Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

21.7.08

Þetta er kannske bara áhugavert fyrir mig

Ég rakst á alveg stórskemmtilega síðu áðan. drivethrurpg.com er slóðin. Þarna er hægt að kaupa alls konar RPG-stöff í pdf-skrám. Gamla góða D&D og AD&D-dótið kostar sirka 5 dollara stykkið. Það er bara of gott tilboð til að hægt sé að sleppa því - smá nostalgía fyrir tæpar 400 krónur. Mér þykir það bara ágætis tilboð.

Flúrið er loksins farið að flagna. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að það myndi aldrei gerast, en það byrjaði loksins í sturtunni í morgun. Þá fer nú ekki að líða á löngu uns ég get farið að ganga um í stuttermabolum allan daginn.

20.7.08

Eða kannske voru þær fimm

Mamma Mia! er fín. Of mikið af Brosnan fyrir minn smekk - en hey, er nú ekki bráðum kominn tími til að fyrirgefa honum allar Bond-hörmungarnar? Kannske, en það er langt þar til hann mun hafa bætt fyrir Róbinson-Krúsó-leiðindin.

En þetta var/er fín mynd. Nokkrum lögum ofaukið, svosem - fannst svolítið eins og þau væru höfð með, bara vegna þess að þetta voru Abba-lög. Gerðu ekkert fyrir söguþráð eða persónuþróun, sýndist mér. Þau lög voru ekki aðeins óþörf - þau voru líka of löng. Kannske ef bara viðlagið hefði verið notað, eða fyrsta erindi og viðlag, þá hefði það sloppið.

En jæja. Ég get alveg mælt með þessari mynd. Ég get líka alveg mælt með Horninu. Við mamma fórum þangað eftir bíó - ég bjóst ekki við að það væri nokkur séns að fá borð með svona stuttum fyrirvara (gengum bara inn og ég spurði hvort það væri pláss fyrir tvo gesti enn) en það var ekkert mál. Kannske verra, þetta gæsapartí á næsta borði. En þær þögnuðu þó þegar maturinn kom.

Sveppir eru merkilegar lífverur: Mind-Controlling Fungi!

18.7.08

Síðan ég byrjaði í vinnunni hafa fjórar samstarfskonur orðið barnshafandi

Ríflega hálfur mánuður síðan síðast ... ég ætlaði að vera duglegri, alveg satt, en bara nennti ekki.

Það er líka ekkert að frétta, nema þá helst að ég fékk mér nýtt flúr á þriðjudaginn. Engar myndir til, enn sem komið er, og spurning hvort þær verði nokkru sinni til. Hér er haldið áfram þar sem frá var horfið - svipað form og svipuð uppsetning og á þessu sem er á hægri framhandlegg. Nema hvað, þetta er auðvitað á vinstri framhandlegg.

Svo er bara eftir að bollaleggja hvað kemur næst. En ég held að ég hafi nægan tíma til að finna upp á einhverju.