Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

29.6.07

OssomTossom skiptir um gír - og bakar sér kannske óvinsældir meðal nágranna

Þegar ég kom heim í gærmorgun eftir að hafa tekið, í fyrsta skipti, kvöldvakt og næturvakt í einum rykk, þá var ég eitthvað lítið þreyttur - eiginlega bara ósköp orkumikill og hress. Það var auðvitað ekki nógu gott, því ég átti að mæta aftur á kvöldvakt í gær (semsagt - ég kom heim rétt fyrir níu og átti að mæta aftur til vinnu fimmtán þrjátíu). Til að losa um eitthvað af þessarri gríðarlegu orku, þá endurskipulagði ég stofuna. Gerði meira að segja litla teikningu og allt.

Þegar ég kom svo heim í gærkvöldi (laust fyrir miðnætti því ég fór niður í 10-11 við Austurstræti til að fá mér eitthvað í gogginn) hóf ég svo framkvæmdir. Skrifborðið, sem hingað til hafði staðið upp við austurvegginn (jaa ... a.m.k. þann vegg sem kemst næst því að vísa til austurs, jafnvel þótt vel kunni að vera að hann sé meira svona aust-norð-austur), það dró ég út á mitt stofugólf - og lét þar við sitja. Hvílík breyting! Þannig losaði ég sko um helling af dýrmætu veggplássi.

En það var samt ekki nóg. Litlu hillunni sem stóð við hlið skrifborðsins góða mjakaði ég örlítið í suðurátt, auðvitað eftir að hafa tekið síma og módem og þess háttar úr sambandi. Annars hefði það allt saman bara hrunið niður á gólf. Hægindastólinn, sem fram til þessa hafði verið upp við norðurvegginn, austan útidyrahurðarinnar, tók ég upp (með tveim höndum) og setti fram á gang. Pappakassavirki kattarins, sem ver við hlið hægindastólsins, setti ég þessu næst í hægindastólinn.

En þá var líka komið að aðalframkvæmd kvöldsins. Sófinn, sem var upp við austurvegginn (og því upp við vegginn sem skilur að íbúð mína og íbúð nágrannans í nr. 8), hann var dreginn yfir stofugólfið (með merkilega litlum skruðningum, enda er þetta nú ósköp léttur og þægilegur sófi) og slengt upp við norðurvegginn þar sem hægindastóllinn var áður. Stofuborðið fylgdi með í kaupunum. Á þessum tíma þótti mér nóg komið af stórfelldum framkvæmdum, enda klukkan farin að nálgast eitt. Ég lét mér því nægja að taka geisladiska, bækur og þess háttar úr hillunni (eða heitir þetta kannske hillusamstæða?) sem stóð við suðurvegginn vestan gluggans og koma fyrir þar sem það yrði ekki fyrir. Síðan fór ég að hátta, þar sem næsti liður framkvæmdanna yrði tiltölulega hávaðasamur - naglar reknir í vegg og þess háttar - og best að geyma slíkt til morguns.

Ég vaknaði rétt eftir sjö í morgun, eldhress og tilbúinn að klára stofuna. Hilluna, sem ég hafði að mestu tæmt kvöldið áður, tæmdi ég alveg (og þurrkaði af hillum eftir þörfum) og mjakaði rólega í vesturátt, svo nú stendur hún við vesturvegginn og horfir til austurs, rétt eins og sófinn hafði gert áður. Ég fyllti á hana í rólegheitum, kom diskum fyrir og flokkaði þá eftir því hve mikilvægt mér þótt að geta komist í þá - hinir ómerkilegri voru settir innst í hillurnar, en hinir, sem mér þykir mikilvægara að geta nálgast, voru settir fram fyrir þá. Í hverri geisladiskahillu er því tvöföld röð geisladiska. Um þetta leyti var klukkan orðin átta, svo ég taldi óhætt að vera með smá læti - ég rak tvo nagla í vegginn sem ættu að duga eitthvað til að halda hillunni stöðugri.

Að hillunni færðri og fyllti kom að næsta skrefi framkvæmdanna, en það var að færa skrifborðið þar sem þessi hilla var áður. Það gekk svona líka ljómandi vel - það smellpassaði í hólfið sem hillan hafði fyllt áður. Auðvitað - annars hefði ég ekkert farið af stað í þessar framkvæmdir. Þetta var allt útmælt og pælt, sko. Hægindastólinn setti ég svo við hlið hillunnar nýfluttu, og allt var orðið býsna gott. Eftir smá tilfæringar krossviðskassa (eða ég held a.m.k. að þetta sé krossviður) og lítils náttborðs er gegnt höfðu hlutverki bókahillu undir gluggakistunni gat ég svo sett pappakassakastalann undir gluggakistuna, og verkið var eiginlega fullkomið.

Núna hef ég talsvert meira gólfpláss en áður, þykir mér, en þó þykir mér ánægjulegra að geta aftur dregið frá glugganum hvenær sem er dagsins, án þess þó að eiga nokkru sinni á hættu að sólin glampi af tölvuskjánum og geri mér lífið leitt. Einnig hefur aðgengi að hillunni sem ég flutti batnað mjög - hér áður var sófinn nefnilega dálítið fyrir og hindraði sérstaklega að auðvelt væri að komast í neðstu hillurnar.

Annars er bara mest lítið í fréttum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home