Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

21.11.07

A sobject is the subject of sobbing

Það er allt of mikið til af samskiptasíðum á netinu - Myspace og Facebook og allt hitt. Grey ég sem hef tæpast tíma til að sinna þessari einu síðu, hvernig á ég eiginlega að finna tíma fyrir allt hitt? Og þessi skilaboðaforrit - messengerarnir og skypin og hitt - je minn eini. Sem betur fer hefur mér enn tekist að halda mig bara við eitt forrit á þeim slóðum, en ég er nú hræddur um að fyrr eða síðar munu þeir múrar líka hrynja.

Ég er heldur ekkert alveg viss hvernig skuli hegða sér á svona síðum eða spjallforritum. Er maður bara dóni ef maður svarar ekki commenti sem einhver setur á síðuna hjá manni? Er maður bara slúbbert ef maður tekur ekki þátt í þessum endalausu bulletin-leikjum á Myspace, eða öllum þessum leikjum sem eru í boði á Facebook? Tjah ...

Kannske er þetta bara áhugaleysi. Mér þykir bara minna varið í netsamskipti en áður. Blogg þykja mér að vísu skemmtileg, hvort sem er að lesa eða skrifa - nema hvað, ég hef lítinn áhuga á að lesa blogg sem eru eintómar tveggja setninga greinar. Ég vil kjöt á þeim beinum sem ég naga - takk fyrir, og ekki væri verra ef það væri smá fita þar líka, og allt saman kryddað með blóðbergi og hvítlauk. Skolað niður með rauðvíni, auðvitað. Viskí í eftirrétt.

Þó myndi ég frekar vilja skrifa þau með penna og bleki á venjulegan, hvítan pappír, og hengja þau þannig upp - en ég nenni ekki að standa í því að skrifa það niður, taka myndir, setja myndirnar í tölvuna og síðan koma myndinni á netið. Það eina sem gæti verið leiðinlegra en það væri að nota einhvers konar „handskriftarfont“, því þeir eru upp til hópa bæði ljótir og ill-læsilegir. Galli við slíkt fyrirkomulag (að skrifa allt á blað, taka mynd og setja á netið) er svo augljóslega sá að ég gæti ekki, eða illa, haft einhverja linka í greininni. Þetta yrði því allt saman fátæklegra en það er þegar.

Þessi netsamskipti eru bara eitthvað svo óspennandi. Eini kosturinn sem t.d. Messenger hefur fram yfir alvöru spjall yfir alvöru bjór á alvöru bar í alvöru reykjarmekki er sá að þegar allt er skrifað og ekkert er sagt, þá er hægt að taka sér aðeins meiri tíma til umhugsunar áður en gáfnaljósið fær að skína. Að þessum kosti slepptum, þá liggur við að ég segi alfarið „Nei takk!“ við slíku.

Blogg, hins vegar, eru næstum því eins og sendibréf. Hvert mannsbarn hlýtur þó að sjá hve skammt sú samlíking nær, en ég vona að líkingin skiljist.

----

Þetta blogg fór af stað 24.3.06, og vantar því bara örlítið upp á að vera tuttugu mánaða. Á þeim tíma hef ég komið saman 202 færslum að þessari meðtaldri. Haldi ég þessu formi, þá verður síðan orðin fimm og hálfs árs gömul, svona hérum bil, áður en ég næ 666 færslum. Kannske ég ætti bara að hrækja í lófana og rumpa þessu af?

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Djöfull er ég sammála þér með þetta facebook og myspace, settist einusinni niður við tölvuna og ákvað að vafra mig eitthvað áfram é þessu..... Drepleiðinleggt og tilgerðarlegt drasl. En blogg, geta hinsvegar verið mjög skemmtilegt, þ.m.t. þitt ;)

-frikks

09:14  
Blogger Þossi said...

Takk fyrir það ... (en afhverju er ég svona seinn til svara?)

Þetta er auðvitað ekki allt jafn slæmt. Þetta er ágætt, t.d. fyrir tónlistarmenn, að vera með Myspace - góð auglýsing. Og þetta er ágætt til að fylgjast með fólki, ef maður hefur smá stalker-tendensa í sér - eða vill bara vita af fólki sem maður hefur einhvern tíma kynnst; á meðan það tengist nokkuð reglulega við t.d. Myspace, þá veit maður a.m.k. að það er til og getur auðveldlegar náð sambandi við það, ef nauðsyn krefur.

18:13  

Skrifa ummæli

<< Home