Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

6.12.07

(Án titils)

Annars kíkti ég á Silfrið síðasta sunnudag, sérstaklega til að sjá Matthías Ásgeirsson spjalla við Egil um Þjóðkirkjuna. Ég vissi ekki að Jón hinn frjálslyndi myndi vera þar líka - því hefði ég vitað af því fyrirfram hefði ég sennilega aldrei litið á þetta. En fyrst ég var nú kominn þangað, þá gat ég alveg eins horft á þetta (annars er lélegt að þátturinn sé ekki kaflaskiptur þegar hann er settur á netið).

Auðvitað kom ekkert af viti fram þarna, a.m.k. ekki frá þeim Agli og Jóni. Matthías var fínn (þó held ég að það væri sterkari leikur hjá öllu hugsandi fólki að gera eins og femínistarnir og neita að mæta; ef þær geta neitað vegna þess hve fáar konur eru boðnar í þáttinn, þá hlýtur viti borið fólk að geta neitað að mæta vegna þess hve fáu viti bornu fólki er boðið. Síðast þegar ég horfði á heilan þátt - og ég skal alveg játa að langt er liðið síðan ég lagði slíkt á mig - þá virtist mér Hannes Hólmsteinn vera sá skarpasti í gervöllu stúdíóinu ... ).

Hvað um það. Þarna voru þeir tveir, Matthías og Frjálslyndi-Jón. Snemma í umræðunni slengir hinn frjálslyndi maður slátrinu á borðið fram svofelldri skilgreiningu á því hvað „kristið siðgæði“ er:

Kristið siðgæði er umburðarlyndi, kærleikur, virðing fyrir manninum og einstaklingnum.

Frábært. Nema þetta er ekkert sérkristið, heldur hafa hinir og þessir haldið slíkum hugmyndum fram, hvort sem er fyrir eða eftir Jesús var að predika. Ef það á með réttu að heita kristið, þá hlýtur að eitthvað sem greinir það frá öðru siðgæði. (Ef menn tala um „íslensk útlitseinkenni“, þá geta eiginleikar eins og tveir fætur eða eitt nef ekki talist þar með, því þetta er eiginleiki sem fleiri en Íslendingar hafa. Íslensk útlitseinkenni, ef einhver eru, hljóta að vera þau einkenni sem greina Íslendinga frá öðrum.) Og hvað er það sem greinir þá kristið siðferði frá öðrum siðferðiskerfum?

Ætli við vitum ekki öll hvert svarið er: Sárasótt.

Réttlætingin fyrir kristnu siðferði - það er það sem greinir kristilegt siðferði frá öðrum. Og hver er nú sú réttlæting? „Hæ krakkar, ég heiti Jesús, ég er kristur og sonur guðs. Guð talar við mig. Gerið eins og ég segi ... eða farið til andskotans.“ (Kannske má bæta við - „Gerið eins og ég segi - og komist til himna!“) Semsagt - fólk á að hegða sér almennilega vegna þess að guð, eða fulltrúi hans hér á jörð, segir þeim að gera það - og til að forðast refsingu og/eða fá verðlaun í næsta lífi.

Þetta „kristna siðgæði“ sem frelsis-Jón talar um er þá ekki neitt sérstaklega kristið nema það sé rökstutt með vísun til krists. Það, ekki umburðarlyndi eða virðing fyrir náunganum, er það sem gerir þetta kristið. Og er það eitthvað sem er vit í að kenna krökkum? Væri ekki nær að kenna þeim aðeins betri ástæður til að fylgja Gullnu reglunni, eins og til dæmis að samfélagið (eða í það minnsta umferðin) yrði talsvert betri ef allir færu eftir henni? Það er allt í lagi að kenna þeim að meta meira eitthvað annað en það sem eyðist eða þjófar kunna að stela - en hvernig safnar maður eiginlega fjársjóðum á himni? Það þarf ansi langa teygju (alla leið yfir í annað guðspjall, meira að segja) til að það sé hægt að fá nokkurt vit í þessa tillögu. En þá verður hún heldur ekkert svo vitlaus, þannig séð.

Og jafnvel þótt það sé gert, þá er vont ef eina ástæðan sem maður hefur til að hlýða sé „Jesús sagði að maður eigi að gera svona.“ Ég vil í það minnsta losna við allt kristilegt úr röksemdafærslunni; ég skal svosem fylgja reglunum eftir bestu getu, en ég vil betri ástæður - ef það þarf þá yfirleitt einhverjar ástæður til að haga sér almennilega. Fullorðið fólk þarf yfirleitt enga ástæðu til að gera ekki í brækurnar - það er bara eitthvað sem maður gerir ekki, og ef það gerist skammast maður sín ógurlega eftir á.

Jamm ... alltaf skal ég finna sér eitthvað til dundurs þegar brýndari verkefni hanga fyrir ofan mig eins og ótrygg grýlukerti. Ég held raunar að ég taki aldrei jafn vel til og þegar ég er í prófum.

---

Annars er ég bara afskaplega sáttur við þetta OpenOffice. Jafnvel ritvinnsluforritið þykir mér þægilegra ... af einhverjum ástæðum, því það er nær alveg eins og Word. Kannske er það bara vegna þess að [shift]+[2] gefur mér íslenskar gæsalappir - ég þarf ekki að fikta eins mikið til að fá það í gegn. Það eitt er nóg til að gleðja mig ... þarf ekki mikið til.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home