Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

28.5.06

Reveal your true self and conform

Væri ég þannig hneigður, þá myndi ég fórna tveim lömbum í þakklætisskyni fyrir að kosningarnar séu búnar. Nú fær maður næstum því ársfrí (nema menn ákveði að halda kosningar fyrr). Tja, og þó - væntanlega er ekki langt í að menn fari að einbeita sér að alþingiskosningunum. Áróðursmaskínur af stað ... ætli það sé annars nokkurn tímann slökkt á þeim?

Gaman þegar fólk kýs af persónulegum ástæðum - „Æ, hann er svo leiðinlegur,“ eða „Já, en hún er svo ósjarmerandi!“

Það er svosem skiljanlegt í forsetakosningum. Forsetinn er jú því miður bara skraut og upp á punt - en mikið væri ég til í ef að forsetakosningar væru pólitískari. Ef menn vilja einhver sameingartákn, þá er bara að skella sér á kóng. Eða jarl, ætli Ísland ráði nokkuð við stærri titil? Einhvern sem er alinn upp til að vera sameingartákn, sem hlýtur tilhlýðilega þjálfun í slíkum efnum.

En þegar það er verið að velja fámennisstjórn til fjögurra ára, þá er afleitt að fólk skuli velja á einhverjum svona forsendum. Auðvitað er líka afleitt að valið sé eftir einhverjum loforðum - sem er svo gott sem sjálfgefið að verða aldrei haldin, síst af öllu ef tveir eða fleiri flokkar þurfa að mynda stjórn saman.

Raunar finnst mér þetta fyrirkomulag allt saman frekar óspennandi. Ég hef engin endaleg rök fyrir þessu - þetta jaðrar við að vera bara tilfinning - en það er eitthvað svo ferlega slæmt við þetta.

Til dæmis hvernig þetta losar fólk - einstaklinga - við að þurfa að bera ábyrgð á hlutunum. Stundum er talað um að hinn eða þessi bjálfi sem hefur brotið af sér í starfi skuli taka ábyrgð á því sem hann hefur gert, og jafnvel gjalda fyrir það líka. Ég er sérstaklega að tala um afbrot sem eru framin af manninum sem embættismanni - keyri einhver fullur heim úr partíi þá er það bara einstaklingsmál, ekki pólitískt. Ætli ég sé ekki aðallega með gæja eins og hann Brekkusöngs-Árna í huga, sem stálu í starfi - voru í hlutverki embættismanns þegar þeir stálu.

Allt í fínu lagi með að hann gjaldi fyrir þetta. En hvers vegna á að sleppa þeim sem komu honum í stöðuna til að byrja með? Þeir hljóta að bera einhverja ábyrgð líka, ekki satt? Þetta virkar a.m.k. niður á við - ef ég, sem forsætisráðherra, skipa einhvern embættismann sem svo brýtur af sér, þá væru margir fljótir að krefjast þess að ég (forsætisráðherra) axli ábyrgð á þessum embættismanni: Að ég segi af mér, til dæmis. Það er kannske sanngjörn krafa, en er þá ekki eins sanngjarnt að kjósendur beri ábyrgð á þessum mönnum sem þeir velja?

Annað dæmi og nærtækara úr þessari nýliðnu kosningabaráttu: Umferðarmál í Reykjavík. Fólk misviturt kvartar undan umferðartöfum og öðru, og heimta að borgarstjórnin geri eitthvað í málinu. Það kýs þann flokk sem það heldur að eigi eftir að bæta stöðuna - og svo er þeirra þætti í málinu lokið. Það er bara að koma sínum eigin vanda yfir á aðra og ætlast svo til að aðrir leysi vandamálin. Ríkið - borgin - mamma góða.

Þetta var auðvitað bara dæmi - það fyrsta sem mér datt í hug. Ég ætla svosem ekki að fylla þetta af dæmum, og kem mér þá beint að niðurstöðunni.

Þegar maður kýs, þá er maður að setja sig í stöðu barns. Barns eða sanns karlmennis: Að sjá óhreinindin á heimilinu, en frekar en að taka til og fara út með ruslið, þá er hrópað „Mamma/Kona, taktu til!“

Ekki handa mér, takk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home