Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

30.5.06

Þreyttur þriðjudagur

Svei mér þá ef þetta er ekki skotheld pikköpplína:
Sinfest í dag. Ef ég væri pikköpplínukall þá myndi ég æða niður í bæ á nóinu. En þar sem ég er ekkert svoleiðis, þá sit ég bara hér áfram aðeins lengur og fæ verk í bakið...

Endilega komið við í Furstaríkinu Tossom: Hérna. Flottur fáni, ha?

Og einkunnirnar mjatlast inn ... 9,5 í málsögu. Kom sjálfum mér skemmtilega á óvart þar - þannig séð. Þetta var auðvitað lang-skemmtilegasta fagið, ásamt málfræðinni - og oftast gengur manni betur í því sem maður hefur gaman af, ekki satt?

29.5.06

virgo omnis malefici

Var að taka þetta próf hjá Evu - jahá. En hey, hvernig á maður að vita af hvers lags mönnum gift kona hrífst af, en samt ekki? Öllu heldur - til hvers ... ?

Ég gældi við þá hugmynd, að búa sjálfur til svona próf, og kannske geri ég það einhvern tímann. En ekki núna.

Ég var nefnilega nýlega að ná mér í mod fyrir Medieval: Total War (sem er tölvuleikur; „mod“ er stytting á „modification“) sem er svona líka assgoti skemmtilegt. Eins og nafnið bendir til, þá er þetta e.k. stríðsleikur, hvar maður stýrir herjum sínum til sigurs á vígvöllum víðsvegar um Evrópu - merkilegt nokk í miðaldaumhverfi (í Evrópu frá Spáni í suðri, Írlandi í vestri, Noregi í norðri og Kákasusfjöllum í austri; þar að auki eru löndin fyrir botni Miðjarðarhafs með). Það er samt líka smá Risk-fílingur í þessu, með jafnvel smávegis Katan-elementum í bland. Landakortinu er skipt upp í landsvæði - Englandi er t.d. skipt í Wessex, Mercia og Norðumbraland (Wales og Skotland eru síðan önnur landsvæði), á meðan Frakklandi er skipt í landsvæði á borð við Normandý, Bretagneskaga, Anjou, Toulouse og Ile-de-France, og eitt eða tvö enn ...

Nú, þar að auki velur maður sér þjóð til að spila. Í upphaflega (óbreytta) leiknum var t.d. hægt að velja Dani, Englendinga, Frakka og Sikileyinga. Eins undarlegt og það hljómar, þá var hins vegar líka hægt að vera Ítalir (en eins og allir vita, þá var Ítalía ekki eitt ríki á miðöldum, heldur mörg borgríki sem þar að auki voru iðin við að lumbra á hverju öðru) en ekki Svíar (sem urðu, eftir því sem á leið, sannkallað stórveldi). Enn fremur var Svíþjóð bara eitt landsvæði, sem er undarlegt þegar litið er til þess hve lengi Danir réðu ríkjum á Skáni.

En með XL-modinu (ætli „XL“ eigi ekki bara að þýða „Extra-Large“?) er þessu kippt í liðinn (eða eins mikið og vél leikjarins leyfir). Nú er Skánn sérstakt landsvæði, auk þess sem hægt er að spila sem Svíar og Norðmenn (ásamt enn fleiri þjóðum - nú er loksins hægt að spila sem Litháen, annað stórveldi á miðöldum í bandalagi við Pólland). Þetta hef ég spilað talsvert í dag og haft gaman af. Seinna - sé áhugi fyrir því (hjá mér, þ.e.a.s., ég veit vel að enginn annar er að lesa þetta! Sem aftur leiðir hugann að þeirri vangaveltu hvort það væri ekki alveg jafn sniðugt að nota bara bók ... og að því hvort ég sé að tala við sjálfan mig og því snaróður) - mun ég svo skrá sögu Noregs (þeirrar þjóðar sem ég kaus að spila í fyrsta leiknum).

Svo rakst ég á annan sniðugan leik einhvern veginn - ég man ekki hvernig ég komst hingað en held að það hafi verið í undirskrift einhvers á einhverju spjallborði. Það er leikurinn NationStates, hvar maður fær að stýra eigin þjóð. Hef ekki spilað þetta svo mikið, en þó nóg til að sjá að þetta gæti orðið talsvert ávanabindandi.

Af öðrum vígstöðvum er það helst að frétta, að ég krækti mér í níu í málfræðinni, og kann ennþá bærilega við mig í vinnunni. Nú er Sinner kominn i flokkinn okkar, sem er auðvitað hið besta mál. Þó býður maður óþreyjufullur eftir því að Hjörturinn komi aftur til að rífa móralinn almennilega upp...

Nei ... enn fleiri góðar fréttir, í þetta sinn þökk sé myspace. Anathema ætla að bjóða annað lag af heimasíðunni sinni á næstu vikum. Þar er ennþá hægt að ná í lagið everything (já ... með litlu „e“ ...) sem ég held að flestum ætti að vera óhætt að gera (híhí, þetta eru næstum eins og trúarbrögð - og ég þá í mildu trúboði! Verra er að þeir hafa verið að opna fyrir HIM uppá síðkastið - í réttlátum heimi ættu HIM að opna fyrir sveitina sem opnar fyrir sveitina sem opnar fyrir Anathema ... en jæjajæja, stundum verður maður bara að taka það sem býðst). Allavega ... nýtt lag að koma frá þeim á næstu vikum. Verið stillt.

28.5.06

Reveal your true self and conform

Væri ég þannig hneigður, þá myndi ég fórna tveim lömbum í þakklætisskyni fyrir að kosningarnar séu búnar. Nú fær maður næstum því ársfrí (nema menn ákveði að halda kosningar fyrr). Tja, og þó - væntanlega er ekki langt í að menn fari að einbeita sér að alþingiskosningunum. Áróðursmaskínur af stað ... ætli það sé annars nokkurn tímann slökkt á þeim?

Gaman þegar fólk kýs af persónulegum ástæðum - „Æ, hann er svo leiðinlegur,“ eða „Já, en hún er svo ósjarmerandi!“

Það er svosem skiljanlegt í forsetakosningum. Forsetinn er jú því miður bara skraut og upp á punt - en mikið væri ég til í ef að forsetakosningar væru pólitískari. Ef menn vilja einhver sameingartákn, þá er bara að skella sér á kóng. Eða jarl, ætli Ísland ráði nokkuð við stærri titil? Einhvern sem er alinn upp til að vera sameingartákn, sem hlýtur tilhlýðilega þjálfun í slíkum efnum.

En þegar það er verið að velja fámennisstjórn til fjögurra ára, þá er afleitt að fólk skuli velja á einhverjum svona forsendum. Auðvitað er líka afleitt að valið sé eftir einhverjum loforðum - sem er svo gott sem sjálfgefið að verða aldrei haldin, síst af öllu ef tveir eða fleiri flokkar þurfa að mynda stjórn saman.

Raunar finnst mér þetta fyrirkomulag allt saman frekar óspennandi. Ég hef engin endaleg rök fyrir þessu - þetta jaðrar við að vera bara tilfinning - en það er eitthvað svo ferlega slæmt við þetta.

Til dæmis hvernig þetta losar fólk - einstaklinga - við að þurfa að bera ábyrgð á hlutunum. Stundum er talað um að hinn eða þessi bjálfi sem hefur brotið af sér í starfi skuli taka ábyrgð á því sem hann hefur gert, og jafnvel gjalda fyrir það líka. Ég er sérstaklega að tala um afbrot sem eru framin af manninum sem embættismanni - keyri einhver fullur heim úr partíi þá er það bara einstaklingsmál, ekki pólitískt. Ætli ég sé ekki aðallega með gæja eins og hann Brekkusöngs-Árna í huga, sem stálu í starfi - voru í hlutverki embættismanns þegar þeir stálu.

Allt í fínu lagi með að hann gjaldi fyrir þetta. En hvers vegna á að sleppa þeim sem komu honum í stöðuna til að byrja með? Þeir hljóta að bera einhverja ábyrgð líka, ekki satt? Þetta virkar a.m.k. niður á við - ef ég, sem forsætisráðherra, skipa einhvern embættismann sem svo brýtur af sér, þá væru margir fljótir að krefjast þess að ég (forsætisráðherra) axli ábyrgð á þessum embættismanni: Að ég segi af mér, til dæmis. Það er kannske sanngjörn krafa, en er þá ekki eins sanngjarnt að kjósendur beri ábyrgð á þessum mönnum sem þeir velja?

Annað dæmi og nærtækara úr þessari nýliðnu kosningabaráttu: Umferðarmál í Reykjavík. Fólk misviturt kvartar undan umferðartöfum og öðru, og heimta að borgarstjórnin geri eitthvað í málinu. Það kýs þann flokk sem það heldur að eigi eftir að bæta stöðuna - og svo er þeirra þætti í málinu lokið. Það er bara að koma sínum eigin vanda yfir á aðra og ætlast svo til að aðrir leysi vandamálin. Ríkið - borgin - mamma góða.

Þetta var auðvitað bara dæmi - það fyrsta sem mér datt í hug. Ég ætla svosem ekki að fylla þetta af dæmum, og kem mér þá beint að niðurstöðunni.

Þegar maður kýs, þá er maður að setja sig í stöðu barns. Barns eða sanns karlmennis: Að sjá óhreinindin á heimilinu, en frekar en að taka til og fara út með ruslið, þá er hrópað „Mamma/Kona, taktu til!“

Ekki handa mér, takk.

27.5.06

Jahérnahér

Ég held barasta að ég þurfi ekkert að hlusta á meira metal í sumar. Ég á eftir að gera það, auðvitað - en bara vegna þess að það er gaman, ekki vegna þess að þess sé þörf.

Þetta voru fyrsta flokks tónleikar. Agnar Eldberg (úr Lights on the Highways - sem ég kannast annars ekkert við og ég nefni bara ítarleikans vegna) opnaði tónleikana, sat þarna á sviðinu með kassagítar og stundum munnhörpu. Jæja, hann gerði meira en bara að sitja þarna, hann spilaði líka og söng. Gerði það ágætlega, söng m.a. Heart of Gold með Neil Young, og ekki er það nú slæmt lagaval. Verst var að fólkið á tónleikunum hafði fæst neinn áhuga á þessu, og var síblaðrandi sín á milli, höfðu jafnvel ekki fyrir því að klappa. Mér þykir það nú jaðra við dónaskap.

Ég var ekki með úr, og því veit ég ekki hvenær Sólstafir byrjuðu, en ég býst við að þeir hafi byrjað í kringum miðnætti. Þar sem þetta voru nú útgáfutónleikar Masterpiece of Bitterness, þá opnuðu þeir á fyrsta laginu þaðan, I Myself the Visionary Head, og höfðu meira að segja söngkonu til að opna lagið alveg eins og á disknum. Á disknum er lagið um tuttugu mínútur, og ég held að þeir hafi ekkert stytt það á tónleikunum (en eins og ég sagði, þá var ég ekki með tímamæli af neinu tæi, svo eitthvað kann mér að skjátlast). Mjög flott. Best var að það var afskaplega líkt laginu á disknum - næstum því svo líkt að það gæti hvarflað að einhverjum að þetta væri bara diskurinn spilað mjög hátt.

Bara næstum, samt.

Þetta eru hins vegar alvöru gaurar í alvöru hljómsveit. Mjög vel æfð lögin hjá þeim, öll stopp og skyndilegir keyrslukaflar pössuðu hjá þeim - enginn að ruglast og dragast aftur úr. Þetta eru engvir stráklingar sem spila bara saman á sunnudögum á milli þrjú og fjögur (eða hvað veit ég, kannske er það einmitt það sem þeir gera). Eitthvað var tæknin að ess té ríða þeim framanaf, en eftir svona tvö lög komust þeir á flug, og spiluðu bara diskinn eins og hann lagði sig.

Frábærir tónleikar, og svo eru þeir að spila á Dillon næstu helgi. Aldrei að vita nema maður athugi hverslags tónleikahúsnæði það er.

20.5.06

Grillkvöld heppnaðist afskaplega vel. Gott kjöt, gott fólk (fyrir utan fólkið sem ég þekkti ekki - kannske var það ekkert gott). Fór þúsundkalli ríkari en ég kom, ekki kvartar maður yfir því. Mættum alveg taka fleiri spilakvöld, hvort sem er innan eða utan vinnu. Hvað segir fólk - væri stemning að taka svona einusinni á tveggja vikna fresti eftir því sem við verður komið?

Bjórkvöld var ágætt, ekki slær maður hendinni mót fríum bjór. Kominn heim um eða rétt uppúr tólg - þegar ég var næstum kominn heim muldraði MalliPalli á neðrihæðinni svo ég sneri við, fór niður í bæ og fékk mér smá snarl.

Alltaf gaman að svona vinnustaðabjórkvöldum - sérstaklega þegar vinnustaðnum er dreift um alla borg. Hugsunin að baki er eflaust góð - hrista liðið saman, láta fólk úr Jafnaseli (eða hvaðsvosem Breiðholts-útibúið heitir) kynnast betur liðinu á Njarðargötu og Miklatúni. En það bara gerist varla. Fólk fer að drekka og er aðallega að hanga með þeim sem það þekkir fyrir. Ég held að ég hafi ekki talað við einn einasta ókunnugan á þessu kvöldi (fyrir utan barþjóna, gaur af Miklatúninu þegar ég var á klóinu, og þegar ég útskýrði fyrir stimplilstelpunni að ég væri „eiginlega“ fastráðinn, í það minnsta að ég hafði borgað í starfsmannasjóð í nokkurn tíma) en kannske er það bara ég.

Það er annars gott að vera farinn að vinna. Ágætt að vera úti og leika sér smá, lyfta dóti, moka og svo framvegis og framvegis.

Já, og fyrsta einkunn komin í hús: 8,0 fyrir bandaríska menningarsögu. Ég vona að leiðin muni bara liggja upp á við...

15.5.06

Próflok

Prófin eru búin. Á miðvikudag fer ég svo að vinna - mér reiknast til að ég fái tuttuguogtvo daga í sumarfrí. Þetta er miðað við að það verði unnið alla laugardaga (nema 17. júní og verslunarmannahelgarlaugardagurinn), enga sunnudaga og að annar í hvítasunnu sé frídagur. Sumarfríið samanstendur þannig af deginum í dag, morgundeginum, öðrum í hvítasunnu, 17. júni, verslunarmannahelgarlaugardeginum og sunnudögum. Jíha. Og svo auðvitað kvöldum hvers vinnudags, þannig að þetta er raunar býsna langt sumarfrí, ef maður tekur saman alla klukkutíma sem ég er ekki í vinnu og kallar þá sumarfrí.

13.5.06

Playing catch with the Time Lord

The Great Cold Distance kom út, held ég, í ár - ef ekki í ár, þá seint á síðasta ári, og er nýjasti diskurinn frá Katatonia hinni stokkhólmsku. Þetta er talsvert meiri metal-diskur heldur en meistarastykkið sem þeir gáfu út nokkrum árum fyrr (Viva Emptiness frá 2003, minnir mig), eða að minnsta kosti á köflum. Það er að segja, gítararnir eru meira metal. Söngvarinn heldur ennþá í sinn hreina söngstíl, og þetta er raunar afskaplega þægileg og mjúk rödd sem hann notar.

Stundum er ég reyndar ekki viss hvernig ætti að skilja röddina. Á hinum diskunum sem ég hef heyrt (Viva Emptiness og Tonight's Decision) er svipuð rödd uppi á tengingnum (einhvers staðar las ég, að fyrir langa löngu hafi hann verið meiri öskrari, en síðan hafi hann, eða hálsinn hans, bara orðið þreyttur á þessum öskrum og ákveðið að snúa sér að öðru). Á þeim tveim er þó meiri beiskja og reiði í röddinni - hlutirnir hafa verið að ganga illa á einkalífssviðinu. Augljóslega ekki á professional sviðinu, þar sem þetta er nú sæmilega vel lukkuð hljómsveit.

Fólk er oft gjarnt á að gagnrýna svona týpur. „Hvað er maðurinn eiginlega að væla þetta, moldríkur og ógeðslega vinsæll bara. Hann ætti bara að prófa mitt hlutskipti í smá stund!“ Þetta missir auðvitað alveg af því að þótt sumt gangi vel hjá manni, þá getur allt annað gengið hörmulega. Ég hef raunar ekki enn tekið eftir því að hann kvarti mikið í textunum undan því að diskarnir seljist illa, eða þá að hljómsveitin eigi bágt með að fá fólk til að flykkjast á tónleika.

Allavega. Á þessum fyrri diskum er hann eitthvað ósáttur og reiður og beiskur yfir því hvernig lífið hefur leikið hann (á sumum sviðum) og jafnvel væn gusa af eftirsjá í bland. Núna heyri ég hins vegar eitthvað annað í röddinni - uppgjöf. Það er eins og hann hugsi „Já ókei - alls konar fólk er búið að fara illa með mig, svíkja mig og ég veit ekki hvað og hvað. Jæja þá. Það þýðir ekkert að vera reiður og fúll yfir því.“ Svolítið stóískt hjá honum, kannske. Það eina sem er eftir er eftirsjáin. En semsagt - alger uppgjöf í röddinni. „Resignation“ myndi ég kalla þetta á ensku, eins og hann sé „resigned to his fate“ - „gefist upp fyrir örlögunum“.

Á móti kemur hins vegar að tónlistin er talsvert reiðari heldur en á fyrri diskum. Ekki þannig reiði sem fær mig til að æða út í garð og rífa trén upp með rótum, eða sturta úr ruslatunnunum og dreifa ruslinu um garði nágrannana. Í bland við sönginn, þá er þetta eiginlega bæld reiði - á yfirborðinu (í söngnum) er allt rólegt og uppgefið (í orðabókinni sem ég er með í tölvunni er „resignation“ þýtt sem „uppsögn kv.; lausnarbeiðni kv.; afsögn kv.; undirgefni kv.“ - sem sýnir bara aftur og einu sinni enn að orðabækur eru sorglega takmarkaðar þegar það kemur að skilningi og blæbrigðum orða) en reiðin og allt hitt er komið neðar.

Eða kannske er ég bara að heyra meira en efni eru til. Ég er a.m.k. nokkuð viss um að þeir hafi ekki haft svona þróun í hyggju þegar þeir sömdu þessa þrjá diska. Ég hef reyndar ekki lesið mörg viðtöl við þessa Svía, en ég er viss um að þeir væru fljótir að koma því að ef þeir ætluðu að sýna eitthvað konsept á þessum diskum. Aðrar sveitir hafa í það minnsta ekki hikað við það - eða allavega, Elend hafa ekkert verið feimnir við slíkt. Fyrstu þrír diskarnir þeirra áttu alveg frá upphafi að segja ákveðna sögu, og núverandi sería (sem á, skilst mér, allt í allt, að vera sjö diska löng - tveir diskar komnir út, og einn væntanlegur í ár, jibbí!) átti frá upphafi að snúast um tiltekið konsept. Ekki það að ég viti hvað það á að vera - óþægilegt þegar hljómsveitir hafa texta á: Ensku, frönsku, latínu, grísku, og hver veit hverju þessir artífartí Frakki (eða voru þeir tveir franskir?) og Austurríkissmaður taka upp á að bæta við? Maður skilur svona nokkurn veginn latínuna (með hjálp orðabóka), og enskuna auðvitað, en hitt er hálf-óskiljanlegt. Kannske er það bara eins gott ...

En já, þetta var um Katatonia og The Great Cold Distance. Fyrirtaks diskur. Ekki það besta sem frá þeim hefur komið - ég hef ekki heyrt allt, en hinir diskarnir sem ég minntist á (Viva Emptiness og Tonight's Decision) þykja mér þó betri, af einhverjum sökum. Það voru reyndar líka „grower“-diskar, eitthvað sem grípur mann kannske ekki undir eins, en við nánari athugun og áhlustun reynast alveg einstaklega góðir diskar. Kannske þarf maður að hlusta aðeins betur, pæla aðeins betur í textunum. En ef maður er einhvern tímann aðeins of kátur og glaður og þarf að ná sér aðeins niður - eða ef maður er niðurdreginn en getur ekki samið tónlist sjálfur, né gert neitt annað af viti í málunum - þá er alls ekki vitlaust að hlusta á The Great Cold Distance.

10.5.06

Meistarastykki biturleikans

Masterpiece of Bitterness

Þetta er metal eins og það gerist best. Þannig séð. "Metal"-aðdáendur sem hafa alist upp við Korn, System of a Down og þetta sem M*tallica hefur verið að gefa frá sér nýlega eiga kannske ekki eftir að kunna að meta þetta - lögin eru einfaldlega of löng, a.m.k. flest, og ég gruna svona lið um að hafa einfaldlega ekki þolinmæði til að hlusta á lög sem eru ca. 9 mínútna löng. Að vísu er eitt lag næstum 20 mínútur, og annað slagar uppí korter (og eitt sem er bara 3 mín), en annars er þetta svona meðallengdin - 7-8 mínútur.

Eins og ég sagði - þetta er eðal-metal. Þetta er að vísu ekki allra - ég fór einu sinni með Triin á tónleika með þeim, og hún þoldi alveg heilar fimm mínútur áður en hún fór, sagði þetta bara vera "hávaða". Þarna eru vissulega kaflar sem vekja upp myndir af eyðimörkum (væntanlega eru þeir að stefna að því að gefa manni mynd af íslensku landslagi), eins og í fyrsta laginu: Hægur taktur og svosem lítið að gerast nema bassi+trommur, og svo eitthvað einfalt (heyrist mér) gítarriff, og annar enn einfaldari sóló - sem er samt settur frekar aftarlega í mixið, svo hann er eiginlega í bakgrunninum - og maður þarf virkilega að fylgjast með til að taka eftir einhverjum breytingum í þeim kafla.

Þeir minna stundum á þennan eina Burzum-disk sem ég á - "sem er gott" - og stundum eru jafnvel kaflar sem minna mann á ISIS eða Pelican. Verst að það sé að koma sumar - þetta er ekta vetrardiskur, eitthvað sem maður hlustar á þegar snjónum kyngir niður.

Ég veit ekki alveg hvað textarnir eru um - hef ekki nennt að lesa þá í bæklingnum sem fylgdi disknum - en mig grunar samt að þeir séu hálfgerður spuni, eitthvað sem þeim datt í hug á staðnum. Röddin jafnvel hugsuð sem hljóðfæri, frekar en sem tæki til að flytja skilaboð.

Fyrir utan þessa Burzum-líkingu (sem ég er alls ekkert viss um að þeir sjálfir muni taka undir) þá bara dettur mér ekkert í hug til að líkja þeim við. Kannske er það vegna þess að ég rata ekkert svo vel um metal-heiminn lengur, en kannske er það vegna þess að þeir eru alveg sér á báti. Á myspace eru þeir: Sólstafir, og þar er eitt lag af þessum disk (Nature Strutter). Þá má líka finna á solstafir.com og þar er hægt að finna nokkur lög.

9.5.06

Úff

Hmm já ... það er dáldið liðið síðan maður póstaði síðast ... maður hefur ekki einu sinni náð að halda í Plata vikunnar, hvað þá spakmæli vikunnar. Og sögur af þessu æsispennandi lífi sem ég lifi ... fuggetaboutit.

(Sem minnir mig á að ég þarf að fara að sjá Donnie Brasco aftur)

Próflestur og próflestur - því lýkur á mánudaginn (eða öllu heldur á sunnudagskvöldið). Síðan get ég snúið mér aftur að áhugamálunum - þýðing fyrir Gunna, BA ritgerð fyrir mig, og shitloads af tölvuleikjum. Svo kannske einhverjar þýðingar fyrir mig. Það er reyndar ferlega gaman að þýða hitt og þetta, jafnvel þótt það sé ekki skemmtilegt. Uppá síðkastið hef ég öðru hvoru verið að hjálpa þessari hollensku stelpu Kim, sem var fengin til að klára að þýða íslenska sakamálasögu yfir á hollensku.

Hollenska er eiginlega merkilega lík íslensku, a.m.k. þegar hún er skrifuð. Þetta er eiginlega blanda af þýsku og dönsku og ensku - og kannske smá íslenska í bland. Maður lærir bara svo mikið um íslensku þegar maður þarf að útskýra eitthvert orðasamband á ensku. Þannig lærir maður líka ensku betur. Jafnvel einföld orðasambönd sem maður notar á hverjum degi (mér detta engin í hug núna), það getur verið snúið að koma þeim yfir á ensku. Sérstaklega ef maður hefur það í huga að maður er ekki að þýða fyrir manneskju sem talar ensku að móðurmáli.

Annars er þetta frekar ómerkileg bók, Þriðja táknið minnir mig að hún heiti. Einhver bók um morð og lögfræðing og eitthvað blalbla. Galdrar og eitthvað er flækt í málið, jafnvel þótt mér sýnist nú að þeir virki nú ekki - samt eitthvað svo „æ-æ“. Breytir samt engu um það að þetta er stórskemmtilegt. Reyndar var skemmtilegast þegar hún (Kim) var hérna, og maður gat séð hollenskuna og haft íslenskuna fyrir framan sig.

En þetta veður, ha? Frábært að hafa svalir í svona veðri þegar maður á að lesa fyrir próf. Maður bara dröslar stólnum út, nær í derhúfu og hlammar sér léttklæddur niður. Seinni hluta dags getur maður svo dregið fram hvítvínið kælt og bara ... chill out. (Fyrri hlutann er maður bara með eplasafa) Ekkert rugl eins og í gamla daga, þegar maður sat inni og hugsaði „Æ hvað það væri nú notalegt að komast út, að þurfa ekki að hanga yfir þessum bókum!“

Hvers vegna gat ég ekki verið fluttur hingað og kominn með svalir í fyrra sumar, þegar ég úlnliðsbrotnaði? Þá hefði ég verið úti allan tímann, úti á svölum með bók og haft það náðugt í fríinu - en þá hefði ég að vísu ekki haft jafn mikinn tíma til að vera á netinu allan daginn, en eins og allir vita þá leiddi það bara til góðra hluta að ég gat verið á netinu allan daginn og vanist því að skrifa með bara einni hendi (og hvers vegna ertu að flissa, þú þarna úti í horni?).

Jæja, maður getur þá kannske vonast til annars eins sumars í sumar. Kannske það verði svona ógeðslega heitt, og ég hef kannske vit á að brjóta eitthvað óþarfa bein (semsagt, ekkert í hægri hendi! Hvernig á ég að geta skeint mér með vinstri?) - þá höfum við annað sumar sem hægt er að nota í rólegheit og afslöppun, nema í þetta sinn á betri launum.

Á morgun - vonandi - kemur plata þarsíðustu viku. Hinn kemur þá plata síðustu viku og á föstudaginn plata vikunnar. Svo er bara að vona að einhver frá einhverju blaði lesi þessar umfjallanir og hugsi „Hey - kannske ég bjóði þessum að skrifa hjá okkur svona öðru hvoru“. Æ það væri sweet.