Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

24.10.07

Nú er ég farinn (yfirum)

Eða næstum því. Fer til Noregs á morgun, í fyrramálið. Kannske ég leggi mig bara núna snöggvast, sofi til svona tvö-þrjú og þá er ég alveg klár í slaginn.

Alltaf sömu lætin í þessum krossmönnum. Núna er þetta lið eitthvað voðalega ósátt við Biblíuþýðingu. Sýnist á öllu að hinir ósáttustu séu einmitt þeir sem minnst kunna í grísku og hebresku - miðað við léttar umræður á spjallvef Vantrúar (léttar, því varla hafa Vantrúarkappar haft mikinn tíma til að vega og meta þýðingu sem kom út um síðustu helgi - eða ég vona a.m.k. að fólkið eigi sér líf utan Vantrúar), þá hefur margt verið fært til betri vegar (til dæmis má nefna að í þessari nýju þýðingu er sagt að guð hafi sjálfur varpað stórum steinum af himnum ofan, frekar en að hann hafi bara látið þá falla). Nú, og svo allt þetta garg vegna monogenes - en í Biblíu þessa heimilis, sem prentuð var 1999 (en þýðingin sjálf væntanlega frá 1981), þá er þess getið í neðanmálsgrein við Jóhannes 3.16 að monogenes þýði „eini sonur“ eða „einkasonur“. Það er ekki sagt að það geti líka þýtt þetta - þar stendur að orðið þýði einmitt „eini sonur“. Þetta er síðan nánar skýrt: „Með þessu er Jóhannes að segja, að Kristur er einn fæddur af Guði föður frá upphafi, eins og orð fæðist af huga. Allt annað er skapað af Guði, hann einn fæddur frá eilífð, þess vegna eitt með Guði sjálfum...“

En hver veit? Kannske voru þessir vitleysingar líka að röfla og rífast um þetta orð árið 1999? Sjálfum er mér alveg sama, svosem - nema ég er ekki nema mátulega hrifinn af því ef það er verið að reyna að fegra þennan texta svo hann renni betur niður hjá nútímafólki. Ef stórum hóp manna líkar ekki boðskapur Biblíunnar, er þá ekki nær að þeir losi sig við hana, frekar en að reynt sé að fella hana að þeirra smekk? Gæti verið, ef textinn hefur nú í raun og veru verið fegraður eitthvað, að þessi ríkisrekna Þjóðkirkja væri að reyna að gera þessa trú sem flestum geðslega, þannig að sem flestir séu áfram í trúfélaginu og það geti áfram legið á ríkistúttunni?

Eins með samkynhneigða sem vilja vígslu í kirkju. Það er eitt að velja kirkju vegna þess að hún er svo vel sniðin að hjónavígslum, eins og guðleysingjarnir gerðu um daginn í Fríkirkjunni í Reykjavík - en hvers vegna eru samkynhneigðir einu sinni kristnir til að byrja með? (Hvers vegna er nokkur maður yfirleitt kristinn?)

Nú ætla ég útá hálan ís ... sjálfsmynd manna byggir að miklu leyti á því sem greinir þá frá öðru fólki. Sjálfið er greint frá umheiminum, frá öllu sem er „ekki-sjálf“ eða „ekki-ég“, með því að telja saman alla þá eiginleika sem gera mann frábrugðinn flestum öðrum („að vera ég“ er, held ég, ekki eiginleiki). Þar sem við erum flest gagnkynhneigð, þá kemst þessi hneigð ekkert að í sjálfsmyndarbyggingunni; „að vera gagnkynhneigður“ greinir mann ekki frá flestum öðrum heldur þvert á móti ýtir undir tilfinningu fyrir því hvað maður sé nú bara alveg eins og hinir.

Nú er ísinn ekki bara háll lengur, heldur er farið að braka í honum ... „að vera samkynhneigður“ er eitthvað sem greinir mann frá flestu öðru fólki. Þannig get ég vel trúað því að kynhneigð fái aðeins stærra hlutverk í sjálfsmynd samkynhneigðra, einmitt vegna þess að þetta er nógu sjaldgæft til að greina mann frá flestum öðrum.

Nú, ef þetta er rétt giskað hjá mér, þá bara skil ég ekki hvers vegna einn einasti samkynhneigði einstaklingur kysi að aðhyllast trú sem ræðst jafn harkalega að (hluta af) sjálfsmynd hans eins og kristnin gerir, bæði í nýja og gamla sáttmálanum. Sé þetta rangt giskað - þá skil ég samt ekki hvers vegna einhver kysi að aðhyllast þessa trú. Það er að segja - ég sé lítið sem ekkert aðlaðandi við hana. Hins vegar sé ég svosem lítið sem ekkert aðlaðandi við Angelinu Jolie eða Brad Pitt - og samt draga þau fólk í kvikmyndahús.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home