Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

5.3.07

OssomTossom er létt

Í þættinum hans Jóns Ólafssonar á Rúv kom laugardaginn síðasta maður til hans með fiðlu. Hann spilaði ósköp fallega á hana, svosem, en öllu verra var þegar hann missti hana. Hún brotnaði í spón.

Það væri svosem ekkert svo merkilegt - maður missir stundum eitthvað brothætt, eða þá að maður missir eitthvað þungt á eitthvað brothætt - en þetta var kynnt sem sérlega merkileg fiðla. Stradivarius, hvorki meira né minna. Hvort að verðið hafi ekki verið gefið upp - eitthvað um 200 milljónir, ef ég man rétt. Manni brá því dálítið þegar hann missti hana í gólfið, og gat varla annað en glott þegar Jón spyr hvort það sé ekki bara hægt að líma hana saman aftur. Aðrir hefðu spurt „Hva, er ekki bara hægt að teip'etta?“ en Jón er greinilega jarðbundnari maður en svo, og hefur þá væntanlega haft í huga að grípa bara Uhu-límtúpuna og redda þessu í hvelli.

Svo kemur „Afsakið hlé“. Skiljanlega. Þátturinn heldur áfram og klárast - og maður fær engar frekari upplýsingar um hvað gerðist. Verra er að það voru engar fréttir um þetta annars staðar - maður hefði haldið að svonalagað kæmist nú í Moggann, a.m.k. netútgáfuna. En það var ekkert um þetta neins staðar.

Fyrst í dag frétti ég svo að þulan hafi sagt, að þætti loknum, að þetta væri bara grín, kallinn hafi ekkert verið með margmilljónkróna fiðlu í sjónvarpsþætti - merkilegt nokk. Ég tek fram að sjálfur sá ég þetta ekki gerat fyrr en í gær, á netinu, eftir að hafa heyrt að eitthvað stórmerkilegt hafi gerst í þættinum hans Jóns.

Ég játa að þetta var bara býsna gott grín hjá þeim félögum, og gott að þeir biðu ekki til fyrsta apríl - þá hefði verið allt of auðvelt að afskrifa þetta sem létt glens. Eins og þetta var þarna, þá var þetta alveg trúverðugt, svona ef maður gleypir (eins og ég gerði) að menn komi með dýrar fiðlur í ódýra sjónvarpsþætti.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hehe já ég sá þetta líka en bara eftir að mér hafði verið sagt að þetta hefði verið grín, þá fannst mér þetta fáránlega obvious...en ég held að maður hafi litla ástæðu til að halda að þeir væru að grínast með þetta. Þetta er nú enginn grínþáttur þrátt fyrir að það sé nú sprellað af og til.

Gaman að sjá að þetta eru orðin semi regular skrif hjá þér núna :D

hugs,
Kári

07:53  

Skrifa ummæli

<< Home