Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.5.06

virgo omnis malefici

Var að taka þetta próf hjá Evu - jahá. En hey, hvernig á maður að vita af hvers lags mönnum gift kona hrífst af, en samt ekki? Öllu heldur - til hvers ... ?

Ég gældi við þá hugmynd, að búa sjálfur til svona próf, og kannske geri ég það einhvern tímann. En ekki núna.

Ég var nefnilega nýlega að ná mér í mod fyrir Medieval: Total War (sem er tölvuleikur; „mod“ er stytting á „modification“) sem er svona líka assgoti skemmtilegt. Eins og nafnið bendir til, þá er þetta e.k. stríðsleikur, hvar maður stýrir herjum sínum til sigurs á vígvöllum víðsvegar um Evrópu - merkilegt nokk í miðaldaumhverfi (í Evrópu frá Spáni í suðri, Írlandi í vestri, Noregi í norðri og Kákasusfjöllum í austri; þar að auki eru löndin fyrir botni Miðjarðarhafs með). Það er samt líka smá Risk-fílingur í þessu, með jafnvel smávegis Katan-elementum í bland. Landakortinu er skipt upp í landsvæði - Englandi er t.d. skipt í Wessex, Mercia og Norðumbraland (Wales og Skotland eru síðan önnur landsvæði), á meðan Frakklandi er skipt í landsvæði á borð við Normandý, Bretagneskaga, Anjou, Toulouse og Ile-de-France, og eitt eða tvö enn ...

Nú, þar að auki velur maður sér þjóð til að spila. Í upphaflega (óbreytta) leiknum var t.d. hægt að velja Dani, Englendinga, Frakka og Sikileyinga. Eins undarlegt og það hljómar, þá var hins vegar líka hægt að vera Ítalir (en eins og allir vita, þá var Ítalía ekki eitt ríki á miðöldum, heldur mörg borgríki sem þar að auki voru iðin við að lumbra á hverju öðru) en ekki Svíar (sem urðu, eftir því sem á leið, sannkallað stórveldi). Enn fremur var Svíþjóð bara eitt landsvæði, sem er undarlegt þegar litið er til þess hve lengi Danir réðu ríkjum á Skáni.

En með XL-modinu (ætli „XL“ eigi ekki bara að þýða „Extra-Large“?) er þessu kippt í liðinn (eða eins mikið og vél leikjarins leyfir). Nú er Skánn sérstakt landsvæði, auk þess sem hægt er að spila sem Svíar og Norðmenn (ásamt enn fleiri þjóðum - nú er loksins hægt að spila sem Litháen, annað stórveldi á miðöldum í bandalagi við Pólland). Þetta hef ég spilað talsvert í dag og haft gaman af. Seinna - sé áhugi fyrir því (hjá mér, þ.e.a.s., ég veit vel að enginn annar er að lesa þetta! Sem aftur leiðir hugann að þeirri vangaveltu hvort það væri ekki alveg jafn sniðugt að nota bara bók ... og að því hvort ég sé að tala við sjálfan mig og því snaróður) - mun ég svo skrá sögu Noregs (þeirrar þjóðar sem ég kaus að spila í fyrsta leiknum).

Svo rakst ég á annan sniðugan leik einhvern veginn - ég man ekki hvernig ég komst hingað en held að það hafi verið í undirskrift einhvers á einhverju spjallborði. Það er leikurinn NationStates, hvar maður fær að stýra eigin þjóð. Hef ekki spilað þetta svo mikið, en þó nóg til að sjá að þetta gæti orðið talsvert ávanabindandi.

Af öðrum vígstöðvum er það helst að frétta, að ég krækti mér í níu í málfræðinni, og kann ennþá bærilega við mig í vinnunni. Nú er Sinner kominn i flokkinn okkar, sem er auðvitað hið besta mál. Þó býður maður óþreyjufullur eftir því að Hjörturinn komi aftur til að rífa móralinn almennilega upp...

Nei ... enn fleiri góðar fréttir, í þetta sinn þökk sé myspace. Anathema ætla að bjóða annað lag af heimasíðunni sinni á næstu vikum. Þar er ennþá hægt að ná í lagið everything (já ... með litlu „e“ ...) sem ég held að flestum ætti að vera óhætt að gera (híhí, þetta eru næstum eins og trúarbrögð - og ég þá í mildu trúboði! Verra er að þeir hafa verið að opna fyrir HIM uppá síðkastið - í réttlátum heimi ættu HIM að opna fyrir sveitina sem opnar fyrir sveitina sem opnar fyrir Anathema ... en jæjajæja, stundum verður maður bara að taka það sem býðst). Allavega ... nýtt lag að koma frá þeim á næstu vikum. Verið stillt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home