Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

23.3.07

OssomTossom vs. HAL

Fyrir svona mánuði síðan - þann fjórtánda febrúar - tók fartölvan mín gamla upp á því að fara í steik. Ég fór því með hana í viðgerð til Tölvulistans, eins og við er að búast, og er þar sagt að þetta komi til með að taka svona viku eða svo. Þeir fá hjá mér símanúmer og segjast munu hafa samband þá. Gott og vel, ég bjóst ekkert við því að fá hana samdægurs eða neitt slíkt, og þótti vika bara vera ágætis viðbragðstími. Ég fer þó þangað að viku liðinni, gott ef ég var ekki barasta á leið minni upp í Ormsson að kaupa nýja tölvu, og spyr í sakleysi mínu hvernig gangi. „Sko, móðurborðið er ónýtt, en við erum búnir að panta nýtt. Hún ætti að vera tilbúin eftir viku eða svo.“ Ókei ókei olræt, ekki liggur mér neitt á. Ekkert í tölvunni sem ég verð nauðsynlega að fá strax - bara nokkur bookmarks og svoleiðis.

Svo virðist hins vegar vera sem minnið í þessari nýju og annars ágætu tölvu er alls ekki upp á sitt besta. Að vísu átti ég bara í basli með það þegar ég var að leggja heiminn undir mig - til dæmis að kremja óþvegna Galla undir sandölum mínum - og því alls ekkert svo hræðilegt. Ég veit auðvitað ekki sjálfur hvort þetta sé minnið eða eitthvað annað, en kallinn í símanum sagði að það væri líklegasta orsökin. Til lengdar verður þetta þó þreytandi, svo að í dag fór ég með hana í viðgerð. Gott og vel, vonandi kemur hún aftur til mín fljótlega eftir helgi því ég þarf að skrifa dulítið fyrir mánaðarmótinn og er ekki nema mátulega hrifinn af því að skrifa svona innan um aðra. Nógu slæmt þykir mér nú að skrifa þetta, hérna útí Árnagarði - en þegar ég skrifa meira, þá vil ég fá að hafa mína tónlist á góðu blasti, kaffibolla eða bjórglas mér við hlið, og eitthvað að narta í innan seilingar.

Þess vegna, kominn heim úr göngutúrnum þegar ég fór með snótina mína í viðgerð, ákveð ég nú að hringja í Tölvulistann. Maðurinn sagði jú við mig nálægt tuttugasta og fyrsta febrúar að hún ætti að vera orðin tilbúin eftir tíu daga. Ég hringi því, og fæ loks samband eftir dúk og disk. „Jájá,“ segir strákurinn í símanum, „það er ekki búið að setja móðurborðið í ennþá, en við erum komnir með það. Hringdu aftur svona á miðvikudaginn eða svo.“

Hvurslags, ha? Helst langar mig til að skella skuldinni á Póstinn - en ég er alls ekki viss um að Tölvulistinn sé laus allrar ábyrgðar. Sérstaklega þykir mér leitt að þeir hafi aldrei haft fyrir því að hringja þegar kemur í ljós að biðtíminn muni verða nokkrum dögum og vikum lengri en þeir höfðu sagt. En þessa daganna er ég semsagt aftur tölvulaus, og því verður eitthvað minna um skrif hér. Vonandi þarf ég þó ekki að bíða í mánuð til viðbótar - það er bara svo og svo oft sem ég get fengið að láni hjá bankanum og bara svo og svo mikið sem ég kæri sig um að fá.

Góða helgi, bæði tvö.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já það virðist vanta allt svona heima, þetta er ekki bara tölvulistinn, heldur nánast öll fyrirtæki...við erum með móðurborðið en við erum ekki búnir að setja það inn í tölvuna...þetta er vitlaust svar, þeir ættu að segja að það sé einhver að setja það í "as we speak" og svo verður sendur e-mail (erfitt að kíkja á hann þegar tölvan manns er ekki til staðar) eða jafnvel sms...

Það er annars ömurlegt að vera tölvulaus, þó maður þurfi ekkert að gera á henni :D

09:10  
Blogger Þossi said...

Akkúrat. Nema pósturinn hafi verið sérlega lélegur, þá eru þeir búnir að hafa nýtt móðurborð í hvað, viku? Eitthvað svoleiðis. Frekar slappt, ég verð að segja það.

16:50  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég verð nú að segja að reynsla mín að tölvulistanum er alls ekki góð. Fór einu sinni með tölvuna til að fá nýjan harðan disk, fékk hana til baka og þá kviknaði ekki á henni. Ég opnaði tölvuna og sá þá að harðidiskurinn var rangt tengdur. Þannig að viðkomandi viðgerðarmaður, A) kunni ekki að tengja harðan disk, og B) nennti ekki að tékka hvort að viðgerðin hans hafi virkað. Ég lenti svo í 2-3 öðrum slæmum tilfellum (þó ekki eins forkastanlegum), og hef farið í tæknibæ síðan með bilaðar tölvur og verið mjög ánægður með þjónustuna þar hingað til.

-Frikki

11:48  

Skrifa ummæli

<< Home