Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

27.9.07

Mikið væri ég til í að hægt væri að láta græða í sig raddbönd

Þá myndi ég vilja þessi, takk fyrir!

25.9.07

Steven Pinker talar um áhugavert efni. Þetta er (að hluta til!) einmitt það sem ég er að læra í skólanum þessa dagana - sagnorð og hvernig er hægt að raða öðrum orðum í kringum þessi sagnorð.

Þarna á ted.com er að finna fjölda fyrirlestra. Kannske maður ætti að fá sér svona vídeó-ipod til að geta horft á (eða a.m.k. hlustað á) eitthvað af þessum fyrirlestrum?

24.9.07

Allir yfir einn og fimmtíu geta með góðri samvisku sagst vera hátt í tveir metrar á hæð

Nú jæja, þá er ég kominn með fast næturvaktarskema. Frá og með fyrsta október byrja ég á stöðugri rúllu, sjö dagar í vinnu og sjö dagar í frí. Mikið er það nú notalegt að hafa þetta hæfilega niðurnjörvað og geta þá hugsað sér aðeins hvað ég vilji gera á frívikunum. Fara til Bergen, fara til Hafnar - nú eða bara fara til Ísafjarðar eða Egilsstaða eins og eina helgi. Mér lýst ofsalega vel á þetta allt saman.

Fyrir nokkru álpaðist ég til að kaupa tvær bækur í gegnum Bóksölu Andríkis, og fékk í verðlaun ársáskrift að Þjóðmálum. Kannske hefði ég betur keypt þessar bækur úti í búð. Í þessu nýjasta tímariti er t.d. sagt frá því að bókin Biblían á hundrað mínútum skuli ekki fást á bensínstöðvum, ólíkt því sem gerist í Noregi.

Raunar minnir þessi titill, Biblían á hundrað mínútum, talsvert á bókatitla sem sagt er frá í inngangi að Lifum lífinu hægar - bækur skrifaðar handa tímaþröngum foreldrum og heita Kvöldsagan á einni mínútu. Hvílíkur draumur, að þurfa ekki að sóa nema einni mínútu í að lesa heila sögu fyrir börnin á kvöldin áður en maður getur aftur snúið sér að einhverju sem virkilega skiptir máli. Annars væri fróðlegt að glugga í þessa bók, þótt ekki væri nema bara til sjá hvað höfundar hafa talið vera það merkilegasta í Biblíunni.

En já - það er fátt virkilega spennandi í þessum þjóðmálum. Greinar eftir Björn Bjarna og útdráttur úr bók eftir Gunnar Dal kitla mig ekki sérstaklega. En sjáum til. Ef þetta tímarit verður jafn fyrirsjáanlegt og almennt óspennandi og Vefþjóðviljinn þá nenni ég nú ekki að borga meira fyrir það - ætli það séu ekki svona tvær-þrjár greinar í mánuði í Vefþjóðviljanum sem eru skemmtilegar, áhugaverðar og þess virði að lesa þær.

7.9.07

Sísífos

Á laugardaginn reið ég rafti. Mér er alveg sama hvað fólk segir um að orðasambandið „að ríða röftum“ þýði eitthvað allt annað, og að „raftur“ sé húsþak eða eitthvað álíka óspennandi. Hvað mig varðar, þá eru hljóðin í „rafting“ og „raftur“ nógu lík til að mér detti ekkert fallegra orð í hug fyrir svona útiveru heldur en „raftareið“. Punktur og basta.

Þetta var annars ósköp skemmtilegt, að róa og fljóta svona niður ána. Bara útsýnið og landslagið var þess virði að detta einu sinni í vatnið (sem var alls ekki eins kalt og maður hefði haldið). Ætli ég fari ekki aftur í svona? Guðjón, ein hjúkkan á deildinni, sagði frá því að hann hefði farið í eina tveggja daga raftareið á Indlandi eða í Nepal, og ég skal alveg trúa að eitthvað þess háttar sé alveg meiriháttar. Í allra minnsta falli getur maður ímyndað sér að maður sé í Hringadróttins sögu eða eitthvað ...

Í gær held ég svo bara að ég hafi komist eins og einu hænufeti nær því að klára heimspekina, þegar ég senti leiðbeinandanum það sem ég vona að sé svo gott sem heil ritgerð. Efalaust má klippa af sumum köflum og bæta við aðra, bæta uppsetningu eitthvað og snurfusa hér og þar, en annars held ég að þetta sé bara ansi nálægt markinu.

Og þegar ég næ því byrja ég upp á nýtt, í þetta sinn á ensku. Ég ætla að vísu ekki að byrja fyrr en hitt er í höfn, en ég er þó farinn að velta fyrir mér hugsanlegum efnum. Það kemur allt í ljós síðar.