Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

13.5.06

Playing catch with the Time Lord

The Great Cold Distance kom út, held ég, í ár - ef ekki í ár, þá seint á síðasta ári, og er nýjasti diskurinn frá Katatonia hinni stokkhólmsku. Þetta er talsvert meiri metal-diskur heldur en meistarastykkið sem þeir gáfu út nokkrum árum fyrr (Viva Emptiness frá 2003, minnir mig), eða að minnsta kosti á köflum. Það er að segja, gítararnir eru meira metal. Söngvarinn heldur ennþá í sinn hreina söngstíl, og þetta er raunar afskaplega þægileg og mjúk rödd sem hann notar.

Stundum er ég reyndar ekki viss hvernig ætti að skilja röddina. Á hinum diskunum sem ég hef heyrt (Viva Emptiness og Tonight's Decision) er svipuð rödd uppi á tengingnum (einhvers staðar las ég, að fyrir langa löngu hafi hann verið meiri öskrari, en síðan hafi hann, eða hálsinn hans, bara orðið þreyttur á þessum öskrum og ákveðið að snúa sér að öðru). Á þeim tveim er þó meiri beiskja og reiði í röddinni - hlutirnir hafa verið að ganga illa á einkalífssviðinu. Augljóslega ekki á professional sviðinu, þar sem þetta er nú sæmilega vel lukkuð hljómsveit.

Fólk er oft gjarnt á að gagnrýna svona týpur. „Hvað er maðurinn eiginlega að væla þetta, moldríkur og ógeðslega vinsæll bara. Hann ætti bara að prófa mitt hlutskipti í smá stund!“ Þetta missir auðvitað alveg af því að þótt sumt gangi vel hjá manni, þá getur allt annað gengið hörmulega. Ég hef raunar ekki enn tekið eftir því að hann kvarti mikið í textunum undan því að diskarnir seljist illa, eða þá að hljómsveitin eigi bágt með að fá fólk til að flykkjast á tónleika.

Allavega. Á þessum fyrri diskum er hann eitthvað ósáttur og reiður og beiskur yfir því hvernig lífið hefur leikið hann (á sumum sviðum) og jafnvel væn gusa af eftirsjá í bland. Núna heyri ég hins vegar eitthvað annað í röddinni - uppgjöf. Það er eins og hann hugsi „Já ókei - alls konar fólk er búið að fara illa með mig, svíkja mig og ég veit ekki hvað og hvað. Jæja þá. Það þýðir ekkert að vera reiður og fúll yfir því.“ Svolítið stóískt hjá honum, kannske. Það eina sem er eftir er eftirsjáin. En semsagt - alger uppgjöf í röddinni. „Resignation“ myndi ég kalla þetta á ensku, eins og hann sé „resigned to his fate“ - „gefist upp fyrir örlögunum“.

Á móti kemur hins vegar að tónlistin er talsvert reiðari heldur en á fyrri diskum. Ekki þannig reiði sem fær mig til að æða út í garð og rífa trén upp með rótum, eða sturta úr ruslatunnunum og dreifa ruslinu um garði nágrannana. Í bland við sönginn, þá er þetta eiginlega bæld reiði - á yfirborðinu (í söngnum) er allt rólegt og uppgefið (í orðabókinni sem ég er með í tölvunni er „resignation“ þýtt sem „uppsögn kv.; lausnarbeiðni kv.; afsögn kv.; undirgefni kv.“ - sem sýnir bara aftur og einu sinni enn að orðabækur eru sorglega takmarkaðar þegar það kemur að skilningi og blæbrigðum orða) en reiðin og allt hitt er komið neðar.

Eða kannske er ég bara að heyra meira en efni eru til. Ég er a.m.k. nokkuð viss um að þeir hafi ekki haft svona þróun í hyggju þegar þeir sömdu þessa þrjá diska. Ég hef reyndar ekki lesið mörg viðtöl við þessa Svía, en ég er viss um að þeir væru fljótir að koma því að ef þeir ætluðu að sýna eitthvað konsept á þessum diskum. Aðrar sveitir hafa í það minnsta ekki hikað við það - eða allavega, Elend hafa ekkert verið feimnir við slíkt. Fyrstu þrír diskarnir þeirra áttu alveg frá upphafi að segja ákveðna sögu, og núverandi sería (sem á, skilst mér, allt í allt, að vera sjö diska löng - tveir diskar komnir út, og einn væntanlegur í ár, jibbí!) átti frá upphafi að snúast um tiltekið konsept. Ekki það að ég viti hvað það á að vera - óþægilegt þegar hljómsveitir hafa texta á: Ensku, frönsku, latínu, grísku, og hver veit hverju þessir artífartí Frakki (eða voru þeir tveir franskir?) og Austurríkissmaður taka upp á að bæta við? Maður skilur svona nokkurn veginn latínuna (með hjálp orðabóka), og enskuna auðvitað, en hitt er hálf-óskiljanlegt. Kannske er það bara eins gott ...

En já, þetta var um Katatonia og The Great Cold Distance. Fyrirtaks diskur. Ekki það besta sem frá þeim hefur komið - ég hef ekki heyrt allt, en hinir diskarnir sem ég minntist á (Viva Emptiness og Tonight's Decision) þykja mér þó betri, af einhverjum sökum. Það voru reyndar líka „grower“-diskar, eitthvað sem grípur mann kannske ekki undir eins, en við nánari athugun og áhlustun reynast alveg einstaklega góðir diskar. Kannske þarf maður að hlusta aðeins betur, pæla aðeins betur í textunum. En ef maður er einhvern tímann aðeins of kátur og glaður og þarf að ná sér aðeins niður - eða ef maður er niðurdreginn en getur ekki samið tónlist sjálfur, né gert neitt annað af viti í málunum - þá er alls ekki vitlaust að hlusta á The Great Cold Distance.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home