Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

8.5.07

Ossom vinnur skítverk Tossoms

Jájá og jæja, kosningar bara að skella á. Eins og venjulega er ég á litlum fleka í stórsjó og blindbyl, og veit ekki einu sinni hvort ég ætli að taka þátt, hvað þá hvað ég ætti að merkja við ef ég mætti nú á kjörstað (eða á utankjörfundarstað). Fyrri klemmuna hef ég ekki ennþá leyst - ég er viss um að í kringum borgarstjórnarkosningarnar síðustu (hvers vegna ætli sumir skrifi annars kostningar? Væri ekki nær að skrifa a.m.k. með dé-i, eða er þetta einhver tenging við kostur?) hafi ég útskýrt hvers vegna; nefnilega vegna þess að hvað sem maður svosem merkir við í kjörklefanum, þá hefur maður ekkert meira um málið að segja. Manni gæti t.d. verið meinilla við Sjálfstæðisflokkinn og þá kosið Samfylkinguna, en síðan gæti alveg eins farið svo að S-flokkarnir myndi ríkisstjórn. Þá hefðum við SS-stjórn, og yrðum því eiginlega að fá einhvern sem heitir Hinrik til að vera forsætisráðherra ... Geir H. Haarde -> Geir Hinrik Haarde? Hva, má mann dreyma.

Það væri auðvitað hægt að komast hjá þessu ef forsetinn byði fram með ráðherrum sínum, ef það væri alveg ljóst þegar forsetakosningar eru hvaða fólk yrði forsætis-, menntamála-, og svo framvegisráðherra. Ég hefði ekkert á móti slíku fyrirkomulagi, jafnvel þótt það sé aðeins bandarískara en það sem við höfum í dag.

En já, eins og ég sagði, þá hef ég ekki leyst úr þessu ennþá - og ég veit ekki einu sinni hvort þetta sé vandamál sem ég á að leysa. En þar sem ég er jafnvel glórulausari þegar það kemur að því hvað ég ætti að exa við á laugardaginn (eða á morgun), þá tók ég sniðugt lítið próf á netinu. Eitthvað sem einhverjir nemendur á Bifröst hafa búið til: XHvað?. Sniðugt próf, eins og ég sagði, og jafnvel svolítið nákvæmar niðurstöður. Ef ég svara alveg samkvæmt samviskunni, og svara því ansi oft „Engin skoðun“ (því ég get varla haft neina alvöru skoðun á málum sem ég hef ekkert velt fyrir mér af neinni alvöru), þá er þetta niðurstaðan:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 12.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 12.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 14%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 30%

Ég er semsagt enginn sérstakur stuðningsmaður nokkurs flokks, og er eiginlega frekar á móti þeim öllum, en þó minnst á móti Ómari og félögum. Verst þykir mér að Ómar er, skilst mér, í Reykjavík-suður, en ég kýs víst í Reykjavík-norður, og væri því að kjósa Margréti og Ólaf Hannibalsson. Margréti lýst mér ekkert á, og eini Hannibalssonurinn sem ég get hugsað mér að kjósa á þing heitir Arnór. Hvílíkar þrumuræður sem sá herramaður gæti haldið á þingi!

Síðan má svara þessu prófi öðruvísi, nefnilega að velta því ekkert fyrir sér um hað er verið að spyrja og bara shoot from the hip, svara því fyrsta sem kemur upp í hugann. Íslandhreyfingin er þó ennþá efst:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 31.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 24%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

... en hún nær samt ekki upp fyrir 50%, og því er mér óhætt að segja að ég sé frekar á móti þeim heldur en með þeim. Ætti ég því að fara eftir þessu netprófi eingöngu (sem byggir annars örugglega frekar á yfirlýstri stefnu flokkanna heldur en því sem þeir hafa gert og stutt á þingi) og að skila auðu væri ekki í boði, þá myndi ég því kjósa Íslandshreyfinguna.

En ég er svosem ekkert fyrir að taka meira en mátulegt mark á svona netprófum. Þau eru í besta falli ekkert nema skemmtileg dægrastytting - og það má stundum deila um hvort þau séu ekki frekar drepleiðinleg tímasóun. Svo er auðvitað líka hægt að túlka þessa könnun sem svo að ég ætti að skila auðu, svona fyrst ég get ekki stutt einn einasta flokk í meirihluta mála.

Jæja, hvernig sem það fer nú allt saman, þá verður kannske svolítið spennandi að fylgjast með þessum kosningum á laugardaginn. Kannske. Ég býst þó ekki við að skrifa neitt meira hér fyrr en að kosningum loknum, jafnvel ekki fyrr en eftir viku eða svo.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hehe, ég fékk líka 30% íslandsheyfinguna, veit ekki alveg hvernig mér líst á það, farinn að gruna að Ómar hafi búið þetta til.
Annars verður örugglega spennandi að fylgjast með stjórnarmyndun, svona ef að vinstri eða hægri kanturinn nái ekki meirihluta saman. Stefnir þá ekki í nýja viðreisn? eða bullandi stjórnarkreppu og utanþingsstjórn að hætti Óla :=)

-Frikki

09:51  
Blogger Þossi said...

Ég væri ekkert á móti utanþingsstjórn Óla. Þá myndu forsetakosningarnar á næsta ári væntanlega líka snúast um þá stjórn - og þá væri jafnvel líka möguleiki á að fá nýja slíka stjórn. Í þarnæstu forsetakosningum yrði síðan tekið upp svipað kerfi og mér skilst að sé í t.d. Frakklandi; fyrst væri alls konar lið í framboði, en síðan væri kosið aftur um tvo efstu frambjóðendur.

Og þá erum við komin með forseta sem þarf að vinna fyrir laununum, en ekki bara að leika sér og spara pening til mögru áranna.

16:43  

Skrifa ummæli

<< Home