Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

10.8.06

Aut tace aut loquere meliora silentio

Þetta væri ég til í að reyna. Að annað hvort þegja eða „tala betur en þögnin“.

Ég reyndi einu sinni. Entist hálfan dag. Væri alveg til í að reyna aftur - en morgundagurinn hentar illa, og það væri svosem ekkert afrek þótt ég þegði allan mánudag (að því gefnu að enginn hringi og ég þurfi ekki að fara út í búð, þá mun ég sennilega þegja þann dag). Það er ekkert afrek að þegja þegar maður er hvort eð er einn. Öllu erfiðara er að þegja þegar maður er umkringdur fólki - og sérstaklega erfitt þegar maður vinnur með manni sem býður upp á skondinn og húmorískan útúrsnúning - helst klúrinn, líka.

Jesúítar, ef ég skil rétt, þeir þegja í fjórar vikur samfleytt. Eða kannske þegja þeir ekki - þeir eiga „a four-week period of silence,“ sem er kannske ekki alveg það sama og að steinhalda kjafti.

Ég væri alveg til í að prófa klausturlíf, þótt ekki væri nema í eitt ár. Ég gæti leigt einhverjum kattelskum íbúðina á meðan - mögulega fyrir afar lítinn pening, fái hann meðmæli frá einhverjum sem ég þekki, eða ef ég þekki viðkomandi persónulega - og verið í klaustri.

Belgíst trappistaklaustur væri kannske best. Trappistar ætlast ekki til þess að munkarnir haldi sig frá áfengi - og þeir gera alveg óhemju góðan bjór. Að fá að komast í gæðastjórnun í brugghúsinu þar - er það ekki bara draumastarf? Hvernig það samrýmist „þagnareið“ þeirra (þeir eru ekki alveg þöglir, en tala ekki meira en nauðsyn krefur) veit ég ekki, þar sem málbeinið verður oft laust eftir nokkra bjóra, en engu að síður væri það þess virði að prófa. Þó væri kannske ánægjulegra ef til væri klaustur, einhvers staðar í Skotlandi, sem gerði viskí. Á móti kæmi að maður þyrfti að vera þar í a.m.k. 10 ár til að fá að smakka viskíið sem maður gerði - en kannske væri það alveg þess virði að vera í klaustri í 40 ár til að smakka sitt eigið viskí.

Væri kannske betra, til að halda muninum sem gerður er í ensku, að tala um annars vegar „viskí“ (Skotland, „Whisky“) og hins vegar „viskeí“ (annars staðar, „Whiskey“)?

Hvernig sem þar er nú, þá er hægt að gera margt vitlausara (og ógeðfelldara!) í nafni trúarinnar heldur en að ganga í klaustur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home