Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

28.6.06

Sjálfstjórn?

Ekki á þessum bæ

Ég geri bara það sem mig langar til. Ég ræð hins vegar engu um það, hvað mig langar til að gera. Stundum tekst mönnum að telja sér trú um, að þá langi í rauninni mest til að t.d. hætta í vinnunni og snúa sér að drykkju, skriftum og fjallgöngum - en sjálfsagans vegna, þá mæti þeir samt. Ég held nú samt að það eru athafnirnar sem skipta mestu máli (eins og annars staðar), en ekki hvað fólk segir.

Athafnir og aðgerðir fólks eru bestu vitnisburðir um langanir þeirra sem völ er á. Hér um bil alveg um hvað er að ræða. Jafnvel þegar um fíkn er að ræða?

Fíknin er hluti af karakter manns, rétt eins og níska eða skapofsi eða lauslæti - já, eða gjafmildi, skapstilla eða skírlífi. Hún er þá líka hluti af manni sjálfum. Þær langanir sem spretta af fíkn eru þá manns eigin langanir. Maður sem segist vilja hætta að drekka, en hagi sér á þveröfugan hátt - þá langar hann meira til að drekka heldur en ekki. Ein löngun er sterkari en önnur.

Hvað þá með fólk sem t.d. hættir að drekka? Er það ekki dæmi um sjálfstjórn?

Ég held frekar að það sé dæmi um það, þegar langanir breytast. Þær geta auðvitað breyst, með einum eða öðrum hætti. Kannske maður geti sjálfur haft einhver áhrif þar á, styrkt eina löngum á meðan maður reynir að deyfa aðra.

Breytir samt engu um hugsunina í upphafi færslunnar. Það sem ég geri núna ræðst af löngunum mínum núna. Og ég-núna ræð engu um langanir mínar núna. Ef einhver ræður yfir löngunum ég-núna, þá er það ég-áður. Einu langanir mínar sem ég ræð einhverju um eru langanir ég-seinna.

(Allar ábendingar um betri orð en ég-núna, ég-áður og ég-seinna eru vel þegnar)

27.6.06

Vondur dagur, fótboltalega séð. Ghanar búnir, Spanjólar farnir heim ... Hanarnir* standa einir eftir - og þeir verða að hitta Tommana**. Lykilmenn í banni ... æ, ég gef skít í þetta Sýnarrusl. HM 2010 verður miklu betra, sanniði til.

*Portúgal - Gal - Gallo - Hani
**Tommy er heiti breskra hermanna.

26.6.06

Thee are a pig

... eða „Yður ert svín“.

Maður rekst öðru hvoru á svona lagað. Ég hef stundum lesið sögurnar á Rithringnum, og reyni helst að lesa og gagnrýna ævintýri og vísindaskáldskap. Það eru þær sögur sem ég hef mestan áhuga á.

Fólk er misjafnt í þessu, svona eins og gengur og gerist. Það er ánægjulegt að fólk er þó að reyna að skrifa fantasíur og sci-fi á íslensku. Verra er að sumir gera það frekar illa.

Annars vegar er fólk að reyna að fyrna mál sitt (svo það passi betur í fantasíuheiminn), og síðan á fólk það til að gleyma sér í einhverju technobabble (sem einkennir til dæmis Star Trek).

Á hinu fyrsta hef ég nokkrar skoðanir. Takist vel til, þá eykur þetta bara á upplifunina, maður nær að lifa sig betur inn í heiminn ef fólk talar trúverðuglega. Tali það á fornlegan hátt (en þó eðlilega), þá fattar maður jafnvel fyrr á hvaða tíma (þannig séð) sagan á að gerast. Gallinn er bara sá, að það eru ekkert allt of margir sem ráða vel við þetta. Hey - sumir kunna ekki einu sinni að þéra! Alger steypa, og ljótt að sjá t.d. „yður eruð svín“ eða setinguna hér að ofan, „þér ert svín“.

Ég vil frekar sjá eðlilegt nútímamál heldur en klaufalegar þéranir eða annað eins. Eina sögu las ég og höfundurinn var að reyna að ná einhverjum Íslendingasögustíl. Það gekk ekki alveg nógu vel, og útkoman var bara hrútleiðinleg. Nei, þá vil ég frekar bara lesa venjulegt, þjált mál - sérstaklega í samtölum. Þegar allt kemur til alls, þá gerist þetta í öðrum heimi - hvers vegna ætti fólk þar að tala íslensku? Eru samtölin ekki „þýdd“?

Á hinu síðara hef ég bara eina skoðun, hins vegar: Tækniröfl er óþolandi. Sérstaklega er slæmt þegar reynt er að útskýra hvernig tæknin virkar, en það er raunar líka óþarfi að segja nefna vélarnar eitthvað sérstaklega. Jafnvel eitthvað eins og „vörpudrif“ (sem er annars ágæt þýðing á „warp drive“) er alveg óþarfi. Sagan á að vera sæmilega trúleg, ekki satt? Sögumaður, hvort sem hann er líka aðalpersónan eða utan sögunnar, er hluti af heiminum. Þannig er það (oftast) í sögum úr nútímanum - og hve oft sér maður talað um „sprengihreyfla“ eða „bensínvélar“ í sögum sem eiga að gerast í dag?

Þessu tengt, þá hættir sci-fi liði allt of oft til að gleyma sér í tækninni, og ævintýri gleyma sér oft í að lýsa samfélaginu of nákvæmlega. Tæknin fer í bílstjórasætið, en sagan fer í skottið. Útkoman verður eins og smásaga sem er þó augljóslega dæmisaga - boðskapurinn fær mesta athyglina, en sagan og persónurnar hverfa bara. Þær verða bara að burðardýrum fyrir boðskapinn (sem er ekkert endilega neitt merkilegur).

22.6.06

I wanna be your own personal Santa, baby...

And go down your chimney! Yeagh! And stuff your stocking!

Konur: Leikföng eða útsendarar andskotans? Það er nú stóra spurningin, en eins og venjulega hafa Squigley og Seymour hárrétt fyrir sér.

Sinfest er alger snilld út í gegn. Svona oftast nær:

Woman and God are intoxicants enough without the hard stuff. Of course, Woman and God are usually the reason we resort to the hard stuff.

Hmm ... date ran off ... left me all alone ... obviously intimidated by my manly swagger. Fascinated, yet fearful of the Slick experience! She could not handle the magic that is me.

Chicks. They're in such denial.


Hey, ég er bara þreyttur eftir vinnudaginn, meika ekkert að skrifa einhver ósköp. Er þó feginn að á morgun verða bara gullaldarstrákar í flokknum mínum - ekki allir gullaldardrengirnir, samt. Ég læt mér þess vegna að nægja að copy-paste af öðrum vefsíðum. Hey - ég læt þess þó getið hvaðan ég fæ efnið mitt.

Nema titlana. Ég læt oft eiga sig að geta þeirra beint - stundum er þetta líka bara útúrsnúningur á vel þekktum setningum (tja, vel þekktum af mér, í það minnsta!).

Á morgun - gril. Jíha. Í dag vann Ghana Bandaríkin - eins og við öðru væri að búast. Ég óttast bara að svörtu strákarnir mínir (sem við skulum ekki rugla saman við dökku strákana mína - tvö ólík lið, sko!) detti úr leik þegar þeir spila við amerísku fyrrum-nýlenduna okkar, hvenær sem það gerist. Nema kannske kannske vonandi ef Japan sigrar Brasilíu 1-0, og Ástralía vinnur hvað, 4-0?

Arg! Var að lesa fréttirnar, og hey - Ronaldo var að jafna fyrir Brasilíu (frétt kl. 1954). 1-1 var staðan í hálfleik. Held að Ghana eigi ekki eftir að endast mikið lengur - þótt ég myndi ekki gráta ef þeir fleygðu Brasilíu úr keppni. Allir sem skrifa undir þessa færslu fá einn bjór (að eigin vali) ef Ghana sigrar Brasilíu (eða hvaða lið sem þeir mæta næst). Einn bjór - lítið, kannske, en nú er ég að búast við að fjöldi manns muni skrifa undir og ég hef barasta ekkert efni á að kaupa x+24 kippur af bjór. Einhver húmoristi á eftir að setja tengil á þessa færslu inn á b2.is eða einhvern álíka ömurlegan vef (plís, ekki gera mér þann óleik!). Því er best að setja fyrirvara:

Hvort mér ókunnugugt pakk fái nokkurn skapaðan hlut fyrir að skrifa undir er algerlega undir mínum geðþótta komið!

21.6.06

Fótbolti og bjór:

Sameining heimsins felst í þessu tvennu og engu öðru

Það er alltaf jafn magnað að lesa um jólafriðinn 1914 - og viðbrögð yfirmanna við honum. Þýskir og breskir hermenn - óbreyttir hermenn og lægra settir yfirmenn - sömdu einfaldlega frið sín á milli. Þeir hittust á svæðinu á milli skotgrafanna, skiptust á gjöfum, spiluðu fótbolta - hegðuðu sér eins og menn, semsagt.

Og auðvitað gerðu yfirmennirnir sem sátu langt aftan víglínunnar allt sem þeir gátu til að stöðva svona lagað. Slæmt fyrir móralinn, að skjóta einhverja náunga sem, tveim-þrem vikur áður, höfðu spilað við mann fótbolta (jafnvel sötrað bjór) og tekið þátt í sálmasöngvum yfir líkum. Heh - maður gæti þá jafnvel fengið það á tilfinninguna að maður væri að skjóta aðra menn. Skynsamir menn, þessir heforingjar.

Black Adder Goes Forth

Edmund Blackadder: Our battles are directed, sir?

General Melchett: Well, of course they are, Blackadder -- directed according to the Grand Plan.

Edmund: Would that be the plan to continue with total slaughter until everyone's dead except Field Marshal Haig, Lady Haig and their tortoise, Alan?

Melchett: Great Scott! (stands) Even you know it!

----------

Melchett: Good man. Now, Field Marshal Haig has formulated a brilliant new tactical plan to ensure final victory in the field. [they gather around a model of the battlefield]

Blackadder: Now, would this brilliant plan involve us climbing out of our trenches and walking slowly towards the enemy sir?

Captain Darling: How can you possibly know that Blackadder? It's classified information.

Blackadder: It's the same plan that we used last time, and the seventeen times before that.

Melchett: E-E-Exactly! And that is what so brilliant about it! We will catch the watchful Hun totally off guard! Doing precisely what we have done eighteen times before is exactly the last thing they'll expect us to do this time!

20.6.06

Good times, hard times

one creates the other

Komst að því í dag að ég er aðeins of þungur. Eða eiginlega komst ég ekki að því, né fékk ég það staðfest. Ég hef líka aðeins of mikið af fitu utan á mér. Það er að segja, of mikla miðað við hvað telst heilbrigt. Hins vegar ætti ég að þola um tveggja mánaða hungurverkfall. Hefur einhver málstað sem hann vill vekja athygli á? Þetta gæti verið eins og að fá einhverja til að ganga með barnið fyrir sig - kemur fyrir, ég sá það í Friends! - nema í staðinn fyrir meðgöngu skal ég svelta mig fyrir rétta upphæð.

Að því gefnu, auðvitað, að mér líki málstaðurinn.

Þetta eru ekki góðar fréttir, en koma ekki á óvart. Það er talsvert minna að gera í vinnunni heldur en ég vonaðist til, minni átök. Miklu minna af hellulagningum heldur en ég vonaðist til. Svo er maður ekkert að borða allt of hollt, né að hreyfa sig utan vinnunnar meira en nauðsynlegt þykir. Nú er bara að taka sig á - sund, hlaup, og svo framvegis.

Hvað varð af gullöldinni? Þegar það voru mun færri leiðindadurgar og vitleysingar að vinna þarna niðurfrá, og maður var einungis með góðu fólki í flokk. Hópurinn samhentur og öllum lyndaði við alla. Síðan Frikki fór á hinn betri stað, hefur allt verið að breytast til hins verra. Margeir fór líka og hefur ekki komið aftur. Gullöld bæjarvinnunnar er liðin. Þetta auma niðurlægða sumar nær því ekki einu sinni að kallast silfuröld.

Hvar er föstudagsfótboltinn? - Hann var ekki í fyrra, ekki svo ég muni. Enginn hefur stungið upp á honum í sumar, nema þegar Kjarri reyndi að draga okkur í bolta á miðvikudegi eða eitthvað. En miðvikudagar eru langir, það er langur vinnudagur daginn eftir. Fótbolti þarf að vera á föstudegi - stuttur dagur svo það er auðvelt að fá sér nokkra bjóra með leiknum, og hafa engar áhyggjur af strengjum og harðsperrum daginn eftir. Það myndi enginn mæta hvort eð er, ekki í sumar.

Hvar eru fjörugu föstudagarnir? - Það yrði ekki einu sinni til neins að reyna að endurvekja þá. Það yrði bara aum eftirlíking, og myndu ekkert gagn gera, nema þá að rifja upp hvað þetta var frábært áður. Svona eins og hjá pari sem hefur misst allan neista, allan áhuga, en myndi reyna að endurvekja hann með því að fara í nákvæmlega eins ferð og þau fóru í þegar allt lék í lyndi.

Gullöldinni hefur verið fleygt á sorphauga sögunnar.

19.6.06

Rúbínaugasteinar, glópagullshjarta

Það er kominn tími til að nefna svona eins og einn toppfimmdiskalista sem gefnir voru út í fyrra.

1. Planetary Confinement - Antimatter. Hvað mig varðar, besti diskurinn sem kom út í fyrra. „Saddest Album of the Year“ sagði einhver um diskinn; þetta stóð á límmiða á plasthulstrinu. Ég braut plasthulstrið (svoddan ofbeldisseggur og skemmdarvargur - nú eða bara almennur böðull ...) þannig að ég hef ekki lengur hugmynd um hver sagði það. Ég er heldur ekki í neinni aðstöðu til að segja til um hvort þetta sé í raun og veru raunamæddasta eða sorglegasta plata ársins 2005 - kannske ætti sá titill að fara til hans Abdul Afaräes al-Ghulam eða einhvers annars sem maður hefur aldrei heyrt um (og er kannske ekki til). En hún er samt ansi dapurleg. Miðað við fyrri diska, þá er þetta mun berstrípaðri tónlist. Kaldari tónlist. Því miður virðist þetta vera síðasti Antimatter-diskurinn sem Duncan Patterson kemur nálægt, og næst-síðasti Antimatter diskurinn. Wikipedia segir okkur að „Antimatter (band)“ sé á milli þess að vera trip-hop og goth (þó ekki Marilyn-Manson goth, né metal-goth almennt - kannske frekar nær því goth sem sumir segja The Cure flytja), en hitt má athuga að alls konar vitleysingar skrifa á Wikipedia.

2. The Fire in our throats will becon the Thaw - Pelican. Frábær diskur frá instrumental-metal (?) sveitinni - þeirri einu sem ég kannast við. Ekki beinlínis auðvelt að lýsa þeim - þetta er tónlist sem maður þarf að finna. Lögin eru gjarnan í lengri kantinum - ekki alltaf, samt - og vel kaflaskipt. Kannske eiga lagaheitin að gefa einhverja hugmynd um hvað lögin eru um, en kannske ekki.

3. Reign of Light - Samael. Sennilega mest upplífgandi diskurinn á þessum lista - stundum finns manni eins og þetta eigi að vera sjálfshjálparbók, svo jákvætt og hvetjandi er þetta. Línur eins og „Shout it loud and proud / I'm the hyper star ... Come on and rise, rise, rise! / Free your soul / Catch the dream / Where we all shine, shine, shine! / Stand as you are / And let it begin / The Reign of Light“ er einfaldlega ekki hægt að skilja öðruvísi. Séu þeir ekki í þessum ham, þá eru þeir í því að segja okkur öllum að við séum öll á þessarri jörð - saman. Eins hef ég gaman af austrænum/arabískum áhrifum í tónlistinni - þetta minnir mig jafnvel á eitt og annað, misgamalt, frá Portúgölunum í Moonspell. Þeir hefðu annars átt séns á að komast á þennan lista ef ég ætti diskinn þeirra, en því miður hef ég ekki enn eignast hann. Samt - það er talsverð reiði hjá Samael-liðum. Í það minnsta eru þeir ekki nema mátulega hrifnir af því hvernig Vesturlandabúar virðast almennt lifa - alveg sinnulausir um andlega velferð sína, grunnhyggnir og kærulausir um það sem mestu máli skiptir (nefnilega hvernig maður kemur fram við annað fólk). Eða kannske er ég farinn að lesa aðeins of mikið í þessa texta ...

Tónlistin sjálf? Samael (a.m.k. frá og með Passage hefur almennt verið lýst sem „thinking man's Rammstein“. Og á ensku - en ekki óskiljanlegri austur-þýsku.

4. Masterpiece of Bitterness hef ég þegar skrifað um. Frekar en að standa í einhverju copy-paste, hvers vegna rúlliði bara ekki aðeins niður (kannske um mánuð eða svo) og lesið þar?

5. Catch-33 - Meshuggah. Annar stórglæsilegur gripur frá Meshuggah. Það er svosem lítið sem ég get skrifað um þennan. Ég hef ekki enn fengið neinn botn í textann, og fæ stundum á tilfinninguna að hann sé þarna, bara svo söngvarinn hafi eitthvað að gera. Og trommarinn, þar sem hann hafði ekki fyrir því að tromma á þessum disk, heldur var aðallega í því að forrita tölvu til að sjá um þetta fyrir sig. Að vísu með tóndæmum frá honum sjálfum - en þetta er einmitt það sem Samael hefur gert síðan ca. '95 - en trommurnar sem maður heyrir á disknum eru bara forritaðar. Ekki að það sé neinn munur á þessu og því sem þessi snaróði maður gerir dags daglega, og hann trommar þetta allt saman á tónleikum, skilst mér. Síðan sér trommarinn líka um smávegis textaflutning, auk þess sem hann samdi (minnir mig) textann hér. Skemmtilegast er samt hvernig þeir taka hugmyndina frá I skrefinu lengra. I var smáskífa, um 23 mínútur að lengd, en aðeins eitt lag. Þetta er hins vegar heill diskur, eitthvað nálægt klukkustund, og bara eitt lag. Því miður eru þetta samt nokkur „tracks“, svo ef maður er með t.d. ipod, þá koma alltaf örlittlar þagnir öðru hvoru sem eyða alveg flæðinu. En mjög flottur diskur hjá þessum Svíum. Kannske geta þeir ekkert í handbolta, en þeir geta þó samið flotta tónlist.

18.6.06

To our internationals

This is all written in Icelandic. Well, more or less, right?

Enginn skaði skeður, að tvö lið af þrem sigri í gær, eða hvað? Sigur Portúgal kom auðvitað ekkert á óvart, eða ætti ekki að hafa gert það. Auðvitað hefði verið gaman ef Íranir hefðu unnið - en bara ef Bandaríkin hefðu unnið líka, og aðeins ef Íran og Bandaríkin myndu hittast í næstu umferð. Það væri sko leikur!

Ánægjulegri var sigur Gana (eða Ghana). Nú er leitt að Danzo kallinn sé ekki lengur að vinna með okkur - ég geri a.m.k. ráð fyrir því að hann myndi mæta ósköp kátur til vinnu á morgun. Kannske jafn kátur og Hjörtur þegar hann fékk bjórinn sinn (og það er langt síðan ég hef séð kátari - eða kåtere (eða hvernig sem þetta er nú skrifað) - mann en þá). Bæði voru Ganamenn mjög góðir og Tékkar frekar slappir. Skemmtilegast með Ganverja var þó það, að þeir héldu áfram að sækja þótt þeir hefðu skorað mark. Leiðinlegt að horfa þegar menn fara í vörn strax eftir fyrsta markið og fá síðan mark á sig.

Bandaríski leikurinn var ekkert spennandi. Ekki þannig, sko. Gerðist hellingur í leiknum, en þetta var ekkert sjúklega spennandi. Svosem hefði verið gaman ef Bandaríkin hefðu unnið - en bara ef Íran hefði farið áfram líka og ef Bandaríkin og Íran myndu hittast í næsta leik...

17.6.06

Sautjándi blautjándi

Og þó - á emmbéellpunkturis (sem aldrei lýgur) þá á að stytta upp að mestu suðvestanlands. Miðað við þetta að er veðurspá, þá gæti auðvitað allt eins farið svo að fyrst uppúr hádegi flytji Þingvallavatn til Reykjavíkur.

Kára og Steina vegna vona ég þó að svo fari ekki. Sjálfur er ég ekki að vinna og stefni að því að vera sem mest innan dyra í allan dag, nema kannske ef ég rölti uppí S4 til að horfa að frændur mína spila við aðra frændur mína.

Skemmtilegt atvik sem átti sér stað í gærkvöldi. Ég var að fara í hraðbanka SPRON á Skólavörðustíg, taka út smá pening áður en ég færi í pool með Frikka og Skúla. Allt gott um það að segja. Púlið var ágætt, ég vann að vísu aldrei en það er bara venjulegt ástand. Var svosem nálægt því að vinna Frikka, og hefði jafnvel getað unnið Skúla - en þegar maður tapar leik fyrir sjálfum sér, er þá ekki bara kominn tími til að hætta þessarri dellu, leggja kjuðann í arininn og einbeita sér t.d. að Medieval: Total War? Ég held það.

Ég er annars búinn að leggja norska heimsveldinu - þetta var orðið allt of létt, og allt of stórt. Ég skipti því, byrjaði upp á nýtt. Nú spila ég á Normal-erfiðleika (Norðmenn voru á Easy) sem Dani, og nokkrar reglur til að erfiða manni lífið - engar árásir að fyrra bragði (nema við örfáar sérstakar aðstæður) og svo framvegis. Gengur ágætlega, held ég.

En já, ég var víst að segja frá atvikinu í SPRON. Fer þangað inn og hver haldiði að hafi verið að taka út á undan mér? Enginn annar en Buzby didgeridoo-spilari og kennari. Hann gefur sig á tal við mig að fyrra bragði og segir eitthvað á þá leið, að hann sé alltaf að sjá mig á vappi (sem er engin furða þegar við búum í sama hverfi) en að hann hafi alltaf verið svolítið hræddur við mig. Fannst að ég hafi alltaf horft á hann eins og ég ætlaði mér að drepa hann eða eitthvað. Allavega, við spjölluðum þarna í dálítinn tíma, og þetta er bara hinn fínasti gaur. Alltaf gaman að spjalla við skemmtilegt fólk. Líka gaman að heyra frá ókunnugu fólki að maður hafi cold, dead eyes of a killer (mín orð, ekki hans).

16.6.06

Failure brings success and I got the proof:

A guy fell out of a thirf-floor window and landed way up on the roof

Ánægjuleg fyrirsögn í Blaðrinu í gær:
Yfirvaraskegg of karlmannlegt

Kannske maður skelli sér bara á eitt svoleiðis. Þá kannske trúa þeir mér, þessir asnar niðri í vinnu sem halda að ég sé stelpa. Þá gæti ég kannske umorðað Rollins aðeins:

moustache brings masculinity and I got the proof: I got one meself and they stopped calling me poof

Í tilefni þess að á morgun er 17. júní:

Áfram Portúgal!

9.6.06

Joys of sleepless nights are eluding me

Tvennt hef ég rekið augun í nýlega sem meiddi mig smá:

a. Að skrifa „21.“, þegar betra og réttara væri að skrifa „21“. Þetta má t.d. sjá hjá fólki sem skrifar „ég er 21. ára“ - varla segir það „ég er tuttugasta og fyrsta ára“?

b. Rakst á þetta í auglýsingabæklingi þar sem verið var að lýsa söguþræði bókar: „Hann vaknaði upp ...“ (eða kannske „Hann vaknar upp“). Það má alveg vera svo, að það sé ekkert rangt við þetta. En ljótt er það.

Ég hef líka tekið eftir því fólk er gjarnt á að segjast elska eða hata einhvern sem það hefur aldrei hitt, og þekkir alls ekki. Ég geri þetta jafnvel sjálfur. Ég efast ekki um að fólkið hafi í raun og veru þessar tilfinningar - ég geri semsagt ráð fyrir því að því sé alvara með því sem það segir.

Og það þykir mér skrýtið og merkilegt, að hægt sé að bera svona sterkar tilfinningar til ókunnugra. Líka er skrýtið, hve auðvelt það er að vekja upp tilfinningar sem þessar. Það getur jafnvel verið nóg, að einhver hafi leikið í nokkrum leiðinlegum (eða skemmtilegum) myndum - og fólkið hatar hann. Að maður tali nú ekki um vesalings stjórnmálamennina. Heppilegt fyrir þá, að það sé enginn andlegur veruleiki til, því þá myndi þeim stöðugt líða illa - það yrði nefnilega fyrir svo gífurlegri andlegri geislun að það væri dauðvona og sárkvalið af andlegu krabbameini.

8.6.06

Bitch, what you don't know about me ...

I could just about squeeze into the Grand fucking Canyon.

Botniði tilvitnunina, takk fyrir ... og þá fáiði kannske verðlaun að verðmæti allt að 500 króna íslenskra. Ég verð svosem ekki með neina dramastæla ef enginn svarar - engar hótanir um að nú sé ég hættur að blogga eða e-ð svoleiðis (þó gæti ég tekið upp á að húðstrýkja mig uns mér blæðir út á stofugólfinu, og breytist svo í rotnandi og kattarétið hræ á nokkrum dögum - og ekki viljiði hafa það á samviskunni). Ég er nefnilega alls engin dramadrottning. Kannske dramanía, eða í versta falli dramagosi - en ég er engin drottning. Ekki ennþá, að minnsta kosti - ég verð að losa mig við nokkur kíló áður en ég passa aftur í kjólinn minn. Hvað ætli dragdrottningarnafnið mitt sé annars?

Allavega, það var ástæða fyrir því að ég fór að grobba mig af nýja Opera-dæminu í gær. Mig langaði bara til að segja frá því, að með því er ég loksins farinn að nota þetta RSS-feed. Óttalega þægilegt að hafa þetta - bara kíkja á einn glugga, frekar en að fara á milli hátt í tíu síðna daglega, og komast að því að á aðeins tveim þeirra er eitthvað nýtt og spennandi á seyði.

Og ef þessi blogger.com ætlar að halda áfram að vera svona óþægur, þá er ég hættur.

6.6.06

Sko mig!

Nú er ég búinn að ná mér í einhverja nýrri gerð af Opera ... og á skilið klapp á bak fyrir það.

Það er kannske það eina sem ég á skilið að fá klapp á bakið fyrir. Undanfarna daga hef ég nefnilega ekki nennt neinu, nema þá bara einhverju slæperíi. Jú jú, norska heimsveldið vex og vex (í það minnsta er það stærra en í þeirri sögu sem okkur er kennd í skólunum) - kannske ég taki bara lítið skot af því og pósti inn hér einhvern tímann á næstunni. En þar fyrir utan ... ekki mikið.

Maður nennir eiginlega ekkert að hugsa of mikið í þessari vinnu, og þá enn síður þegar heim er komið. Ég hef þó tekið mér tíma í að pæla aðeins í þessari tímaritsútgáfu sem Kári var að tala um - að skrá niður efni sem ég gæti mögulega nennt að skrifa meira um heldur en tvær málsgreinar. Svo er eðlilegt að hann gefi mér einhver efni til að skrifa um - alveg eins og ég á sennilega eftir að vasast eitthvað í uppsetningu og hönnun blaðsins (eða tímaritsins eða hvað sem þetta ætti nú að kallast - bæklingur, kannske?).

Annars veit ég ósköp lítið um það, hvernig þetta á eftir að verða. Þetta á þó varla eftir að verða sérlega fræðilegt blað, og ég veit auðvitað ekki heldur hve heimspekilegt það mun verða. Fái ég einhverju ráðið, þá verður fræðilega hliðin í lágmarki. Kannske í lok hverrar greinar verði eins konar bókaskrá þar sem vísað verður til annarra rita um sama efni þar sem einhverjir þræðir úr greinunum eru betur skoðaðir.

Annars var að hvarfla að mér, hve frábært það væri ef maður leggði nú í það að flytja inn eins og eina hljómsveit. Það væri t.d. alger eðall ef maður gæti talið Anathema á að koma hingað - það myndi jafnvel vera dálítillar skuldar virði. Maður myndi ekki einu sinni gera það fyrir hagnað - bara að miða á núllið, eða þá ekkert sjúklega langt undir því. Mig grunar að það yrði óttalegur höfuðverkur að skipuleggja þetta allt saman - fá hótel, fá tónleikapláss, fá sveitir/tónlistamenn til að opna, flugmiðar ... svo þarf auðvitað að fara með þá og sýna þeim eitthvað af þessu frábæra landi.

Bara draumórar eins og er ... en sjáum til. Þeir eru hvort eð er bókaðir fram í september, sýnist mér, svo það liggur bara alls ekkert á. Í það minnsta liggur meira á öðru.

Það er ódýrt að tala ... og ókeypis að fantasera.