Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

9.5.06

Úff

Hmm já ... það er dáldið liðið síðan maður póstaði síðast ... maður hefur ekki einu sinni náð að halda í Plata vikunnar, hvað þá spakmæli vikunnar. Og sögur af þessu æsispennandi lífi sem ég lifi ... fuggetaboutit.

(Sem minnir mig á að ég þarf að fara að sjá Donnie Brasco aftur)

Próflestur og próflestur - því lýkur á mánudaginn (eða öllu heldur á sunnudagskvöldið). Síðan get ég snúið mér aftur að áhugamálunum - þýðing fyrir Gunna, BA ritgerð fyrir mig, og shitloads af tölvuleikjum. Svo kannske einhverjar þýðingar fyrir mig. Það er reyndar ferlega gaman að þýða hitt og þetta, jafnvel þótt það sé ekki skemmtilegt. Uppá síðkastið hef ég öðru hvoru verið að hjálpa þessari hollensku stelpu Kim, sem var fengin til að klára að þýða íslenska sakamálasögu yfir á hollensku.

Hollenska er eiginlega merkilega lík íslensku, a.m.k. þegar hún er skrifuð. Þetta er eiginlega blanda af þýsku og dönsku og ensku - og kannske smá íslenska í bland. Maður lærir bara svo mikið um íslensku þegar maður þarf að útskýra eitthvert orðasamband á ensku. Þannig lærir maður líka ensku betur. Jafnvel einföld orðasambönd sem maður notar á hverjum degi (mér detta engin í hug núna), það getur verið snúið að koma þeim yfir á ensku. Sérstaklega ef maður hefur það í huga að maður er ekki að þýða fyrir manneskju sem talar ensku að móðurmáli.

Annars er þetta frekar ómerkileg bók, Þriðja táknið minnir mig að hún heiti. Einhver bók um morð og lögfræðing og eitthvað blalbla. Galdrar og eitthvað er flækt í málið, jafnvel þótt mér sýnist nú að þeir virki nú ekki - samt eitthvað svo „æ-æ“. Breytir samt engu um það að þetta er stórskemmtilegt. Reyndar var skemmtilegast þegar hún (Kim) var hérna, og maður gat séð hollenskuna og haft íslenskuna fyrir framan sig.

En þetta veður, ha? Frábært að hafa svalir í svona veðri þegar maður á að lesa fyrir próf. Maður bara dröslar stólnum út, nær í derhúfu og hlammar sér léttklæddur niður. Seinni hluta dags getur maður svo dregið fram hvítvínið kælt og bara ... chill out. (Fyrri hlutann er maður bara með eplasafa) Ekkert rugl eins og í gamla daga, þegar maður sat inni og hugsaði „Æ hvað það væri nú notalegt að komast út, að þurfa ekki að hanga yfir þessum bókum!“

Hvers vegna gat ég ekki verið fluttur hingað og kominn með svalir í fyrra sumar, þegar ég úlnliðsbrotnaði? Þá hefði ég verið úti allan tímann, úti á svölum með bók og haft það náðugt í fríinu - en þá hefði ég að vísu ekki haft jafn mikinn tíma til að vera á netinu allan daginn, en eins og allir vita þá leiddi það bara til góðra hluta að ég gat verið á netinu allan daginn og vanist því að skrifa með bara einni hendi (og hvers vegna ertu að flissa, þú þarna úti í horni?).

Jæja, maður getur þá kannske vonast til annars eins sumars í sumar. Kannske það verði svona ógeðslega heitt, og ég hef kannske vit á að brjóta eitthvað óþarfa bein (semsagt, ekkert í hægri hendi! Hvernig á ég að geta skeint mér með vinstri?) - þá höfum við annað sumar sem hægt er að nota í rólegheit og afslöppun, nema í þetta sinn á betri launum.

Á morgun - vonandi - kemur plata þarsíðustu viku. Hinn kemur þá plata síðustu viku og á föstudaginn plata vikunnar. Svo er bara að vona að einhver frá einhverju blaði lesi þessar umfjallanir og hugsi „Hey - kannske ég bjóði þessum að skrifa hjá okkur svona öðru hvoru“. Æ það væri sweet.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home