Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

30.11.06

Takk, OssomTossom!

Bætti við nokkrum tengingum. Sögur, blogg, tónlist. Ef einhver vill vera á listanum, eða láta fjarlægja sig af honum - bara að láta vita.

Þetta last.fm dótarí er alveg stórskemmtilegt. Hvern hefði grunað að við Kári hefðum svona gerólíkan tónlistarsmekk? Svo segir mælitækið á síðunni...

Að lokum (já, lítið í dag): Skemmtilegt myndband við skemmtilegt lag. Ég skora á fólk að stilla hátalarana eins og hátt og skynsamlegt getur talist, og sitja kyrrt á meðan lagið hljómar. Texta (ásamt enskri þýðingu) má svo finna hér.

29.11.06

OssomTosser no more!

Ég tók eftir því að ég var bara með sjö og hálfa einingu eftir áramót, svo ég ákvað að bæta aðeins úr því. Skráði mig í tvö námskeið rétt áðan. Meiri hljóðfræði og eitthvað sem er kallað „skapandi skrif“, og náði þar með að fá samtals fimmtán einingar á komandi vorönn. Jibbísan.

En nú er hins vegar kominn tími til að velta fyrir sér framhaldsnámsspurningum. Fyrsta spurningin er auðvitað „Viltu í framhaldsnám?“ Henni er auðsvarað játandi. Önnur spurningin er hins vegar erfiðari: „Hvers vegna?“ Það er ekki eins hlaupið að því að svara henni, en ég verð þó væntanlega að hafa svar á glöðum höndum - ef ég væri í því að taka viðtal við tilvonandi nema í mínum háskóla, þá væri þetta fyrsta spurningin mín, og „Bara - æ, þú veist, hvers vegna ekki, sko“ væri ekki nógu gott svar. Þess vegna finnst mér alveg bráðnauðsynlegt að geta svarað þessu, þótt ekki sé nema sjálfs míns vegna. Hvers vegna ætti maður að halda áfram? Bara til að hafa aðeins flottari titil? (Óneitanlega er huggulegra að vera meistari heldur en piparsveinn) Ég kemst ekki hjá því að hugsa sem svo, að það sé dálítið þunnt að fara lengra bara fyrir vinnuna. Veit ekki heldur hvort áhuginn einn og sér sé alveg nóg, en kannske er hann það bara þegar upp er staðið.

Og þar sem að svarið við aðalspurningunni er komið, þá er næsta skref að velta því fyrir sér, hvert maður vill fara. Það eina sem virðist innan seilingar eru Bandaríkin, Kanada og Bretlandseyjar, og þar er Írland lang-áhugaverðast (ég held að Ástralía og Nýja-Sjáland séu utan seilingar, því miður). Til dæmis Cork-háskólinn - þótt ekki sé vegna annars en þess, að Cork virðist vera notaleg borg. Hins vegar veit ég ekkert um hversu góður eða slæmur skólinn þar er, og kannske væri maður jafn vel settur í HÍ. Auðvitað má svo ekki gleyma Bandaríkjunum og þeim fjölmörgu skólum sem eru þar (einn í hverju ríki, að minnsta kosti - en misgóðir, auðvitað). En jæja - ég svosem dulitla stund enn til að velta þessu fyrir mér. Því fyrr sem maður er búinn að ákveða sig, því betra - ekki satt?

27.11.06

There's nothing wrong with OssomTossom's face that can't be fixed with a brick

Ókei, mig dreymdi alveg ljómandi fallegan draum í nótt. Ég stóð fyrir framan spegil og var með svo sítt skegg, að ef ég greip um það fyrir neðan höku, þá var vænn hluti þess hinumegin við hnefann. Ég var bæði sár og svekktur þegar ég vaknaði í morgun og komst að því að það er rétt tæplega tvær fingurbreiddir (ekki fingurþykktir!) að sídd. Ég þarf greinilega að fara að taka mig á í þessum vexti. Hmmm ... ef ég raka allt annað hár af líkamanum, ætli það verði þá meiri hárkvóti til fyrir skeggið?

Annars var ljómandi gaman í skákinni í gær. Tók tvær við Frikka á Grand Rokk, stundum við vænan undirsöng fastagestanna (eða kannske fóru þeir ekki að syngja fyrr en við vorum búnir) og a.m.k. framan af gátum við fylgst með Ashes-keppninni í krikket. Alls ekki svo galin íþrótt, þótt ég sjái ekki fyrir mér að hún muni ná mikilli útbreiðslu á Íslandi, ekki frekar en rúgbí. Því miður. Jæja, við höfum þó a.m.k. skák til að ná upp hjartslættinum og hækka blóðþrýstinginni. Ég held að það sé alls ekki ills viti að lifa þannig lífi að maður verður meira stressaður yfir einni skák heldur en maður hefur verið undanfarnar vikur. Allt verður það líka bærilegra þegar maður hittir vini sína líka.

Kláraði annars að lesa mína fyrstu Jeeves&Wooster-sögu í gær. Ljómandi skemmtilegt. Minnir að ég hafi sagt það áður, en þá má alveg endurtaka það - það er alls ekki verra að hafa séð þættina áður, persónurnar verða bara meira lifandi. Ég býst við að svipað verði uppi á teningnum þegar ég tek mig til og les Pride and Prejudice; að sjá Ehle og Firth ljóslifandi fyrir sér sem Lizzie og Darcy á, held ég, bara eftir að gera söguna eftirminnilegri.

In complete terror and scorn, OssomTossom was somehow reborn

Vísindaferðin á föstudag var stórskemmtileg. Þarf varla að fara nánar útí það - nema bara til að segja hve óttalega skemmtilegt var á Dillons (skemmtilegra en ég hefði trúað), sérstaklega þegar Ace of Spades tættist útúr hátölurunum. Mögulega einn hápunkta kvöldsins - annar var þegar ég uppgötvaði, mér til mikillar ánægju, að Belly's er alls ekki jafn slæmur staður og hann virðist vera. Það er alveg óhætt að sitja þar í sófa og tala við fólk. Held ég - ég veit ekkert hvernig hann verður uppúr miðnætti. Gæti alveg verið að skrýmslin safnist þar saman þegar á líður.

Þar komst ég að því - endanlega - að ég ætti bara að láta brandarasagnir eiga sig. Í það minnsta ef ég er búinn að vera að drekka eitthvað að ráði. Niðurlögin eiga til að hverfa úr minninu á óheppilegustu augnablikum, eða ég kem þeim vitlaust frá mér í fyrsta kasti - og ef maður nær því ekki í fyrsta kasti, þá er allt unnið fyrir gýg. Best að láta atvinnumenn um þetta - ég skal einbeita mér að því að hlusta.

Þetta er alveg út í hött, en á sama tíma býsna fyndið. Þannig séð, sko. Mögulega er þetta ekkert fyndið ef maður hefur aldrei spilað Doom, hins vegar.

24.11.06

AwesomeTossom - well, it's obvious, really

Eftir að hafa séð þessa auglýsingu, þá langar mig bara ennþá síður til að borga með korti heldur en áður. Nema, auðvitað, þegar annað er ekki hægt (til dæmis, þegar ég kaupi eitthvað á amazon eða álíka). Kannske er það bara einhver kjánaleg - jafnvel barnaleg - þvermóðska í mér, en ég hef bara ósköp áhuga á að vera hluti af vel smurðri (og vendilega kóreófgraferaðri) vél. Sérstaklega ekki ef ég tapa á því að vera hluti hennar (færslugjöld eða hvað sem það nú heitir). (Es. Ég klikkaði víst eitthvað á tenglinum - en nú er allt í lagi. Vonandi.)

Annars er lífið ósköp grand. Fór út um daginn og tók mynd af einhverri klessu, brúnni og skítugri - einhvern tímann hefði hún getað kallast snjór, en varla lengur (snjór er hvítur, sko). Hef reyndar ekki séð myndina ennþá, en klessan leit svolítið út eins og engill eða eitthvað álíka. Nema hvað, ég er að taka myndina þegar kona gengur framhjá. „Iht lúhks læk an eindsjel“ sagði hún, og ég nennti ekki að svara henni á íslensku og sagði bara „Jahh“. Hins vegar svara ég á íslensku öllum Íslendingum sem koma til mín í vinnuna og ávarpa mig á ensku. Þá verða þeir hissa, og allir sáttir.

Bara vika eftir af skólanum. Gott mál. Mánuður til jóla. Ágætt. Drykkja í boði Hlandsbankans á eftir. Fínt.

Annars spurði Kári mig um daginn að því, hvað ég teldi einkenna Íslendinga. Ég svaraði því, en áttaði mig nýlega á því að auðvitað er ég ekki í neinni aðstöðu til að svara því. Ekki vegna þess að ég þekki ekki alla Íslendinga, heldur vegna þess að ég þekki ekkert nema Íslendinga (með örfáum undantekningum, auðvitað). Ég hef enga sérstaka hugmynd um hvernig Norðmenn eða Þjóðverjar eða Kanadamenn eru. Fyrst ég þekki bara Íslendinga, þá veit ég varla hvað einkennir þá - það sem gerir þá öðruvísi heldur en annað fólk annars staðar í heiminum. Ég hef kannske einhverjar óljósar hugmyndir um hvernig þeir eru, en ég veit ekki hvort þeir séu samt eitthvað virkilega frábrugðnir öðrum þjóðum.

21.11.06

OrgasmoTossom - just doing his bit to make life better

Spurning dagsins er auðvitað

Ef konur eru eins og vín (og batna bara með aldrinum) er þá ekki ásættanlegt að safna þeim og geyma læstar niðri í kjallara?

19.11.06

OssomTossom - just an intelligent flea on this great grand glorious bitch that is Gaia

Hildur og Sívert gáfu mér flösku af Laphroaig þegar þau komu. Æði. Ég treysti að hún muni reynast mér stoð og stytta í erfiðleikunum framundan - huggari að prófi loknu og klappstýra áður en ég fer í próf. Svo get ég keypt aðra í Ósló áður en ég kem heim. Nema ég kaupi eitthvað annað. Til dæmis er ég alveg að verða búinn með Hjátrúna mína (en ég keypti hana nú bara vegna þess hve flott flaskan er og ég get því, þannig séð, alveg fyllt á hana með einhverju öðru, eða bara haft hana tóma og sett t.d. kerti í hana). Eða þá að ég kaupi einhverja nýja tegund. Einhverjar uppástungur?

Annars fara þau aftur á morgun. Jæja. Ég á nú eftir að hitta þau aftur innan skamms - Sívert kemur sem betur fer heim frá Indlandi í tæka tíð fyrir gamlárskvöld (annars hefði Hildur nú sennilega fláð hann, ef hann hefði verið fjarri bæði jól og gamlárskvöld), og það er því ekki allt glatað. Svo er bara að vona að þau komi að sumri til og geti skoðað aðeins í kringum sig, farið út fyrir bæjarmörkin í einhverja aðra átt en til Keflavíkur. Já, og kynnst næturlífi Reykjavíkurborgar þegar það er ekki bara kalt eða hvasst eða snjókoma, og maginn ekki svo stapptroðinn af hlaðborðsmat að maður er við það að sofna.

18.11.06

OssomTossom gerir álíka mikið gagn og plástur við holdsveiki

Annars fékk ég skemmtilega hugmynd á leiðinni í vinnu í gær. Var með ipoddinn og svona, hlustaði á Sage Francis (svona til að vera ekki balls-to-the-walls metal gaur) og allt í einu sló mig eitt orð. "Heartbeat". Og þá hugsaði ég "Væri ekki kúl ef einhver hljómsveit myndi fjárfesta í púlsmælum þráðlausum, tengja þá við tölvu og búa svo um að hver hjartsláttur hjá hverjum hljómsveitarmeðlim myndi triggera eitthvað trommuhljóð. Hjartsláttur eins myndi þá gefa snerilhljóð, en hjartsláttur annars myndi gefa bassatrommuhljóð. Eitt trommuhögg pr. hjartslátt, eða tvö pr. hjartslátt eða eitt pr. þrjá hjartslætti - óendanlegir möguleikar. Gæti gefið skemmtilega kaotískan trommutakt, sérstaklega ef einn í sveitinni er óhemju sviðshræddur eða annar drukkið of mikið kaffi eða þriðji hleypur fram og til baka og lætur almennt öllum illum látum. Jafnvel þótt bara trommarinn væri tengdur, þannig að einn hjartsláttur = eitt bassatrommuhljóð (eða eitthvað hlutfall sem mönnum lýst vel á, þess vegna 2 hjartslög = þrjú trommuslög) gæti verið spennandi. Síðan byggir hann restina af taktinum í kringum þetta, og afgangurinn af hljómsveitinni reynir svo að halda í við trommarann.

Ég er ekki frá því að þetta sé ein besta hugmynd sem ég hef fengið, a.m.k. á tónlistarsviðinu. Því miður á ég ekki eftir að geta gert hana að veruleika (og kannske - sennilega, raunar - hefur það þegar verið gert) því ég veit ósköp lítið um tæknilegu hliðina á málinu (hvernig sé hægt að tengja púlsmæli við tölvu o.s.frv.), og hef eiginlega hvorki tíma né pening til að fara út í einhverja tilraunastarfsemi - en kannske á einhver annar eftir að gera það. Ókei - ef einhver tónlistarmaður reynir þetta (eða hefur þegar gert þetta), þá vil gjarna fá að vita af því, bara til að heyra hvernig það hljómar.

Is OssomTossom sexy? - Is the bear catholic?


Ég fór allt í einu að velta því fyrir mér hvort ég og áfengi eigum samleið. Hildur og Sívert komu fyrr í dag, við fórum með pabba að eta á Caruso. Það var ósköp gott - en hvernig veit maður hvort maður hafi fengið "þorskshnakka"? Ég meina, fiskur er bara einn stór haus, og svo sporður á endanum. Næstum því hvaða hluti fisks gæti þannig séð flokkast sem hnakki. Jæja, þetta var ósköp gott, hvaðan sem þetta var nú af fisknum.

Það var vín með matnum, eðlilega. Eftir matinn hafði ég svo gert mér vonir um að hitta fólkið úr enskunni á Celtic Cross - en þar var enginn (titwanking tarts). Eftir langa mæðu er ég loksins kominn heim. Allur í rauðum flekkjum, a.m.k. á andliti og höndum. Gömul ör og nýleg sár eru skærrauð, og auðvitað er ég rauðflekkjóttur í framan (það gerist ef ég er latur að fara í gufuböð). Hvað, gæti verið að þetta sé vegna bjórsins og vínsins sem ég drakk í kvöld?

Og - haha - ég er bara 53% Vog. Það er væntanlega innan skekkjumarka. Ég er semsagt - væntanlega - alls ekkert vog, svona þegar upp er staðið.

You are 53% Libra

16.11.06

OssomTossom - because sometimes it's better to detonate a nuke than to curse the darkness

Online comics geta verið til margra hluta nytsamleg, og ekki bara til að fá mann til að brosa útí annað þegar maður kemur heim úr skóla eða vinnu. Tökum Questionable Content sem dæmi (tenging hér til vinstri). Þar er til dæmis hægt að kaupa stuttermaboli, en það sem mér þykir betra er að þar er að finna lítið tónlistarhorn - diskar sem höfundurinn mælir með. Hann mælir með alls konar diskum, og þar sem hann mælir m.a. með Blood Mountain (Mastodon) og The Fire in Our Throats Will Beckon the Thaw (Pelican), ásamt fleirum, þá er ljóst að við höfum að minnsta kosti örlítið svipaðan tónlistarsmekk.

Einn þeirra diska sem hljóta hans meðmæli er Ashes Against the Grain með Agalloch. Ég keypti hann um daginn (á sama tíma og Red Sparowes-diskurinn sem ég skrifaði um fyrir nokkru) og hef hlustað talsvert á hann síðan þá.

Ég veit eiginlega ekki hvernig eigi að flokka hann.

Þetta er ekki diskur sem flestir myndu setja á til að eiga rómantíska kvöldstund - ég geri því ráð fyrir að fæstir sem lesa þetta muni hafa áhuga á honum - á köflum blackmetal (sérstaklega í textaflutningi, þótt söngvarinn ráði alveg við að syngja eins og maður líka), stundum e.k. doom, og alltaf rokk. Lítið um texta, mikið um tónlist og löng lög (átta lög deilast ójafnt á klukkustund). Textarnir eru illskiljanlegir (ekki í flutningi heldur að innihaldi). Kannske er verið að segja sögu, en mér sýnist ekki - mér sýnast þeir frekar vera þarna til að bæta við stemninguna, sem er alveg eins og við er að búast af svona tónlist - myrkur, vetur, kuldi, og svo framvegis, sífelldar vísanir til náttúrunnar. Ekki tónlist sem maður hlustar á textanna vegna.

Það er líka allt í lagi. Það er ekkert alltaf þörf fyrir góða eða innihaldsríka texta, ekki þegar tónlistin er svona góð. Það er svo skemmtilegt með löng lög, að það er hægt að breyta þeim hægt og rólega, án þess að það verði of augljóst - ekki svo að skilja að Agalloch grípi tækifærið til þess nógu oft. Þeir eiga það alveg til að snarhemla allt í einu og gutla aðeins á kassagítarana sína, áður en þeir leggja aftur að stað útí rokkið. Sjaldan er tónlistin algert metal, hins vegar - það er ósköp lítil árás eða ofbeldi í þessari tónlist. Ég sé ekki fyrir mér neina pytti á tónleikunum þeirra - grunar að fólk sé meira fyrir að sitja, eða þá standa með krosslagðar hendur og kinka kolli klárukallalega.

Semsagt - annar kapaldiskur, eða kannske er nær að segja krossgátudiskur? Það er ósköp gaman að leggja kapal - og skemmtilegra að leysa krossgátur - en það er eitthvað sem maður gerir einn. Miðað við að þetta er nú aðeins meira en bara einhver afþreyingartónlist (til að hafa gaman af henni, þá þarf að leggja eyrun vel við - og það er erfitt að hafa hana í gangi án þess að taka eftir henni), þá er ég ekki frá því að þetta megi vel kallast krossgátutónlist. Annar diskur sem er kjörið að hlusta á um hánótt að vetri til við skímu af einu kerti meðan vindurinn hamast úti og snjónum kyngir niður. Í heyrnartólum - auðvitað.

15.11.06

OssomTossom boit pour oublier qu'il vit

Nokkrar góðar uppskriftir úr eldhúsi meistarakokksins:

Kjúklingasúpa fátæka mannsins

1 tengingur af kjúklingakrafti (eða hvað sem það nú heitir)
Vatn

Sjóðið vatnið. Hellið sjóðandi heitu vatninu í stórt glas. Setjið teninginn í vatnið og látið leysast upp. Má krydda með hvítlauk, steinselju eða hverju sem manni sýnist.

Vetrarrúlla

1 pakki af djúpfrystum vorrúllum (t.d. frá Daloon).

Takið pakkan úr frystinum. Opnið pakkann. Borðið rúllurnar áður en þær þiðna.

Herramannsbrauð að hætti Dylan Moran

Brauð (ekki niðurskorið)
Eitthvað mýkra og/eða vökvakenndara en brauð, helst bragðgott (kotasæla, smurostur, vökvinn í stórri krukku af súrum gúrkum)

Takið brauðið, rífið munnstóran bita af því og dýfið honum í þetta sem er mýkra og/eða vökvakenndara en brauð. Borðið.

Óskasamlokan (höf. óþekktur)

2 brauðsneiðar.

Takið eina brauðsneið, og leggið hina ofan á, eins og um samloku. Á meðan borðað er, óskið þess að þið hafið eitthvað álegg á milli.

14.11.06

OssomTossom is one sick puppy

Ég farinn að halda að þessi einkunn sem gefin er fyrir ritgerðinar í ritþjálfun byggist aðallega á útliti, ekki innihaldi. En kannske er ekki hægt að ætlast til annars - það er takmarkað hve miklu innihaldi er hægt að troða í 400 orð. 400 orð, og svo vill kennarinn að ég noti enn fleiri orð - skil þetta ekki.

-+-+--+-+-+--+-+-+--+-+--+-+-+-

Einu sinni skrifaði Shakespeare verkin sín. Allt gott og blessað með það - á einhverju varð kallanginn að lifa. Ef ég man rétt, þá var hann almennt vinsæll, jafnvel á meðal ómenntaðs almúgans - semsagt, lágmenning af bestu sort (nema þá ef almúginn þá var, almennt og yfirleitt, hámenningarlegur). Í dag er hann hins vegar (oftar en ekki) talinn frekar hámenningarlegur, ekki satt?

Það er bara vegna þess hve langt er liðið síðan hann var uppi. Allt gamalt er hámenningarlegt, sko. Þess vegna er frábært að ímynda sér stöðuna eftir svona fimm hundruð ár, þegar Something About Mary og Dumb and Dumber verða komin á Shakespeare-stallinn (og Shakespeare kominn á Hómer-stallinn, og Hómer kominn ...).

10.11.06

When I'm OssomTossom, it feels like I'm made of storm

Geimverurnar geta komið hvenær sem er!

Eða svo segir fyrrum yfirmaður varnarmálaráðuneytisins breska. Ókei, það er auðvitað ekkert vitlaust að hafa einhverjar áætlanir tiltækar, ef svo færi nú að geimverur kæmu hingað. Ég er líka alveg viss um að Bretar hafi einhverjar áætlanir tiltækar ef Frakkar skyldu vilja hefna fyrir Agincourt, og einhvers staðar í iðrum Fimmhyrningsins er vafalaust að finna viðbrögð við innrás sameinaðs hers Kúbu og Kanada.

En samt - það er eitthvað sem mér finnst einstaklega fyndið við þessa frétt.

Í breskum bókmenntum í gær fékk ég að lesa hluta úr The Importance of Being Earnest. Það var bara næstum því gaman - fyrir utan að kennarinn ákvað að ég „byði mig fram“. Ég held meira að segja að ég hafi komist ágætlega frá því - ef ég hefði bara talað aðeins hægar. Væri alveg til í að geta heyrt upptöku af þessu - vita hvernig ég hljómaði eftir á - en enginn hljóðnemi var nálægt, svo ég verð bara að giska.

9.11.06

OssomTossom, kvölds og morgna

Nokkrir diskar rötuðu til mín í gær. Einn þeirra er Every Red Heart Shines Toward The Red Sun frá sveit sem kallast Red Sparowes. Í henni er m.a. maðurinn sem ég sagði frá í gær, þessi myndlistarmaður sem er talinn með þegar Neurosis telja upp meðlimi sína - hér spilar hann á gítar. Hér má líka finna menn úr Isis (eða a.m.k. einn), sem og hljómsveitum sem ég hef aldrei heyrt í áður. Semsagt: Hliðarsveit. Tónlistin er af svipaðri sort og það sem Pelican býður upp á - instrumental rokklög þar sem áherslan er kannske frekar á stemningu heldur en grípandi laglínur. En þrátt fyrir að hafa engan söng, þá er samt gerð lítil tilraun til að segja sögu: Sagan er fólgin í heitum laganna. Til gamans:

[1]The Great Leap Forward Poured Down Upon Us One Day Like A Mighty Storm Suddenly And Furiously Blinding Our Senses.
[2]We Stood Transfixed In Blank Devotion As Our Leader Spoke To Us, Looking Down On Our Mute Faces With A Great, Raging, And Unseeing Eye.
[3]Like The Howling Glory Of The Darkest Winds, This Voice Was Thunderous And The Words Holy, Tangling Their Way Around Our Hearts And Clutching Our Innocent Awe.
[4]A Message Of Avarice Rained Down And Carried Us Away To False Dreams Of Endless Riches.
[5]"Annihilate The Sparrow, That Stealer Of Seed, And Our Harvests Will Abound; We Will Watch Our Wealth Flood In."
[6]And by Our Own Hand Did Every Last Bird Lie Silent in Their Puddles, the Air Barren of Song as the Clouds Drifted Away. For Killing Their Greatest Enemy, the Locusts Noisily Thanked Us and Turned Their Jaws Toward Our Crops, Swallowing Our Greed Whole.
[7]Millions Starved And Became Skinnier And Skinnier While Our Leaders Became Fatter And Fatter.
[8]Finally As That Blazing Sun Shone Down Upon Us Did We Know That True Enemy Was The Voice Of Blind Idolatry; And Only Then Did We Begin To Think For Ourselves.“

Síðan er okkur sagt, í bæklingnum sem fylgir með, að þetta sé sönn saga: Menn reyndu að auka uppskeruna með því að fæla burt spörfuglana, en þá fengu engispretturnar að fjölga sér óhindrað, sem aftur leiddi til glæsilegrar hungursneyðar. Wikipedia staðfestir það (svo framarlega sem hún staðfestir nokkuð).

Þetta er tæpast hávær tónlist, og alls engin partítónlist. Þetta er eitthvað til að hlusta á í heyrnartólum góðum á meðan maður situr í hægindastól þægilegum, einn heima á föstudagskvöldi um vetur á meðan það er brjálað veður úti og lætur fara vel um sig. Jafnvel með vínglas innan seilingar. Öll ljós slökkt, kannske kveikt á einu kerti en þá verður það að vera utan sjónsviðs svo það trufli mann ekki með flökti sínu. Þetta er þannig tónlist. Jafnvel þegar það er ekki í alvörunni föstudagskvöld, veðrið úti er ljómandi og hásumar.

Smá viðbót:

Ég fann nokkrar reglur, og ég held að líf okkar allra muni batna til muna ef við leggjum okkur fram við að fylgja þeim sem flestum. Látið titilinn á síðunni ekki blekkja ykkur - þetta eru virkilega góðar reglur. Leið að fullkomnu lífi.

8.11.06

OT for OssomTossom

Mér finnst frábært að vita af að minnsta kosti einni hljómsveit, þar sem myndlistarmaður er talinn fullgildur meðlimur - sem myndlistarmaður. „Myndlistarmaður“ er þó kannske ekki alveg rétta orðið - þetta er maðurinn sem sér um „visuals“, og ég býst við að það nái lengra en að umslögum og tónlistarmyndböndum, væntanlega eitthvað á tónleikum líka.

Það er svosem ekkert merkilegt að hljómsveitir hafi svona menn á sínum snærum. Væntanlega hafa þær flestar (a.m.k. þessar stóru) fólk til að sinna þessu augnbundna á tónleikum. Mér finnst bara svo gaman að í tilfelli Neurosis, þá sé hann tekinn sem meðlimur, ekki starfskraftur.

Annars hefur hann gert slatta af ágætum tónlistarmyndböndum. Ég hef ekki séð neitt sem hann hefur gert fyrir Neurosis, hins vegar. Síðan hans er hér, og þar má finna nokkur myndbanda hans (ef maður er með Makka).

Ég var annars á göngu í gær, tók smá krók á leið í skólann. Geng út Lækjargötu - og hvað sé ég? Kranabíl að lyfta upp skúlptúrnum á lóð MR. Ég hafði ekki tíma til að fylgjast með öllu sem fram fór, en síðar um daginn gekk ég framhjá, og viti menn: skúlptúrinn var farinn.

Loksins.

7.11.06

My Big Fat Ossom Tossom

Gott ef Sinfest í dag lýsi mér ekki fullkomlega. Fyrir utan að ég er ekki með gleraugu, og langt síðan ég hef verið með slaufu. Svo er ég líka með minna hár. En þar fyrir utan erum við Criminy greinilega bræður í anda.http://www.sinfest.net/

Tenging á myndina sjálfa fyrir þá sem lesa þetta seinna.

6.11.06

To know OssomTossom is to love him

Nýleg frétt.
Jess! Frábært! Einhverjir gaurar, einhverjir sem vildu lappa aðeins upp á karlmennskuna, þeir fóru upp á fjöll til að drepa fugla úr launsátri. Þeir voru þarna með byssurnar sínar og fóru að skjóta á dýr sem gátu engan veginn varið sig gegn þeim. Síðan villast þeir - væntanlega vegna þess að þeir kunna ekki á kort og áttavita - og þeim er síðan bjargað.

Ég hef ekkert á móti dýraveiðum, síður en svo. Ég geri bara þá kröfu til veiðimanna að þeir hagi sér karlmannlega. Það er engin karlmennska fólgin í því að drepa úr fjarlægð eða að vega úr launsátri). Ef þessir menn færu og veiddu villigelti og bjarndýr, vopnaðir spjóti og hníf - þá tæki ég ofan fyrir þeim. Slíkt er ómaksins virði. En að fara svona með byssum ... hvers vegna kaupa þeir sér ekki bara loftbyssu og nokkra páfagauka, og gera þetta heima í stofu? Þá villast þeir a.m.k. ekki á meðan.

Þessar nútímaveiðiaðferðir eru hins vegar aðeins handa heiglum. Þeir leggja sig í tvenns konar hættu. Annars vegar er hættan sú, að einhver annar veiðimaður skjóti þá (sem myndi kæta hvaða Darwin sem er). Hin hættan er sú að þeir týnist. Þetta er hætta sem þeir ættu að geta tekist á við af karlmennsku - sætt sig við niðurstöðuna, en ekki bara hringja í mömmu gömlu ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef maður er kann ekki einu sinni að lesa á kort og nota áttavita, þá á maður næstum því skilið að verða úti - að ég tali nú ekki um ástæðuna fyrir því að þessar kveifar villist til að byrja með. Ég er ekki viss um að þessir „veiðimenn“ geti einusinni þvegið sín eigin nærföt, hvað þá meira.

4.11.06

Should OssomTossom be forgot and never brought to mind?

Bjórsala „frjálshyggjumanna“

Gaman að þessu svokallaða „frjálshyggju“fólki. Miðað við aðgerðir þeirra síðustu daga, þá er það þeirra helsta hugðarefni að fólk geti nálgast bjór og annað áfengi hvar sem er. Auðvitað er það ágætt. Ef maður er frjálshyggjumaður, hins vegar, þá ætti það að vera aðaláhugaefni manns að auka frelsi fólks. ALLS fólks, það er að segja. Ekki bara eitthvað smávægilegt frelsi á einni eyju. Hvað gerir þetta fólk næst? Berst gegn þeirri frelsissviptingu sem felst í umferðarljósunum? Það væri frábær aðgerð: „Næstkomandi föstudag munum við, frjálshyggjufólk, berjast gegn kúgun ríkisvaldsins með því að keyra yfir á rauðu ljósi á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.“

Eins og það sé ekki hægt að finna þarfari baráttumál?

Kannske er þetta eins og með fólkið sem er „grænmetisætur af siðferðisástæðum“. Það veit vel að það getur ekkert gert fyrir allan þennan fjölda fólks sem er býr við „alvöru ófrelsi“, og friðar því samviskuna með því að „gera eitthvað fyrir dýrin“ - eða berst gegn „óeðlilegri einokun ríkisins“. Plástur á meiddið - ekkert meira en það.

Það hefur kostað eitthvað að kaupa allan þennan bjór sem þessir lúðar vildu selja á Lækjartorgi, og þeir munu væntanlega þurfa að greiða dálitlar sektir.
Væri ekki nær að nota þann pening á aðeins uppbyggilegri hátt? Gefa hann bara til einhverra hinna fjölmörgu hjálparfélaga (hvort sem það væri nú Hjálparstofnun kirkjunnar eða Amnesty eða bara eitthvað - Blindrafélagsins, þess vegna), það hefði verið betri nýting fyrir þessar krónur.

2.11.06

OssomTossom, the crackpot dictatee

Það er margt sem má segja um þetta myndband.

Í fyrsta lagi er leitt að sjá hvernig komið er fyrir Fox.

Í öðru lagi er Limbaugh tillitslaus asni (en það er ekkert nýtt).

Í þriðja lagi er áhugavert, það sem mennirnir tveir segja um málið. Ætli þeir séu kannske aðeins demókratamegin við girðinguna? Ég þekki ekki nógu vel til bandarískra fjölmiðla.

Ég fór í annan göngutúr í gær, svipaða leið og í síðustu (eða þarsíðustu?) viku. Ég sannfærðist þá um, að ef ég vilji halda þessu áfram, þá bara verð ég að fá nýja skó. Góða, almennilega gönguskó. Þegar ég kom heim (eftir mun styttri leið en síðast, fór beina leið heim frá Hofsvallagötu) var ég með blöðru undir hælnum hægra megin. Hún var um það bil á stærð við tveggja senta evru, sem er ögn minni en krónupeningur (kannske tveim millimetrum minni í þvermál). Það munu því verða mín næstu stóru innkaup.

Annars er ég loksins búinn að taka mér tíma til að setjast niður og byrja lesa þá fyrstu af Jeeves-sögunum sem ég keypti um daginn. Það er býsna erfitt að hlægja ekki upphátt, og kannske ætti ég barasta ekkert að halda aftur af mér. Það, að ég sjái þá fyrir mér, Fry og Laurie, gerir alls ekkert til. Ég hef skýra mynd af tveim aðalpersónunum - hvað gerir það til þótt myndin sem ég geri mér af þeim sé af leikurum?

Ég geri það sama þegar ég les sögur um Marlowe. Ólíkt mörgum þá sé ég ekki Bogart, heldur sé ég leikarann sem lék Marlowe í sjónvarpsþáttum sem voru sýndir á RÚV þegar ég var níu eða tíu ára. Ég man meira að segja eftir að hafa staðið í röð í Grandaskóla, tala við Jóel um þáttinn sem var sýndur kvöldið áður eða síðustu helgi. Ég man auðvitað ekki nákvæmlega hvert umræðuefnið var - hvaða þáttur hafði verið sýndur eða hvað okkur þótti skemmtilegast við hann - en ég man hvar við ræddum þetta. Og það er nóg.

1.11.06

OssomTossom Madison

Ég veit að ég var búinn að segjast ekki hafa titla sem tengdust umræðuefni færslunnar nokkuð. En þessi titill skrifaði sig sjálfur ...

Mig langar til að læra að sauma. Ég væri til í að geta dregið fram saumavél og saumað á mig t.d. peysu svona hérumbil þegar skapið vaknar. Bara vakna einn morguninn og hugsa "Hey, mig langar í fagurgræna peysu með skarlatrauðum ermum!" og þurfa ekki að æða á milli allra fatabúða bæjarins og koma svo heim annað hvort tómhentur eða með peysu sem er engan veginn í líkingu við það sem mig langaði í. Eða buxur.

Æ, bara ef ég hefði fylgst betur með (fyrir þrettán-fjórtán árum) í hannyrðum í Hagaskóla! Ætlí Mímir bjóði upp á námskeið í svona (og hvað skyldi það kosta), eða þarf ég að fara aftur í grunnskóla?

Þetta er póstur nr. 100. Miniwave in celebration of me! Mikið hefði nú verið gaman ef hann væri innihaldsríkari, en það verður víst ekki á allt kosið. Hann hefði svosem verið drjúgari, blessaður, ef ég hefði sett inn síðustu ritgerðina mína - þessa sem ég skrifaði fyrir námskeiðið þar sem við eigum að læra að skrifa. En ég er hafinn yfir þess háttar bolabrögð og brellur, og mun því ekki drýgja hann með henni, ekki frekar en ég myndi drýgja gras með sagi eða hvað það er nú, sem notað er til að drýgja slíkt. Frekar fylli ég upp í hann með raupi um eigið ágæti - og það er svo sannarlega skemmtilegri lesning.