Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

27.2.07

Henry Rollins eða Vanilla Ice?

Það er stóra spurningin.

23.2.07

OssomTossom fetar í fótspor föður síns

Jæja, þá er ég kominn með sumarvinnu. Ekki fær Reykjavíkurborg að njóta mín þetta sumarið, heldur er það geðdeild Landspítalans - nema auðvitað að ég guggni á þessu á síðustu stundu og fari aftur í faðm borgarinnar. Það gæti auðvitað gerst - en ef satt skal segja, þá bara langar mig alls ekki til þess. Ég hef fyrir löngu etið nægju mína þar. Kannske er þetta eins og ef maður æti hafragraut í hvert mál í sjö ár, fyrr eða síðar fer mann að langa í eitthvað annað. Grjónagraut, kannske, eða súrmjólk með múslí. Annars leggst þessi nýja vinna bara ágætlega í mig, þannig séð - ég veit að vísu ekkert hvað ég á að gera þarna, og ég þarf víst að vinna með þó nokkuð mörgum lækna- og sálfræðinemum, en það verður víst bara að hafa það. Hlýt nú að þola nokkrar stundir með þess háttar fólki - svona miðað við fólkið sem ég hef umborið hjá bænum. Svo er bara að vona að ég fái nokkrar rólegar næturvaktir.

Annars hef ég verið meira og minna tölvulaus uppá síðkastið - alveg þangað til í gær. Sem betur fer var ég ekki al-tölvulaus; það hefði verið sérlega óheppilegt þar sem fæstir kennarar taka við handskrifuðum ritgerðum og heimaverkefnum núorðið, auk þess sem einn kennarinn er þessa dagana í Danmörku. Ég veit ekki hvað hún er annars að gera þar. Með hjálp Landsbankans hefur mér þó lánast að leysa úr þessu tölvuleysi. Þótt auðvitað sé ágætt að sitja við tölvu Bókhlöðunnar og skrifa, þá er samt þægilegra að geta gert það heima hjá sér (ritgerðirnar sjálfar skrifa ég þó iðulega í Bókhlöðunni, handskrifaðar því þá verður auðveldara að lesa ritgerðina yfir áður en ég skila henni - ég les hana yfir þegar ég flyt hana yfir í tölvuna.

Í Stigahlíð var ég að fara yfir gamlan harðan disk, og rakst þar meðal annars á gamla mynd af kattarskrýmslinu. Eitthvað var hún öðruvísi þá heldur en nú - þessi köttur er í dag kominn með dálítið af örum, þar á meðal á eyrunum, og örugglega eitthvað á rófunni. Og kviðnum, auðvitað. En öll vorum við lítil og saklaus einu sinni, líka fuglaveiðarar sem sjá ekkert að því að koma inn með lifandi fugl og ætla svo að éta hann á miðju stofugólfinu.


Um daginn var annars einhver kattarbjálfi með óttaleg læti hér fyrir utan. Sennilega í helgreipum greddunnar. Minni leist sko ekki á þetta, jafnvel þótt hin væri langt frá svölunum - hún stóð hér við svaladyrnar, horfði út og urraði. Skottið var að þvermáli eins og lítersflaska af Egils Kristal. Kattaurr er undarlegt hljóð - minnir dálítið á mal, en er jafnfullt af pirringi og olíuflutningabíll, ef olíuflutningabílar flyttu pirring.

Efnisorð: , ,

6.2.07

OssomTossom mælir með að sem flestir trítli út á bókasafn og ná sér í Stardust áður en hún kemur í bíó.

Nú, sumir gætu svosem fengið hana lánaða hjá honum, líka. Samkvæmt Neil Gaiman, hins vegar (sjá hér til hliðar), þá á þessi mynd að koma tíunda ágúst á þessu ári. Það er því ekki seinna vænna að lesa bókina áður en myndin kemur. Sumir gætu þó haft meira gaman af því að lesa myndskreyttu útgáfuna.

Það er aldeilis langt síðan ég skrifaði hérna síðast. Alveg bara ríflega vika. Svona er letin ferleg. Eða kannske ekki beinlínis leti þar sem ég hef verið iðinn eins og maur, bara annars staðar heldur en hér. Eftir að hafa barist við lítt virkandi DVD-drif í þessari tölvu allt of lengi, þá tók ég mig loksins til um daginn, föstudaginn ef ég man rétt, og kippti þessu í liðinn. Síðan þá hef ég horft á ófáa diskana - það myndi æra óstöðugan að telja þá alla upp hér, en það ætti varla að koma á óvart að Coupling hafi verið þar á meðal. Annað eins safn af vitleysingum, ha? Nú, svo í tilefni þessa virka DVD-drifs ákvað ég að fá mér aðeins meiri tímaþjóf - eitthvað til að búa til meiri frítíma, sko - og fékk mér Rome: Total War, sem er alls ekki galinn, nema ef maður vill hafa leikinn tiltölulega sagnfræðilega réttan (einhvers staðar, til dæmis á Wikipedia, má finna alls konar upplýsingar um gloppur í sagnfræðikunnáttu leikhöfunda).

Svo varð ég vitni að því (þótt það hafi verið í gegnum sjónvarp) þegar fyrsta snertimark var skorað eftir kick-off í Superbowl. Mikið var ég kátur þá, enda hafði ég ákveðið ríflega kortéri áður að halda með Chicago frekar en Indianapolis. Þetta var hins vegar tiltölulega leiðinlegur leikur uppúr síðari hálfleik, og það hvarflaði jafnvel að mér að fara að halda með hinum - en ég hélt nú aftur af mér og þraukaði, fylgdist með mínum mönnum (já, eða þannig) missa blauta bolta og komast aldrei spönn frá rassi, eiginlega. En svona er þetta nú.

Sjáumst.