Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

9.6.08

Akureyri er ágætis bær

Við lögðum af stað svona uppúr fjögur á föstudaginn, ég og pabbi. Stoppuðum á Blönduósi og átum á Pottinum og pönnunni. Ég held að ég megi alveg mæla með því að fólk stoppi þar ef það á leið hjá. Í það minnsta var hamborgarinn sem ég fékk mér afskaplega ljúffengur - og stór. Stærð skiptir talsverðu máli þegar hamborgarar eru annars vegar.

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við að fara til Akureyrar er útsýnið. Hellingur af fjöllum og dölum og flatlendi til að horfa á og dást að. Ef ég verð heppinn, þá mun ég aldrei nokkru sinni þurfa að keyra þangað - verð alltaf bara farþegi. Miklu skemmtilegra. Að vísu þarf maður svosem að hafa auga með veginum og baksýnisspeglinum líka - alltaf að passa sig á sjálfala löggum og rollum utan girðinga.

Við komum svona um tíu, eða a.m.k. milli níu og tíu, til Þorsteins. Byrjuðum að sjálfsögðu á því að fá okkur bjór og blása upp vindsængur. Ég held að það sé alveg á hreinu að ef ég fer þangað aftur, þá tek ég með eitthvað annað en vindsæng til að sofa á. Til dæmis steingólf.

Ég gekk aðeins um bæinn á laugardaginn, bara til að skoða og sjá húsin og landið. Síðast sá ég þetta allt um vetur, en það er ekkert verra að skoða þetta á sumrin líka. Kannske ekki betra - það var fullheitt fyrir minn smekk - en ekkert verra.

Ég get alveg hugsað mér að setjast þarna að. Klára skólagöngu, fá vinnu þarna einhvers staðar, selja íbúðina hér og flytja. Í það minnsta, ég myndi ekki andmæla mjög kröftuglega, ætti ég kærustu sem vildi endilega búa þar. Það er ekkert svo dýrt að fljúga eða taka rútu, ef maður þarf nauðsynlega að komast á Grand Rokk.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Alveg er ég sammála þér með Akureyri, yndislegur bær, og mikið betra veður en hér. Maður þyrfti bara að fá ALLA vini og vandamenn til að sjá þetta og standa svo fyrir hópflutningum..... Hljótum svo að geta dobblað Grand rokk menn til að opna bara útibú til að spara okkur flugkostnaðinn.
-Fritz

08:29  
Blogger Þossi said...

Nákvæmlega! Fjöldaflutningar til Akureyrar innan ... fimm ára? Leggjum bæinn undir okkur!

10:40  

Skrifa ummæli

<< Home