Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

31.5.07

OssomTossom - vakir meðan aðrir sofa

Já. Þá er sumarvinnan komin í fullt swing. Næturvaktir, næturvaktir og næturvaktir, með smávegis kvöldvöktum inni á milli. Kannske einhverjar aukavaktir líka, svona uppá peninginn, sko. Ég tók mína fyrstu næturvakt á laugardaginn síðasta - já, eða aðfaranótt sunnudags, svona eftir því hvernig á það er litið. Fékk þar svona smjörþefinn af þessu öllu saman. Sniðugur strákurinn sem ég var að vinna með þá - hann tók bara fartölvuna sína með í vinnuna, og þegar lítið var að gera (samkvæmt plani) þá var hann bara að spila tölvuleiki eða að horfa á Oz. Það gæti jafnvel farið svo að ég geri eitthvað svipað - en a.m.k. framan af ætla ég nú frekar að lesa eitthvað þeirra mörgu góðu bóka sem þarna er að finna. Þarna á laugardaginn las ég til dæmis litla bók sem gerði grein fyrir hlutverki Íslendingasagna í hugmyndaheimi nasista. Ekkert galin bók. Svo á ég margar bækur, ýmist keyptar vegna skóla eða fundnar uppi á háalofti sem ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa (hvort sem er í fyrsta skipti eða aftur), og kjörið að grípa þetta tækifæri. Já, og ritgerðin maður ... varla vitlaust að velta fyrir sér enskuritgerðinni, svona í leiðinni.

Þessar næturvaktir lofa semsagt góðu. Best af öllu er þó fyrirkomulagið á þessu. Þetta virkar eiginlega þannig að maður vinnur u.þ.b. eina viku á næturvakt, og á svo jafnlangan tíma í frí - og síðan nokkrar kvöldvaktir inni á milli, eins og áður sagði. Við slíkt get ég varla verið ósáttur - jafnvel þótt ég trúi nú reyndar að ég muni halda mínum svefnvenjum (fara upp í rúm svona um tíuleytið og vakna svo um sautjánleytið) á þessum frívikum. Mér finnst engin ástæða til að vera að vesenast of mikið með svefnrútínuna mína. Nema auðvitað ef ég verð alveg gaga á því að sofa alltaf á daginn og vaka á nóttunni. Það kannske mun ekki gerast á meðan það er svona bjart úti á næturnar, en þegar komið er fram í ágúst eru næturnar aftur orðnar svartar og þá gæti þetta farið að verða til vandræða - að ég tali nú ekki um ef ég verð eitthvað að kíkja þarna inn í vetur.

Í skyldum fréttum má nefna að ég held að það sé alls ekkert vitlaust hjá mér að prófa að æfa hjá t.d. Mjölni eða einhverju álíka. Mjölnir er næst mér af þeim félögum sem bjóða upp á svona æfingar. Þótt ég hafi sjálfur ekki enn lent í því að þurfa að grípa æstan mann og halda honum (ég hef haldið fótum eftir að maðurinn var tekinn niður, en það er önnur saga og í rauninni hvorki skemmtileg né spennandi), þá er aldrei að vita nema maður þurfi að geta gripið til þess. Þetta örnámskeið sem ég var sendur á á þriðjudaginn - sem var svosem ágætisnámskeið - var alls ekki nóg. Þær litlu verklegu æfingar sem við fórum í byggðust allar á því að „sjúklingurinn“ veitti enga mótspyrnu.

Neinei, ég segi bara svona. Ég hafði raunar hugsað mér að fara að æfa með þeim strax síðasta haust, löngu áður en ég hafði ákveðið að fara að vinna þarna í sumar - nema hvað, stundaskráin mín, hvort sem er fyrir skóla eða vinnu, hún bara bauð ekki upp á það. Annað hvort sat ég í loflausri stofu eða var að selja kaffi og meððí þegar þeir tímar sem ég hafði áhuga á voru á æfingaplaninu. Nú er það allt saman breytt til hins betra og kjörið í grípa tækifærið á meðan það býðst. Danni segir a.m.k. alltaf þegar ég hitti hann að þetta sé alveg stórskemmtilegt og að ég bara verði að mæta og prófa a.m.k. einn tíma, og ekki ætla ég að fara að rífast við hann um það. Nú, of ef þetta er svo bara drepleiðinlegt og eintóm steratröll og dyraverðir á þessum æfingum, þá bara sleppi ég þessu.

Nú, yfir í aðra sálma. Fyrir kosningar tjáði ég þá ósk mína að Geir H. Haarde héti Hinrik að miðnafni ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mynduðu stjórn. Nú gerðist það, en Geir heitir því miður ekki Hein... Hinrik. Hann heitir hinsvegar Him .. Hilmir. Það er nú dulítið skemmtilegt að forsætisráðherra SS-stjórnarinnar skuli hafa miðnafn sem er alls ekkert ólíkt eftirnafni yfirmanns SS-sveitanna. Maður þarf varla nema víxla tveim samhljóðum innan nafnsins, og gera örlitlar breytingar á seinni sérhljóðanum. Eðall. Ég legg til að þessi stjórn verði aldrei kölluð annað en SS, alveg sama hve vel hún mun annars reynast. Einhvern tíma mætti síðan maður að nafni Joseph Steele verða forseti Bandaríkjanna. Yfirvaraskegg væri kostur en ekki skylda.

Já. Þetta er svona það sem hefur helst verið að gerast upp á síðkastið og það sem er líklegast að muni gerast í nálægri og fyrirsjáanlegri framtíð. Ótrúlegt að það sé ekki þegar búið að gera kvikmynd um mig.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home