Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

20.12.06

OssomTossom, pt. ∞

Síðasta prófið yfirvofandi. Bresk menning og saga. Get ekki sagt að ég sé neitt sérlega spenntur fyrir þessu. Ekki að ég kvíði því, ég er eiginlega bara hálf-áhugalaus um efnið. Ekki að bresk menning eða saga breska heimsveldisins sé eitthvað ómerkilegt efni, en mér þykir þetta bara óspennandi og jafnvel ópraktískt líka. Þess vegna má segja að ég sé ekki neitt sérlega spenntur.

Sko. Það er allt gott og blessað með það að vita hver Hinrik áttundi eða Vilhjálmur af Óraníu og María voru, og ef maður veit líka hvað Act of Supremacy var eða hvað Bill of Rights var og hvernig þetta tengist allt saman áðurnefndum konungum og drottningum, þá er maður einu skrefi nær því að vinna í Trivial Pursuit. En að öðru leiti sé ég ekki fyrir mér að þetta sé eitthvað sem ég verði eða þurfi að hafa aðgengilegt í kollinum. Þetta er allt í bókum og ég þarf ekki að leita lengi til að finna eina eða tvær bækur um efnið. Sama má segja um breskt réttarkerfi, muninn á County Court og Magistrate Court og þar fram eftir götunum.

Ég myndi frekar vilja fara í tvö málvísindapróf. Þar er margt áhugavert að finna, gott hugmeti til að melta á göngutúrum. En auðvitað er gott að hafa tekið námskeiðið, fengið nasasjón af þessu öllu saman - og ætli það þurfi ekki að hafa próf til að maður geti sýnt fram á að maður hafi ekki bara sofið í tímum.

Mér þótti mun áhugaverðara að lesa í bók sem kom í fyrradag. Pantaði hana af amazon.com fyrir nokkru, og bjóst ekki við að fá fyrr en eftir áramót - en kom í fyrradag og ég sótti í gær: Fimmtán ára afmælisútgáfa af ritgerðasafninu All I Really Need to Know I Learned in Kindergarten eftir Robert Fulghum (ég hef þegar bætt honum í tengingalistann). Einstaklega skemmtileg bók, fróðleg og notaleg. Varla er hægt að lesa eina ritgerð án þess að skella upp úr, eins og sagan af því þegar hann hittir mann frá Idaho sem spyr hvort hann eigi startkapla, og vandræðin sem þessir tveir menn lenda í þegar þeir reyna að koma Idaho-bílnum í gang. Eða sagan af föður hans (trúleysingi) sem átti það til að stríða eiginkonu sinni (Suðurríkja-Baptisti) með því að benda henni á að Jesús hafi verið gyðingur - „Jesus was a Jew, dear“ - henni var ekki skemmt. Á hverjum jólum fór þessi sami pabbi (trúleysinginn) með strákinn til Hjálpræðishersins í Texas til að gefa öðrum súpu. Sagan af því hann var að sjá um um það bil áttatíu börn (sjö til tíu ára) og fór í leik sem hann kallaði „Giants, Wizards and Dwarfs“. Fyrsti hlutinn er einhvern veginn þannig að hann kallar „You have to decide now which you are - Giant, Wizard or Dwarf!“ og allir krakkarnir hópa sig saman eða fara í sitt horn. Allir nema ein stelpa - sem spyr „Hvar eiga hafmeyjarnar að vera?“

Og fjöldinn allur af öðrum sögum. Ég hef ekki tíma til að segja þær allar - verð víst að fara að koma mér af stað í þetta próf - en þær eru allar skemmtilegar og hugvekjandi og snerta á hérumbil öllu hversdagslegu sem maður getur látið sér detta í hug. Ef einhver rekst á þessa bók á bókasafni, þá er alveg óhætt að taka hana með sér. Auðlesin, kannske svolítið væmin á köflum, en stórskemmtileg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home