Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.5.08

Það er styttra til Rauðavatns en marga grunar

Ég hélt að þetta myndi taka töluvert lengri tíma. Í það minnsta bjóst ég ekki við því að það tæki einungis fimm tíma að fara til Rauðavatns og svo heim aftur. Ef ég hefði nú bara lagt fyrr af stað - og haft vit á að hafa með mér nesti.

Eins er skógurinn í Elliðaárdal stærri en hann virðist vera, utanfrá séð. Og ef maður er heppinn/skynsamur, þá er vel hægt að finna staði þar sem ekkert heyrist nema árniður og fuglasöngur. Enginn bílaniður. Þarna mætti vel skella sér í tveggja-þriggja daga útilegu.

brjóst brjóst brjóst brjóst...

Hversu lengi er hægt að velta því fyrir sér hvort afkomendur dreka hafi brjóst eða ekki? Mjög lengi. Þessar furðulegu deilur hafa nú staðið síðan í desember í fyrra - síðasta innleggið var sett inn þann fimmtánda maí. Sextán síður, en ég hef nú ekki nennu í að stauta mig í gegnum þetta allt saman. Þó hef ég lært eitt nýtt orð - scalies: Eins og furries, bara með hreistri. Namminamm.

Eins er ég sáttur við úrslitin í gær. Þar sem þetta fór í vítaspyrnukeppni, þá get ég sagt sjálfum mér að hvorugt liðið hafi unnið - það er tap að þurfa að útkljá mál í vítaspyrnu. Sem er einmitt það sem ég vildi helst. Annars var nú varla annað hægt en að vorkenna Chelsea-manninum Binna - hann og sonur hans voru sennilega þeir einu sem virkilega héldu með einu liðinu umfram annað. (Arnar er Leeds-maður, Síon er ... eitthvað, og pabbi er Real Madrid-áhangandi.)

21.5.08

Kindur eru víst ansi liðtækar í Ólsen Ólsen

Af Vísindavefnum:

Úrvalsforystukind er bónda á útbeitarjörð meira virði en metið verði til peninga. Hún er félagi hans við gæzlu hjarðarinnar og hagnýtingu beitilandsins, - gleður hann þar að auki að sínu leyti eins og góðhesturinn eiganda sinn, þótt með öðrum hætti sé. Um forystufé

Hvaða á þetta að þýða ... „gleður hann að sínu leyti þótt með öðrum hætti sé“? Bændur riðu sínum góðhestum - en hvað í ósköpunum gerðu þeir þá með rollunum? -Tóku í Ólsen Ólsen, sennilega.

Annars kíkti ég á hesta í gær. Fyrsta skipti sem ég hef séð hesta heillengi. Ég hjálpaði meira að segja til við að koma nokkrum inn í hesthús. Svona eru nú vinnufélagarnir skemmtilegir - maður er jafnvel til í að keyra með þeim til Stokkseyrar til að smala hestum. Einn reyndi að vísu að éta jakkann minn, en hann var heldur ekkert sérlega greindarlegur að sjá.

8.5.08

Hvar er fokkings Effið?

Þá er ég búinn að sjá Bjólfskviðu. Tölvuútgáfuna, sko - þessi sem var í bíó einhvern tíma fyrir jól. Mér þótti hún barasta ágæt. Eiginlega var betra að hafa lesið hana fyrst, þar sem sögunni er breytt eilítið. Ánægjulegt að það verður frekar snemma ljóst að Bjólfur er ekki þessi fullkomna hetja sem maður hefði getað haldið að hann væri miðað við kviðuna.

Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem Gaiman segir Bjólfskviðu - hann hefur skrifað að minnsta kosti eina smásögu og, ef ég skil rétt, samið eitt kvæði um sama efni. Hann er fyrirtaks sögumaður.

Tölvugrafíkin var stundum frekar ómerkileg og jafnvel kom það fyrir að hún þvældist fyrir, en almennt var hún ekkert svo slæm. Það var jafnvel kostur, stundum - þegar þurfti að spóla fram um nokkra áratugi, þá var öldrunin trúlegri heldur en ef þetta hefðu bara verið venjulegir leikarar. En stundum þótti mér fólkið samt svolítið dautt að sjá.

---

Þýðingin virðist hafa dugað ágætlega. Eftir að hafa skipst á póstum í dag og í gær virðist þetta allt saman hafa smollið saman. Ljómandi gott, allt saman.

---

Tölvan tók upp á því fyrir nokkru, að því að mér sýnist af sjálfri sér, að skipta um nöfn á drifum. Stóri harði diskurinn minn, þessi með t.d. allri tónlistinni, sem hefur alltaf heitið E:, hann kallaðist skyndilega F:, á meðan að litli minniskubburinn (F:) fékk allt í einu stafinn E:. Mikil gleði fylgdi í kjölfarið, en það lánaðist svosem fyrir rest að láta forritinu skiljast að núna væru öll lögin á F: en ekki E:. Síðan langaði mig skyndilega að grípa aðeins í Baldur's Gate - sem ég geymdi á harða disknum - og auðvitað vildi tölvan ekkert skilja eða gera. Meira ruslið, þessar bannsettu tölvur.

Já, og hvers vegna er Myspace allt í einu á spænsku?

7.5.08

Rassinn hennar var eins og poki fullur af hvolpum sem búið er að fleygja útí tjörn ...

... allt á fleygiferð, og ómögulegt að líta undan.

Þau eru heldur betur að slá í gegn, þessi þráðlausu heyrnartól sem ég keypti mér fyrir nokkru. Nú get ég legið uppí sófa langt fram á kvöld og hlustað á hitt og þetta. Alveg laus við allar áhyggjur af því að ég sé að trufla grannana eða halda vöku fyrir börnunum þeirra. Ef ég ætti nú einhvern þægilegan stól til að hafa úti á svölum gæti ég jafnvel setið í honum og hlustað nokkuð óbrenglað á hvað sem mig lystir. Ég get vaskað upp - og hlustað á tónlist á meðan. Ég get meira að segja verið í litla herberginu - en það þarf svosem enginn að vita hvað ég geri þar á meðan ég skemmi í mér hljóðhimnurnar. Nema það er alveg víst að ég er ekki í sturtu. Ætli það séu til vatnsheld þráðlaus heyrnartól? Þá þyrfti ég að fá mér svoleiðis. Verst er að ég get ekki ryksugað á sama tíma ... öryggið virðist ekki ráða við allt þetta rafmagnsdrasl í sambandi á sama tíma.

Svo má ekki gleyma tónlist dagsins: Svosem ekkert merkilegt myndband, en frábært lag.

Sumarfrí, taka tvö

Ég má nú til með að benda á þessa frétt: Kentucky-veðreiðarnar 2008. Ég veit svosem ekki hvað er til í því að Hillary hafi veðjað á merina, eða filly eins og þeir kalla hana (það er kvendýr sem er ekki nógu gamalt til að kallast meri, segir Wikipedia mér. Ég er ekki nógu vel að mér í hrossamálum til að vita hvað svoleiðis heitir á íslensku). En úrslitin eru rétt.

Gott er að vera í fríi. Hægt að nota tímann í margt gott og skynsamlegt. Svo má líka leyfa sér að sluxa og slóra, lesa, leika sér og fara í langa göngutúra. Ég held að ég hafi tekið að mér að þýða einhvern abstract fyrir verðandi hjúkkur. Svo stutt að það tekur því varla að gera það.

Í rauninni er bara eitt sem ég þarf að gera í sumar, og það er að finna eitthvað skemmtilegt ritgerðarefni sem ég get rumpað af á skynsamlegum tíma. Það er allt og sumt. Annars get ég bara gert það sem mig langar til og látið annað liggja á gólfinu.

4.5.08

Ég er að verða uppiskroppa með blóðberg!

Ég hefði sagt "I'm running out of thyme!" en síðan fór mig að gruna að það sé ferlega gamall - og þá líka fúll - brandari.

Sko. Það er ekki þannig að mér þyki leiðinlegt að skáldsögur. Mér finnst bara leiðinlegt að skrifa um þær.

Hvað um það. Ég fæ ekki betur séð en að það sé steypuhrærivél á sviðinu. Galli við myndbandið: Það heyrist illa í von Till. Það heyrist betur í honum hér, en þetta er bara ekki eins flott myndband. Eiginlega er þetta bara frekar leiðinlegt myndband. En það heyrist betur í sumum, svo það má kannske reyna að láta þau tvö renna samtímis. Nema auðvitað er tónleikaversjónin aðeins hraðari heldur en plötuversjónin. Þetta á því ekki eftir að passa alveg saman. En live myndbandið er svosem ekkert alltaf voðavel klippt saman við hljóðið, svo það gæti alveg verið í lagi líka.

2.5.08

Frír!

Þá er önninni lokið og ég get snúið mér að skemmtilegri hlutum. Satt best að segja var þetta nú ekki besta önnin frá upphafi; á meðan málvísindin vor feykiskemmtileg (en kannske örlítið stefnulaus?), þá hafði ég ekki alveg jafn gaman af bókmenntunum. Ég bjóst svosem við að þurfa að stauta mig í gegnum eins og einn Dickens (sem ég gerði svo ekki þegar upp var staðið), en ég hafði vonast eftir skemmtilegri ljóðskáldum. Á hinn bóginn ... kannske var ágætt að fá að kynnast einhverju nýju. En þetta var samt ekkert svo ofsalega skemmtilegt námskeið, svona á heildina litið.

Nú er ég aftur á móti kominn í frí. Ég held að mér sé óhætt að kalla þetta frí þótt ég eigi eftir að vera aðra hverja viku í vinnunni. Það er bara önnur hver vika af um það bil nítján. Þá hef ég níu vikur í fríi. Ég hef ekki enn ákveðið í hvað ég ætla að verja þeim. Ég er þó nokkuð ákveðinn í að reyna að komast aðeins út fyrir bæjarmörkin - en ég veit ekki hve langt ég nenni að ganga í þeim efnum. Þá er heppilegt að strætó gengur alla leið til Akraness. Ég gæti stokkið út á miðri leið og t.d. trítlað á Esjuna. Það er jú frekar slappt að vera næstum því þrjátíu ára og aldrei séð Reykjavík frá þeim sjónarhóli. Ekki svo að skilja að þetta sé sérstaklega merkilegur staður - kannske bætir fjarlægðin hana eitthvað? Kannske ekki.

Ég býst í það minnsta við að vera duglegri við skriftir í sumar heldur en ég hef verið undanfarinn mánuð. Svo kemur bara í ljós hvað gerist næsta vetur.