Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

4.1.07

Nýtt ár, nýr OssomTossom

Og þá er ég kominn heim. Kom að vísu heim í gær, en var svo latur (og dálítið þreyttur, líka) að ég nennti litlu öðru en að fara í sturtu, sitja svo í hægindastól og lesa þangað til ég fór í háttinn. Mikið var ég feginn að komast í íslenska sturtu, loksins. Ég er viss um að heita vatnið hér sé betra heldur en þarna í Noregi - a.m.k. finnst mér bæði hár og húð líta betur út eftir eina íslenska sturtu heldur en ófáar norskar.

Hins vegar er alltaf fjör í Noregi. Öðruvísi jólamatur en maður á að venjast - á aðfangadag snæddum við pinnakjöt (sem er saltað og stundum reykt kinda- eða lambakjöt, mér sýnist sem þetta séu rifbeinin). Ekkert saltað svínakjöt fyrr en á jóladag! Svo er þarna arinn, sem er alltaf jafn gaman að kveikja upp í - verst að það var svo hlýtt mestallan tímann þarna að það var engin þörf á því. Ég væri hins vegar alveg til í að tíma því að fá mér arinn hingað. Gæti sett hann útí hornið (sem ég held að sé um það bil norð-vestur hornið) þarsem ofninn er núna. Væri kósí og dýrt.

Á gamlárskvöld fórum við svo í heimsókn til foreldra Síverts, sem þá var nýkominn frá Indlandi (frænka hans var að giftast, og þar sem pabbi hans var svo slæmur í bakinu og stóri bróðir hans of upptekinn, þá fór hann sem fulltrúi síns hluta fjölskyldunnar), kom með ágætt magn af bhangra-tónlist (semsagt, indversk tónlist, eða a.m.k. punjabísk tónlist) og það var bara gaman að sjá pabba hans í góðum gír, dansandi á stofugólfinu. Ekki eins gaman þegar fólk var að reyna að fá mig til að dansa með, hins vegar.

Já, og svo kom ég heim, eftir bara ríflega vikudvöl. Ég ætti kannske að gera eins og fleiri og gefa lítið yfirlit yfir árið, en ég held að það megi bíða til morguns. Núna ætla ég að fá mér göngutúr (og sakna þess að finna ilminn af ótal arineldum, sem liggur yfir öllu í Noregi, ekki ósvipað og reykmökkurinn yfir Reykjavík á gamlárskvöld, bara gagnsærri), og kannske kaupa skólabækur vorsins.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home