Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

7.12.07

Líkklæði og marshmallows

Alltaf er nú gott að fá sér kaffibolla nývaknaður. Loksins er ég búinn að fatta hvað ég þarf að gera til að tölvan fari alltaf í standby þegar ég loka henni, svo nú er ég farinn að gera það þegar ég fer að sofa (vonandi fer það ekki illa með hana). Þá get ég, þegar ég vakna, staulast fram í eldhús og kveikt undir katlinum; þegar vatnið er farið að sjóða er ég venjulega búinn að lesa öll eða flest RSS-in mín og alla tölvupóstana. Þegar kaffið er tilbúið get ég svo sest niður og skrifað.

Ég las í einhverjum auglýsingapésanum um daginn - og ég man ekki hvort það var nú Mogginn eða Fréttablaðið eða 24 stundir, enda er þetta allt saman meira og minna eins; helsti munurinn er kannske sá að Calvin og Hobbes eru í Mogganum en Pondus er í Fréttablaðinu og hvað, ekkert fyndið í 24 stundum? - að það hafi verið um sjötta áratuginn sem sú hefð hófst að klæða nýfæddar stelpur í bleikt og nýfædda stráka í blátt - áður voru allir í hvítu, sem er frekar líkklæðalitur heldur en nýburalitur.

Gott að vita. En var þetta beinlínis spurning fyrir Alþingi? Nú hef ég svosem ekkert á móti því að eiginmaður eróbikkdrottningar snöflist í kringum fyrrverandi leikkonu - það er ekki eins og hann hafi neitt þarfara að gera (en verra er að hann hefur sennilegast ekki athugað málið sjálfur) - en hefði ekki alveg eins verið hægt að tilkynna á þingi að nú hafi spurning verið send til Árna Björnssonar og Vísindavefjarins, og að svarið verði tilkynnt á þingi um leið og það berst? Væri það eitthvað verra?

+*+*+

Anathema hefur gefið út nýtt lag, Angels Walk Among Us, og það fyrir nokkru síðan. Ég þarf greinilega að fylgjast betur með Mypace-síðunni þeirra. Eitthvað ætla þau að láta okkur bíða eftir heilum disk, þannig að þetta er þó eitthvað. Topplag, að sjálfsögðu, enda bjóst enginn við öðru frá þessu fjölskyldufyrirtæki.

Lagið má heyra á Myspace-síðunni; og það má t.d. ná í það í gegnum síðu þeirra, anathema.ws, undir News.

+*+*+

Og vegna þess að sumum þykir Lucky Charms svo afskaplega gott - Wondermark útskýrir hvernig bragðið verður til. Ef músarbendillinn er færður yfir myndina og látinn standa þar í smá stund - lítill lokatilkynning.

Góða helgi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home