Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

13.12.07

Síðasti titill – full sannspár fyrir minn smekk!

Það sem átti bara að vera svolítið fyndið og vísa til tveggja síðustu atriðanna – asískur samruni L og R annars vegar, og yfirvaraskeggsíðan ágæta hins vegar – reyndist svo bara vera nokkuð nákvæm spá! Skegginu mínu var nefnilega rænt.

Það var stressið sem stal því. Það er ekki nóg með að ég narti stundum í neglurnar á mér þegar mikið liggur við – eða mér leiðist – heldur á ég líka til að japla á skegginu við svipaðar aðstæður. Eitt og eitt hár – hvað gerir það til? Nú, vegna þess að ég hafði skipulagt mig sem svo, að ég myndi ekki byrja að lesa af neinni alvöru fyrir prófið sem ég var í í dag fyrr en á mánudaginn, og þar sem að ég varð svo pínku slappur (ekki nóg til að vera veikur, en samt nóg til að geta gert lítið meira en legið í rúminu, þambað engiferseyði og sofið), þá brást ég svo við að tína meira en venjulega úr skegginu þennan eina og hálfa dag sem ég gat eitthvað lesið – ennþá meira en venjulega þar sem ég er eiginlega hættur að naga neglurnar (í bili). Nú, þar sem ég var búinn að reyta svo mikið úr skegginu að ég leit í spegil og hélt að ég væri orðinn fimmtán ára aftur, þá sá ég ekkert annað í stöðunni en að raka það af. Það leysir vandann álíka vel og að mölva úr mér tennurnar þegar þær verða af kaffidrykkju orðnar dekkri en hrossaaugu. Þar sem ég get ekki verið með bara rétt rúmlega vikugamalt skegg á jólunum, þá stefnir allt í skegglaus jól og áramót á Íslandi hjá Þossa garminum.

Þetta er raunverulega skýringin. Opinbera skýringin er þó sú að ég er bara að prófa eitthvað „nýtt“ fyrir jólin – og þar sem ég hef svo lengi verið skeggjaður, þá varð ég bara að raka þetta af nokkru fyrr svo ég hefði tíma til að venjast þessu.

Annars held ég að prófið hafi bara gengið ágætlega. Kannske skeggátið hafi skilað einhverju?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home