Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.7.06

Jésús sagði

Ríki Guðs er innra með yður

(sjá Lúkas 17.21)

Er þá ríki Guðs bara af svipuðum toga og farsæld Aristótelesar, eða er ég að misskilja hana? Í það minnsta mætti ráða af þessum orðum, að ríki Guðs sé sálarástand (án þess að gera ráð fyrir því að til sé eitthvað sem kallast megi sál), en ekki neinn handanheimur eða eitthvað „yfirnáttúrulegt“. Ef við gefum okkur að Jesús hafi verið til, og að hann hafi náð einhvers konar „uppljómun“, þá vill hann væntanlega deila því með öðrum hvernig megi nálgast slíkt, því slíkt ástand á víst almennt að þykja frekar notalegt.

Auðvitað er hann samt fastur í því tungutaki og þeirri menningu sem hann ólst upp við. Hann er líka að tala við fólk af ákveðnum menningarheimi - og til að ná til þeirra, þá þarf að tala mál sem fólkið skilur og nota myndlíkingar sem það botnar í. Þess vegna talar hann um Guðs ríki og svo framvegis - hvernig myndi hann orða hlutina tuttugu öldum síðar?

Það er margt sem er ekki hægt að segja berum orðum. Eða, ef maður notar allsber orð, þá verður það bara frekar klaufalegt og slappt ef maður er að lýsa persónulegri reynslu - lýsa því hvaða áhrif eitthvert lag eða einhver kona hefur á mann. „Jaa, þetta er bara býsna flott, sko“ nær því bara ekki alveg.

Þess vegna getur maður stundum bara sýnt eða gefið hugboð, notað líkingamál sem er áheyrendunum kunnugt.

Og þess vegna finnst mér svo merkilegt að einhver bókstafstrú hafi sprottið upp í kringum þennan mann frá Nasaret og það sem hann sagði, þegar svo margt (sýnist mér) bendir til þess að hann hafi ætlast til að fólk finni sína eigin leið en elti hann ekki í blindni. Svona eins og Saraþústra hans þýska þarna með yfirvaraskeggið:

„Þið dýrkið mig; en hvað ef sá dagur kæmi að skurðgoð ykkar félli af stalli? Varið ykkur að kremjast ekki undir myndastyttu!“

Það hefði líka verið ljómandi, hefði Jesú sagt:

„Ég er handrið á bakka árinnar: grípi mig hver sem má! En þið getið ekki haft mig að hækju.“

Því miður sagði hann ekkert slíkt. Ég verð því að trúa því að hann hafi gert það.

27.7.06

Mitt Fort hefur aðeins Motte

en bráðum fæ ég Bailey líka

(Fort, Motte og Bailey)

Mér finnst að ég ætti að borga minni skatta. Ég fæ að vísu engu um það ráðið hvort ég greiði tekjuskatt eða ekki - yfirvöldin passa upp á slíkt - og ég borga eiginlega engan fjármagnstekjuskatt vegna þess að ég á varla neitt fjármagn til að hafa tekjur af, og það er líka passað upp á að ég borgi skatt af íbúðinni (og öðrum mögulegum eigum).

En ég get þó haft áhrif á hve mikinn virðisaukaskatt ég greiði. Þetta er voðalega einfalt: Því meira sem ég kaupi, því meiri virðisaukaskatt borga ég. Kaupi ég minna, þá greiði ég minni virðisaukaskatt.

Semsagt: Ef ég eyði minni pening, þá borga ég minni skatt. Gott plan, ekki satt?

24.7.06

Hvers vegna ætti maður að borga morð fjár fyrir klukkustund með sálfræðingi

þegar það kostar ekkert að tala við raddirnar í manns eigin höfði?

Hey, muna ekki allir eftir Wil Wheaton? Lék í Stand by Me þegar hann var tólf ára - og fór svo og lék eina hötuðustu persónu í Star Trek (nema kannske fyrir utan hund Arhcers í Enterprise), Wesley Crusher. Allavega, hann hefur víst verið að bloggast í mörg ár. Var einu sinni spurður af þjóni á veitingahúsi „Hey, varst þú ekki leikari einhvern tímann?“

Þetta og
þetta eru semsagt síðurnar hans. Sú fyrri virðist eiga að vera eitthvað vara-eitthvað, á meðan hin er endurgerð ... eða eitthvað.

Njótið vel.

23.7.06

pleni sunt caelum et terra gloria mea

Hafiði einhvern tímann velt því fyrir ykkur, þið sjónvarpseigendur, hvers vegna það er alltaf allt í rusli í kringum ykkur, þegar þið sjálf eruð svo einstaklega snyrtileg?

Sinfest er með svarið - eins og endranær.

Annars er nýja Sinfest afskaplega þægilegt og gott, með mun betri leitarvél heldur en áður (var hægt að leita áður?). Nú er hægt að slá inn einhver leitarorð, t.d. calligraphy (svona, farið og gerið það ... þarf ég að gera allt fyrir ykkur?) og þá fær maður upp allar ræmur (15 stykki) þar sem persónurnar breytast í kanji-staf (eða ég held að þetta heiti kanji). Afar skemmtilegt.

Það er líka skemmtilegt að byrja vikunna á því að kíkja í messu. Margt vitlausara hægt að gera í sunnudagsþynnku.

22.7.06

Ég er fyrir löngu búinn að leggja konuna frá mér

en hvers vegna heldur þú ennþá í hana?

Það er ágætt að hafa nokkrar litlar hverfisbúðir innan göngufæris. Einn kostur er sá að maður fær oft sénsa hvað varðar greiðslu, a.m.k. ef maður er líka fastakúnni.

Núna rétt áðan var ég til dæmis úti í versluninni Þingholt (eða er það Verslunin Þingholt?) - til að komast að því hvað „baking forms“ heita á ensku. Í leiðinni ákvað ég að kaupa mér smá kotasælu og kex, en gleymdi veskinu heima. Ég dreg upp smápeningana í vasanum, og kemst að því - mér til hryllings og skelfingar - að mig skorti dálítið upp á, heilar sjötíuogtvær krónur. „Þú borgar þetta bara næst,“ sagði þá þessi indæla gamla kona sem, að ég held, á verslunina (kannske ásamt eiginmanni sínum).

Kæmist maður upp með svonalagað í Bónus eða 10-11? Ætli það. Þó er aldrei að vita - verslanir eins og 10-11, 11-11 - þær eru næstum því orðnar að hverfisbúðum, sérstaklega í nýjum hverfum. Kannske, ef afgreiðslufólkið er farið að þekkja mann, þá gefur það manni séns líka? Örugglega ekki í Bónus, einfaldlega vegna þess að þar fer of mikið af fólki í gegn á hverjum degi til að hægt sé að muna eftir þeim öllum.

Áfram hverfisbúðir.

16.7.06

Giftingin og veislan voru í alla staði vel heppnuð. Það er gaman að sjá vini sína giftast, og það er líka ánægjulegt að hitta fólk sem maður hefur annars ekki hitt í mörg ár (eins og t.d. afa og ömmu hans Kára), sem og fólk sem maður hefur aldrei áður hitt (t.d. afa hennar Elínar).

15.7.06

It's very hard to trust a man who wants to borrow me picklocks, sir.

Jæjajæja ... Kári og Elín (Uni-Kay og Ella Fitz eins og þau heita í símaskránni minni) bara að fara að gifta sig á eftir. Ekkert nema gott um það að segja - ég myndi óska þeim til hamingju hér, ef ég væri ekki að fara að gera það í eigin persónu á eftir.

Í dag er líka síðasti dagurinn í dálítinn tíma sem ég mun raka mig. Ég vil ekki vera illa rakaður í brúðkaupi - slíkt gengur bara ekki. Ef ég byrja núna, þá ætti ég að vera kominn með trúverðugt skegg þegar ég byrja í skólanum.

Já og hey, ég var að kaupa miða til Noregs. Fer héðan 21. ágúst, kem hingað aftur 4. september. Það þýðir sennilegast að ég hætti að vinna í kringum 14. ágúst. Smá frí áður en ég fer í frí.

14.7.06

Fótbolti og trú

Fyrir ekki svo löngu síðan las ég frásögn manns sem hafði verið annað hvort á Spáni eða þá Írlandi - í það minnsta í kaþólsku landi. Kannske frekar á Írlandi, þar sem sagan segir frá því, að hann hafi setið á kaffihúsi og séð þar prest sitja og reykja eins og ekkert væri. Maðurinn fer og spyr prestinn út í þetta, þar sem lögum samkvæmt var bannað að reykja á kaffihúsum. Svar prestins var einfalt: „Einu lögin sem gilda eru boðorðin tíu“ (eða kannske „Einu lögin sem gilda eru lög Guðs“, ég man ekki hvort það var). Þar sem í þessum lögmálum var hvergi bannað að reykja á kaffihúsum, þá taldi hann sér heimilt að reykja. (Jafnvel þótt óbeinar reykingar geti verið hættulegar, þá finnst mér ansi langsótt að segja að presturinn hafi drepið einhvern með því að reykja þarna.)

En hvað ef dómari í fótbolta myndi nú ákveða að dæma eftir Biblíunni? „Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ gæti verið ein reglan: Ef leikmaður A brýtur á leikmanni B, þá má B brjóta á A á sama hátt. Sé brotið af annarri sort, þá verður B hins vegar rekinn útaf. Semsagt, ef A tosar í skyrtu B, þá má B tosa í skyrtu A, en hins vegar má hann ekki gefa honum olnbogaskot. Ef, hins vegar A gefur B olnbogaskot, þá má B gefa A olnbogaskot á móti, en hins vegar mætti hann ekki tosa í skyrtu hans. Og svo framvegis.

Önnur afleiðing gæti verið sú, að dómarar láti það alfarið eiga sig að dæma í leikjum: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða.“

12.7.06

Draumakröfur

Draumakonan mín er dökkhærð, tvíeygð og gengur í svona stígvélum. Mér þykja þetta ekki strang- eða ósanngjarnar kröfur, né ætti að vera erfitt að uppfylla þær. Hvers vegna gengur mér þá svona illa að finna kærustu?

Kannske ég slái aðeins af kröfunum. OK - elska minna drauma, hvar sem þú ert: Þú þarft ekkert að vera dökkhærð.

Annars dreymdi mig í nótt að ég væri að missa hárið í stórum flyksum, það bara datt af þegar ég renndi hægri hönd minni í gegnum hárið. Svo er ég að verða blankari með hverjum deginum. Tilviljun? Ég held ekki.

Annan draum dreymdi mig fyrir nokkru, og hann var miklu skemmtilegri. Þá var ég staddur í húsinu þar sem tímaröðin er brengluð - ég var í húsinu þar sem tíminn er ekki til. Á dálítið bágt með að útskýra hvernig það virkar, en það var alveg stórskemmtilegt. Þegar ég vaknaði hugsaði ég með mér, að þetta yrði alveg frábær saga. Fimm mínútum síðar var ég búinn að gleyma öllu nema grunnhugmyndinni.

A: Núna, þegar lífi þínu er nærri lokið - er eitthvað sem þú sérð eftir?
B: Ég hef hvorki drukkið né reykt eins mikið og ég hefði viljað.

5.7.06

Trúður

er þýðing á enska orðinu „truth“

2.7.06

Ef allir vilja drepa mig

er þá með nokkru móti hægt að halda því fram að ég sé paranoid?

Athugið að hér fyrir neðan verður fjallað um úrslit HáEmm-leikja helgarinnar.

Ég hef bara reynst furðu sannspár hvað varðar úrslit fótboltans um helgina. Áður en Lehmann varði, þá var ég búinn að giska á að Argentínumaðurinn myndi ekki skora (í sms til Kára var ég búinn að skrifa „T:4 A:2“ áður en ég senti skilaboðin. Því miður voru engin vitni að þessu.

Að vísu hafði ég rangt fyrir mér með Úkraínu - ég var sannfærður um að þessir afkomendur víkinga frá Kænugarði myndu valta yfir Ítalina - en hitt vissi ég sem var, að Portúgal myndi sigra sinn leik.

Best finnst mér samt að hafa spáð rétt fyrir í Frakkland-Brasilía. „Eitt núll fyrir Frakkland í venjulegum leiktíma“ sagði ég við pabba áður en leikurinn byrjaði - og hvað skeður?

Annars er leiðinlegt hvernig þulirnir í seinni leikjunum hafa ekki getað haft hljótt um úrslit fyrri leikjanna: Þegar Ítalir og Úkraínumenn börðust, þá þótti Arnari afar mikilvægt að röfla um sigur þýðverskra fyrr um daginn, og í dag byrjaði þulurinn á að segja okkur, að sigurvegarinn myndi mæta Portúgölum.

Nú skiptir þetta mig svosem engu máli, enda sá ég alla leikina í beinni. Hins vegar voru þeir ófáir - þar á meðal pabbi og vinnufélagar hans, og efalaust fleiri - sem höfðu lagt þó nokkuð á sig til að frétta alls ekki hvernig Þýskaland-Argentína fór, þar sem þeir vildu fá að halda spennunni á meðan þeir horfðu á endursýninguna. Að segja svona frá úrslitunum er alls ekki líkt því að segja einhverjum sem aldrei hefur séð Titanic „Hey, þú veist að skipið sekkur!“ eða að segja „Aðalpersónan mun deyja“ ... við einhvern sem á ennþá eftir að sjá Der Untergang. Eiginlega er þetta mun nær því að segja frá tvistinu í Memento, þegar þulurinn segir hvaða mynd sé næst á dagskrá, eða í Skuggaleikjum aftan á bókarkápu.

Auðvitað enginn heimsendir, en svekkjandi samt sem áður fyrir þá sem hafa ekki séð leikina. Ég ætti kannske ekkert að blaðra um þetta heldur, en ætli það dugi ekki að vara menn við (eins og ég hef gert)?

Nú er bara að vona að þessu garðpartíi ljúki áður en ég fer með tómar glerflöskur út á næstu sjálfsalabensínstöð og mólótoffi þetta blindfulla skítapakk sem talar of hátt, öskrar frekar en hlær, og hlustar á leiðinlega tónlist. Hvers vegna er enginn búinn að hringja á lögguna? Ég er viss um að þótt verið væri að ganga í skrokk á einhverjum beint fyrir utan eldhúsgluggann minn, þá myndi enginn nágranna minna láta það koma sér til hugar að hringja. Góðir nágrannar, ha?