman, en ég náði semsagt að koma gírugum höndum mínum yfir nokkrar fínar bækur - lærdómsrit, smásagnasafn eftir Woody Allen, bækur eftir Austen og Dickens, myndskreytta Passíusálma og svo framvegis. Hins vegar fann ég ekki allar bækurnar sem ég veit að liggja þarna úti um allt - mig grunar því að næstu helgi muni ég fara þangað aftur og leita enn frekar. Jafnvel þótt þetta séu nú misfallegar bækur á að líta, þá eiga þær nú flestar betra skilið en að liggja þarna í kössum, hvað þá á gólfinu.

Skólinn byrjar á morgun og ég er bara nokkuð spenntur fyrir því. Þarna eru a.m.k. tvö námskeið sem fela fyrst og fremst í sér að ég fari í langa göngutúra og setjist að þeim loknum niður fyrir framan tölvuna og skrifi. Kannske eru þau jafnvel þrjú. Ég held að bókmenntafræðin sé bæði einna mest spennandi og það námskeið sem mér muni leiðast hvað mest. Þetta virðist verða ágætt kjaftafag þar sem fólk getur röflað og tjáð sig sem því sýnist (en sjáum til hvernig þróast) og þóst vera ofsalega klárt með því að tala um Freud og Lacan, strúktúralista, póst-strúktúralista og póstmódernista (og svo framvegis - ég held að í námsbókinni séu taldar upp eitthvað um tólf-fjórtán stefnur), mögulega án þess að skilja það sem það segir og vera líka alveg sama. Sem er fjör. Aftur á móti þarf endilega að vera eitthvað hópverkefni með framsögu og allt. Powerpoint - hér áður fyrr var alveg nóg að útbúa dreifiblað til áheyrenda þegar maður flutti sína framsögu, en kannske reynir það of mikið á áheyrendur?

7.1.07

Hið ossomtossomíska 2006

Þetta var ágætt ár. Byrjaði í skóla, kynntist fólki, keypti ágæta diska og svo framvegis. Lágpunktur ársins er tvímælalaust vinnan í sumar, en hins vegar á ég erfiðara að með að velja hápunkt. Þeir eru svo margir, sjáiði til, ég get ómögulega gert upp á milli þeirra. Kannske einfaldast að segja að allar stundir sem ég varði ekki í vinnu séu hápunktarnir, en það er auðvitað einföldun því að stundum var nú alveg ágætt í vinnunni og stundum var ekkert gaman utan vinnunnar.

Uppi á háalofti hjá pabba er haugur af bókum. Sumar eru auðvitað ferlega óspennandi, einhverjar spennusögur í kiljuformi eða þaðan af verra. Ég veit hins vegar að þar er margt gott og áhugavert. Það er kominn tími til að bjarga einhverjum þeirra: Ég er farinn af stað með ferðatösku og ætla að ræna þar og rupla eins miklu og ég get flutt og komið fyrir hér. Það er löngu kominn tími til, jafnvel þótt ég muni aldrei lesa þær - bækur eiga að vera í hillum, en ekki að liggja eins og hráviði út um allt.

4.1.07

Nýtt ár, nýr OssomTossom

Og þá er ég kominn heim. Kom að vísu heim í gær, en var svo latur (og dálítið þreyttur, líka) að ég nennti litlu öðru en að fara í sturtu, sitja svo í hægindastól og lesa þangað til ég fór í háttinn. Mikið var ég feginn að komast í íslenska sturtu, loksins. Ég er viss um að heita vatnið hér sé betra heldur en þarna í Noregi - a.m.k. finnst mér bæði hár og húð líta betur út eftir eina íslenska sturtu heldur en ófáar norskar.

Hins vegar er alltaf fjör í Noregi. Öðruvísi jólamatur en maður á að venjast - á aðfangadag snæddum við pinnakjöt (sem er saltað og stundum reykt kinda- eða lambakjöt, mér sýnist sem þetta séu rifbeinin). Ekkert saltað svínakjöt fyrr en á jóladag! Svo er þarna arinn, sem er alltaf jafn gaman að kveikja upp í - verst að það var svo hlýtt mestallan tímann þarna að það var engin þörf á því. Ég væri hins vegar alveg til í að tíma því að fá mér arinn hingað. Gæti sett hann útí hornið (sem ég held að sé um það bil norð-vestur hornið) þarsem ofninn er núna. Væri kósí og dýrt.

Á gamlárskvöld fórum við svo í heimsókn til foreldra Síverts, sem þá var nýkominn frá Indlandi (frænka hans var að giftast, og þar sem pabbi hans var svo slæmur í bakinu og stóri bróðir hans of upptekinn, þá fór hann sem fulltrúi síns hluta fjölskyldunnar), kom með ágætt magn af bhangra-tónlist (semsagt, indversk tónlist, eða a.m.k. punjabísk tónlist) og það var bara gaman að sjá pabba hans í góðum gír, dansandi á stofugólfinu. Ekki eins gaman þegar fólk var að reyna að fá mig til að dansa með, hins vegar.

Já, og svo kom ég heim, eftir bara ríflega vikudvöl. Ég ætti kannske að gera eins og fleiri og gefa lítið yfirlit yfir árið, en ég held að það megi bíða til morguns. Núna ætla ég að fá mér göngutúr (og sakna þess að finna ilminn af ótal arineldum, sem liggur yfir öllu í Noregi, ekki ósvipað og reykmökkurinn yfir Reykjavík á gamlárskvöld, bara gagnsærri), og kannske kaupa skólabækur vorsins.