Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.11.07

Ef handleggur er handleggur og fótleggur er fótleggur -

- er þvagleggur þá ekki typpi?

----

Flesta daga get ég alveg tekið undir þá fullyrðingu að nútímastjórnmál séu bara sjónarspil - eitthvað sem engu máli skiptir, nema þá fyrir fólk að tuða yfir á kaffistofum og í heitu pottunum.

Í stuttu máli, ég gæti alveg tekið undir þriðja pistil Jónasar frá 22.11.07. Því miður býður hann ekki upp á að hægt sé að tengja inn á einstaka pistla frá honum, þannig að ef einhver les þetta eftir þrjá mánuði, þá gæti orðið snúið og langdregið að finna þetta. Ég þekki ekki almennilega til höfundarréttarlaga og ætla því ekki að setja þennan pistil inn hér í heilu lagi.

Nema hvað. Venjulega get ég alveg tekið undir svona fullyrðingar. Nema þegar einhverjir náungar eins og þessi Dévaff-Jónas (kallar sem halda að þeir vita meira en þeir virðast í raun gera), varpa einhverju fram. Til dæmis að segja stjórnmál ekki lengur snúast um „lýðræði, heldur ódýrt sjónvarpsefni fyrir fávita“.

Ef einhver sem ég gæti tekið mark á segði þetta, þá myndi ég hrósa honum í hástert fyrir skarplega greiningu. En þegar einhver svona kall segir nákvæmlega sama hlutinn, þá er mín fyrsta hugsun „Já, er þetta ekki einmitt sérsniðið handa þér?“

Þegar ég stend mig að því að vera sammála einhverjum sem ég tel kjána, þá bregst ég ekki svo við að hugsa með mér að kannske sé hann ekki svo nautheimskur eftir allt saman. Fyrr hvarflar að mér að eitthvað sé bogið við mig, að mínar skoðanir séu reistar á einhverju allt öðru en traustu bjargi skynseminnar - og raunar að þær séu reistar á einhverju enn óstöðugra en sandi tilfinningaseminnar - og sennilegast væri mér hollast að losna við þær sem allra, allra fyrst.

Ég er nefnilega ekkert svo mikið fyrir að taka álit mitt á fólki til endurskoðunar. Hafi ég einu sinni fleygt einhverjum á ruslahauginn, þá á hann erfiðlega endurkvæmt þaðan - og öfugt: Hafi ég einu sinni sett einhvern á stall, þá þarf meira en smá jarðskjálfta til að hann falli þaðan (jafnvel þótt ég gleymi stundum að þurrka af). Þegar ég hef kippt einhverjum af ruslahaugnum og aftur inn í hús - jafnvel þótt hann fari nú ekki strax í heiðurssæti - þá hefur það iðulega reynst skammvinnt. Sorpstybban er alltaf á endanum of megn - út með ruslið!

Fyrst minnst var á Egil, þá má hann eiga það, blessaður, að stundum skrifar hann ansi vanhugsaðar greinar - smjörvitleysan drýpur af hverju stafstrái. Það er að sjálfsögðu talsvert betra en þær greinar sem hann skrifar dags daglega. Dæmi um slíka grein er einmitt hér. Miðað við að þessi kenning hans sé að einhverju leyti rétt - hvað þarf ég að bíða lengi þar til ég gerist nauðgari? Eða er ég hólpinn vegna þess að ég er Íslendingur?

Eða kannske er ég bara bitur og öfundsjúkur vegna þess að allir lesa og dásama prumpið úr þessum lofthænum, en nær enginn nennir að lesa mig.

21.11.07

A sobject is the subject of sobbing

Það er allt of mikið til af samskiptasíðum á netinu - Myspace og Facebook og allt hitt. Grey ég sem hef tæpast tíma til að sinna þessari einu síðu, hvernig á ég eiginlega að finna tíma fyrir allt hitt? Og þessi skilaboðaforrit - messengerarnir og skypin og hitt - je minn eini. Sem betur fer hefur mér enn tekist að halda mig bara við eitt forrit á þeim slóðum, en ég er nú hræddur um að fyrr eða síðar munu þeir múrar líka hrynja.

Ég er heldur ekkert alveg viss hvernig skuli hegða sér á svona síðum eða spjallforritum. Er maður bara dóni ef maður svarar ekki commenti sem einhver setur á síðuna hjá manni? Er maður bara slúbbert ef maður tekur ekki þátt í þessum endalausu bulletin-leikjum á Myspace, eða öllum þessum leikjum sem eru í boði á Facebook? Tjah ...

Kannske er þetta bara áhugaleysi. Mér þykir bara minna varið í netsamskipti en áður. Blogg þykja mér að vísu skemmtileg, hvort sem er að lesa eða skrifa - nema hvað, ég hef lítinn áhuga á að lesa blogg sem eru eintómar tveggja setninga greinar. Ég vil kjöt á þeim beinum sem ég naga - takk fyrir, og ekki væri verra ef það væri smá fita þar líka, og allt saman kryddað með blóðbergi og hvítlauk. Skolað niður með rauðvíni, auðvitað. Viskí í eftirrétt.

Þó myndi ég frekar vilja skrifa þau með penna og bleki á venjulegan, hvítan pappír, og hengja þau þannig upp - en ég nenni ekki að standa í því að skrifa það niður, taka myndir, setja myndirnar í tölvuna og síðan koma myndinni á netið. Það eina sem gæti verið leiðinlegra en það væri að nota einhvers konar „handskriftarfont“, því þeir eru upp til hópa bæði ljótir og ill-læsilegir. Galli við slíkt fyrirkomulag (að skrifa allt á blað, taka mynd og setja á netið) er svo augljóslega sá að ég gæti ekki, eða illa, haft einhverja linka í greininni. Þetta yrði því allt saman fátæklegra en það er þegar.

Þessi netsamskipti eru bara eitthvað svo óspennandi. Eini kosturinn sem t.d. Messenger hefur fram yfir alvöru spjall yfir alvöru bjór á alvöru bar í alvöru reykjarmekki er sá að þegar allt er skrifað og ekkert er sagt, þá er hægt að taka sér aðeins meiri tíma til umhugsunar áður en gáfnaljósið fær að skína. Að þessum kosti slepptum, þá liggur við að ég segi alfarið „Nei takk!“ við slíku.

Blogg, hins vegar, eru næstum því eins og sendibréf. Hvert mannsbarn hlýtur þó að sjá hve skammt sú samlíking nær, en ég vona að líkingin skiljist.

----

Þetta blogg fór af stað 24.3.06, og vantar því bara örlítið upp á að vera tuttugu mánaða. Á þeim tíma hef ég komið saman 202 færslum að þessari meðtaldri. Haldi ég þessu formi, þá verður síðan orðin fimm og hálfs árs gömul, svona hérum bil, áður en ég næ 666 færslum. Kannske ég ætti bara að hrækja í lófana og rumpa þessu af?

19.11.07

Nei, andskotinn hafi það!

- sem er annars ekkert frábrugðið því að segja „Nei, Voldemort/Sauron/Hades hafi það!“

1. Ferlega spennandi málþing síðustu helgi - heimspeki í framhalds- og grunnskólum, gott ef ekki leikskólum líka. Auðvitað missti ég af því. Það er að segja, hefði ég fylgst betur með hefði ég getað fengið frí frá vinnu, skipt á vöktum við einhvern annan og mætt eldhress og kátur til leiks, og hlustað á spekina seytla af vörum fyrirlesarana. En því miður fattaði ég þetta of seint, þegar ég hafði þegar skuldbundið mig til að vera bæði á kvöld- og næturvakt, of seint til að skipta - en eins og flestir þekkja af eigin reynslu er til lítils að reyna að læra eitthvað þegar maður er illa sofinn og búinn að vaka í kannske átján-tuttugu tíma. Ósköp fátt tollir í heilanum þá. Nú þarf ég bara að annars vegar reiða mig á frásögn Atla Harðarsonar, og hins vegar að vona að þetta verði nú gefið út.

Og hvers vegna ætti þetta ekki að vera gefið út? Aðgangur var ókeypis að málþinginu. Það getur varla verið svo dýrt að setja erindin öll sömul á netið, til dæmis á .pdf-formi. Kannske ég ætti að leita að því frekar en að skrifa hér.

2. Nú verð ég víst að hætta að nota sögnina „að gilja“. Ég tók mig til, bara rétt áðan, og horfði á nokkra þætti af Næturvaktinni - og hvað sé ég annað en að karakter Jóns notar einmitt þetta orð. Get nú ekki verið þekktur fyrir að nota sama orðalag og hann, ha? Jafnvel þótt mér hafi verið fullkunnugt um þessa sögn löngu fyrr, eða að minnsta kosti síðan í menntaskóla - gott ef það kom ekki til vegna umræðna um klúrin og klámfengin nöfn jólasveinanna.

Sem minnir mig á Bottom. „And they let children play this, you say?“

17.11.07

Nenni ekki að standa í þessari vitleysu

Ég held ég takmarki barasta skrif mín við eina síðu - þessa hér. Hitt var bara leiðinlegt, óþægilegt umhverfi að vinna í og svo framvegis. Slóðin var samt falleg. En ég nenni ekki að halda úti tveim síðum.

Ég lenti í því um daginn að vera spurður um kennitölu sjúklings á deildinni - þegar hann var bæði viðstaddur og með meðvitund. Mér varð um og ó við þennan ótrúlega dónaskap og hafði ekki rænu á segja annað en að hann (sjúklingurinn, ekki sá sem spurði) vissi hana alveg örugglega. Lendi ég einhvern tíma í þessu aftur, þá held ég að ég eigi eftir að svara með aðeins meira þjósti og sýna þannig fyrirlitningu mína á þeim sem spyr mig frekar en kennitöluhafa. Kannske ég hræki bara á spyrjanda til að undirstrika það - en það væri kannske aðeins of langt gengið. Ætli ég láti ekki nægja að reyna að setja saman einhverjar góðar setningar til að eiga í bakhöndinni - staðlað svar við slíkar kringumstæður, rétt eins og maður er kominn með býsna staðlað svar þegar fólk spyr hvenær kaffið komi fram eða hvort það megi reykja: „Kaffi og sígó er klukkan sjö.“

Annars finn ég hvernig tækjapervertinn er að vakna til lífsins. Ég man eftir að hafa tekið undir þá hugmynd Einars Más Jónssonar (í Bréf til Maríu) hve asnalegt og óheppilegt það væri að geta ekki keypt létta og meðfærilega og ódýra tölvu, bara til að geta skrifað á, tekið við og sent rafpóst, og skoðað sig um á netinu. Nú, fyrir ekki svo löngu síðan rakst ég á einmitt eina slíka: Asus Eee. Mikið óskaplega langar mig í svona. Ég var jafnvel búinn að finna vefsíðu breska sem var til í að selja mér eina slíka, ásamt 4 gígabæta minnislykli, á rétt rúmlega 230 pund (eitthvað um 30 000 krónur) - sendingakostnaður innifalinn. Ef ég gæti nú bara verið viss um að geta sett upp íslenskt lyklaborð á henni, þá hefði ég sennilega fallið í freistingu á staðnum. Þetta er akkúrat málið - fyrir ferðalög, heimsóknir og jafnvel skóla. Rétt svo eitt kílógramm, á stærð við skólabók.

11.11.07

Til hamingju með daginn!

Hákon á afmæli í dag - hann er fimmtán ára, ef ég reikna rétt. Ég var þrettán ára þegar hann fæddist, nýbyrjaður í Hagaskóla. Í dag er ég tuttugu og átta ára. Ég vona að ég sé ekki svo ryðgaður og ósmurður í kollreiknivélinni að þetta sé rangt reiknað hjá mér.

Í dag er líka vopnahlésdagurinn mikli, þegar samið var um vopnahlé í Miklastríði 1918.

Á morgun eiga svo Þorsteinn frændi og Sívert hennar Hildar afmæli. Hellingur að ske, ha?

10.11.07

Flutningar

Þar sem sýniþörf mín er með ólíkindum ætla ég að prófa að flytja blogg mitt á meira áberandi stað. Ég er ekki hættur hér, en ég ætla að prófa þetta nýja og meira áberandi bloggsvæði:

chaomphalos.blog.is

Ég býst við að þarna verði lengri - og kannske ópersónulegri - pistlar heldur en hér. En sjáum til hvernig fer, kannske á ég ekkert eftir að nenna að halda úti tveim svæðum.

8.11.07

Leiðindin og ég

Stundum kemur fyrir að einhver óvenju órólegur er lagður inn. Svo órólegur þykir hann, að öryggisins vegna er kallað á fjórða mann á vakt, og sá verður víst helst að vera karlmenni. Síðastliðna nótt var ég þetta aukakarlmenni. Ég býst við að það hafi þá þegar verið búið að hringja í mér stærri og stæðilegri menn, en þeir ekki verið á lausu - því þótt ég segi sjálfur frá, þá er ég nú ekki sá sterklegasti í hópnum.

En einhver áhrif virðist ég þó hafa, því þessi „órólegi“ svaf alla vaktina. Ekki bara hann, heldur sváfu meira að segja þeir sem venjulega koma fram um fimm til að biðja um undanþágu frá „ekki reykt fyrir sjö“-reglunni. Ég hlýt bara að vera svona ofsalega leiðinlegur.

Ég græt þetta svosem ekkert. Ég hef voðalega lítinn áhuga á að fljúgast á við fólk, og ennþá minni áhuga á að slást við þá sem halda að ég sé einhver sérstakur óvinur þeirra sem vill umfram allt annað gera þeim eitthvað illt. Þá vil ég frekar bara sitja og lesa (á smávægilegum launum), en til þess hafði ég nægan tíma þessa nótt. Ég hafði líka nægan tíma til að lesa og velta fyrir mér nokkrum spurningum sem einhver Mengella lagði fyrir einhverja Vantrúarfélaga. Þótt ég geti nú ekki hrósað því happi að tilheyra þeim ágæta félagsskap, þá þóttu mér þetta nógu skemmtilegar spurningar til að verja hluta næturinnar í að svara þeim.

Stundum hefur maður nefnilega ekkert nema gott af því að dreifa huganum smá frá aðeins brýnari verkefnum ...