Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

18.1.08

Allar tölur komnar í hús

Úr setningunni „Ég keypti notaða tölvu handa henni“ má búa til þolmyndina „Það var keypt notuð tölva handa henni.“ Þetta má alveg, skilst mér, það sem má víst ekki er hins vegar að segja „Það var keypt notaða tölvu handa henni“ eða eitthvað í þá áttina. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna það má ekki nota þolfall í þolmynd - eiginlega þætti mér eðlilegra að segja að það yrði að nota þolfallið. En það skiptir ekki máli. Á ensku má hins vegar ekki segja neitt eins og „There was bought a used computer“ heldur verður maður að segja „A used computer was bought“.

Nú, síðan heyrði ég útlending einn segja frá því að hann hafi verið leiðréttur þegar hann sagði (á íslensku) „Það var keypt notuð tölva“ (eða í þá áttina, ég held að vísu að hann hafi ekki verið að tala um tölvur eða tölvukaup - en þetta skilst nú vonandi samt) ... „Maður á að segja 'Notuð tölva var keypt',“ sagði leiðréttarinn. Dulítið sérstakt, að leiðrétta ágæta íslensku og bjóða „enskulegri“ útgáfu í staðinn og segja hana réttari. Eins sérstakt að einhver (Íslendingur) skuli fullyrða (við útlending) að ekki einn einasti Íslendingur skuli segja „mér langar“ - þegar annar eða þriðji hver maður virðist segja þetta.

Prentarinn minn kemur mér stöðugt á óvart. Í gær komst ég að því að með lágmarks-afskiptum af minni hálfu getur hann prentað á báðar hliðar pappírsins, og búið svo um hnútana að ef ég prenta á t.d. tíu blöð, þá þarf ég ekki annað en að taka þau beint úr prentaranum, brjóta bunkann saman í miðjunni og hefta - og þá er ég kominn með lítinn bækling. Afar þægilegt, þar sem það er ekki þægilegt að vera með tölvuna uppi í rúmi á kvöldin til að lesa eitthvað langt af netinu. Nú sit ég með nál og tvinna og sauma saman pappír.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home