Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

3.6.07

The Prefect OssomTossom

Muna ekki allir eftir þessu?

Fjandinn hirði geðlyf ... þau eyðileggja fyrir góðum listamönnum. Jah ... nema þegar þau gera þeim kleift að virka almennilega. Ekkert gaman fyrir listaspírur að vera týndar í eigin hugarheimi. Á hinn bóginn má þó nefna að smá (eða mikið) „tilfinningalegt ójafnvægi“, þegar því er bætt við talsverða listræna hæfileika, getur gefið af sér afskaplega fagra hluti, orð og hljóðbylgjur.

Síðustu vaktir hafa ekkert verið skemmtilegar. Annars vegar vistmaður sem maður veit aldrei almennilega hvenær muni taka sig til og gefa mér á'ann, og hins vegar sjúklingur sem áttar sig ekki almennilega á hvað sé að. Stundum vorkennir maður fólki sem er að koma inn í fyrsta sinn - fólk sem skilur ekki hvers vegna það er lagt inn til að byrja með og fær svefnsprautur svo gott sem um leið og það kemur og vaknar svo í herbergi sem það hefur aldrei nokkru sinni séð áður, innan um fólk sem það kannast alls ekkert við.

Hins vegar er notalegt að sjá fólk ná sér aðeins - fólk sem kom inn og vildi hvorki bragða vott né þurrt, og vildi ekki einu sinni sjá neinar töflur, er eiginlega farið að biðja um að fá smá mat áður en það fær lyfin. Jafnvel þótt maður eigi alls engan þátt í bötnuninni, þá er samt notalegt að fylgjast með gestum sem ná sér smám saman á strik. Það er bara óskandi að strikanálgunin haldi áfram svo þetta fólk verði aftur virkir skattgreiðendur.

Það er nú einu sinni hugsunin á bak við þessar geðdeildir - að fólk geti aftur farið út á vinnumarkaðinn og greitt skattinn. Nema auðvitað þegar fólk er alveg óvinnuhæft vegna síns sjúkdóms

Hvort er það annars skattur foreldranna sem borgar fyrir menntun og heilsugæslu barnanna, eða skattur einstaklingsins sem borgar fyrir manns eigin menntun og heilsugæslu? Þá telst auðvitað ekki með sá hluti skattsins sem fer í borga rándýr sendiráð, umferðarmannvirki og tónlistarhallir.

Talandi um tónlistarhallir - hvernig væri að sóa þessum milljörðum í eitthvað þarfara - til dæmis menntun (leikskóla og uppúr), almenningssamgöngur og heilsugæslu - og lofa áhugamönnum um hljómkviður og sígilda tónlist að borga aðeins meira fyrir aðgang að sínu áhugamáli? Sama má auðvitað segja um boltabullur og aðra sportidjóta. Hversu mikið hafa bæjarfélögin og ríkið - og almenningur - grætt á þessum íþróttamönnum sem hafa meikað það? Hafa íþróttafélögin almennt séð bætt heilsu landsmanna? Hefur gróðinn (og mögulega sparnaður í heilbrigðiskerfinu) verið nógu mikill til að réttlæta að íþróttafélög fái hina og þessa styrki frá hinu opinbera?

Ég held að það sé loksins kominn tími til að fara að sofa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home