Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.12.06

OssomTossom er það sem skilur að myrkrið og ljósið

Mikið væri nú gaman ef ég hefði verið jafn rólegur í morgun og efni stóðu til...

Ég byrja á að sofa yfir mig. Slíkt er alvanalegt ef ég hef verið að drekka kvöldið áður - sem ég var einmitt að gera. Fyrst með Frikka á púlstofunni, svo bættust Kári og (enn síðar) Bjarni í hópinn. Mjög gaman þar, og ég hitti meira að segja tvær-þrjár kúlur. Svo fór Frikki heim en ég fylgdi Kára og Bjarna á Stúdentakjallarann þar sem Benni Hemm Hemm hélt tónleika. Mikið óskaplega voru það skemmtilegir tónleikar. Mig langar eiginlega bara að kaupa diskinn hans/þeirra og gá hvort þeir séu eins skemmtilegir á disk eins og á tónleikum.

En já - að morgninum.

Svaf yfir mig, eins og áður sagði, og fór ekki fram fyrr en Maggi frændi hringdi dyrabjöllunni með nokkra last-time pakka. Það hefur verið um ellefu-tólf leitið. Allt í sómanum ennþá. Svo fatta ég að það sé viturlegra að vera með vegabréf á þessu ferðalagi. Allt í lagi, ég þóttist vita hvar það var geymt. Ekki var það þar, en mér detta nokkrir aðrir staðir í hug, svo ég held leitinni áfram - eins og lög gera ráð fyrir.

Ekkert.

Hvað gerir maður eins og ég þá? Nú, hann panikkar, stressast úr hófum fram og svo framvegis. Rústa íbúðinni (svo gott sem) í leit að þessarri litlu bláu bók. Hún er hvergi. Á meðan á panikk-leit stendur hringir síminn síðan viðstöðulaust - ýmist mamma eða pabbi að spyrja hvernig gangi. Nú er ég býsna stressaður og því talsvert stuttur í spuna, eins og gerist. Þegar ég verð að finna vegabréf - sem er, þrátt fyrir allt hjal um Schengen og saminga milli Norðurlanda um óþörf vegabréfa, býsna mikilvægt (eins og ég lærði síðar hjá löggunni, þá þarf maður að hafa eitthvað löglegt skilríki, t.d. ökuskírteini, til að komast á milli, og debetkort eru ekki í þeim flokki) - þá er ég ekki mikill áhugamaður um símtöl. Eins og ég er nú annars sallasallarólegur - þá var ég það ekki þarna ... og þegar stressið og pirringurinn hefur hreðjatak á manni, þá er ég jafnvel ennþá minni áhugamaður um síma. Mamma hringdi og sagði mér að þetta væri nú óþarfa stress - sem það var auðvitað, eins og allt stress yfirleitt! - en akkúrat þarna var mér engin huggun í því.

En pabbi, sem var ekki í minni stöðu og því ekki jafn stressaður, hann hringdi í Þorstein frænda - sem aftur veit ósköp vel að það er hægt að fá hraðafgreiðslu. Ókei, flott - ég æði útá löggustöð. Fyrst niðrá stöð við Hlemm, en þá sé ég miða sem segir mér að vegabréf séu afgreidd einhvers staðar í Borgartúni. Ókei, ég æði þá þangað. Þegar hér er komið sögu er klukkan stödd einhvers staðar í kringum eitt.

Ég kemst í heilu lagi niður í Borgartún 7b, geng þar inn styrkum skrefum (merkilegt hvað góður göngutúr getur gert manni gott!) og segi afgreiðslukonunni allt af létta.

„Allt í lagi,“ segir hún, „þú getur alveg fengið nýtt vegabréf í hvelli. Ertu með skilríki?“

Ég dreg upp gamla góða debetkortið, sem hefur svo oft áður dugað mér sem skilríki.

„Ja-á,“ segir hún, „þetta er ekki nógu gott. Ertu með ökuskírteini?“

Haha. Auðvitað er ég ekki með svoleiðis plastkort - hef aldrei haft, en mun - eftir þetta - sennilega leggja aðeins meiri áherslu á að fá svoleiðis.

„Jahá. Þá þarftu að fá a.m.k. tvo votta - með almennileg skilríki - til að sanna að þú sért þú.“

Það hvarflaði að mér að tala við næstu tvær manneskjur úti á götu, en ákvað nú samt að hringja fyrst í fólk sem þekkir mig, svo allt sé nú heiðarlegt og gott. Hringi í Frikka - sem ég vissi vel að var í vinnunni, en hey: Ég var aftur kominn í panikk-mode - og hann tók auðvitað vel í þessa bón mína, en hann átti skiljanlega bágt með að komast úr vinnu. Sagðist þó ætla að hringja í Evu svo hún gæti komið á bílnum og skutlað honum uppeftir. Húff, þarna var þó kominn einn vottur (en ég fattaði auðvitað ekki þá að ef Eva myndi keyra hann, þá væri ég eiginlega kominn með tvo votta ... heilinn minn virkar stundum undarlega þegar það kemur að reikningi), svo ég hringi áfram. Ég náði í pabba, en um leið og ég var búinn að tala við hann, þá hringdi Frikki aftur.

„Heyrðu, Eva og Dodda koma.“

Mikið létti mér þá. Héðan í frá myndi allt ganga eins og í sögu, bara. Þær komu von bráðar - með góð skilríki - og málið leystist (fyrir utan að ég þurfti að hlaupa útí hraðbanka til að taka út pening vegna þess að löggan tekur ekki við kreditkortum). Miklu fargi af mér létt þarna.

Og af þessu öllu má draga þann lærdóm að nema það stefni allt í að maður eigi eftir að deyja á næsta klukkutíma eða svo, þá er engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur eða leggjast í stresskast.

Þess vegna vil ég þakka öllum sem tóku þátt í þessu - pabba, mömmu, Frikka, Evu og Doddu.

Núna sé ég bara eftir því að hafa ekki tekið mér tíma til að fara í sturtu áður en ég lagði af stað. Jæja - ef ég fæ bara einhvern andfúlan leiðinlegan miðaldra kall sem sessunaut þá er mér svosem sama, en það væri leiðinlegra ef það væri einhver huggulegri. Ég er farinn á barinn.

20.12.06

OssomTossom, pt. ∞

Síðasta prófið yfirvofandi. Bresk menning og saga. Get ekki sagt að ég sé neitt sérlega spenntur fyrir þessu. Ekki að ég kvíði því, ég er eiginlega bara hálf-áhugalaus um efnið. Ekki að bresk menning eða saga breska heimsveldisins sé eitthvað ómerkilegt efni, en mér þykir þetta bara óspennandi og jafnvel ópraktískt líka. Þess vegna má segja að ég sé ekki neitt sérlega spenntur.

Sko. Það er allt gott og blessað með það að vita hver Hinrik áttundi eða Vilhjálmur af Óraníu og María voru, og ef maður veit líka hvað Act of Supremacy var eða hvað Bill of Rights var og hvernig þetta tengist allt saman áðurnefndum konungum og drottningum, þá er maður einu skrefi nær því að vinna í Trivial Pursuit. En að öðru leiti sé ég ekki fyrir mér að þetta sé eitthvað sem ég verði eða þurfi að hafa aðgengilegt í kollinum. Þetta er allt í bókum og ég þarf ekki að leita lengi til að finna eina eða tvær bækur um efnið. Sama má segja um breskt réttarkerfi, muninn á County Court og Magistrate Court og þar fram eftir götunum.

Ég myndi frekar vilja fara í tvö málvísindapróf. Þar er margt áhugavert að finna, gott hugmeti til að melta á göngutúrum. En auðvitað er gott að hafa tekið námskeiðið, fengið nasasjón af þessu öllu saman - og ætli það þurfi ekki að hafa próf til að maður geti sýnt fram á að maður hafi ekki bara sofið í tímum.

Mér þótti mun áhugaverðara að lesa í bók sem kom í fyrradag. Pantaði hana af amazon.com fyrir nokkru, og bjóst ekki við að fá fyrr en eftir áramót - en kom í fyrradag og ég sótti í gær: Fimmtán ára afmælisútgáfa af ritgerðasafninu All I Really Need to Know I Learned in Kindergarten eftir Robert Fulghum (ég hef þegar bætt honum í tengingalistann). Einstaklega skemmtileg bók, fróðleg og notaleg. Varla er hægt að lesa eina ritgerð án þess að skella upp úr, eins og sagan af því þegar hann hittir mann frá Idaho sem spyr hvort hann eigi startkapla, og vandræðin sem þessir tveir menn lenda í þegar þeir reyna að koma Idaho-bílnum í gang. Eða sagan af föður hans (trúleysingi) sem átti það til að stríða eiginkonu sinni (Suðurríkja-Baptisti) með því að benda henni á að Jesús hafi verið gyðingur - „Jesus was a Jew, dear“ - henni var ekki skemmt. Á hverjum jólum fór þessi sami pabbi (trúleysinginn) með strákinn til Hjálpræðishersins í Texas til að gefa öðrum súpu. Sagan af því hann var að sjá um um það bil áttatíu börn (sjö til tíu ára) og fór í leik sem hann kallaði „Giants, Wizards and Dwarfs“. Fyrsti hlutinn er einhvern veginn þannig að hann kallar „You have to decide now which you are - Giant, Wizard or Dwarf!“ og allir krakkarnir hópa sig saman eða fara í sitt horn. Allir nema ein stelpa - sem spyr „Hvar eiga hafmeyjarnar að vera?“

Og fjöldinn allur af öðrum sögum. Ég hef ekki tíma til að segja þær allar - verð víst að fara að koma mér af stað í þetta próf - en þær eru allar skemmtilegar og hugvekjandi og snerta á hérumbil öllu hversdagslegu sem maður getur látið sér detta í hug. Ef einhver rekst á þessa bók á bókasafni, þá er alveg óhætt að taka hana með sér. Auðlesin, kannske svolítið væmin á köflum, en stórskemmtileg.

19.12.06

Hinn nýfæddi OssomTossom

Það er sífellt verið að uppgötva ný og ný frumefni. Gott að vísindamenn sitji ekki auðum höndum og láti sem allt hafi verið fundið sem er þess virði að finna.

Hey, nú er bara eitt próf eftir! Gekk vel í gær, held ég - a.m.k. ekkert verr en ég bjóst við, þótt ég held nú að ég fái ekki tíu fyrir þetta. En ég fæ heldur ekki tvo, svo ég er alveg sallarólegur. Svo ósköp zen-rólegur að ég hef ekki einu sinni bitið í nögl síðan prófin hófust. Ég held að það sé alveg ágætur árangur, sko.

Síðan klárast prófin og þá fæ ég tíma (vonandi) til að gera eitt og annað áður en ég fer (á föstudaginn). Náði reyndar að kaupa nokkrar jólagjafir í morgun - ætla nú að reyna að halda mig innan rammans í þetta skiptið, en annars tók ég nokkrar aukavaktir í desember þannig að kannske get ég tekið bara smá yfirdrátt - en nokkrar eru þó eftir. Kannske ég sinni þeim seinna í dag, þar sem það er óhugsandi að ég eigi eftir að nenna að sitja og lesa í allan dag. Ég verð að hreyfa mig! Kári er kominn heim og það væri nú gaman að komast á t.d. GrandRokk að tefla eða púlstofuna að púla ... já eða bara eitthvað. Svo væri nú líka gaman að athuga hvernig enskunemar fagna próflokum - verst að ég er að fara út daginn eftir, og þótt vélin fari ekki eldsnemma um morguninn þá þarf ég samt að taka rútu ekki löngu eftir hádegi. Liggur við að mann langi til að bölva þeim sem setti saman próftöfluna - en prófstjórinn er hins vegar fyrsti maðurinn sem kenndi mér heimspeki (fyrir langa-löngu 98/99-veturinn í MR), og ef það á að bölva honum fyrir eitthvað ... tja, þá getur maður örugglega fundið sitthvað safaríkara heldur en einhverja próftöflu!

18.12.06

OssomTossom - and don't tell yer mama!

Merkilegt hvað maður getur gert sér til dundurs þegar maður ætti að læra fyrir próf. Nýlega horfði ég á gamla upptöku af Rúv (sem mér skilst að hafi verið endursýnd um daginn - ég sá þetta á google-videos eða álíka) af því þegar Milton Friedman mætti Ólafi Ragnari og einhverjum tveim öðrum. Verst að ég skuli ekki muna hvar ég sá þetta, því þetta var býsna skemmtilegt. Þarna var Bogi Ágústsson þáttastjórnandi með býsna sérstök gleraugu, en ekkert var þó jafn sérstakt og hárgreiðsla forsetans. Hann hefur ekki breyst mikið, karlinn - nema bara að núna, þegar hann er orðinn ríkur kall, þá getur hann klætt sig aðeins betur.

Hvern hefði annars grunað á þessum tíma að hann ætti eftir að verða forseti þegar hann yrði stór?

Madre, Protégenos er algert æði. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Kann ekki að lýsa þessu svo vel sé - ætli mínimalískt sé nógu gott? Það er að minnsta kosti aldrei neitt rosalega mikið að gerast - maður hugsar aldrei „Wooly fuck, hvað er eiginlega í gangi?“, nema þá bara í aðdáun. Annað en gerist þegar maður hlustar á sumar aðrar hljómsveitir, þá er svo mikið að ske í einu að það verður jafnvel erfitt að fylgjast með. Hér eru, heyrist mér, aldrei fleiri en svona tvö-þrjú hljóðfæri í gangi samtímis, og ekkert þeirra flækir málin óþarflega. Af þeim diskum sem ég hef heyrt frá þessu ári, þá er þetta númer eitt, efst á listanum. Ef eitthvað neikvætt gæti ég sagt um þennan disk, þá er það að hann syngur ekkert sjálfur - hann notar hér sömu aðferð og þegar hann var í Antimatter, að fá söngkonur til að syngja fyrir sig. Hann er reyndar m.a. skráður fyrir „vocals“ (ásamt sex öðrum hljóðfærum), en það er þá varla meira en bakraddir. En þetta er nú ekkert stórmál - en miðað við hvað textarnir virka persónulegir, og miðað við hann semur alla þessa persónulegu texta sjálfur, þá hefði verið skemmtilegra að heyra hann sjálfan flytja þá. En hvað veit maður svosem - söngur hans gæti helst minnt á skíðlogandi kött á sýru. Kannske er þetta bara vel sloppið?

Hmm, kannske ég reyni að búa til topp-tíu lista í lok ársins. Veit reyndar ekki hvort ég hafi keypt tíu diska á þessu ári sem hafa komið út á þessu ári. Sjáum til.

14.12.06

Ossom bloody Tossom

Það getur verið dálítið snúið að skilja allar þessar víddir, a.m.k. þegar komið er upp í þá fjórðu. Jafnvel snúnara að skýra þær með teikningum, þar sem við getum eiginlega bara teiknað í þrem víddum (ef það). Það þýðir þó ekki að það megi ekki reyna. Mér finnst eitthvað afskaplega notalegt að hugsa til þess að til sé fólk sem ver talsverðum tíma í að velta svonalöguðu fyrir sér. Það væri auðvitað gaman að kynna sér svona lagað nánar, en til þess að geta það þyrfti maður sennilega kunna aðeins meira í stærðfræði og eðlisfræði til að skilja allar formúlurnar sem þessir eðlisfræðingar setja líklegast í ritgerðirnar sínar. Jæja, það er svosem ekki of seint að byrja.

Já, það er margt sem maður finnur sér til dundurs þegar maður ætti að vera að læra fyrir próf.

11.12.06

OssomTossom, the tsunami of hate and all ugly things

Jæja, fyrsta prófið fistað. Þrjú eftir og þá er mér öllum lokið.

Fann kreditkort úti á götu í morgun og mér gengur bölvanlega að ná í eigandann. Fann hann í símaskránni og hringdi skömmu áður en ég fór í prófið. Ekkert svar. Tók símann auðvitað ekki með í prófið - til hvers? - og auðvitað hringdi hann til baka á meðan ég var í burtu. Ég veit að hann gerði það því það voru nokkur missed calls þegar ég kom heim úr vinnunni. Svo neitar hann að svara núna. Ég veit ekki hvort svona kónar verðskuldi að fá kortin sín aftur. En sem betur fer býr hann í næsta húsi, svo það ætti að vera hægðarleikur að ná í hann. Fyrr eða síðar næ ég í skottið á honum.

Mæli annars með þessari sögu hér. Á þessari síðu má líka finna margt annað skemmtilegt, eitthvað til að flissa yfir þegar maður ætti í rauninni að gera eitthvað uppbyggilegt eins og að lesa fyrir næsta próf.

Góða nótt.

8.12.06

OssomTossom protégenos

Þetta þykir mér gott. Panta disk á laugardegi og hann kemur í dag, alla leið frá Lissabon. Hann kemur í venjulegu umslagi vafinn inn í kúluplast (eða heitir það loftbóluplast?), diskurinn sko, umslagið er bara venjulegt og brúnt, þannig að enginn hjá tollinum reif það upp. Sem betur fer, því engin var kvittunin í pakkanum - og miðað við álagið sem hlýtur að vera hjá þessum greyjum núna, þá er ekkert víst að ég hefði fengið diskinn í hendur fyrir jól.

Ég segi betur frá þessu síðar, en við fyrstu hlustun - alveg æðislegt.

7.12.06

OssomTossom kemur til með að deyja úr þorsta, því hann er ekki útvatnaður

Nokkrar áhugaverðar upplýsingar frá Bandaríkjunum (annars er þetta tæplega vísindaleg athugun, en þetta er þó nóg fyrir nokkrar vangaveltur):

Þrír fjórðu Bandaríkjamanna gefa til góðgerðarmála, að meðaltali 1800 dollara (ég býst við það sé á ári).

Fátækir gefa meira til góðgerðamála, hlutfallslega (allt að 30% meira af tekjum sínum heldur en aðrir, skilji ég greinina rétt) heldur en miðstéttar- og hástéttarfólk. Nánar tiltekið - fátækir en eru þó í vinnu gefa meira. Miðstéttin virðist gefa minnst, hlutfallslega séð, þótt ekki sjái ég talað um það í greininni.

Íhaldssamir gefa meira en frjálslyndir, tæpum þriðjungi meira.

Smábæjarskríll gefur meira en stórborgarpakk. Safnað var pening á fjölförnustu stöðum í San Fransisco annars vegar, og smábæ í South Dakota hins vegar, og á öðrum degi hafði smábærinn safnað tvöfalt meira heldur en stórborgin, þrátt fyrir að þrefalt fleiri gengu framhjá söfnunarbaukunum í SanFran.

Fannst reyndar sérstaklega áhugavert þegar sagt var frá algengu svari miðstéttarfólks þegar það var spurt hvers vegna það gæfi ekki (eða gæfi ekki meira): „Ég hef ekki efni á því.“ Ósköp undarlegt viðhorf, ef satt er. Ég meina, ef maður hefur efni á því að fara einu sinni í viku á til dæmis McDonald's - þá hefur maður líka efni á því að fara ekki einu sinni á viku á McDonald's og gefa peninginn eitthvert annað þar sem hann mun (vonandi!) koma að mun betri notum. Hafi maður efni á að borða þrjár máltíðir á hverjum degi, þá hefur maður líka efni á sleppa einni máltíð einn dag í viku og spandera henni á einhvern annan (sem borðar ekki þrisvar á dag + snarl, væntanlega). Og svo framvegis ... sígarettur, bjór, bíó. Ekki það að ég búist við að meðalbetlarinn kæri sig neitt sérlega um að fá brauðhleif og oststykki, hvað þá bíómiða - en hann gæti þegið bjórinn og retturnar.

Til að vera örlítið heiðarlegur (nokkuð sem gerist ekki svo oft!) má líka koma fram, að mitt framlag er vel undir 30% tekna minna.

5.12.06

OssiTossi

800 orða ritgerð um sjálfan mig? Var einhver að biðja mig um að skrifa átta hundruð orð um mig? Það mætti allt eins biðja jörðina um að halda áfram að snúast, eða skipa vatninu að vera blautt. Ég skrifa ekki um annað en sjálfan mig og það sem ég hef áhuga á - helst svo mikinn áhuga á að það sé svo gott sem hluti af sjálfum mér.

Ég meina, hendur mínar og fætur eru hluti af mér, og ekki neitt mér óviðkomandi. Tilfinningar mínar - þær eru hluti af mér eins og litur er hluti af bókakápu. Og það sem ég hugsa - það er líka hluti af mér, alveg eins og innihald eða boðskapur bókar er hluti líka hluti af bókinni. Það er því hægðarleikur að skrifa eitthvað um mig, jafnvel þótt ég eigi víst bara að skrifa um sjálfan mig sem skrifara; hvernig ég skrifa, hvað ég hafi lært á þessu námskeiði (kommon! Er þetta menntaskólaefni eða hvað? Stundum skammast ég mín hálfpartinn fyrir að vera að þessu) og allt það. Það er svosem heppilegt að fá að skrifa um það sem manni finnst skemmtilegast - sjálfan sig - svo ég ætti nú ekki að kvarta.

Annars er ég óttalega feginn að vera ekki þjóðarleiðtogi. Jújú, í furstaríkinu Tossom eru allir voðalega frjálsir og kátir, en efnahagurinn er alveg í rúst. Fyrir nokkrum dögum var allt á uppleið, og núna ... allt í steik.

4.12.06

OssomTossom - lobotomized and goin' strong!

Merkilegt hvað munar um litla tvo-þrjá sentimetra. Ha! Krakkar!

Hefði átt að fá einhvern - bara granna, þess vegna, til að taka af mér mynd m reglustiku á kafi í skegginu áður en ég tók til og snyrti það. Nú ætti ég reyndar að fá einhvern til að taka mynd af mér eins og ég er núna.

Ótrúlegt hvað munar mikið um svona lítið. Núna þekki ég mig varla í spegli nema þá helst á nefinu. Á hinn bóginn er núna jafnt á milli hársins og skeggsins - ég er kíví! Eða svona Mr. Potatoehead sett á kíví í staðinn fyrir kartöflu.

Endarnir voru orðnir svo slitnir og klofnir, sjáiði til (ég þarf greinilega að fá mér almennilega hárnæringu - nú væri gott að hafa sjónvarp eins og eina kvöldstund til að sjá auglýsingarnar!), og ef ég var að greiða það, þá flæktust sum hárin í tönnunum og allt hárið var rifið út með rótum. Frekar óskemmtilegt.

3.12.06

To pun is to pwn

Sinfest dagsins nær vinnudeginum í dag. Nokkurn veginn. Ekkert gat rispað mig - ég var demantur - ekki einu sinni strákarnir í lög- eða hagfræði (þessir sem ganga aldrei eftir sig. OK, kannske eru þeir ekki í hag- eða lögfræði, en það er svosem aukaatriði). Sama hve mikið var að gera, sama hvað gekk ekki og gekk á, ég var alltaf óttalega rólegur. Eiginlega skelfilegt fyrir óvanann. Ég opnaði staðinn, sinnti öllu sem þurfti að sinna og lofaði stráknum sem var mér sendur til halds og traust að fara heim eftir svona hálftíma. Heimsókn Margeirs hefur efalaust haft eitthvað með það að gera - drýpur af honum rólyndið eins og smjör af hverju strái - eða kannske var það bara kaffileysið? Drakk ekki nema svona tvo bolla í dag. Kannske voru þeir þó þrír. Var hins vegar í krónískum spreng vegna vatnsdrykkju.

Góður dagur. Þeir mega alveg vera fleiri svona.

2.12.06

Ossom"I don't need no stinking gas"Tossom

Kíkið á þessa síðu við tækifæri. Er þetta ekki það notalegasta sem þið hafið heyrt í háa herrans tíð (eða alveg síðan í vísaði á Les Negresses Vertes-myndbandið um daginn)? Veit ósköp lítið um þennan Duncan, svosem, en hann hefur lag á tónlistinni - Anathema, Antimatter, og nú síðast Íon. Ekki svo að skilja að félagar hans í hinum sveitunum tveim séu ekki aflmiklir - hvað svosem segja má um það sem gerðist meðan Duncan var með Anathema, þá hafa þeir virkilega komist á flug eftir að hann fór, sérstaklega á síðusta disk, en ég á eftir að sjá hvernig næsti Antimatter-diskur verður.

Jæja, ætli ég verði ekki að fara að klæða mig og fara svo af stað í vinnuna. Ætli það sé mikið að gera á laugardögum þarna útfrá?

1.12.06

OssomTossom hefur augu Nöðrukonungsins

Merkilegt hvað fólk - fullorðið og vel menntað fólk geri ég ráð fyrir, þar sem það er nú að versla í Bókhlöðunni - er ólæst. Stendur skýrum stöfum: Vinsamlegast gangið frá bollum, glösum og diskum eða eitthvað í þá áttina (ekki að ég hafi nennt að leggja þetta á minnið, sko), og hvað skeður? Jú, fólk leggur diska, bolla og glös ekki á vagninn heldur skilur eftir á borðinu, og setur helst umbúðirnar utan af sælgætinu sem það var að troða í ginið á sér ofan í bollann, og stingur servíettum í glasið. Ímyndar það sér kannske að það sé með því að ganga frá eða gera einhverjum greiða? Pakk. Það bjargar deginum að hafa kát og hress lög Hauks og LNV til flautunar. Já, og einstaka notalegir kúnnar (notalegir fyrir augun, meina ég).

Fyrst minnst var á kúnna, þá furða ég mig sífellt á fólkinu sem kaupir jafnvel einn kaffibolla með debitkorti. Ég bendi á ódýrari leiðir, til dæmis að kaupa klippikort: „Nei veistu, þá þyrfti ég alltaf að vera að koma hingað til að fá mér kaffi.“ Nú er dálítið af sama fólkinu sem kemur aftur og aftur, og ég er nokkuð viss um að ég hafi selt sumum fleiri en ellefu bolla - og alltaf borgað með korti. Hef ákveðið að nefna þetta ekki framar við fólk - hey, þetta er ekki minn peningur!

Pirringsrausi lokið.

Fór í kandadíska sendiráðið í gær ásamt nokkrum úr enskunni. Fyrir utan stólaskort, þá var þetta alveg ljómandi skemmtilegt. Sendiherrann sjálfur - elskuleg kona á sextugsaldri, geri ég ráð fyrir - tók á móti okkur, gekk um og spjallaði við fólk. Hélt meira að segja smá fyrirlestur, myndir og allt saman. Ljómandi. Síðan fórum við, hvað, fimm stykki á Rosenberg - fyrsta skipti sem ég hef litið þangað inn svo ég muni - og vorum eitthvað frameftir. Allt saman voðalega gott og þægilegt, þangað til hljómsveit kvöldsins tók til sinna ráða og spilaði voðalega hátt.

Fór í dag og fékk kortalausan kreditreikning til að eiga auðveldara með að borga tryggingarnar (of há summa til að ég geti borgað hana í einum rykk). Mér finnst ég vera orðinn óttalega fullvaxta eitthvað ... sennilega bara ímyndun og sjálfsblekking. Sem er gott. Framundan eru svo aukavaktir á morgun og hinn, ritgerð um sjálfan mig, prófalestur og vonandi næ ég að klára að slá inn þessa blessuðu þýðingu sem fyrst. Hef dregið það allt, allt of lengi og veit vel upp á mig sökina.