Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.6.07

OssomTossom skiptir um gír - og bakar sér kannske óvinsældir meðal nágranna

Þegar ég kom heim í gærmorgun eftir að hafa tekið, í fyrsta skipti, kvöldvakt og næturvakt í einum rykk, þá var ég eitthvað lítið þreyttur - eiginlega bara ósköp orkumikill og hress. Það var auðvitað ekki nógu gott, því ég átti að mæta aftur á kvöldvakt í gær (semsagt - ég kom heim rétt fyrir níu og átti að mæta aftur til vinnu fimmtán þrjátíu). Til að losa um eitthvað af þessarri gríðarlegu orku, þá endurskipulagði ég stofuna. Gerði meira að segja litla teikningu og allt.

Þegar ég kom svo heim í gærkvöldi (laust fyrir miðnætti því ég fór niður í 10-11 við Austurstræti til að fá mér eitthvað í gogginn) hóf ég svo framkvæmdir. Skrifborðið, sem hingað til hafði staðið upp við austurvegginn (jaa ... a.m.k. þann vegg sem kemst næst því að vísa til austurs, jafnvel þótt vel kunni að vera að hann sé meira svona aust-norð-austur), það dró ég út á mitt stofugólf - og lét þar við sitja. Hvílík breyting! Þannig losaði ég sko um helling af dýrmætu veggplássi.

En það var samt ekki nóg. Litlu hillunni sem stóð við hlið skrifborðsins góða mjakaði ég örlítið í suðurátt, auðvitað eftir að hafa tekið síma og módem og þess háttar úr sambandi. Annars hefði það allt saman bara hrunið niður á gólf. Hægindastólinn, sem fram til þessa hafði verið upp við norðurvegginn, austan útidyrahurðarinnar, tók ég upp (með tveim höndum) og setti fram á gang. Pappakassavirki kattarins, sem ver við hlið hægindastólsins, setti ég þessu næst í hægindastólinn.

En þá var líka komið að aðalframkvæmd kvöldsins. Sófinn, sem var upp við austurvegginn (og því upp við vegginn sem skilur að íbúð mína og íbúð nágrannans í nr. 8), hann var dreginn yfir stofugólfið (með merkilega litlum skruðningum, enda er þetta nú ósköp léttur og þægilegur sófi) og slengt upp við norðurvegginn þar sem hægindastóllinn var áður. Stofuborðið fylgdi með í kaupunum. Á þessum tíma þótti mér nóg komið af stórfelldum framkvæmdum, enda klukkan farin að nálgast eitt. Ég lét mér því nægja að taka geisladiska, bækur og þess háttar úr hillunni (eða heitir þetta kannske hillusamstæða?) sem stóð við suðurvegginn vestan gluggans og koma fyrir þar sem það yrði ekki fyrir. Síðan fór ég að hátta, þar sem næsti liður framkvæmdanna yrði tiltölulega hávaðasamur - naglar reknir í vegg og þess háttar - og best að geyma slíkt til morguns.

Ég vaknaði rétt eftir sjö í morgun, eldhress og tilbúinn að klára stofuna. Hilluna, sem ég hafði að mestu tæmt kvöldið áður, tæmdi ég alveg (og þurrkaði af hillum eftir þörfum) og mjakaði rólega í vesturátt, svo nú stendur hún við vesturvegginn og horfir til austurs, rétt eins og sófinn hafði gert áður. Ég fyllti á hana í rólegheitum, kom diskum fyrir og flokkaði þá eftir því hve mikilvægt mér þótt að geta komist í þá - hinir ómerkilegri voru settir innst í hillurnar, en hinir, sem mér þykir mikilvægara að geta nálgast, voru settir fram fyrir þá. Í hverri geisladiskahillu er því tvöföld röð geisladiska. Um þetta leyti var klukkan orðin átta, svo ég taldi óhætt að vera með smá læti - ég rak tvo nagla í vegginn sem ættu að duga eitthvað til að halda hillunni stöðugri.

Að hillunni færðri og fyllti kom að næsta skrefi framkvæmdanna, en það var að færa skrifborðið þar sem þessi hilla var áður. Það gekk svona líka ljómandi vel - það smellpassaði í hólfið sem hillan hafði fyllt áður. Auðvitað - annars hefði ég ekkert farið af stað í þessar framkvæmdir. Þetta var allt útmælt og pælt, sko. Hægindastólinn setti ég svo við hlið hillunnar nýfluttu, og allt var orðið býsna gott. Eftir smá tilfæringar krossviðskassa (eða ég held a.m.k. að þetta sé krossviður) og lítils náttborðs er gegnt höfðu hlutverki bókahillu undir gluggakistunni gat ég svo sett pappakassakastalann undir gluggakistuna, og verkið var eiginlega fullkomið.

Núna hef ég talsvert meira gólfpláss en áður, þykir mér, en þó þykir mér ánægjulegra að geta aftur dregið frá glugganum hvenær sem er dagsins, án þess þó að eiga nokkru sinni á hættu að sólin glampi af tölvuskjánum og geri mér lífið leitt. Einnig hefur aðgengi að hillunni sem ég flutti batnað mjög - hér áður var sófinn nefnilega dálítið fyrir og hindraði sérstaklega að auðvelt væri að komast í neðstu hillurnar.

Annars er bara mest lítið í fréttum.

26.6.07

Scrooge McTossom

Á netrölti mínu hef ég rekist á margar fyrirtaks síður. Þessi er þó með þeim betri sem ég hef fundið nýlega - og nú deili ég henni með öllum sem hingað kunna að villast.

Hér er til dæmis síða frá því um 1997. Rammar fjögur til sex - dálítið kunnuglegir, ha?

15.6.07

Ossom never lies

Eða svo segja Portúgalir ... eins og heyra má hér í kringum 2:16.

13.6.07

Erettekki týpískt?

Ókei, í dag fór ég aftur á æfingu. Á föstudaginn þóttist ég of aumur og ég hreinlega svaf yfir mig á mánudaginn. En í dag fór ég og þóttist nokkuð viss um að ég ætlaði að halda áfram, a.m.k. í mánuð, sennilega út sumarið og helst bara eins lengi og ég hef tíma til. Ég borgaði þess vegna mánaðargjald, skráði mig í félagið og á einhvern póstlista og svo framvegis. Flott mál, nú var ég tilbúinn og æfingin byrjaði.

Fyrst rifnuðu buxurnar mínar þegar tíminn var hálfnaður. Þetta voru nú bara hræódýrar Hagkaupsbuxur, ég held að ég hafi ekki borgað meira en tvöþúsund krónur fyrir þær á sínum tíma. Saumurinn fór í sundur í klofinu og langt niður eftir innanverðu lærinu. Ég þakka bara mínum sæla að ég hafi verið í nærbuxum. Ég var þarna bara í léttri glímu við einhvern strák, bara ósköp mikið fjör að glíma og æfa einhver tök og fara í kollhnísa en halda þó samt í annan handlegginn hjá hinum svo maður geti síðan læst honum og haldið föstum. Ágætis átök og svona, en einhvern veginn tókst mér að koma mér í þá stöðu að heyra hvernig buxurnar rifnuðu - og, eins og ég sagði, allt hefði sveiflast út hefði ég ekki verið eins skynsamlega klæddur og raunin var.

Jæja, þetta var bara svolítið neyðarlegt og leiðinlegt, því nú þarf ég væntanlega að fjárfesta í öðrum buxum - sterkari buxum. Verra var þegar dálítið var liðið á tímann, sennilega um tíu mínútur eftir, og við erum ennþá að glíma, ég og þessi strákur. Ágætur strákur annars, duglegur að segja byrjandanum mér til og allt það. Nema hvað, í miðjum átökunum gerist annað hvort: i) Ég ræðst á hnéð hans af miklu offorsi með brjóstkassanum mínum eða ii) hann rekur hnéð af krafti í bringuna á mér. Kannske einhver blanda af þessu - bara eitthvað sem getur gerst í hita leiksins þegar við erum tveir að hnoðast á gólfinu. Hvernig sem það er, þá vildi ekki betur en svo til að nú er ég með brákað (já eða brákuð) rifbein og get því ekki mætt á æfingar næstu eina til tvær vikur - sjálfum finnst mér líklegra að ég verði frá í tvær vikur. Það þykir mér bara býsna flott mál. Ég get varla dregið djúpt andann án þess að finna smávegis til, og get eiginlega bara gleymt því að lyfta einhverju þyngra en bók með hægri hendi.

Semsagt - fyrsti tíminn sem ég borga fyrir, og buxurnar rifna og rifbein brákast. Fall er fararheill, ha?

7.6.07

OssomTossom óskar Elínu til hamingju með afmælið (fyrir tveim dögum síðan, að vísu)

Jæja, ég prófaði eina æfingu hjá Mjölni í gær. Ég ætlaði að vísu að mæta á mánudaginn en svaf víst óvart yfir mig, enda var ég óskaplega þreyttur eftir helgina. Ég rétt hafði mig í að fara á fætur til að fara í berklapróf og lifarbólgu-B bólusetningu, en svaf annars bara nær allan mánudaginn - fyrir utan að ég tók stutt hlé á svefninum til að tefla við Frikka. Í þeirri viðureign vann svartur alltaf.

En já, það var fjör hjá Mjölni og ég held barasta að ég muni halda áfram að mæta þangað í sumar. Nær stöðug áflog og glíma, óskandi að ég geti haldið þar áfram í haust eftir að skólinn fer af stað. Það er nefnilega langt síðan ég hef verið svona óskaplega þreyttur í skrokknum - útkeyrður, eiginlega. Ég át vænan kvöldmat með pabba (sem er að fara til Noregs í fyrramálið) í gærkvöldi og samt vaknaði ég svangur í morgun. Langt síðan ég hef vaknað svangur, hvað þá að ég hafi næstum því hlaupið fram í eldhús til að fá mér að morgunmat. Að vísu hefur þessi æfing líka sett svefnmynstrið mitt aðeins úr skorðum. Ég ætti eiginlega ekki að vera kominn á fætur fyrr en um hádegið í fyrsta lagi, en í gærkvöldi var ég bara allt of þreyttur til að geta vakað frameftir. Jæja, ég hefði getað það ef ég hefði fengið mér kaffibolla nokkra uppúr ellefu, en mér þótti ekki taka því.

3.6.07

The Prefect OssomTossom

Muna ekki allir eftir þessu?

Fjandinn hirði geðlyf ... þau eyðileggja fyrir góðum listamönnum. Jah ... nema þegar þau gera þeim kleift að virka almennilega. Ekkert gaman fyrir listaspírur að vera týndar í eigin hugarheimi. Á hinn bóginn má þó nefna að smá (eða mikið) „tilfinningalegt ójafnvægi“, þegar því er bætt við talsverða listræna hæfileika, getur gefið af sér afskaplega fagra hluti, orð og hljóðbylgjur.

Síðustu vaktir hafa ekkert verið skemmtilegar. Annars vegar vistmaður sem maður veit aldrei almennilega hvenær muni taka sig til og gefa mér á'ann, og hins vegar sjúklingur sem áttar sig ekki almennilega á hvað sé að. Stundum vorkennir maður fólki sem er að koma inn í fyrsta sinn - fólk sem skilur ekki hvers vegna það er lagt inn til að byrja með og fær svefnsprautur svo gott sem um leið og það kemur og vaknar svo í herbergi sem það hefur aldrei nokkru sinni séð áður, innan um fólk sem það kannast alls ekkert við.

Hins vegar er notalegt að sjá fólk ná sér aðeins - fólk sem kom inn og vildi hvorki bragða vott né þurrt, og vildi ekki einu sinni sjá neinar töflur, er eiginlega farið að biðja um að fá smá mat áður en það fær lyfin. Jafnvel þótt maður eigi alls engan þátt í bötnuninni, þá er samt notalegt að fylgjast með gestum sem ná sér smám saman á strik. Það er bara óskandi að strikanálgunin haldi áfram svo þetta fólk verði aftur virkir skattgreiðendur.

Það er nú einu sinni hugsunin á bak við þessar geðdeildir - að fólk geti aftur farið út á vinnumarkaðinn og greitt skattinn. Nema auðvitað þegar fólk er alveg óvinnuhæft vegna síns sjúkdóms

Hvort er það annars skattur foreldranna sem borgar fyrir menntun og heilsugæslu barnanna, eða skattur einstaklingsins sem borgar fyrir manns eigin menntun og heilsugæslu? Þá telst auðvitað ekki með sá hluti skattsins sem fer í borga rándýr sendiráð, umferðarmannvirki og tónlistarhallir.

Talandi um tónlistarhallir - hvernig væri að sóa þessum milljörðum í eitthvað þarfara - til dæmis menntun (leikskóla og uppúr), almenningssamgöngur og heilsugæslu - og lofa áhugamönnum um hljómkviður og sígilda tónlist að borga aðeins meira fyrir aðgang að sínu áhugamáli? Sama má auðvitað segja um boltabullur og aðra sportidjóta. Hversu mikið hafa bæjarfélögin og ríkið - og almenningur - grætt á þessum íþróttamönnum sem hafa meikað það? Hafa íþróttafélögin almennt séð bætt heilsu landsmanna? Hefur gróðinn (og mögulega sparnaður í heilbrigðiskerfinu) verið nógu mikill til að réttlæta að íþróttafélög fái hina og þessa styrki frá hinu opinbera?

Ég held að það sé loksins kominn tími til að fara að sofa.