Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

20.8.06

OssomTossom - Bogart's alterego

Ég held að það viti á mjög gott ef maður getur setið úti á svölum og horft á norðurljós í ágúst. Það veit á góðan vetur. Ég náði einmitt að gera þetta í gærkvöldi, eftir að ég fór heim af sukkinu. Hitti Kára, fórum til Frikka, fórum niður í bæ hvar allt var fullt, fundum loks nokkur sæti og höfðum það náðugt. Seinna komu Sindri og Höddi og Máni og Dagur, Frikki fór - loks fór öll hersingin á Sirkus. Þá þótti mér nóg komið, enda löng löng röð fyrir utan og ég búinn með pening dagsins, svo ég fór bara heim. En takk fyrir kvöldið, strákar.

Þetta voru ekkert rosaleg norðurljós - bara smá forsmekkur - en þau eru samt alltaf heillandi. Norðurljós eru aldrei leiðinleg. Það má kannske segja, að þessi tilteknu norðurljós hafi ekkert verið merkileg miðað við brjálæðið sem stundum er boðið upp á.

Minnir á bandaríska brandarann: „Sex is like pizza: Even when it's bad, it's still good.“

Sem minnir mig á það: Takk, Stefán Pálsson GettuBetur-kappi, fyrir að hafa minnst á Black Bottle viskí. Alveg ljómandi gott viskí þar á ferð ... já, eða a.m.k. skemmtilegra en margt annað sem heimurinn býður upp á.Sko: „Word of mouth“ er besta auglýsingatæknin sem völ er á. Skyldi Stefán sjálfur vera að flytja þetta inn? Eða er ég kannske að flytja þetta inn, fyrst ég er sjálfur að auglýsa þetta?

Í nótt dreymdi mig síðan draum. Í þessum draum opinberaðist mér hvernig maður skuli gera Skyttu.

Skosk skytta: Skoskt viskí, kakó og sykur eftir smekk.
Frönsk skytta: Koníak, kakó og sykur eftir smekk.
Og svo framvegis og framvegis.

Jæja, á morgun fer ég. Tími til kominn.

19.8.06

OssomTossom - the brightest star in your sky

Alltaf styttist í að Stardust komi. Nú er hún komin í post-production og á víst að koma í bíó á næsta ári. Það er óskaplega langt síðan ég hef beðið svona spenntur eftir kvikmynd í bíó. Jæja, ég var reyndar spenntari fyrir Hringdróttinssögu. En síðan þær komu, þá hlakka ég mest til þessarar. Bókin er stórskemmtileg og ljúf, og þarna eru líka fjölmargir skemmtilegir leikarar. Robert de Niro, Michelle Pfeiffer, Sarah Alexander - og svo framvegis og framvegis. Auðvitað voru gerðar breytingar frá sögunni - en allt með samþykki og/eða þátttöku Gaiman, svo það ætti að vera allt í lagi.

Ef ég mætti aðeins sjá eina kvikmynd í kvikmyndahúsi á næsta ári, þá er það þessi mynd.

17.8.06

OssomTossom - No wishbone

Kári á afmæli í dag - hann lengi lifi.

(ef ég gæti sett inn mynd af köku þá myndi ég gera það)

Ég hélt alltaf að þegar maður væri í fríi, þá mætti maður sofa út eins og mann lysti. En nei ... alla þessa viku hefur einhver elskulegur nágranninn verið í rosaframkvæmdum hérna úti í garði, að gera upp gamla skúra. Í dag - múrbrjótur. Í gær - einhvers konar undarleg sög (ég sá hana ekki). Hávaðinn er bara að aukast. Hvað skyldi hann bjóða upp á á morgun?

Ég er ekki frá því, að snóker sé skemmtilegri en púl. Tekur talsvert lengri tíma að klára einn leik, a.m.k. ef maður er á stærstu borðunum, en þetta er skemmtilegra. Verst að það fattaðist of seint að í snóker geta þrír spilað, hver í sínu liði - stigataflan býður upp á allt að fjögur lið, sýnist mér. Þetta verður endurtekið vonandi einhvern tímann.

16.8.06

OssomTossom - One Life, One Purpose

Í draumum kvöldsins mátti m.a. sjá Jeremy Irons sem galdrakall (ég var í einvígi við hann, og við rifumst um mislitar glerperlur, ekki ósvipaðar þeim sem maður notar í Magic: The Gathering), manninn með klofnu höndina úr Total Recall, og grátandi Tori Amos.

Í Blaðinu í gær eða fyrradag mátti sjá Sigmar B. Hauksson sjónvarpskokk halda því fram að veiðimennskan sé í eðli karla. Það má svosem vel vera, en hvers vegna geta þeir þá ekki fundið eðli sínu karlmannlegri farveg en að drepa laus dýr úr launsátri af svo miklu færi að þeim er öldungis ómögulegt að verja sig? Ef þeir færu til dæmis á villisvínaveiðar með svissneskan vasahníf að vopni - það væri karlmannlegt. Úlfaveiðar með spjóti benda til óumdeilanlegar karlmennsku og dirfðar. Og hvað gæti verið karlmannlegra en að veiða bjarndýr með kylfu?

Sama hvernig menn reyna að fegra þetta áhugamál sitt - dráp úr launsátri þar sem stafar einungis hætta af eigin heimsku (eða annarra veiðimanna) eru ekki karlmannleg. Alveg er ég viss um að Þorgeir eða Kári hafi aldrei lagst svo lágt að veiða dýr með boga og ör - nema líf þeirra hafi legið við.

15.8.06

Kaupæði

Í gær gerði ég svolítið skrýtin kaup. Ég fór útí Krambúð með það í huga að kaupa mér kex, rjómaost og kannske eitthvað aðeins meira ofan á kexið. Ég sá þarna einhvers konar áleggspakka spænskan og hugsaði með mér að þetta gæti nú verið alveg ágætt.

Nú, þetta var alveg ágætt. Skinka og tvær tegundir af einhvers konar kryddpylsu. Mjög gott.

Síðan las ég innihaldið og varð hissa.

Ingrédients: Jambon de porc (145% min).

Þarna hafði ég semsagt verið að eta kjötafurð sem innihélt að minnsta kosti 145% svínaskinku. Ókei, ég get ímyndað mér hvernig það sé að borða kjötafurð sem inniheldur til dæmis 90% svínaskinku, eða jafnvel 100% skinku. En hvar eru þessi auka 45%?

Svarið var nú sem betur fer bara örlitlu neðar:

Pour obtenir 100 g de produit fini est necessaire minimum 145 g de viande de porc.

Í dag gerði ég hins vegar góð kaup. Úti í Iðu við Lækjargötu rakst ég á orðabók, og enga venjulega orðabók. Þetta er Sjömálabókin: Frönsk, þýsk, hebresk, rússnesk, ítölsk, portúgölsk og spænsk - í og úr ensku (ensk-frönsk og frönsk-ensk, og svo framvegis). Svosem ekkert stór bók, bara algengustu orð og eitt og eitt orðatiltæki. Tvöþúsundkall, takk fyrir. Það þykja mér ekki slæm kaup.

14.8.06

Nokkrir linkar

Stundum getur verið gaman að fara um netið og bara elta tengingar. Slíkt getur leitt mann til skemmtilegra mynda.

Til dæmis þessi hér: Góður róni. Eini gallinn er sá að hann hefur ekki alveg náð að skrifa „ninjas“ alveg rétt og setur inn úrfellingamerki þegar engin þörf er á slíku: „ninja's“. En hey, þetta er róni og er því alveg fyrirgefið. Frumlegheitin bjarga líka ansi miklu.

Svo er það þessi teiknimyndasaga hér: dinasaur comics. Ef þið lesið nokkrar sögur aftur í tímann - svona mánuð eða svo, þá ætti að skiljast hvað sé svona sniðugt við þetta.

Nýju Word-pakkningarnar.

Njótið vel, ég er farinn í göngutúr.

13.8.06

Týndi sonurinn sneri heim

... og það hefði verið afleitt að glata honum. Ég hef átt hann síðan í september 1999 - ég hef misst hann undir bíl og ekkert gerðist nema augað brotnaði. Kannske hefði verið einfaldara að fá sér þá bara nýjan - kannske ódýrara líka - en ég lét bara setja nýtt auga í hann. Hann hefur lengi þjónað mér vel, möglunarlaust.

En núna áðan, kannske fyrir 45 mínútum eða svo, þá kom Steini með hann. Nú er hann inni í svefnherbergi að borða enda ekkert fengið síðan á fimmtudaginn, ef ekki miðvikudaginn.

Þetta er meira en bara sími.

Ég er of gamall fyrir svona rugl

Allt, allt of gamall. Gærdeginum eyddi ég liggjandi uppi í rúmi eða á sófanum, þynnri en þynntur pappír sem hefur verið settur í þynnara - allt vegna dulítils óhófs kvöldið áður.

Það sem verra var, ég var líka símalaus - annað hvort hef ég gleymt símanum heima hjá Steina eða þá að hann hefur dottið úr vasanum á leiðinni heim.

En annars var föstudagurinn góður. Fótbolti - Njarðargatan komst í þriðja sæti, sem er ekki slæmt - alls ekki slæmt miðað við það, að allir vorum við í flatbotna skóm og vorum ekkert að hita upp eins og sum önnur lið. Sagan segir að sumir í liðinu hafi jafnvel verið búnir að drekka smávegis áður. Síðan var bara fjör og gaman, ókeypis bjór handa lýðnum, hamborgarar og fínerí.

En best af öllu er að ég er búinn í vinnunni.

10.8.06

Aut tace aut loquere meliora silentio

Þetta væri ég til í að reyna. Að annað hvort þegja eða „tala betur en þögnin“.

Ég reyndi einu sinni. Entist hálfan dag. Væri alveg til í að reyna aftur - en morgundagurinn hentar illa, og það væri svosem ekkert afrek þótt ég þegði allan mánudag (að því gefnu að enginn hringi og ég þurfi ekki að fara út í búð, þá mun ég sennilega þegja þann dag). Það er ekkert afrek að þegja þegar maður er hvort eð er einn. Öllu erfiðara er að þegja þegar maður er umkringdur fólki - og sérstaklega erfitt þegar maður vinnur með manni sem býður upp á skondinn og húmorískan útúrsnúning - helst klúrinn, líka.

Jesúítar, ef ég skil rétt, þeir þegja í fjórar vikur samfleytt. Eða kannske þegja þeir ekki - þeir eiga „a four-week period of silence,“ sem er kannske ekki alveg það sama og að steinhalda kjafti.

Ég væri alveg til í að prófa klausturlíf, þótt ekki væri nema í eitt ár. Ég gæti leigt einhverjum kattelskum íbúðina á meðan - mögulega fyrir afar lítinn pening, fái hann meðmæli frá einhverjum sem ég þekki, eða ef ég þekki viðkomandi persónulega - og verið í klaustri.

Belgíst trappistaklaustur væri kannske best. Trappistar ætlast ekki til þess að munkarnir haldi sig frá áfengi - og þeir gera alveg óhemju góðan bjór. Að fá að komast í gæðastjórnun í brugghúsinu þar - er það ekki bara draumastarf? Hvernig það samrýmist „þagnareið“ þeirra (þeir eru ekki alveg þöglir, en tala ekki meira en nauðsyn krefur) veit ég ekki, þar sem málbeinið verður oft laust eftir nokkra bjóra, en engu að síður væri það þess virði að prófa. Þó væri kannske ánægjulegra ef til væri klaustur, einhvers staðar í Skotlandi, sem gerði viskí. Á móti kæmi að maður þyrfti að vera þar í a.m.k. 10 ár til að fá að smakka viskíið sem maður gerði - en kannske væri það alveg þess virði að vera í klaustri í 40 ár til að smakka sitt eigið viskí.

Væri kannske betra, til að halda muninum sem gerður er í ensku, að tala um annars vegar „viskí“ (Skotland, „Whisky“) og hins vegar „viskeí“ (annars staðar, „Whiskey“)?

Hvernig sem þar er nú, þá er hægt að gera margt vitlausara (og ógeðfelldara!) í nafni trúarinnar heldur en að ganga í klaustur.

7.8.06

Hey, áttu smá pening aflögu?

Trítlaðu þá hingað ... og sjáðu hvort þarna sé ekki eitthvað að þínu skapi. Þessi hér er óneitanlega býsna falleg, sem þessi hér er hins vegar ekki - sérstök, en ekki falleg. Jæja, hún er nú hvort sem er uppseld svo ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að falla í neina freistni þegar að henni kemur. Neðst á þessari síðu eru hins vegar tvær uppseldar, vafalaust rándýrar þegar þær voru til sölu - en mér þykja þær líta býsna skemmtilega út.

Jæja, nóg komið af klámi (þegar ég horfði á Top Gear Extra í gær, þegar ég var í heimsókn hjá pabba, þá lýsti stjórnandinn einum bíl einmitt með þessum hætti: That's not a car, that's pornography!). Ég á bara fjóra daga eftir af vinnunni - fjórir dagar og þá er ég frjáls! - og ég vona svo sannarlega að ég muni ekki fara þangað aftur á meðan núverandi stjórn er þar. Þá myndi ég frekar vilja vera leiðbeinandi á leikjanámskeiði hjá ÍTR. Þá eru bara tvær vikur þangað til ég fer til Noregs - hvar ég mun dveljast í tvær vikur - og best af öllu er að ég þarf ekki að kaupa myndavél í fríhöfn, vegna þess að Kári var svo ljúfur að gefa mér sína gömlu myndavél; einmitt sú myndavélasort sem ég hafði í hyggju að kaupa, eða eitthvað á þessum slóðum. Þannig að allt er að smella saman - ég get kannske öðlast ryksugu í staðinn! Það væri a.m.k. alveg ágætt að eiga eina svoleiðis, svona til að þrífa staðina sem rykmoppan kemst ekki að og til að sjúga upp það sem festist ekki í moppunni.