Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.11.07

Ef handleggur er handleggur og fótleggur er fótleggur -

- er þvagleggur þá ekki typpi?

----

Flesta daga get ég alveg tekið undir þá fullyrðingu að nútímastjórnmál séu bara sjónarspil - eitthvað sem engu máli skiptir, nema þá fyrir fólk að tuða yfir á kaffistofum og í heitu pottunum.

Í stuttu máli, ég gæti alveg tekið undir þriðja pistil Jónasar frá 22.11.07. Því miður býður hann ekki upp á að hægt sé að tengja inn á einstaka pistla frá honum, þannig að ef einhver les þetta eftir þrjá mánuði, þá gæti orðið snúið og langdregið að finna þetta. Ég þekki ekki almennilega til höfundarréttarlaga og ætla því ekki að setja þennan pistil inn hér í heilu lagi.

Nema hvað. Venjulega get ég alveg tekið undir svona fullyrðingar. Nema þegar einhverjir náungar eins og þessi Dévaff-Jónas (kallar sem halda að þeir vita meira en þeir virðast í raun gera), varpa einhverju fram. Til dæmis að segja stjórnmál ekki lengur snúast um „lýðræði, heldur ódýrt sjónvarpsefni fyrir fávita“.

Ef einhver sem ég gæti tekið mark á segði þetta, þá myndi ég hrósa honum í hástert fyrir skarplega greiningu. En þegar einhver svona kall segir nákvæmlega sama hlutinn, þá er mín fyrsta hugsun „Já, er þetta ekki einmitt sérsniðið handa þér?“

Þegar ég stend mig að því að vera sammála einhverjum sem ég tel kjána, þá bregst ég ekki svo við að hugsa með mér að kannske sé hann ekki svo nautheimskur eftir allt saman. Fyrr hvarflar að mér að eitthvað sé bogið við mig, að mínar skoðanir séu reistar á einhverju allt öðru en traustu bjargi skynseminnar - og raunar að þær séu reistar á einhverju enn óstöðugra en sandi tilfinningaseminnar - og sennilegast væri mér hollast að losna við þær sem allra, allra fyrst.

Ég er nefnilega ekkert svo mikið fyrir að taka álit mitt á fólki til endurskoðunar. Hafi ég einu sinni fleygt einhverjum á ruslahauginn, þá á hann erfiðlega endurkvæmt þaðan - og öfugt: Hafi ég einu sinni sett einhvern á stall, þá þarf meira en smá jarðskjálfta til að hann falli þaðan (jafnvel þótt ég gleymi stundum að þurrka af). Þegar ég hef kippt einhverjum af ruslahaugnum og aftur inn í hús - jafnvel þótt hann fari nú ekki strax í heiðurssæti - þá hefur það iðulega reynst skammvinnt. Sorpstybban er alltaf á endanum of megn - út með ruslið!

Fyrst minnst var á Egil, þá má hann eiga það, blessaður, að stundum skrifar hann ansi vanhugsaðar greinar - smjörvitleysan drýpur af hverju stafstrái. Það er að sjálfsögðu talsvert betra en þær greinar sem hann skrifar dags daglega. Dæmi um slíka grein er einmitt hér. Miðað við að þessi kenning hans sé að einhverju leyti rétt - hvað þarf ég að bíða lengi þar til ég gerist nauðgari? Eða er ég hólpinn vegna þess að ég er Íslendingur?

Eða kannske er ég bara bitur og öfundsjúkur vegna þess að allir lesa og dásama prumpið úr þessum lofthænum, en nær enginn nennir að lesa mig.

1 Comments:

Blogger sigga said...

Ég les þig sko reglulega og mér finnst þvagleggurinn betri en þingsköpin :)

22:48  

Skrifa ummæli

<< Home