Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.12.06

OssomTossom er það sem skilur að myrkrið og ljósið

Mikið væri nú gaman ef ég hefði verið jafn rólegur í morgun og efni stóðu til...

Ég byrja á að sofa yfir mig. Slíkt er alvanalegt ef ég hef verið að drekka kvöldið áður - sem ég var einmitt að gera. Fyrst með Frikka á púlstofunni, svo bættust Kári og (enn síðar) Bjarni í hópinn. Mjög gaman þar, og ég hitti meira að segja tvær-þrjár kúlur. Svo fór Frikki heim en ég fylgdi Kára og Bjarna á Stúdentakjallarann þar sem Benni Hemm Hemm hélt tónleika. Mikið óskaplega voru það skemmtilegir tónleikar. Mig langar eiginlega bara að kaupa diskinn hans/þeirra og gá hvort þeir séu eins skemmtilegir á disk eins og á tónleikum.

En já - að morgninum.

Svaf yfir mig, eins og áður sagði, og fór ekki fram fyrr en Maggi frændi hringdi dyrabjöllunni með nokkra last-time pakka. Það hefur verið um ellefu-tólf leitið. Allt í sómanum ennþá. Svo fatta ég að það sé viturlegra að vera með vegabréf á þessu ferðalagi. Allt í lagi, ég þóttist vita hvar það var geymt. Ekki var það þar, en mér detta nokkrir aðrir staðir í hug, svo ég held leitinni áfram - eins og lög gera ráð fyrir.

Ekkert.

Hvað gerir maður eins og ég þá? Nú, hann panikkar, stressast úr hófum fram og svo framvegis. Rústa íbúðinni (svo gott sem) í leit að þessarri litlu bláu bók. Hún er hvergi. Á meðan á panikk-leit stendur hringir síminn síðan viðstöðulaust - ýmist mamma eða pabbi að spyrja hvernig gangi. Nú er ég býsna stressaður og því talsvert stuttur í spuna, eins og gerist. Þegar ég verð að finna vegabréf - sem er, þrátt fyrir allt hjal um Schengen og saminga milli Norðurlanda um óþörf vegabréfa, býsna mikilvægt (eins og ég lærði síðar hjá löggunni, þá þarf maður að hafa eitthvað löglegt skilríki, t.d. ökuskírteini, til að komast á milli, og debetkort eru ekki í þeim flokki) - þá er ég ekki mikill áhugamaður um símtöl. Eins og ég er nú annars sallasallarólegur - þá var ég það ekki þarna ... og þegar stressið og pirringurinn hefur hreðjatak á manni, þá er ég jafnvel ennþá minni áhugamaður um síma. Mamma hringdi og sagði mér að þetta væri nú óþarfa stress - sem það var auðvitað, eins og allt stress yfirleitt! - en akkúrat þarna var mér engin huggun í því.

En pabbi, sem var ekki í minni stöðu og því ekki jafn stressaður, hann hringdi í Þorstein frænda - sem aftur veit ósköp vel að það er hægt að fá hraðafgreiðslu. Ókei, flott - ég æði útá löggustöð. Fyrst niðrá stöð við Hlemm, en þá sé ég miða sem segir mér að vegabréf séu afgreidd einhvers staðar í Borgartúni. Ókei, ég æði þá þangað. Þegar hér er komið sögu er klukkan stödd einhvers staðar í kringum eitt.

Ég kemst í heilu lagi niður í Borgartún 7b, geng þar inn styrkum skrefum (merkilegt hvað góður göngutúr getur gert manni gott!) og segi afgreiðslukonunni allt af létta.

„Allt í lagi,“ segir hún, „þú getur alveg fengið nýtt vegabréf í hvelli. Ertu með skilríki?“

Ég dreg upp gamla góða debetkortið, sem hefur svo oft áður dugað mér sem skilríki.

„Ja-á,“ segir hún, „þetta er ekki nógu gott. Ertu með ökuskírteini?“

Haha. Auðvitað er ég ekki með svoleiðis plastkort - hef aldrei haft, en mun - eftir þetta - sennilega leggja aðeins meiri áherslu á að fá svoleiðis.

„Jahá. Þá þarftu að fá a.m.k. tvo votta - með almennileg skilríki - til að sanna að þú sért þú.“

Það hvarflaði að mér að tala við næstu tvær manneskjur úti á götu, en ákvað nú samt að hringja fyrst í fólk sem þekkir mig, svo allt sé nú heiðarlegt og gott. Hringi í Frikka - sem ég vissi vel að var í vinnunni, en hey: Ég var aftur kominn í panikk-mode - og hann tók auðvitað vel í þessa bón mína, en hann átti skiljanlega bágt með að komast úr vinnu. Sagðist þó ætla að hringja í Evu svo hún gæti komið á bílnum og skutlað honum uppeftir. Húff, þarna var þó kominn einn vottur (en ég fattaði auðvitað ekki þá að ef Eva myndi keyra hann, þá væri ég eiginlega kominn með tvo votta ... heilinn minn virkar stundum undarlega þegar það kemur að reikningi), svo ég hringi áfram. Ég náði í pabba, en um leið og ég var búinn að tala við hann, þá hringdi Frikki aftur.

„Heyrðu, Eva og Dodda koma.“

Mikið létti mér þá. Héðan í frá myndi allt ganga eins og í sögu, bara. Þær komu von bráðar - með góð skilríki - og málið leystist (fyrir utan að ég þurfti að hlaupa útí hraðbanka til að taka út pening vegna þess að löggan tekur ekki við kreditkortum). Miklu fargi af mér létt þarna.

Og af þessu öllu má draga þann lærdóm að nema það stefni allt í að maður eigi eftir að deyja á næsta klukkutíma eða svo, þá er engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur eða leggjast í stresskast.

Þess vegna vil ég þakka öllum sem tóku þátt í þessu - pabba, mömmu, Frikka, Evu og Doddu.

Núna sé ég bara eftir því að hafa ekki tekið mér tíma til að fara í sturtu áður en ég lagði af stað. Jæja - ef ég fæ bara einhvern andfúlan leiðinlegan miðaldra kall sem sessunaut þá er mér svosem sama, en það væri leiðinlegra ef það væri einhver huggulegri. Ég er farinn á barinn.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Frábært ævintýri þar sem þetta blessaðist nú allt. Ég þori samt að veðja að þegar þú varst að leita að vegabréfinu þá hefurðu tekið "Þossa týndir lykla panikkið" og farið í alla vasana þína, rétt?

Allavega, gleðileg jól og skilaðu kveðju til allra norðmannanna.

-Frikki

23:08  
Blogger Þossi said...

Hah, ég leitaði nú ekki í vösunum :D En alls staðar annars staðar ...

18:05  
Anonymous Nafnlaus said...

Er vegabréfið þá bara ekki í hægri vasanum á jakkanum þínum?:)
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

-Frikki

12:54  

Skrifa ummæli

<< Home