Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

31.10.07

Séríslenskt eða sammannlegt?

Ég held að ég geti fátt sagt sem ekki kemur fram hér, nema þá kannske helst að ég efast um að þessi ráðstefna eigi sér stað, því mér hefur ekki enn lánast að finna neitt um hana á mbl.is og það er varla neitt að marka vísi.is.

En ef þetta er nú satt - því miður hef ég ekki enn haft tækifæri til að glugga í pappírs-Mogga, þannig að ég get nú ekki ábyrgst að svo sé - þá má draga ýmsar ályktanir af þessu (sumar hverjar reyndar þegar dregnar í áðurtilvísaðri grein):

Klámframleiðsla er verri en vopnaframleiðsla - vegna þess að klámráðstefnunni svonefndri var hafnað, hún var rekin burt af ekki minni manni heldur en Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, réttkjörnum borgarstjóra Reykjavíkur, en enginn virðist hafa áhuga á að losna við þessa gaura. Þeir koma heldur ekkert nálægt neinum subbuskap á borð við myndavélar, ljóskastara eða fólki að gera sig að eðalfólki, heldur sitja bara rólegir á skrifstofum og skoða tölur á blöðum.

Friðarsinnar eru femínistum friðsamlegri - eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Ekki geta friðarsinnar gert sig seka um að raska sálarfrið annars fólks með einhverjum tíðindum sem einhverjum gætu þótt leiðinleg. Það varð töluverður ófriður í kringum þessa svokölluðu klámráðstefnu, í blöðum, á spjallsíðum og í dómssölum, og hvernig gæti nokkur réttnefndur friðarsinni tekið áhættu á því að valda einhverjum þannigskonar átökum? Margs konar fólk gæti orðið sárt og reitt, sérstaklega hóteleigendur sem þurfa að greiða skaðabætur. Ég get ekki séð hvernig það samræmist hugsjónum sannra friðarsinna að gera annað fólk - saklaust fólk, vel að merkja - sárt og reitt. Femínistar eru hins vegar mun kvenlegri - það er að segja mannlegri - og hafa því nokkra ánægju af því að sjá aðra kveljast.

Vopnaframleiðendur eru séðari klámframleiðendum - vegna þess að blóð hinna síðarnefndu er fyrir neðan nafla. Hinir fyrrnefndu höfðu því væntanlega vit á því að vera ekkert að auglýsa hverjir þeir væru eða hvað þeir væru að gera fyrr en þeir voru komnir til landsins. Afskaplega taktískt hjá þeim.

29.10.07

Heimkoman

Það var fjör í Noregi. Ekki spurning. Það gerir manni líka gott að komast aðeins út. Ekki var nú mikið afrekað í ferðinni, bara legið í leti, slæpst og náðugheitin í fyrsta sæti.

Á Leifsstöð, þegar ég var að fara, kom ég auga á hjón (býst ég við, en kannske voru þau ekki gift), sem voru að fara með sömu vél og ég. Á Gardemoen, þegar ég var á heimleið, var þetta sama fólk að fara með sömu vél og ég.

Á Gardemoen var annars töf þegar ég var á heimleið. Allt gott og blessað með það, mér lá svosem ekkert á, þannig séð - þótt auðvitað hafi verið súrt að missa af afmælisveislunni. Til að stytta mér stundir settist ég inn á veitingastað á flugvellinum, Kon-Tiki. Þetta var látið vera sem ekta veitingahús, með matseðli, þjónað til borðs og svo framvegis. Ég get ekki mælt með þessum stað við nokkurn mann. Afskaplega óspennandi matseðill, og maturinn ekkert merkilegur heldur. Þá hefði ég betur varið tíma mínum og peningum í að sitja við bar, Akvavit Bar hét hann eða eitthvað í þá áttina, drekka Guinness og japla á hreindýrapylsum sem seldar voru á 21 norska krónu stykkið.

Hjá tollurum í Leifsstöð komst ég svo að því að það margborgar sig ekki að kaupa tvær viskíflöskur úti og fara í gegnum rauða hliðið, nema þá að þetta sé alveg einstaklega sérstakt viskí sem væri alveg kolómögulegt að kaupa á Íslandi. Hins vegar gat ég keypt alveg ágætis viskí í fríhöfninni á heimleiðinni - Jura Superstition.

Þegar ég var með pabba, Hildi og Sívert í London þegar pabbi varð fimmtugur (það er að segja, snemma í desember 2005) keypti ég lítinn prufupakka frá Jura í fríhöfninni hér, og varð svona líka ofsalega hrifinn af þessu. Auðvitað spillir ankhið ekki fyrir - Ultima-viskí! - svo ég keypti lítersflösku á Heathrow á leiðinni heim. Nú, þegar þetta er, a.m.k. eins og er, fáanlegt í fríhöfninni hér, þá get ég með góðri samvisku drukkið síðustu dropana úr þeirri flösku. Húrra fyrir mér!

27.10.07

Heimdalli er ekki alls varnað

Eða annað er varla hægt að ætla af nýlegri grein af Vantrú, þeim ágæta félagsskap. Það væri auðvitað gaman að vita hvort önnur svipuð félög annara stjórnmálaflokka séu á svipuðum slóðum.

Annars er merkilegt með þessa ríkisreknu Þjóðkirkju, hve oft mönnum finnst ástæða til að sækjast eftir áliti biskupsins. Þannig var til dæmis, sýndist mér, leitað til hans í Mogganum á fimmtudaginn, um þetta frumvarp um sölu áfengis. Nú nennti ég ekki að leggja á minnið hvað hann hafði um málið að segja, en ætli hann hafi ekki verið óhrifinn af því.

En hvað? Hvers vegna að leita að hans áliti á nokkrum sköpuðum hlut? Er þetta sérstaklega vís og spakur maður, þekktur fyrir skynsamlegar skoðanir og tiltölulega góðan rökstuðning? Eða er kannske bara leitað til hans vegna þess eins að hann er biskup?

Ég gæti alveg skilið að leitað sé til hans, ef blaðamaður þarf virkilega að fá svar við einhverri guðfræðilegri spurningu - hvernig virkar þríeining, til dæmis, eða er þetta í raun og veru hold og blóð Jesú sem neytt er við altarisgöngu? En til að svara einhverju sem gæti á einhvern hátt talist siðfræðileg spurning? Þá get ég ekki séð hvernig biskup hafi neitt gáfulegra um málið að segja heldur en t.d. bankastjóri Landsbankans.

Jafnvel tækju fleiri mark á bankastjóranum. Hvers vegna ekki? Ég held að mun fleiri Íslendingar hafi áhuga á peningum og veraldlegum eignum heldur en nokkurn tíma á kristnum guði og himnasælu - í það minnsta sýnist mér flest fólk lifa sínu daglega lífi á þann veg. Enda kannske auðveldara að hafa áhuga á einhverju sem maður veit fyrir víst að sé til, jafnvel þótt óvíst sé að maður geti sjálfur nokkru sinni náð almennilegum tökum á því, heldur en að kæra sig um eitthvað sem maður hefur ástæðu til að efast um að sé til yfirleitt.

24.10.07

Nú er ég farinn (yfirum)

Eða næstum því. Fer til Noregs á morgun, í fyrramálið. Kannske ég leggi mig bara núna snöggvast, sofi til svona tvö-þrjú og þá er ég alveg klár í slaginn.

Alltaf sömu lætin í þessum krossmönnum. Núna er þetta lið eitthvað voðalega ósátt við Biblíuþýðingu. Sýnist á öllu að hinir ósáttustu séu einmitt þeir sem minnst kunna í grísku og hebresku - miðað við léttar umræður á spjallvef Vantrúar (léttar, því varla hafa Vantrúarkappar haft mikinn tíma til að vega og meta þýðingu sem kom út um síðustu helgi - eða ég vona a.m.k. að fólkið eigi sér líf utan Vantrúar), þá hefur margt verið fært til betri vegar (til dæmis má nefna að í þessari nýju þýðingu er sagt að guð hafi sjálfur varpað stórum steinum af himnum ofan, frekar en að hann hafi bara látið þá falla). Nú, og svo allt þetta garg vegna monogenes - en í Biblíu þessa heimilis, sem prentuð var 1999 (en þýðingin sjálf væntanlega frá 1981), þá er þess getið í neðanmálsgrein við Jóhannes 3.16 að monogenes þýði „eini sonur“ eða „einkasonur“. Það er ekki sagt að það geti líka þýtt þetta - þar stendur að orðið þýði einmitt „eini sonur“. Þetta er síðan nánar skýrt: „Með þessu er Jóhannes að segja, að Kristur er einn fæddur af Guði föður frá upphafi, eins og orð fæðist af huga. Allt annað er skapað af Guði, hann einn fæddur frá eilífð, þess vegna eitt með Guði sjálfum...“

En hver veit? Kannske voru þessir vitleysingar líka að röfla og rífast um þetta orð árið 1999? Sjálfum er mér alveg sama, svosem - nema ég er ekki nema mátulega hrifinn af því ef það er verið að reyna að fegra þennan texta svo hann renni betur niður hjá nútímafólki. Ef stórum hóp manna líkar ekki boðskapur Biblíunnar, er þá ekki nær að þeir losi sig við hana, frekar en að reynt sé að fella hana að þeirra smekk? Gæti verið, ef textinn hefur nú í raun og veru verið fegraður eitthvað, að þessi ríkisrekna Þjóðkirkja væri að reyna að gera þessa trú sem flestum geðslega, þannig að sem flestir séu áfram í trúfélaginu og það geti áfram legið á ríkistúttunni?

Eins með samkynhneigða sem vilja vígslu í kirkju. Það er eitt að velja kirkju vegna þess að hún er svo vel sniðin að hjónavígslum, eins og guðleysingjarnir gerðu um daginn í Fríkirkjunni í Reykjavík - en hvers vegna eru samkynhneigðir einu sinni kristnir til að byrja með? (Hvers vegna er nokkur maður yfirleitt kristinn?)

Nú ætla ég útá hálan ís ... sjálfsmynd manna byggir að miklu leyti á því sem greinir þá frá öðru fólki. Sjálfið er greint frá umheiminum, frá öllu sem er „ekki-sjálf“ eða „ekki-ég“, með því að telja saman alla þá eiginleika sem gera mann frábrugðinn flestum öðrum („að vera ég“ er, held ég, ekki eiginleiki). Þar sem við erum flest gagnkynhneigð, þá kemst þessi hneigð ekkert að í sjálfsmyndarbyggingunni; „að vera gagnkynhneigður“ greinir mann ekki frá flestum öðrum heldur þvert á móti ýtir undir tilfinningu fyrir því hvað maður sé nú bara alveg eins og hinir.

Nú er ísinn ekki bara háll lengur, heldur er farið að braka í honum ... „að vera samkynhneigður“ er eitthvað sem greinir mann frá flestu öðru fólki. Þannig get ég vel trúað því að kynhneigð fái aðeins stærra hlutverk í sjálfsmynd samkynhneigðra, einmitt vegna þess að þetta er nógu sjaldgæft til að greina mann frá flestum öðrum.

Nú, ef þetta er rétt giskað hjá mér, þá bara skil ég ekki hvers vegna einn einasti samkynhneigði einstaklingur kysi að aðhyllast trú sem ræðst jafn harkalega að (hluta af) sjálfsmynd hans eins og kristnin gerir, bæði í nýja og gamla sáttmálanum. Sé þetta rangt giskað - þá skil ég samt ekki hvers vegna einhver kysi að aðhyllast þessa trú. Það er að segja - ég sé lítið sem ekkert aðlaðandi við hana. Hins vegar sé ég svosem lítið sem ekkert aðlaðandi við Angelinu Jolie eða Brad Pitt - og samt draga þau fólk í kvikmyndahús.

15.10.07

Nýjasta nýtt

Allir á Stardust. Þetta er barasta ein alskemmtilegasta mynd sem ég hef séð í bíó á þessu ári. Að vísu hef ég bara séð tvær myndir í bíó, og hin var 300. Það er því ekki beinlínis um mikla samkeppni að ræða. Þetta er fjörug og skemmtileg ævintýramynd með einhyrningum, nornum, draugum og fljúgandi sjóræningjum (og því ekkert óraunverulegri en 300 með öllum þeim ófreskjum sem þar birtust í smá stund), en sagan er töluvert áhugaverðari, og aðalleikararnir gera meira en að öskra og geifla sig framan í myndavélina - og eru þar að auki í betri búningum.