Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

22.5.07

Jæja þá, mættur aftur

Prófin eru búin og vinnan er hafin.

Á föstudaginn síðasta fékk ég mér nokkra bjóra, svona eins og gengur og gerist, og var bara fjarska kátur þegar ég fór í rúmið svona á milli fimm og sex á laugardagsmorgni. Það kom mér ferlega á óvart að vera vakinn klukkan tíu.

„Já, Þorstein?“

„Mlah ... já?“

„Hæ, þetta er hérna á 32C. Hérna, þú átt eiginlega að vera á vakt núna.“

„Ó. Ókei, ég er að koma.“

Ég mætti því skífuþunnur í vinnuna og barðist allan daginn við að halda augunum opnum. Sem betur fer á þetta sennilegast ekki eftir að koma fyrir aftur, því ég kíkti yfir vaktaplanið fyrir sumarið - bara kvöld- og næturvaktir handa þeim sem þetta ritar í sumar, takk fyrir. Þá ætti ekki að vera neitt svona vesen framar (ekki að þetta hefði verið eitthvað vesen ef ég hefði nú haft fyrir því að hringja og spyrja hvenær ég ætti að mæta). Jæja, ég vorkenni bara fólkinu sem þurfti að vinna með mér þennan laugardag.

Nú hef ég líka aðeins haft tækifæri til að kynnast fólkinu sem vinnur með mér, sem og sumum sjúklinganna. Það verður nú að segjast eins og er, að það má stundum vart á milli sjá, hvor er hvað ... ég hafði einmitt orð á þessu í gær, og gott ef flestir voru ekki bara nokkuð sammála mér. Starfsmennirnir, það er að segja. Ég er svo alveg viss um að sjúlingarnir hafa sínar eigin hugmyndir um hverjir skuli vera lokaðir inni dögum saman. Veit ekki hvort ég hafi minnst á það áður, en ég get nú alveg játað það, að ef ég hefði verið lokaður inni og ekki komist út í einu sinni tíu mínútur frá miðvikudegi til sunnudags, þá væri ég nú orðinn ansi þreyttur á þessu öllu saman.

Þarna í vinnunni er hins vegar afar (g)læsilegt safn Morgan Kane-bóka. Ég held svei mér þá að norskar bókmenntir hafi bara aldrei náð hærra. Hvílíkur hörkujaxl er þessi Kane, ha? Tælandi sjóðheitar ungfrúr og drepandi vonda kalla þegar pabbi James Bond var ennþá í bleyju. Meira að segja eru þarna vondir kallar sem ákveða að taka Kane af lífi á ofurhægan hátt, þegar allt viti borið fólk hefði einfaldlega skotið þennan durg beint í hausinn, aftur og aftur þangað til að það væri ekkert eftir af höfðinu.

Jæja, þetta var nú aldeilis gaman, ha?

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Oh, verst í heimi að vinna þunnur, hef reyndar ekki gert slíkt í þónokkurn tíma, og stefni ekkert sérstaklega á að breyta því.
Bara kvöld og næturvaktir, við verðum þá bara að taka bjór og skák einhverntíman að morgni til :)
Til hamingju með prófin!!

-Frikki

15:18  
Blogger Þossi said...

Það er frekar dauft, já. Sérstaklega þegar sjúklingarnir eru farnir að hafa orð á því að það sé óttaleg „djammlykt“ af manni :P

09:41  

Skrifa ummæli

<< Home