Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

4.12.07

A sobject may also be the throwing of a sob (compare fitject).

Var ég búinn að segja frá því að um daginn lét ég ekki bjóða mér lengur að geta bara séð PowerPoint-glærur, en ekki til dæmis breytt þeim eða bætt eigin athugasemdum við þær? Jæja, þá er því hérmeð komið á framfæri að ég náði mér í OpenOffice, og get nú gamnað mér við glæruskoðun langt frameftir nóttu. Ég get núna líka kannske jafnvel tekið tölvuna með mér í skólann eftir áramót og glósað beint á glærurnar, þá sjaldan sem kennarar hafa fyrir því að setja þær á netið áður en tíminn hefst - án þess að þurfa að prenta þær út með tilheyrandi kostnaði (pappír er dýr, blek er dýrt - og pláss er sennilega dýrast). Jibbí.

Best af öllu var svo auðvitað að þetta gerði ég í vinnunni. Tók tölvuna með eina nóttina (aðfaranótt þriðjudags), því ég þurfti að fara yfir nokkrar glærur og annað efni frá kennara og sé, mér til ánægju, að ég get tengst netinu. Að vísu segir tölvan mér að ég sé ýmist með „no signal“ eða „low signal“ en það skiptir engu máli, ég get bæði skoðað síður eins og Wikipedia áfallalaust, og svo náð í þennan ríflega 100 Mb pakka án þess að hafa mikið fyrir því. Allt í boði HÍ.

---

Hvað er annars merkilegast við íslenskuna? Frá mínum bæjardyrum séð er það næstum því augljóst: Það er hægt að segjast eiga fólk án þess að nokkur kippi sér upp við það. „Ég á tvö börn,“ gæti maður sagt og engum þætti það eitthvað óeðlilegt (nema kannske ef maðurinn væri fimmtán ára), en ef þetta væri þýtt orð fyrir orð yfir á ensku („I own two children“) væru flestir vonandi fljótir að hringja í lögguna. Sömuleiðis með maka - „Áttu konu?“ er ósköp eðlileg spurning, og ekkert að því að svara henni játandi en „Do you own a woman?“ er undarleg spurning og erfitt að svara öðruvísi heldur en neitandi.

Það sem bjargar íslenskunni fyrir horn er hins vegar að þetta gengur í báðar áttir: Foreldrar eiga börnin, en börnin eiga líka foreldrana; karlinn á konuna en konan á líka karlinn. Það væri nú aldeilis skemmtilegt á Alþingi (eða hefði a.m.k. verið gaman þar fyrir nokkrum áratugum) ef það væri til dæmis bara hægt að segja „Ég á konu“ en ekki „Ég á karl“ (einungis „Ég hef karl“ gæti gengið, eða kannske frekar „Ég er karls“) eða bara „Ég á börn“ en ekki „Ég á foreldra“. Þetta er því ekki alveg afleit hefð - en ansi undarleg samt, svona ef maður ímyndar sér að maður sé útlendingur að kynnast íslensku með aðstoð lélegrar orðabókar.

Svo er líka alltaf gaman að svara spurningum eins og „Áttu kærustu?“ eins og spurt hafi verið „Áttu eld?“ - leita í öllum vösum áður en maður neitar ...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home