Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

6.9.08

Ég er víst bara fátæklingur

Í gærkvöldi hringdi síminn.

„Halló?“

„Já, góða kvöldið. Er þetta Þorsteinn?“

„Já, það er ég.“

„Sæll. Blabla heiti ég og er að hringja frá Ríkisútvarpinu. Mætti ég spyrja þig nokkurra spurninga?“

„Jújú, alveg sjálfsagt.“

„Segðu mér, Þorsteinn, áttu sjónvarp?“

„Nei, ég á ekkert svoleiðis.“

„HA?! Á ég að trúa því að ungur maður eins og þú, í sjálfstæðri búsetu, eigi ekki sjónvarp?“

„Trúðu því.“

„En áttu útvarp?“

„Ekki heldur. En ég á tölvu.“

„Ja-há. Horfirðu eitthvað á fréttir eða hlustar á útvarp í tölvunni þinni?“

„Nei, en ég horfi stundum á DVD-diska.“

„Mm-hmm. Þá er bara ein spurning eftir. Áttu bíl?“

„Ehe, nei, ekki heldur.“

Smá þögn.

„Heh, ég veit að þetta er dálítil sérviska ...“

„Sérviska? Þetta er engin sérviska. Þú ert bara fátæklingur!“

9.8.08

Eitthvað nýtt

Í dag lærði ég að Limp Biscuit heitir runkbulle á sænsku. Ég er reyndar viss um að bæði Runkbulle og Kexleikurinn séu betri hljómsveitir en sú bandaríska.

21.7.08

Þetta er kannske bara áhugavert fyrir mig

Ég rakst á alveg stórskemmtilega síðu áðan. drivethrurpg.com er slóðin. Þarna er hægt að kaupa alls konar RPG-stöff í pdf-skrám. Gamla góða D&D og AD&D-dótið kostar sirka 5 dollara stykkið. Það er bara of gott tilboð til að hægt sé að sleppa því - smá nostalgía fyrir tæpar 400 krónur. Mér þykir það bara ágætis tilboð.

Flúrið er loksins farið að flagna. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að það myndi aldrei gerast, en það byrjaði loksins í sturtunni í morgun. Þá fer nú ekki að líða á löngu uns ég get farið að ganga um í stuttermabolum allan daginn.

20.7.08

Eða kannske voru þær fimm

Mamma Mia! er fín. Of mikið af Brosnan fyrir minn smekk - en hey, er nú ekki bráðum kominn tími til að fyrirgefa honum allar Bond-hörmungarnar? Kannske, en það er langt þar til hann mun hafa bætt fyrir Róbinson-Krúsó-leiðindin.

En þetta var/er fín mynd. Nokkrum lögum ofaukið, svosem - fannst svolítið eins og þau væru höfð með, bara vegna þess að þetta voru Abba-lög. Gerðu ekkert fyrir söguþráð eða persónuþróun, sýndist mér. Þau lög voru ekki aðeins óþörf - þau voru líka of löng. Kannske ef bara viðlagið hefði verið notað, eða fyrsta erindi og viðlag, þá hefði það sloppið.

En jæja. Ég get alveg mælt með þessari mynd. Ég get líka alveg mælt með Horninu. Við mamma fórum þangað eftir bíó - ég bjóst ekki við að það væri nokkur séns að fá borð með svona stuttum fyrirvara (gengum bara inn og ég spurði hvort það væri pláss fyrir tvo gesti enn) en það var ekkert mál. Kannske verra, þetta gæsapartí á næsta borði. En þær þögnuðu þó þegar maturinn kom.

Sveppir eru merkilegar lífverur: Mind-Controlling Fungi!

18.7.08

Síðan ég byrjaði í vinnunni hafa fjórar samstarfskonur orðið barnshafandi

Ríflega hálfur mánuður síðan síðast ... ég ætlaði að vera duglegri, alveg satt, en bara nennti ekki.

Það er líka ekkert að frétta, nema þá helst að ég fékk mér nýtt flúr á þriðjudaginn. Engar myndir til, enn sem komið er, og spurning hvort þær verði nokkru sinni til. Hér er haldið áfram þar sem frá var horfið - svipað form og svipuð uppsetning og á þessu sem er á hægri framhandlegg. Nema hvað, þetta er auðvitað á vinstri framhandlegg.

Svo er bara eftir að bollaleggja hvað kemur næst. En ég held að ég hafi nægan tíma til að finna upp á einhverju.

21.6.08

Hjá mér er allt ókeypis

Núnú. Hvern hefði grunað að ég ætti eftir að fara á landsleik í fótbolta? Það er nokkuð sem ég hef aldrei gert áður - nema minnið sé farið að gefa sig fyrr en ég bjóst við. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég hef farið á Laugardalsvöll síðan ég var krakki. Þá fór ég með Oddgeiri að horfa á Fram. Ég man ekki einu sinni hvernig sá leikur fór.

Ég stend þarna, aðeins fyrir utan röðina, á meðan pabbi stendur í sjálfri röðinni. Framhjá mér gengur maður. Hann missir miðann sinn, svo ég beygi mig niður og tek hann upp. Þegar ég rétti honum hins vegar miðann, hvað segir kallinn?

„Vantar þig miða? Þú mátt eiga þennan.“

Ég þakka auðvitað fyrir mig - ekki vildi hann fá neitt borgað - og læt pabba vita. Þetta er bara eins og ef einhver hefði misst þúsundkall, og svo sagt mér að ég mætti bara eiga hann. Þetta var afskaplega ánægjulegt, og ágæt byrjun á fínum leik. Ég skemmti mér í það minnsta konunglega. Bjóst nú við að fleiri myndu mæta - laugardagur, allir í fótboltastuði, og miðinn á ekki nema þúsundkall. Eða ókeypis.

20.6.08

Einhvern tíma skal ég setja tögg á alla póstana

Ekki í dag, samt. En sennilega áður en ég drepst. Nema auðvitað ég nenni því ekki.

Og hvers vegna ætti ég svosem að nenna því? Rúmenar dottnir út, Portúgal datt útí gær. Bæði liðin mín felld af germönskum villiþjóðum. Sem betur fer eru nokkrar siðaðar þjóðir - Króatar og Tyrkir, Spánverjar og Ítalir, og Rússar - ennþá í keppni.

Annars get ég bara næstum því hugsað mér að fara á völlinn á morgun. Ég býst ekki við að ég muni nenna því þegar upp er staðið, en það er hægt að gera margt vitlausara fyrir þúsundkall. Sérstaklega ef þessi þúsundkall hleypir mér á leik þar sem ég get séð lið sem ég held með vinna. Það væri skemmtileg tilbreyting.

Svo má líka nota þúsundkallinn til að fara og sjá Kaspían aftur. Ég fór á hana á miðvikudaginn - sjálfan frumsýningardaginn - og varð ekki fyrir neinum vonbrigðum. Auðvitað var senum breytt, og frásögninni endurraðað, en það gerist nú næstum alltaf. Og auðvitað er þetta ekkert nema kristinn áróður, en það verður bara að hafa það.

Það var bara tvennt sem flæktist fyrir mér. Í fyrsta lagi á Susan, næst-elsta stelpan, að vera svona þrettán-fjórtán ára. Fimmtán ára í mesta lagi. Leikkonan er hins vegar nærri tvítug, og lítur eiginlega ekkert út fyrir að vera fimmtán. Í öðru lagi - kannske aðeins of mikið ofbeldi? Ég man ekki til þess að Lewis hafi verið svona grafískur í sínum bardagalýsingum, og talsvert af átökunum fór fram utan sviðsins (í bókunum, það er að segja). En það er ekki eins spennandi sýningarefni.

Og nú er bara að bíða í tvö ár. Þá verður loksins uppáhalds bókin kvikmynduð - Sigling Dagfara. Óttalega þarf langt að líða á milli mynda.