Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.10.07

Heimkoman

Það var fjör í Noregi. Ekki spurning. Það gerir manni líka gott að komast aðeins út. Ekki var nú mikið afrekað í ferðinni, bara legið í leti, slæpst og náðugheitin í fyrsta sæti.

Á Leifsstöð, þegar ég var að fara, kom ég auga á hjón (býst ég við, en kannske voru þau ekki gift), sem voru að fara með sömu vél og ég. Á Gardemoen, þegar ég var á heimleið, var þetta sama fólk að fara með sömu vél og ég.

Á Gardemoen var annars töf þegar ég var á heimleið. Allt gott og blessað með það, mér lá svosem ekkert á, þannig séð - þótt auðvitað hafi verið súrt að missa af afmælisveislunni. Til að stytta mér stundir settist ég inn á veitingastað á flugvellinum, Kon-Tiki. Þetta var látið vera sem ekta veitingahús, með matseðli, þjónað til borðs og svo framvegis. Ég get ekki mælt með þessum stað við nokkurn mann. Afskaplega óspennandi matseðill, og maturinn ekkert merkilegur heldur. Þá hefði ég betur varið tíma mínum og peningum í að sitja við bar, Akvavit Bar hét hann eða eitthvað í þá áttina, drekka Guinness og japla á hreindýrapylsum sem seldar voru á 21 norska krónu stykkið.

Hjá tollurum í Leifsstöð komst ég svo að því að það margborgar sig ekki að kaupa tvær viskíflöskur úti og fara í gegnum rauða hliðið, nema þá að þetta sé alveg einstaklega sérstakt viskí sem væri alveg kolómögulegt að kaupa á Íslandi. Hins vegar gat ég keypt alveg ágætis viskí í fríhöfninni á heimleiðinni - Jura Superstition.

Þegar ég var með pabba, Hildi og Sívert í London þegar pabbi varð fimmtugur (það er að segja, snemma í desember 2005) keypti ég lítinn prufupakka frá Jura í fríhöfninni hér, og varð svona líka ofsalega hrifinn af þessu. Auðvitað spillir ankhið ekki fyrir - Ultima-viskí! - svo ég keypti lítersflösku á Heathrow á leiðinni heim. Nú, þegar þetta er, a.m.k. eins og er, fáanlegt í fríhöfninni hér, þá get ég með góðri samvisku drukkið síðustu dropana úr þeirri flösku. Húrra fyrir mér!

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Velkominn heim, Kon-Tiki hljómar ekki heldur eins og mikill klassa veitingastaður, þá lýst mér nú mun betur á guinessinn og hreindýrapylsurnar.
-Frikki

21:28  

Skrifa ummæli

<< Home