Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

23.7.07

Eru ekki allir jafn spenntir og ég?

Slavocracy

Svo virðist sem Samael hafi gefið út nýjan disk. Svona er þetta, eftir að ég hætti að kaupa Terrorizer og Metal Hammer reglulega, þá bara veit ég ekkert hvað er að ske í tónlistarheiminum. Ég hætti að vísu að kaupa þessi blöð vegna þess að þau voru aðallega að segja mér frá því sem ég hafði engan áhuga á að frétta - meira og minna leiðinlegum poppurum. Maður hefur svosem kynnst nokkrum góðum hljómsveitum í gegnum þessi tímarit - Terrorizer kynnti mig t.d. fyrir bæði Elend, Samael og Moonspell (gott ef ekki í sama tímariti - Samael og Moonspell örugglega, því þessar hljómsveitir áttu báðar lag á geisladisk sem fylgdi fyrsta eintakinu sem ég keypti; það var í frímínútum eða gati á fyrsta ári í MR, í bókabúðinni við Lækjargötu sem síðar varð upplýsingastöð fyrir túrista, og er kannske brunnin núna), og MH hefur væntanlega látið mig vita af einhverju líka.

En miðað við þetta myndband, þá virðist sem Samael sé að ná sér aftur á strik. Á Passage, sem kom út einhvern tíma í kringum 1996, náðu þeir ferlega hátt. Ég held að ég hafði aldrei heyrt neitt beinlínis eins og það. Ég kannaðist svosem við Nine Inch Nails og Bile, og því ekki alveg ókunnugur trommuheilum í rokktónlist, en aldrei svona blanda af aggró og jákvæðu. Tónlistina væri kjörið að hlusta á ef maður ætlaði t.d. að rífa hús með sleggju (alveg eins og Bile), en textarnir voru svona líka svakalega uppbyggilegir og jákvæðir (gerólíkt Bile og NIN). Mikil áhersla lögð á að halda í sitt eigið identítet, gegn stríði (og jafnvel ofbeldi almennt) og þjóðernishyggju, hvatning til að rækta sjálfan sig ... og svo framvegis. Eiginlega líkast textum Henry Rollins, ef eitthvað. Orðalagið hefði stundum mátt vera betra og allt það - en það má skrifast á að enska er, held ég, ekki einu sinni annað eða þriðja tungumál þeirra, þar sem þetta er jú svissnesk hljómsveit - en hugsunin að baki þeim er góð.

En þeir gáfu sumsé þennan disk út um '96, og eins og ári síðar gáfu þeir út smáskífu (Exodussem var ekki síðri. En næsta breiðskífa, Eternal var öllu lélegri. Tónlistin var einstaklega óeftirminnileg og flöt. Textarnir svosem á svipuðum slóðum og fyrr, en hvað sem var svosem gott við þá sökk í þessa leiðindatónlist sem fylgdi.

Þeir hafa greinilega áttað sig á því að eitthvað var bogið við Eternal, því eftir að hún kom fóru þeir í langt hlé - kannske endalaust tónleikaferðalag að hætti Metallica, eða kannske voru þeir bara að vinna í öðrum verkefnum eins og Elend. Um tíma var ég jafnvel farinn að halda að þeir væru hættir. En einhvern veginn rakst ég á Reign of Light - gott ef ég hef ekki skrifað um hann hérna fyrir svona ári eða svo. Afskaplega kættist ég við þann disk - töluverð framför frá því sem Eternal bauð upp á. Reign of Light var eiginlega diskurinn sem hefði átt að fylgja Passage - en maður hefur nú fyrirgefið stærri afglöp, eins og t.d. diskarnir tveir eða þrír sem fylgdu Wolfheart frá Moonspell; ekki slæmir diskar, svosem, en fyrst Portúgalirnir þurftu endilega að gefa þá út, þá hefðu þeir mátt gera það undir öðru nafni. Það er ekkert að því að sömu mennirnir séu í tveim eða þrem hljómsveitum, og geri ólíka tónlist með hverri þeirra.

Og nú er nýr diskur frá Samael á leiðinni, Solar Soul. Kannske er hann kominn út - þá þarf ég að bregða mér inná Amazon eftir mánaðarmót. Miðað við lagið (sem ég tengdi við efst í færslunni) þá ætti það að vera þess virði að kaupa hann. Auðvitað, miðað við myndbandið eitt og sér, þá er þetta frekar slappt, en tónlistin er flott.

Annars byrjaði ég nú á þessari færslu til fagna regninu. Opnunarlagið á Passage hét nefnilega „Rain“: Let it rain a day, a week, a year, og þar sem ég var að leita að myndbandi við það lag (sem er ekki til - myndbandið, altso) rakst ég á „Slavocracy“ - sem kom allri þessari fingraræpu af stað.

Efnisorð:

14.7.07

Laugardraugur og nokkur lög

Faith No More og Boo-Yaa Tribe.

Biohazard&Onyx. Þetta er myndbandsútgáfan, þetta er lagið eins og það var á disknum.

Aukavaktir síðustu tvær nætur, og kannske í kvöld líka. Nema ég verði skynugur og drekki eins og svampur í brúðkaupi Cristínu og Magga. En kannske, miðað við hve lítið ég hef sofið undanfarið, þá þarf ég kannske ekkert svo mikið til að verða fullur og leiðinlegur.

En ég hef þó alltént tónlistina til að rífa mig upp.

11.7.07

ZzzzzZzzzz ... ha?

Ég hef varla gert annað en að sofa síðustu daga. Ég kenni kaffibindindi um. Á mánudaginn, þegar næturvaktarvikunni lauk, hafði ég mig þó til að fara og versla smávegis - ég keypti brúðkaupsgjöf handa Magga frænda og Christinu. Brúðkaup á laugardaginn og ég þarf einhvern veginn að komast upp í Mosfellsbæ. Ætli strætó gangi þangað?

Síðan fór ég að sofa, á mánudaginn, ég sofnaði um tvö-leytið eftir hádegi. Síðan ranka ég aðeins við mér um tvö að nóttu, og fór svo bara aftur að sofa. Ætli ég hafi ekki á endanum staulast fram úr svona um fimm-leytið að morgni og verið á fótum í alveg tvo-þrjá tíma áður en ég fór aftur að sofa. Ég hefði örugglega ekki farið að sofa ef ég hefði nennt að fá mér kaffisopa. Fór aftur framúr uppúr hádegi, og entist aðeins lengur á fótum þá, eða alveg til um tíu. Síðan fór ég aftur á fætur í morgun, kannske um hálfátta.

Má ekki gleyma kaffinu!

Stundaskráin er komin, og hún er ekkert svo óásjáleg. Fjögur námskeið, og aðeins eitt býður ekki upp á fjarnám - verst að það skuli einmitt vera svona snemma á morgnana. Ekki svo að skilja að ég ætli í fjarnám, en hins vegar hafði ég hugsað mér - ef það er í boði - að halda áfram næturvöktum í vetur. Miðað við hvernig næturvaktirnar hafa verið hingað til, þá er hellingur af dauðum tíma á næturnar til að lesa og skrifa. Ég held barasta að það sé langt síðan ég hef lesið jafn mikið og í síðustu viku - lesa lesa lesa. Nú, og annars er önnur hver vika frívika. Já, ef það er í boði þá ætla ég að stökkva á það eins og hákarl.

Það sér þó a.m.k. fyrir endann á þessari ritgerð sem ég ætlaði fyrst að skila ég-man-ekki-hvenær. Bara ef ég gæti fundið eitthvað hjá mér sjálfum til að bæta við alla þessa endursögn og útlistanir á kenningum annarra - þó þannig að það falli vel við heildarmyndina. Ég veit ekki einu sinni hvort það sé beinlínis þörf fyrir slíkt - en samt finnst mér einhvern veginn eins og það verði að vera eitthvað smávegis sem gerir eitthvað meira en bara að sýna að ég hafi svona nokkurn veginn skilið það sem ég skrifa um.

Annars lauk ég nýlega við fyrsta hluta af lítilli sögu - betri sögulok fyrir Litlu hafmeyjuna. Það er til lítil síða þar sem fólk getur sent inn sögurnar sínar og fengið gagnrýni á þær - ég ákvað að senda hana þangað. Þá er bara að bíða og sjá hver viðbrögðin verða, áður en ég fer að vinna að framhaldi þessarar ...

Neurosis gáfu út disk fyrir afar skömmu síðan. Hann virkar vel, svona við fyrstu hlustun.